sunnudagur, 29. febrúar 2004

Nýtt! Skiptinemar innanlands

Ég kýs að viðra þá hugmynd núna að komið verði á skiptinemakerfi innanlands; að AFS opni innanlandsdeild hér á Íslandi og annarsstaðar. Það mundi opna gríðarlega möguleika fyrir ævintýraþyrst fólk sem er kannski ekki alveg tilbúið í heimshornaflakk en langar í smá svona landshornaflakk. Það hefði þann ótvíræða kost að það væri miklu ódýrara en dvöl erlendis sem getur kostað vel yfir hálfa milljón. Þetta þyrfti ekki að kosta nema 20.000 - 30.000 kall hálfsársdvöl einhversstaðar úti á landi. Þeð væri nú munur að fara t.d. í hálft ár sem skiptinemi til Akureyrar og stunda nám við MA eða VMA (sem frændi minn segir að standi fyrir Verri Menntaskólinn á Akureyri). Þar tæki fósturfjölskylda á móti manni opnum örmum. Svo væri hægt að bregða sér til Hvanneyrar og hefja nám við Landbúnaðarháskólann þar eða til Eyja í Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum. Jafnvel væri hægt að bjóða upp á skiptinemaferðir frá Reykjavík til Hafnarfjarðar þar sem nám væri stundað við Flensborg. Góð hafnfirsk fósturfjölskylda tæki á móti manni með kaffi og kleinur.

Eftir svona dvöl úti á landi gæti maður komið ferskur í bæinn aftur með ótal sögur af ævintýrum í annarri menningu; "Þið ættuð að vita hvernig fólk skemmtir sér í Eyjum, þar eru allir í strápilsum og spila á harmonikku, dansa í kringum varðeld, borða hrútspunga og drekka Blue Pig með guacamole um helgar". Það kæmi kannski í AFS blaðinu svona dálkur: glefsur úr bréfum skiptinema: Jóhanna, Mexíkó; Hafsteinn, Dóminíkanska lýðveldinu og síðan Guðmundur, Hafnarfirði.

Já, þetta væri eflaust vinsæll valkostur.

laugardagur, 28. febrúar 2004

Harður strætóbílstjóri

Í strætó áðan varð ég í fyrsta sinn vitni að því að strætóbílstjóri beitti hörku. Drengur nokkur sem æfir Taekwondo og var að vinna á bækistöðinni í sumar sat í aftursætinu og var með lappirnar uppi í sætinu. Strætóbílstjórinn kallaði þá í kallkerfið (ég vissi ekki að það væri kallkerfi í strætó fyrr en núna) "Þú þarna sem situr í aftursætinu, niður á gólf með lappirnar!". Drengurinn var gjörsamlega í eigin hugarheimi og tók ekkert eftir þessu þrátt fyrir að vel hefði heyrst í bílstjóranum. Bílstjórinn stoppaði því strætó úti í kanti og kom foxillur aftur í og spurði drenginn hvort hann hefði ekki heyrt í honum og sagði honum aftur að hafa lappirnar niðri, ýtti síðan löppum drengsins niður á gólf og sagði að hann gæti farið út þarna eða gert eins og hann segði. Rosalegt.

Benjamín dúfa og Gaudeamus Igitur

Benjamín dúfa er ein af betri íslenskum myndum.

Ég er hjartanlega sammála Stefáni Pálssyni um að Gaudeamus Igitur er hundleiðinlegur söngur sem ætti að hætta með á Gettu betur og MORFÍS keppnum. Stefán færir ágætis rök fyrir þessu á síðu sinni og er ég sammála þeim öllum. Róðrafélagið ætti að fara að semja nýja söngva og fá aðra nemendur skólans í lið með sér. Ég hef aldrei fundið þessa MR samkennd sem á að fást í Gaudanum heldur bara liðið eins og bjána þegar hann er sunginn.

