mánudagur, 31. júlí 2006

Umkringdur

Á tónleikum Sigur Rósar í gærkvöldi á Miklatúni lenti ég í nokkurskonar kviksyndi í mannhafinu. Þarna stóð ég fastur í þvögunni, umkringdur. Kjartan Bjargmundsson leikari stóð fyrir framan mig. Til hliðar stóð Japani nokkur og svo leit ég aftur fyrir mig og þar var Einar Kárason rithöfundur. Framan af tónleikum skiptust Japaninn og Kjartan á að byrgja mér sýn á sviðið. Aðstæðurnar sjást betur á eftirfarandi skýringamynd:





Ég varð eðlilega dálítið smeykur. Kjartan virtist ekki á eitt sáttur og leit illu auga aftur fyrir sig á mig og samferðarfólk mitt þegar við vorum að spjalla á meðan Amina var á sviði. Kjartan lét einnig mann sem kom og tróð sér fólskulega framhjá honum heyra það. Kjartan lét sig síðan hverfa um ellefuleytið ásamt samferðarfólki sínu. Og læt ég hér með lokið fregnum af Kjartani.

sunnudagur, 30. júlí 2006

Dýrgripur

Þegar ég tók svokallaða djúptiltekt (hreinsaði upp úröllum skúffum og skápum, sorteraði og henti fullt af rusli) í herberginu mínu um helgina fann ég frábæran dýrgrip sem ég hafði saknað, plötuna Frískur og fjörugur með Hemma Gunn. Nú verður ekkert gefið eftir í sveiflunni.

Nú þekkja orðið flestir lagið Einn dans við mig sem farið hefur eins og hvirfilbylur um partý landsins og tryllt lýð. Færri þekkja önnur dúndrandi partýlög disksins, Út á gólfið og Oftast úti á sjó. Hvet alla til að kynna sér þau lög og tileinka sér.

Auðlesið efni

Í gær var vinnugrill hjá Siggu.

Í gær var vinnupartý hjá Mása.

För endaði á Devitos og pitsa var étin.

Í gær var gaman.

Lestri tilkynninga er lokið.

fimmtudagur, 27. júlí 2006

Harmur

Harmur minn er á háu stigi núna. Belle & Sebastian eru sennilega í fullu fjöri á Nasa meðan þetta er ritað.

Ég reyni að hugga mig við að hlusta á disk þeirra á meðan, Dear Catastrophe Waitress. Einnig hef ég fundið huggun í fimm kílógrömmum af sætindum og gosi. Nú sit ég ég hérna skælandi með súkkalaði atað yfir munnvikin og tónlistina í botni.

Nei, gott og vel, síðasti hlutinn var ekki sannleikanum samkvæmt. Ég er ekki veikgeðja offitusjúklingur svo ég finn ekki huggun í sætindaáti á slíkum stundum. Ég ætti kannski að þakka þeim feðgum Guði og Jesúsi fyrir það. Nei, maður veit ekki.

sunnudagur, 23. júlí 2006

Punktar

Síðasta vika:
  • Fótboltamót Kirkjugarðanna. Töpuðum öllum leikjunum þremur, skoruðum eitt mark. Vorum þrátt fyrir þetta betra liðið í öllum leikjunum, vantaði markaskorara og betra skipulag.
  • Grilldagur í Hólavallagarði á föstudaginn. Kjöt og pylsur grillaðar. Fólk át á sig gat. Engin vinna eftir hádegi. Sólbruni.

Framundan í ágúst:

  1. Verslunarmannahelgi: Ferð norður í Lón að hitta afa og ættingja. Tónleikar með Sigurrós í Ásbyrgi. Ég er ekki aðdáandi eins og fram hefur komið áður, en þetta þarf ég að sjá. Hljómburður frábær í Ásbyrgi og stemming verður líklega í hámarki.
  2. 11. - 13. ágúst: Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta. Bandýmannafélagið Viktor sendir lið til keppni. Drulla verður vaðin upp að hnjám og við það blandast knattspyrna. Verður fróðlegt.
  3. 24. - 30. ágúst: Danmerkurferð. Nánari dagskrá auglýst síðar.

laugardagur, 22. júlí 2006

Fákeppni

Fákeppni ríkir á íslenskum markaði. Kaupmenn okra bæði á munaðarvörum og öðrum vörum. Þess vegna ber að fagna þegar ný fyrirtæki koma inn á markaðinn smáa og stuðla að samkeppni, með því að bjóða lægra verð en áður hefur tíðkast.

Mikil fákeppni (jafnvel verðsamráð) hefur ríkt á innlendum fjarskiptamarkaði þar til fyrir skömmu. Farsímafyrirtækið Sko haslaði sér völl á vetrarmánuðum. Fram að því höfðu fyrirtækin Síminn og Og Vodafone ráðið markaðnum. Verðmunur á símaþjónustu fyrirtækjanna tveggja var ekki sýnilegur. Þau hafa okrað svínslega á símtölum út fyrir eigin símkerfi, auk þess að rukka meira fyrir símtöl úr farsíma í heimasíma. Engin rök útskýra verðlagið á þeim þáttum.

Sé fyrirframgreidd símþjónusta fyrirtækjanna þriggja borin saman má sjá að Sko býður sms-sendingar á helmingi þess verðs sem hin fyrirtækin bjóða, eða 4,90 kr. Símtöl úr farsímum í þjónustu Sko kosta 14,90 sama hvert er hringt er í almenna símkerfinu innanlands. Til samanburðar má sjá verðlagningu hinna fyrirtækjanna á sömu þjónustu:

Síminn (farsímaþjónusta) - Frelsi
Símtöl í farsíma innan kerfis: 11 kr.
Símtöl í farsíma milli kerfa: 23 kr.
Símtöl í heimasíma: 23 kr.
SMS-textaskilaboð: 10 kr.

