föstudagur, 27. apríl 2007

Guesthouse Guðmundar

Ég hef á tilfinningunni að það sé oftar hringt í minn síma í skakkt númer en hjá flestum öðrum svona almennt. Undanfarna þrjá daga hafa hringingarnar hins vegar náð nýjum hæðum því gistiheimili í Hveragerði virðist hafa beint hringingum þangað í minn síma. Þetta hefur þýtt þó nokkur undarleg símtöl síðustu daga. Nú rétt áðan hringdi Frakki og tilkynnti mér að "Yes, hello we are three french people and want to book a room at your guesthouse". Svo hringdi rútufyrirtæki í mig í gær út af túristahóp eða slíku. Þar fyrir utan hafa komið fleiri undarlegar hringingar þar sem ég hef m.a. verið sakaður um að hafa hringt í viðkomandi rétt áður, einnig var ég sakaður um að heita Knútur, sem er langt frá sannleikanum.


Knútur?

Um daginn hringdi líka einn, sagði til nafns, og tilkynnti mér að hann ætlaði að kaupa af mér íbúð á 23 milljónir. Þótt ég hefði fús viljað þiggja þessar 23 milljónir gat ég því miður ekki látið hann hafa íbúð í staðinn.
------------
UPPFÆRT kl.15:43: Síðan ég skrifaði færsluna fyrr í dag hef ég fengið fimm ruglhringingar og nú er mælirinn fullur. Reyndar voru bara fjórar þeirra í tengslum við gistiheimilið (tveir hringdu tvisvar), þriðja hringingin var maður sem spurði hvort þetta væri Dr. Gunni, ég neitaði. En nú er ég sumsé búinn að hringja í tvö þjónustuver út af þessu, fyrst til Sko þar sem ég er með símann og síðan til Símans (var vísað þangað þar sem gistiheimilið ku vera með sitt númer þar). Nú á að vera búið að klippa á tengsl míns númers við blessað gistiheimilið og þá þarf ég vonandi ekki að segja "This is not a guesthouse!" oftar.


Dr. Gunni?

Ég var farinn að halda að einhver væri að gera at í mér, sérstaklega þegar spurt var hvort þetta væri Dr. Gunni, eftir allar gistingapantanirnar. En eftir að ég fletti númerinu sem þá var hringt úr upp og kunni engin deili á eiganda þess virðist þetta allt saman bara hafa verið fáránleg tilviljun. Gistiheimilið tengdi bara á rangt númer og svo hlýt ég að vera með svipað númer og Dr. Gunni eða eitthvað. Nú er spurning hvort gistiheimilið góða hefur ekki misst af nokkrum viðskiptavinum út af þessum gjörningi. Eða munu túristarnir reyna oftar að hringja í gistiheimilið þegar alltaf virðist svara pirraður maður sem neitar þeim um gistingu og segir enn fremur að þetta sé ekki einu sinni gistihús? Ekki mundi ég láta bjóða mér slíkan dónaskap oft ef ég væri að leita að gistingu.

Gistiheimili?

fimmtudagur, 26. apríl 2007

Tilraunastarfsemi

Spá mín reyndist röng um leik Man. U. og Milan. Ástæðurnar voru einkum tvær, í fyrsta lagi nýttu Milan menn sér ekki vængbrotna vörn Utd. sem skyldi og í öðru lagi misstu þeir tvo lykilmenn í meiðsli þegar mest á reyndi í leiknum. Raunar var spá mín um úrslit í leik Chelsea og Liverpool í gærkvöldi líka röng, þótt hún hafi ekki birst hér. Þá dreg ég þá ályktun að ég sé vanhæfur til að spá fyrir um úrslit leikja í undanúrslitum Meistaradeildar.

Að því sögðu ætla ég að spá Chelsea 3-0 sigri gegn Liverpool á Anfield í næstu viku, í síðari leik liðanna. Svo vona ég að sjálfsögðu að sú spá reynist kolröng.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Spá

Man. Utd. - AC Milan í Meistaradeildinni verður í kvöld.
Man. Utd. verða með vængbrotna vörn (sjá hér), Milan nokkurn veginn með sterkasta lið -> Sigur AC Milan er næsta vís á Old Trafford. Stuðullinn er 3,15 á lengjunni. Ég væri til í að setja 5000 kr. á þetta en það er aðeins of mikið ef svo ólíklega vill til að það klikki, læt þúsundkall duga.