fimmtudagur, 26. febrúar 2004

Eymd og volæði

Við töpuðum ræðukeppninni á móti 5.B í dag. Það var töluverður fúskarabragur á okkar liði en þó ekki jafn mikill og síðast. Undirbúningur fyrir keppnina hófst ekki fyrr en í gær vegna ýmissa anna, í skóla og öðru. Við ákváðum að stokka upp liðið þannig að núna var ég frummælandi. Jósep var liðsstjóri og Trausti var ræðumaður í staðinn. Ég á töluvert ólært varðandi flutning á ræðum. Ég virkaði held ég frekar fúll ræðumaður og grín var af skornum skammti í fyrri ræðunni. Þar voru þó að mínu mati ágætis rök en dómararnir gáfu lítið fyrir þau, utan einn. Dómararnir voru allir utanaðkomandi; Rúnar, Jón Bjarki og Ingvar Örn Ákason. Þess má einmitt geta að Ingvar Örn dæmdi okkur sigur. Einar átti ágætis spretti og seinni ræða Trausta var mjög góð. Frikki Steinn kom með fáránleg skot á Trausta í seinni ræðunni sinni og einblíndi á hann en Frikki var þó líklega næstbestur í þessari keppni. Rökin hjá 5.B voru alls ekkert sérstök en flutningurinn hjá þeim var klössum ofar en okkar. Seinni ræða Hrundar var aðallega um einhverja töfra í Disney-myndum og að þar væru töfralýtaaðgerðir (og nefndi sem dæmi Hringjarann frá Notre Dame), þvílíkt andskotans bull "töfralýtaaðgerðir". Þetta eru bara töfrar í ævintýrum. Frikki sagði mig hafa farið með rangt mál þegar ég sagði að 90% lýtaaðgerða væru óþarfar. Þá var ég búinn með mína seinni ræðu og átti ekki kost á að svara því, gallinn við að vera frummælandi. Það er alls ekki fjarri lagi að 90% séu óþarfar, því silikonaðgerðir eru alltaf óþarfar og þær eru án vafa 80-90% af lýtaaðgerðum í dag. 5.B kom líka með þau klisjurök að það væru ekki lýtaaðgerðirnar sem væru slæmar heldur mennirnir og að mennirnir misbeittu þeim stundum. Þau rök hefði mátt skjóta auðveldlega niður en við gerðum það ekki. Við vorum með allt of lítið af svörum í okkar ræðum og Einar gleymdi að lesa svarakaflann í fyrri ræðunni sinni sem þýddi 0 fyrir svör þar. Við fengum 30 refsistig, 5.B fimm. Í seinni ræðunni minni var ég betri en í fyrri en hún var að mestum hluta samin í hléi.

Við gerðum slatta af dýrkeyptum mistökum og 5.B vann verðskuldað. Axel Kaaber var ræðumaður dagsins verðskuldað.

Það er góð reynsla að keppa í ræðukeppnum og mæli ég með því. Nú hef ég lært af reynslu og mistökin verða örugglega færri í næstu keppni minni, hvenær sem það verður. Dómari dagsins er Ingvar Örn og má þess til gamans geta að hann gaf mér og bæði Trausta og Einari að mig minnir, 10 í geðþóttastuðul í seinni umferð sem er magnað.

Þetta var töluvert skárra hjá okkur núna en gegn 4.Z.

Hefði dómaratríóið verið skipað 3 Ingvörum hefðum við unnið. Gaman að leika sér svona með tölfræðina.
-----
Sólbjartskeppni 5.A og 3.I í gær var ágæt. Mér fannst Hilmir skara fram úr í keppninni og var hann dæmdur ræðumaður dagsins verðskuldað. Keppnin var ágæt. Gunni, eða Crusty eins og hann er oft kallaður var ágætur en hefur þó átt betri daga. Haraldur Hreinsson var liðsstjóri hjá 5.A en hann hefði átt að vera ræðumaður og fyndist mér ekki vitlaust að Haraldi yrði leyft að spreyta sig í Morfísliði skólans. Hann er fagmaður. Ýmsir töldu að 5.A ætti öruggan sigur vísan eftir keppnina en 3.I vann. 5.A var með fleiri refsistig. Ég hefði dæmt 5.A nauman sigur.

Já, þetta var langt blogg.

miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Sólbjartur Óli Utley

Við keppum við 5.B í ræðukeppni á morgun. Umræðuefnið verður lýtaaðgerðir og við erum á móti. Best að fara að semja ræður. Ég vil ekki lenda í því sama og í síðustu keppni, að standa eins og fífl með þrjá punkta á blaði og hafa langar þagnir á milli í ræðunum. En þetta verður eflaust eitthvað skrautlegt.

þriðjudagur, 24. febrúar 2004

Stjórnendur Menntaskólans eru harðir í horn að taka

Þeir kalla ekki allt ömmu sína, starfsmenn MR. Þeir byrjuðu á því að loka fyrir aðgang nemenda að tenglasafninu batman.is í tölvum skólans. En þeir hafa ekki látið það duga því nú komast nemendur heldur ekki inn á þýðingarvélina babelfish úr tölvum skólans. Þá kemur bara "Bad gateway, félagi".

Þetta snýst allt um að kunna á kerfið. Það er nóg til af öðrum þýðingarvélum, en best að segja sem minnst um það.

mánudagur, 23. febrúar 2004

Tilvitnun dagsins 2

Stelpa/kona/stelpukona (á mörkum þess að geta talist stelpa og líka á mörkum þess að geta talist kona, eitthvað þar á milli) að tala í GSM í strætó: "Varstað segja eittgvað vimmig eða"

sunnudagur, 22. febrúar 2004

Athyglisverð færeysk vefsíða

Vefur stuðningsmanna Liverpool í Færeyjum er um margt forvitnilegur og skemmtilegri aflestrar en Liverpool.is.

