Brenglaðir draumar
Mig hefur dreymt mjög skrýtna drauma nú upp á síðkastið. Mjög langt síðan mig dreymdi síðast, en nú komu tveir með stuttu millibili.
Fyrri:
Risapartý var heima hjá
Ásgeiri Birkissyni (reyndar bjó hann ekki þar sem hann býr í raun og veru). Hundrað manns mættu a.m.k. og ég var á staðnum. Svo kom löggan og stoppaði samkvæmið. Allir fóru út á götu og Ásgeir þurfti að díla við lögguna ansi lengi. Hópurinn gekk af stað áleiðis í annað partý og ég fylgdi. Allt í einu hvarf hópurinn og ég stóð einn eftir. "Hvílíkt bull" hugsaði ég og ákvað að athuga hvort Ásgeir væri ennþá heima hjá sér að díla við löggur. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða hús var Ásgeirs í raðhúsalengjunni en rambaði inn í eitt húsið sem ég hélt að væri Ásgeirs. Allt var ólæst svo ég óð inn. Inni var smá ljóstýra og ekki hægt að kveikja meira ljós. Ég var rosalega lengi þarna inni í einhverri stofu að velta fyrir mér hvort þetta væri rétta húsið. Svo kíkti ég á fjölskyldumyndir uppi á vegg og áttaði mig á að þetta var bandvitlaust hús. Þá fór ég aftur fram í forstofu til að fara í skóna en þá duttu sokkarnir af mér á óskiljanlegan hátt og ég fann þá ekki aftur. Ég var mjög hræddur um að íbúarnir fyndu sokkana, sendu þá í DNA rannsókn og mér yrði stungið í steininn fyrir innbrot (samt var húsið ólæst). En já, já.
Síðan virtist sem ég færi fram í tíma í draumnum, um klukkutíma eða eitthvað. Þá var ég staddur einhvers staðar niðri í miðbæ einn, og feitlaginn ófríður kvenmaður fór að reyna við mig. Og ekki nóg með það heldur var hún um eða yfir fertugt. Ég tók henni ekki sérstaklega vel og reyndi að hundsa hana. Hún tók engu slíku tauti og hélt áfram að reyna. Ég sagði henni að fara en ekki hlustaði hún á það frekar en annað. Hún sagði "krúttípútt" og e-ð álíka glatað og víðbjóður minn óx með hverju augnabliki. Síðan hljóp ég af stað til að flýja skassið, en skassið hljóp á eftir. Þrátt fyrir að vera feit, hljóp hún rosalega hratt en ég náði að hrista hana af mér að lokum. Svo endaði draumurinn.
Seinni:
Ég var að borða úti í góðu veðri með hópi MR-inga. Allt í einu birtist Guðmundur sögukennari. Tók hann dreng sem sat við borðið hálstaki, hló tröllslega og sagði: "Þú ert aðdáandi myndarinnar Insect, er það ekki?". Svo endaði draumurinn.
Skrýtnir draumar. Ég hef aldrei heyrt um mynd sem heitir Insect, en mun athuga með það eftir þennan draum.