Væntanleg úrslit: 1-2
Mörk Milan: Gilardino og Kaká.
Mark Man. Utd.: Scholes.

sunnudagur, 22. apríl 2007

Wilson Muuga

Flutningaskipið Wilson Muuga hefur nú verið dregið af strandstað á Hvalsnesi. Í fréttum hefur komið fram að fjórir hefðu áhuga á að kaupa skipið. Fréttahaukum láðist að nefna áhuga minn á þessum eigulega grip, hugsanlega vegna takmarkaðra fjárráða og lítilla umsvifa í viðskiptalífinu hingað til.

Gefum okkur að ég hefði fulla vasa fjár og ætti hæsta boð í skipið góða. Þá væru eftirfarandi möguleikar inni í myndinni:
  • Geyma skipið úti í garði og láta það ryðga. Útilokað -> lítill garður.
  • Kaupa jörð undir skipið, lappa upp á það og hafa einhvers konar starfsemi þar innan borðs, s.s. veitingastað, útsýnispall, álver, olíuhreinsistöð eða túristagildru.
  • Fá skipsstjórnarréttindi og sigla á skipinu yfir heimshöfin án þess að vitað nokkuð hvert förinni væri heitið.
  • Breyta skipinu í gamaldags sjóræningjaskip og auglýsa eftir áhugasömum til að vera í áhöfn. Það væri atvinnuskapandi eins og annar kosturinn.

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Bein útsending

Um daginn keypti ég danskt Rivo kaffi á 99 kr. í Krónunni. Nú ætla ég að smakka kaffið í beinni útsendingu á meðan ég skrifa þessa færslu.

  1. Óhefðbundin lykt kaffisins fangar strax athygli mína. Til öryggis hef ég skál við höndina á meðan smökkun fer fram.
  2. Ég dreypi á kaffinu úr bollanum. Ógeðslega rammt bragðið fangar strax athygli bragðlaukanna.
  3. Kaffið fær ekki að rata ofan í maga, heldur í skálina sem reyndist góður gripur í þessari tilraun.
Niðurstaða: Rivo kaffi er bragðvont og rammt.
Einkunn: 4,0.

2.tilraun - Rivo kaffi með kaffirjóma.
Önnur tilraun felst í að bæta kaffirjóma út í áður en dreypt er á drykknum. Niðurstaðan reynist nú vera drykkjarhæft kaffi. Kaffirjómi virðist því gera varla drykkjarhæft kaffi drykkjarhæft.

Einkunn: 6,5.

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Vafasöm samsæriskenning

Ég var viss um að samsæriskenningar kæmu fram á hvorn veginn sem kosningin um álverið í Straumsvík færi. Svo kom á daginn að baráttusamtökin Hagur Hafnarfjarðar veltu upp þeim möguleika að brögð hefðu verið í tafli eftir að niðurstaðan varð ljós -"rökstuddur grunur" þeirra um að 700 manns hefðu skráð lögheimili sitt í Hafnarfirði undanfarið, eingöngu til þess að kjósa gegn stækkun. Hvurs konar fíflalæti eru þetta?

  1. Talan er allt of há til þess að þetta væri möguleiki. Íbúum Hafnarfjarðar hefur fjölgað um 676 síðan 10.mars 2006. Gáðu forystumenn samtakanna ekki einu sinni að þessu áður en þeir sendu frá sér þessa fáránlegu samsæriskenningu?
  2. Ef 700 andvígir hefðu skráð lögheimilið í Hfj. undanfarið, hversu margir hlynntir skráðu sig þá til þess að fá kosningarétt?
Hvað í ósköpunum á svo að þýða að eftir að niðurstaða liggur fyrir um að álverið fái ekki að stækka, að segja að samt hafi þeir heimild til að stækka, bara ekki alveg eins mikið og til stóð? Það var víst eitthvert smátt letur í þessu öllu sem "gleymdist" að segja frá fyrir fram ef marka má nýjustu fréttir. Var sem sagt tilgangurinn með kosningunni bara að gera at í fólki? Einn stór Hafnfirðingabrandari?