Tilvitnun dagsins

Helgi Hóseasson um Jesú: "Fólk viðurkennir það að úldið arabakjöt hafi gengið aftur" -úr myndinni Mótmælandi Íslands.

laugardagur, 21. febrúar 2004

Skiptinemar

Ég hef mjög gaman að skiptinemum sem koma hingað til lands, a.m.k þeim sem ég hef séð í MR. Nú hef ég orðið vitni af tveimur skiptinemum sem eru alltaf rosalega glaðir, virðast alla vega vera það. Ég hefði vel getað hugsað mér að fara sem skiptinemi, en af því ég er búinn að falla einu sinni væri það ekki nógu sniðugt. En ég velti alvarlega fyrir mér að skella mér bara til Brasilíu eða eitthvað í eitt ár áður en falldraugurinn barði að dyrum. Sem skiptinemi fjarri heimahögunum er auðvelt að láta eins og einhver trúður og enginn mun erfa það nokkuð við mann. Þá gæti maður bara verið glensarinn frá Íslandi í Brasilíu. Stærstan hluta fólksins sem maður umgengist sæi maður ekki aftur og fólkið heima á Íslandi vissi voðalega lítið hvað maður væri að bralla úti. Þá væri jafnvel hægt að fá sér bjölluhúfu eins og hirðfífl ganga með til að spóka sig með í skiptilandinu. En kannski er ekkert eftirsóknarvert að vera íslenskt hirðfífl í Brasilíu. Skiptinemahugmyndin hefur samt alltaf heillað mig.

Ég mundi alls ekki vilja fara sem skiptinemi til einhvers norðurlandanna eða lands í V-Evrópu. Þar er menningin of lík okkar. Ef slíkt væri á dagskrá á annað borð yrði það að vera land með allt öðruvísi menningu en þá sem við lifum við.

Lög unga fólksins og Fröken saltpoki 2004

Hér eru nokkur lög til hressingar, sálubótar og andlegrar upplyftingar:

Botnleðja - Lay Your Body Down
Yeah Yeah Yeahs - Maps
System Of A Down - Streamline
Botnleðja - Broko
Interpol - Roland
Yeah Yeah Yeahs - Y Control
Interpol - Obstacle 1
Strokes - 12:51
Megas - Rauðar rútur
Botnleðja - Human Clicktrack
Interpol - Stella Was A Diver And She Was Always Down
Yeah Yeah Yeahs - Black Tongue
Botnleðja - Hotstop
Hot Hot Heat - No Not Now
Interpol - PDA

Franz Ferdinand eru að koma sterkir inn núna eins og meistari Konfúsíus sagði forðum. Rosaleg japönsku eplin. Eitt á dag kemur öllu í lag. Ég tek alltaf einhverja svona afurð fyrir. Það var ísinn, síðan poppið, nú verður japanskra eplaæðið í óákveðin tíma. Þetta er bara eins og poxið í gamla daga. Masa minna, borða meira, eins og kerlingarnar í mötuneitinu sögðu alltaf. Það var aldrei mjög vinsælt, mötuneytið í Heiðarskóla. Svikinn héri, bjúgu og reykt ýsa aldrei uppáhald. Já nú er þetta orðið samhengislaust hérna og komið út í rugl.

Endilega skráið ykkur í keppnina Fröken saltpoki 2004.

fimmtudagur, 19. febrúar 2004

Samviskan og sitthvað fleira

Fremst í bókinni Herrra alheimur eftir Hallgrím Helgason stendur:<< "Mesta rugl sem ég hef séð síðan Biblían kom út" -Guð >>. Ég ætla lesa þá bók við tækifæri.

Samviskan getur verið varasöm og gerir ekki boð á undan sér. Hún mætir á svæðið þegar síst skyldi. Dyrabjallan hringir og maður fer til dyra. Maður heldur að það sé enginn, því samviskan er ósýnileg. Hún stekkur á mann og bítur í hnakkann og kjamsar á hnakkaspikinu. Það er einmitt kallað samviskubit. Það er ekki það sama og þursabit eða geitungsbit. Ef samviskan væri sýnileg liti hún væntanlega út eins og Gollum úr Lord of The Rings. Svona fölgrænt, lævíst og óútreiknanlegt kvikindi. Það er aldrei að vita hvenær hún ræðst á þig og bítur og glefsar. Það eru samt til menn sem hefur tekist að ráða samvisku sína af dögum. Ekki er ólíklegt að menn á borð við Kio Briggs, George Bush og Steingrím Njálsson hafi drepið samviskur sínar fyrir löngu. Þegar Kio Briggs var lítill hefur hann stolist í smákökudallinn heima hjá sér, vitað að von var á samviskunni, setið fyrir henni og drepið hana. Það kæmi ekki á óvart að ýmsir helstu glæpamenn heimsins hefðu kálað samviskum sínum og eftir það verið samviskulausir.

mánudagur, 16. febrúar 2004

Helgi Hóseasson og japönsk epli

Heimildamyndin um Helga Hóseasson var á RÚV í gær. Þessi mynd er mjög fróðleg. Gaman var að skyggnast inn í líf Helga og sjá hann útbúa mótmælaskilti og dúlla eitthvað heima hjá sér. Hann bakaði brauð í vaskinum sínum og þvoði þvott í höndunum úti á tröppum. Margt sem Helgi segir er hárrétt. T.d. stenst Biblían engan veginn þótt sjálfsagt sé einhver sannleikskjarni í henni. Það er frekar asnalegt að honum hafi ekki bara verið leyft að skrá sig úr þjóðkirkjunni, en því barðist hann fyrir í mörg ár án árangurs. Hann sletti skyri á þingmenn og sletti tjöru á Stjórnarráðið. Honum var hent inn á Klepp og þegar hann kom þaðan út fjölfaldaði hann geðskýrsluna sína þaðan og seldi fólki niðri í bæ. Þetta var mjög góð mynd um karlinn og ekki var vanþörf á að fá útskýringar á mótmælasklitunum hans því á þeim er mikið af skammstöfunum sem erfitt getur reynst að ráða úr. RÍÓ mun t.d. standa fyrir "ríkisvald íslenskra óþokka".

