Guesthouse Guðmundar
Ég hef á tilfinningunni að það sé oftar hringt í minn síma í skakkt númer en hjá flestum öðrum svona almennt. Undanfarna þrjá daga hafa hringingarnar hins vegar náð nýjum hæðum því gistiheimili í Hveragerði virðist hafa beint hringingum þangað í minn síma. Þetta hefur þýtt þó nokkur undarleg símtöl síðustu daga. Nú rétt áðan hringdi Frakki og tilkynnti mér að "Yes, hello we are three french people and want to book a room at your guesthouse". Svo hringdi rútufyrirtæki í mig í gær út af túristahóp eða slíku. Þar fyrir utan hafa komið fleiri undarlegar hringingar þar sem ég hef m.a. verið sakaður um að hafa hringt í viðkomandi rétt áður, einnig var ég sakaður um að heita Knútur, sem er langt frá sannleikanum.Knútur?
Um daginn hringdi líka einn, sagði til nafns, og tilkynnti mér að hann ætlaði að kaupa af mér íbúð á 23 milljónir. Þótt ég hefði fús viljað þiggja þessar 23 milljónir gat ég því miður ekki látið hann hafa íbúð í staðinn.
------------
UPPFÆRT kl.15:43: Síðan ég skrifaði færsluna fyrr í dag hef ég fengið fimm ruglhringingar og nú er mælirinn fullur. Reyndar voru bara fjórar þeirra í tengslum við gistiheimilið (tveir hringdu tvisvar), þriðja hringingin var maður sem spurði hvort þetta væri Dr. Gunni, ég neitaði. En nú er ég sumsé búinn að hringja í tvö þjónustuver út af þessu, fyrst til Sko þar sem ég er með símann og síðan til Símans (var vísað þangað þar sem gistiheimilið ku vera með sitt númer þar). Nú á að vera búið að klippa á tengsl míns númers við blessað gistiheimilið og þá þarf ég vonandi ekki að segja "This is not a guesthouse!" oftar.
Dr. Gunni?
Ég var farinn að halda að einhver væri að gera at í mér, sérstaklega þegar spurt var hvort þetta væri Dr. Gunni, eftir allar gistingapantanirnar. En eftir að ég fletti númerinu sem þá var hringt úr upp og kunni engin deili á eiganda þess virðist þetta allt saman bara hafa verið fáránleg tilviljun. Gistiheimilið tengdi bara á rangt númer og svo hlýt ég að vera með svipað númer og Dr. Gunni eða eitthvað. Nú er spurning hvort gistiheimilið góða hefur ekki misst af nokkrum viðskiptavinum út af þessum gjörningi. Eða munu túristarnir reyna oftar að hringja í gistiheimilið þegar alltaf virðist svara pirraður maður sem neitar þeim um gistingu og segir enn fremur að þetta sé ekki einu sinni gistihús? Ekki mundi ég láta bjóða mér slíkan dónaskap oft ef ég væri að leita að gistingu.
Gistiheimili?