Nú er hafinn innflutningur á japönskum Fuji eplum. Ég efast um að Fuji ljósmyndafyrirtækið sé viðriðið málið. Ég smakkaði eplin og þau eru ótrúlega góð. Þau er mjög mjúk undir tönn og festast ekkert í tönnum. Einnig eru þau safarík. Ég held að eplin hafi einhver undarleg áhrif á mann því ég varð frekar léttur í hausnum af eplinu, erfitt að útskýra það. Smakkið eplin bara. Þau eru seld tvö og tvö í plastöskjum. Spurning hvort þetta veldur eplafíkn.

laugardagur, 14. febrúar 2004

Dýrt spaug

Árshátíðin var ansi dýrt spaug. Ég eyddi held ég 20.000 kalli bara í árshátíðarvikunni.

Áttu nokkuð suðusúkkulaði?

Vorhléð stendur yfir núna. Ég var ekki sáttur við að koma út af ballinu með æluslettu á jakkafötunum sem ég vissi ekkert hvaðan hafði komið. Hún var allavega ekki mín eign. Ég skemmti mér bara nokkuð vel á árshátíðinni en var of drukkinn. Ég ætlaði aðeins að leggja mig á borði á Broadway en þá kom einhver húsvarðarandskoti og pikkaði í mig. Ég var alls ekki á leiðinni í dauðaherbergið því það er svarinn óvinur. Nóg um það.

Í gær fór ég á Old West. Ég hef ekkert nema gott um þann stað að segja. Ljómandi góður hamborgari sem ég át. Reyndar var eitt athyglisvert á staðnum sem ég sá þegar ég ætlaði á klósettið. Á klósetthurðinni var skilti sem á stóð að ókeypis væri að fara á klósettið EN það kostaði fimm krónur að fá sápu og heitt vatn í vaskinn. Afar athyglisvert.

Ég drakk ansi mikið á fimmtudagskvöldið.

Ég fór á Big Fish í gær. Það er fróðleg mynd og ekki hefðbundin. Nokkuð skemmtileg. Um daginn fór ég á 21 Grams og það er góð mynd líka. Ég horfði á Svínasúpuna og hún var bara mjög góð. Samt eitt eða tvö alveg mislukkuð atriði. Pétur ding dong er langbestur í Svínasúpunni. Skemmtilegt atriðið með soninn sem leit út eins og afi og borðaði sand í sandkassa. Enn fremur horfði ég á alla "Hegðun, atferli, framkoma" þætti Tvíhöfða á DVD. Ég var næstum því kafnaður úr hlátri yfir þættinum um lygafíkilinn. Kúkur í lauginni er líka magnaður þáttur sem og þátturinn um buxnasölumanninn. Allt snilld. Ég held að þetta sé besta gamanefni sem sést hefur í íslensku sjónvarpi.

þriðjudagur, 10. febrúar 2004

Bjórgagnrýni

Þegar kemur að bjór þarf að vanda valið. Hér hef ég sett saman lista yfir bjórinn því árshátíð er handan við hornið. Skipt verður í þrjá flokka; 1.Gæðabjór, 2.Miðlungsöl og 3.Piss (ódrekkandi sull).

Gæðabjór:
1. Royal Faxe
2. Thule
3. Tuborg julebryg
4. Faxe, hvítur
5. Carlsberg
6. Stella

Miðlungsöl:
1. Egils þorrabjór
2. Egils gull
3. Heineken
4. Egils pilsner

Piss:
1. Víking gull
2. Grænn Tuborg

Listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi.

Ekkert helvítis guacamolekjaftæði

Ég fór í klippingu áðan. Ég hef prófað ýmsar stofur. Best var án vafa stofan hjá Halla Hinna á Skaganum og föður hans. Það kemur fyrir að algjörir fúskarar vinna á svona stofum sem kunna ekki að klippa. Síðast þegar ég fór í klippingu var klippingin góð. En það var hálfviti sem klippti mig í það skiptið. Hann var hress, en hálfviti. Hann lét spurningunum rigna yfir mig og sagði m.a. "Það er allt rosalega dýrt hérna á Íslandi. Hvað gerir þú svona til þess að spara? svona eins og með skemmtun, getur þú fundið einhverja ódýra skemmtun?". Ég man ekki hverju ég svaraði. Bara einhverju "jájá, bara ferskur" eða einhverju viðlíka til að reyna að losna undan spurningaflóðinu. Hann spurði líka hvar ég ætti heima. Ég svaraði því en það hefði ég ekki átt að gera því þá fylgdi bara flóð af spurningum um hvort ég þekkti hina og þessa hér í Seljahverfinu. Spurningarnar voru flestar mjög heimskulegar. En svo kom hann með reikninginn, 3000 kall. Mér finnst það ansi mikið fyrir klippingu, sérstaklega þegar hálfviti klippir mann og er búinn að mann spyrja út í sparnað. Þegar maður fer í klippingu, þá er það ekki til þess að fara að spjalla um heima og geima heldur til þess að fá sína klippingu. Það er allt í lagi að klipparinn spjalli eitthvað við mann en svona spurningaflóð er ég ekki að fíla. Það var svona eins og hann væri gamall kunningi og forvitnaðist um allan fjandann sem kom honum bara ekkert við. Svo lánaði hann mér risastór tískublöð sem vöktu alls ekki áhuga. Hann hefur kannski haldið að ég væri Svavar Örn tískulögga. Hvað veit ég? Ég er allavega ekki að fíla svona lagað og mun ekki láta sjá mig á þessari klippingarstofu aftur.

Þessi títtnefndi klippari heldur kannski að það sé lykillinn að góðum viðskiptum að þekkja alla kúnnana rosalega vel. Ég efast um að það sé lykillinn að bisniss í hárskeraheiminum.

Ég var hins vegar sáttur við klippinguna í dag og klipparann líka. Fínn tappi maður.

mánudagur, 9. febrúar 2004

Gefur lífinu lit

Í dag er ekki mjög skemmtilegur dagur. Það er rigning, rok og slabb og ég er með hálsbólgu og hausverk. Á leiðinni heim frá skólanum mætti ég engum öðrum en Kastró verkstjóra af bækistöðinni. Hann var þá að skella sér í 111 frá Lækjartorgi eins og ég og hélt á 10-11 poka. Svo komu fleiri farþegar í strætóinn, einn þeldökkur maður með bláa húfu, síðan austurlensk kona í litríkum kuldagalla. Svo var einn kani og Hnikarsson. Ekki á hverjum degi sem allt þetta fólk er í strætó í einu. Á Lækjartorgi var rámi gamli róninn sem þambar kaffi og er með hárið út í loftið og einnig rámi gamli flöskusafnararóninn. Að sjá alla þessa mannlífsflóru gladdi hjartað, enda var það einmitt það sem þurfti á þessum miður góða degi. Smáatriðin sem gefa lífinu lit, krakkar.

Í líffræði í dag minntist Trausti á afar áhugaverðan punkt varðandi dýr. Dýr hafa ekkert siðferði. Það er oft að koma fyrir að hundum er nauðgað af öðrum hundum en þeir hafa enga bráðamóttöku fyrir fórnarlömb eins og mannfólkið og öllum virðist vera sama. Fórnarlömbin verða bara að sætta sig við það. Kannski er mikill peningur í því að opna neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana úr dýraríkinu. Það ætti a.m.k. að virka í Bandaríkjunum því þar er fólk oft að dressa gæludýrin sín upp og láta þau keppa í heimskulegum leikjum og fara með þau eins og þau séu menn, sem þau eru einmitt ekki.

sunnudagur, 8. febrúar 2004

Dorrit kaupi Liverpool

Meirihluti stjórnar Liverpool hlýtur að vera frekar vitgrannur því þeir hafa enn ekki rekið Houllier. Ég legg til að auðjöfurinn Dorrit Mousaieff ásamt Björgólfsfeðgum kaupi ráðandi hlut í Liverpool og komi með nýtt fjámagn og ferska vinda til félagsins svipað og Abramovich gerði hjá Chelsea. Guðjón Þórðar er eini íslendingurinn sem stjórnar hjá ensku knattspyrnuliði, en það er kúkalið í annarri deild. Það væri magnað ef Dorrit keypti úrvalsdeildarliðið Liverpool og ný stjórn tæki við, skipuð Ólafi Þórðarsyni, núverandi þjálfara ÍA, Ásgeiri Sigurvinssyni landsliðþjálfara og að sjálfsögðu kaupendunum. Það mætti prófa þetta.

Martin O' Neill yrði síðan nýr knattspyrnustjóri liðsins.

Myndir og tenglasafn uppfært

Hér eru hressandi myndir af jólafríi fjölskyldu minnar og fleiru.

Nú ætla ég að skella inn tveimur nýjum tenglum. Einn á Búnta/Rostunginn/Andmann sem einnig er þekktur sem Ásgeir Birkisson og annan á manninn sem heldur partýin og bekkjarbróður minn, Guðmund P.

laugardagur, 7. febrúar 2004

Forsetaembættið verði lagt af

Ég er afar hlynntur því að forsetaembættið verði lagt niður (örugglega það eina sem ég er sammála Hannesi Hólmsteini um). Forsetinn er á okurlaunum frá ríkinu en gerir ekki neitt gagnlegt. Forsetinn flytur nýársávarp og heimsækir staði úti á landi þar sem krakkar taka á móti honum veifandi fánum. Hann klappar börnunum á kollinn. Forsetinn er að mörgu leiti eins og fegurðardrottning eða einhvers konar prímadonna. Hann heimsækir hin og þessi lönd og klappar krökkum á kollinn og talar um hitt og þetta sem mundi bæta heiminn. Hann rabbar við þjóðhöfðingja austurs og vesturs. Svo eru fluttar fréttir af heimsóknum hans, t.d. til Kína: "Ólafur og Shung Shai Dong voru sammála um að efla samstarf Íslands og Kína". En svo er ekkert gert meira enda er forseti Íslands nánast valdalaus og hefur ekkert um það að segja hvort samstarf við aðrar þjóðir er eflt eða ekki. Svo kemur forsetinn í slúðurblöðin. Þetta er bara snobbembætti og engum til gagns. Forsetinn á að kynna landið erlendis. Landið þarf enga sérstaka forsetakynningu erlendis. Það fær nóga kynningu nú þegar, s.s. með útrás tónlistar, bisnissmanna og afreksfólks íþróttum. Ferðaskrifstofur eru líka duglegar við að kynna útlendingum landið. Burt með forsetaembættið.

Það er sífellt þráttað um þjóðkirkjuna, sumir vilja aðskilnað ríkis og kirkju en aðrir ekki. Ef ríki og kirkja verða skilin að er hætta á að kirkjan verði alltaf að betla af fólki, sem mundi angra fólk verulega til lengdar. En með því að hafa hana á fjárlögum er tekið af öllum skattgreiðendum. Það er vandratað meðalhóf í þessum efnum. Nú hafa Íslendingar ekki verið frægir fyrir góða kirkjusókn nema á jólum og páskum. Þess vegna mætti hæglega skera verulega niður hjá kirkjunni. Það ætti að fækka kirkjunum í landinu verulega, nóg væri að hafa tvær kirkjur í Reykjavík og fjórar úti á landi. Á jólum og páskum væri það að sjálfsögðu of lítið. En þá mætti anna eftirspurn með því að eiga uppblásnar kirkjur á lager. Um jól og páska gæti fólk skellt uppblásnu kirkjunum upp. Þær mætti hafa með svipuðu sniði og hoppukastala (sem vinsælir eru meðal barna). Þetta mundi spara þjóðarbúinu stórfé. Ég legg samt alls ekki til að húsin sem nú eru nýtt til messuhalds verði rifin. Þau mætti nýta sem kartöflugeymslur eða handverkssölur, jafnvel bændagistingu. Svo væri líka hægt að messa í félagsheimilum á stórhátíðum ef uppblásnu kirkjurnar virkuðu ekki. Kostnaður við svona kirkjustarfsemi væri lítill og þá væri kirkjan að sjálfsögðu á fjárlögum eins og nú er.

Eitthvað til að skeina sér á

DV var gefið í Kringlunni í gær og að sjálfsögðu tók ég eintak. Það var gaman að standa álengdar og fylgjast með þegar fólk hundsaði blaðið. Tilraunir fólksins sem var að gefa blaðið þarna voru nokkuð örvæntingarfullar á stundum: "Má bjóða þér DV í dag, frítt?" "Nei takk" "Það er ALVEG frítt". Þriðji hver maður afþakkaði blaðið skv. óvísindalegri könnun þrátt fyrir að það væri ókeypis. Mér finnst reyndar íþróttafréttirnar í DV stundum ágætar.

föstudagur, 6. febrúar 2004

Gagnrýni: það besta og versta árið 2003

Listinn um það besta og það versta árið 2003 var að koma í hús.

Íslenskar plötur ársins:
1. Maus - Musick
2. Botnleðja - Iceland National Park
3. 200.000 Naglbítar - Hjartagull

Erlendar plötur ársins:
1. White Stripes - Seven Nation Army
2. Yeah Yeah Yeahs - Fever To Tell
3. Muse - Absolution
4. Mars Volta - De Loused In The Comatorium

Kvikmyndir ársins:
1. Nói albínói
2. Lord Of The Rings: The Return of The King
3. Mystic River
4. Finding Nemo
5. Adaptation

Verstu myndir ársins:

1. Freddy vs. Jason

2. Punch-Drunk Love

fimmtudagur, 5. febrúar 2004

Auglýsinsgarýni Henriks


Það er fimmtudagur og tími fyrir auglýsingarýni Henrix.
(Stef hefst.)
(Stef endar.)

Komið þið sæl. Íslenskar auglýsingar eru ömurlegar. Nú kann fólk að segja: „Vertu ekkert að alhæfa neitt góurinn.“

Í dag verður litið á nokkrar sjónvarpsauglýsingar.
Fyrst er eilítil kynning á einkunnagjöf. Gefið verður í eldfjöllum.

Klukkan 17:57 settist rýnirinn ákafur í leðursófann og beið eftir auglýsingum, en Nágrannar voru rétt að enda. Eftir Idolauglýsingu kom kynning á dagskrá Stöðvar 2. Sorglegt. Þrjú mínuseldfjöll.

Klukkan 18:28 sama kvöld. Skjár einn.

Grand Vitara auglýsing frá Suzuki. Ekkert merkilegt. Bíll að keyra í snjó. Hálft eldfjall.

Auglýsing veitingastaðarins Galileó. Flott sjónarhorn og lýsing. Engu að síður stutt og ómerkilegt. Myndi ekki fara vegna auglýsingarinnar. 0 eldfjöll.

Mitsubishi motors. Náungi sem er að drekka jógúrt er tekinn upp í bíl. Ung kona er við stýrið og göturnar breytast í rússíbana. Hann fer út úr bílnum og lítur á höndina á sér. Gæsahúð myndast. Plebbalegt. Eitt eldfjall.

Stöð 2.
Séð og heyrt auglýsing. Virkilega illa gerð og athygli minni var beint annað. Ljótur bakgrunnur. Samt skárri en allsberi kallin að hlaupa (sem var síðasta Séð og heyrt auglýsing). Mínus tvö eldfjöll og mínus óvirkt eldfjall.

10-11. Sungið er lag um 10-11 á meðan sýndar eru myndir úr búðinni. Algjörlega ofspilað lag og ósmekklegt. Mínus eitt eldfjall sem gýs.

„Þá verður þetta ekki lengra hjá okkur í dag. Takk fyrir“ (Sigurður H. Richter).

Um víða veröld



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide
Já, þetta munu vera þau lönd sem ég hef komið til; Kanada, Bandaríkin, Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Þýskaland og Ísland. Á þessu ári munu tvö lönd bætast í hópinn: Króatía og Kúba. Ég fer til Kúbu um páskana með mömmu og systur minni og svo verður útskriftarferð hin fyrri til Króatíu. Ég hlakka að sjálfsögðu mikið til að skella mér til Kúbu heilsa jafnvel upp á einræðisherrann Castro. Ég fer í slatta af skoðunarferðum og hljómar ferðin afar áhugaverð. Svo verður ekki síður gaman að fara til Króatíu. Sveifla.

miðvikudagur, 4. febrúar 2004

Tónlistargreining: Radiohead og Mars Volta

Jæja krakkar, í tónlistargreiningu í dag ætlum við að greina tónlist Radiohead og Mars Volta.

Radiohead: Radiohead spilar frekar dapurlega tónlist, rigningartónlist. Ég hef aldrei fílað þá hljómsveit sérstaklega vel. Hún er ágæt, ekkert mikið meira en það. Það er samt alveg eitt og eitt lag mjög gott. Mér finnst tónlist ekki eiga að draga fólk niður. Tónlist á að hressa fólk. Þó fer það að sjálfsögðu eitthvað eftir því hvernig skapi fólk er í. En almennt finnst mér tónlist eiga að hressa fólk. Það er til dæmis alveg bannað að hlusta á Radiohead í glampandi sólskini og góðu verði. Það er ekki viðeigandi. Fólk á t.d. ekkert að fara út á rúntinn í góðu veðri og hlusta á Radiohead. Það byði leiðindum heim. Ég sé hinn dæmigerða Radiohead hlustanda fyrir mér sem sköllóttan karl 25-35 ára sem er piparsveinn. Hann býr í stórborg í lítilli íbúð efst í blokk. Íbúðin er nánast alveg galtóm og með alla veggi málaða hvíta, en þó er gettóblaster á gólfinu. Hann kemur heim til sín og nær sér í tréstól og sest við glugga og horfir á rigninguna úti. Þá er einmitt rétti tíminn fyrir hann til að hlusta á Radiohead í gettóblasternum. Já, svona væri pottþétt dæmigerður Radiohead hlustandi. Ég gæti ímyndað mér að þegar maður kemur heim eftir rosalegt frí, alveg bullandi ferskur og hress sé gott að skella Radiohead í spilarann til að ná sér niður og minna á hversdagsgrámann framundan.

Mars Volta: Mars Volta leika frekar brjálæðislega tónlist, a.m.k á köflum. Mars Volta er einmitt rétta tónlistin til að hlusta á þegar maður er á harðahlaupum í frumskógi. Ef einhvern tímann er ærlegt tilefni til að hlusta á Mars Volta er það við slíkt tækifæri. Hugsanlega er tígrisdýr að elta mann í frumskóginum. Og hvað gerir maður þá? Jú, maður hleypur eins og fætur toga og skellir Mars Volta á fóninn. Hinn dæmigerði hlustandi Mars Volta er gaur með afró sem gengur ekki heill til skógar.

Ég vil bæta því við að ég er farinn að fíla ágætlega Mars Volta. Stundum getur líka verið fínt að skella Radiohead í tækið. En alls ekki í sól og sumaryl.

Þetta er ekki geðveiki. Þetta eru staðreyndir.


Gjörningur?

þriðjudagur, 3. febrúar 2004

Erna G lamin í klessu: NÝKOMIN ÚR BRJÓSTASTÆKKUN!

Þessi fyrirsögn var á nýjasta Séð og heyrt. Er ég sá eini sem sé ekki alveg samhengið þarna á milli? Eru algjörir fávitar að vinna á Séð og heyrt? Erna hefur örugglega hringt í blaðið og sagst vera nýkomin úr brjóstastækkun. Þá hafa þeir sagt:"Tjah, já, það er nú eiginlega ekki alveg nógu mikil frétt. Það vantar eitthvað bitastætt í þetta". Þá hefur Erna hóað í mömmu gömlu og beðið hana að lúberja sig. Mamma hennar hefur ekki látið segja sér það tvisvar og buffað dóttur sína. Síðan hefur Erna hringt á sorpritið og sagst hafa almennilega frétt og nú yrðu sko slegnar tvær flugur í einu höggi. Ég tek fram að þetta er bara tilgáta um atburðarásina og þarf ekki að eiga sér neina stoð í raunveruleikanum.

Inni í blaðinu var fjallað um árásina sem Erna ku hafa orðið fyrir á skemmtistað í bænum. Hún var nýkomin úr silikonaðgerð og varði brjóstin á sér þannig að árásarkonan lét höggin dynja á andlitinu á henni. Þetta afsakar samt varla ekki fyrirsögnina. Erna var síðan öll marin og blá í andlitinu á forsíðumyndinni en brjóstin voru ósködduð og það er fyrir öllu eins og maðurinn sagði.

Nú hafa forsetahjónin, Ólafur og Dorrit, oft spókað sig í Séð og heyrt. Ólafur hefði nú kannski getað slegið svona tvær flugur í einu höggi eins og Erna þegar hann datt af hestbaki um árið. Séð og heyrt hefði getað komið með forsíðufyrirsögnina: "Forsetinn datt af hestbaki: NÝKOMINN ÚR TIPPASTÆKKUN Í USA!" og "Dorrit segir sýna skoðun!". Það hefði verið jafnfáránlegt og Ernu G. fréttin. Ekkert nema helvítis sýndarmennska og skrum, þetta Séð og heyrt. En kemur alltaf ferskt með nýjustu fréttir.
----------------------------------
DV er slúðurpési. DV er ekki dagblað. Einhvern tíma í gamla daga var DV dagblað, held ég. DV er með flennistórar fyrirsagnir og myndir og flytur oft fréttir sem virðast algjörlega úr lausu lofti gripnar og sjást ekki á öðrum fjölmiðlum. Ég renndi í gegnum nokkur nýleg eintök af DV um daginn og þetta var ótvíræð niðurstaða. Þó finnast mér ritstjórar blaðsins, Illugi Jökulsson og Mikael Torfason stundum segja eitthvað af viti. En DV er ekki að dansa þessa dagana. Það er morgunljóst.

Í jólafríinu byggði ég snjókarl. Hér er afraksturinn

Jólafrí eru frábær. Þá vaknar maður um hádegið, fer seint að sofa og liggur í smákökudöllum og nammiskálum. Ég fitnaði líka um fimm kíló í jólafríinu. Feitt. Nú er bara skóli og þýðir ekkert að grenja yfir því.

sunnudagur, 1. febrúar 2004

Öfuguggar á almenningsklósettum

Ég var rétt í þessu að koma að norðan þar sem ég blótaði þorra. Í bílnum á leiðinni heim vildi Steinar frændi stoppa því hann þurfti að kasta af sér vatni. Mömmu hans var nú svona verr við það að stoppa, þar sem stoppað hafði verið skömmu áður á Blönduósi. Í kringum þetta spunnust umræður í bílnum um almenningsklósett. Frændi minn vildi helst bara míga úti á víðavangi því honum er í nöp við almenningsklósett, sérstaklega þó fjandans hlandskálarnar og klósettin sem eru bara með skilrúmum á milli en ekki almennilegum veggjum sem einangra alveg. Frændi minn sagði að hann gæti ekki migið í svona hlandskálar þegar aðrir stæðu þar við sömu iðju. Tilfellið er einmitt að það er svo mikið af djöfulsins öfuguggum sem alltaf þurfa að gjóa augunum yfir á næsta mann, nánar tiltekið á skaufann á honum eða bununa. Varðandi þetta var ég hjartanlega sammála frænda mínum, það eru rosalega margir svona laumuperrar sem alltaf þurfa að virða þann við hliðina á þeim fyrir sér. Ekki veit ég hvað vakir fyrir svona mönnum, eru þeir að virða fyrir sér bununa hjá næsta manni eða í skaufasamanburði. Það vantar þá bara að þeir segi: "Góð sveifla á bununni hjá þér" eða "Ég er nú með stærri skaufa en þú, karlinn". Kannski langar helvítis pervertana bara að pissa í kross. Ég reyni að forðast hlandskálar sé þess kostur.

Frændi minn fór að lokum á klósettið og ætlaði að míga í hlandskál. Það var allt gott og blessað og hann var einn inni á klósettinu. En svo kom annar maður inn og allar skálarnar voru lausar nema sú sem frændi var að nota. Þá að sjálfsögðu skellti öfugugginn og viðbjóðurinn sér á hlandskálina við hliðina á frænda og hóf augngotur. Frændi lét ekki bjóða sér slíkt og fór.

Augngotur við hlandskálar eru ósiður sem menn ættu að venja sig af. Það býður bara upp á handalögmál.