Og Vodafone (farsímaþjónusta) - Frelsi
Símtöl í farsíma innan kerfis: 10,90 kr.
Símtöl í farsíma milli kerfa: 23,10 kr
Símtöl í heimasíma: 22,60 kr.
SMS-textaskilaboð: 10,70 kr.

Fyrirtækin bjóða öll upp á þjónustuna Vinir, sem felur í sér að viðskiptavinir geta valið þann sem þeir hringja mest í hjá sama símfyrirtæki og hringt ókeypis í hann. Sko er frábrugðið keppinautum sínum tveimur að því leyti að öll þjónusta fer fram á netinu, til hagræðingar. Viðskiptavinir geta þó hringt í þjónustuver eða mætt á aðalskrifstofu félagsins, ef vandamál koma upp.

Niðurstaða: Sko fer með ótvíræðan sigur af hólmi í þessum einfalda verðsamanburði. Langlægsta verðið á farsímaþjónustu. Ég hef verið í viðskiptum við þá síðan í byrjun sumars og get fullyrt að inneignin er töluvert lengur að fara en þegar ég var hjá Símanum, þrátt fyrir að símnotkun mín á þessum tíma hafi verið meiri en mánuðina á undan.

Heimildir:

miðvikudagur, 19. júlí 2006

Matarkyns og drykkjarkyns

Samkvæmt svokölluðum EPG4-staðli má flokka mat og drykki í eftirfarandi flokka:
  • Viðbjóðsflokkur A
  • Viðbjóðsflokkur B
  • Viðbjóðsflokkur C (mildur viðbjóður),

þar sem viðbjóðsflokkur A geymir mestan viðbjóðinn, viðbjóðsflokkur B næstmestan og svo koll af kolli. Lítum nú á nokkrar vörur úr flokkunum þremur; í viðbjóðsflokki A eru t.d. ólívur, lundabaggar, sterkt áfengi, kæstur hákarl og gráðostur. Í viðbjóðsflokki B má finna vörur eins og hvítmygluost, kaffi, bjór, súrsaða hrútspunga og sterkkryddaðan mat. Flokkur C hefur að geyma áfengt gos o.fl. Öllum ætti að vera ljós hættan af flokki C þótt hann innihaldi minnstan viðbjóð flokkanna þriggja. Þar er gat í kerfinu, áfengi sem á að vera bragðvont smakkast eins og gos og jafnvel lítil börn þola bragðið vel. Þar hefur náttúruleg vörn áfengis gagnvart börnum vikið fyrir mildu og sætu bragði. Varúð!

Tökum nú dæmi af manni sem við köllum Kjartan. Fyrstu 13 ár lífs síns hefur Kjartan að mestu óskaddaða bragðlauka og þolir því ekki bragð af vörum úr flokki A og B. Næstu ár fer að halla á ógæfuhliðina og ungir og óreyndir bragðlaukar hans fara að skemmast (Sumir kalla slíkar skemmdir þroska en það er alrangt). Kjartan venur sig á að borða sterkkryddaðan mat og aðrar vörur úr viðbjóðsflokki B og þannig slæfir hann laukana dýrmætu. Þegar nær dregur tvítugu má greina veruleg hættumörk því Kjartan fer að gæða sér á vörum úr flokki A. Kjartan fær sér gráðost! Kjartan fær sér ólívur! Kjartan fær sér lundabagga! Nú er hann langt kominn með að eyðileggja bragðlauka sína og ekki verður aftur snúið. Kjartan er sokkinn ofan í kviksyndið og kemst ekki upp aftur.

Niðurstaða: Förum vel með bragðlaukana.

þriðjudagur, 18. júlí 2006

Superman returns

  • Superman kvennamálin.
  • Superman flýgur.
  • Superman bjargar heiminum.
  • Akkilesarhæll Superman: kryptonít.

    Niðurstaða: Superman snýr aftur.

    Einkunn: 7,0.

sunnudagur, 16. júlí 2006

Klassísk tónlist

Í gær vorum ég, nafni, Jósep og Bragi að ræða tónlist og hvaða hljómsveitir samtímans yrðu klassískar og drukkum bjór og með því (þar sem með því stendur fyrir romm og kók). Menn voru á eitt sáttir um að Radiohead yrði klassík, ekki náðist samstaða um aðrar sveitir.

Hljómsveitin Herman's Hermits var ein sú allra vinsælasta á sjöunda áratugnum. Fólk tapaði sér yfir iðandi smellunum. Lög á borð við No Milk Today, I'm Into Something Good, Something Is Happening o.fl. trylltu lýðinn. Blómaskeið þeirra er liðið og nú vita aðallega gamlingjar að þessi sveit hafi nokkurn tímann verið til. M.ö.o. getur hún varla talist klassík. Ég hef hlustað á kasettu með þeim upp á síðkastið og þeir eru bara nokkuð góðir, óttalega sveitó reyndar. Söngvari og forsprakki sveitarinnar, Peter Noone, hefur einstakt lag á að vera hálfvitalegur á myndum (kannski hálfvitalegur yfirhöfuð), eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Jói frændi er kátur í bakgrunninum.
Peter Noone


Að lokum mætti kannski nefna nokkur lög sem eru að gera það gott í dag:
The Strokes - You Only Live Once
The Strokes - Heart In a Cage
Yeah Yeah Yeahs - Gold Lion
Wolfmother - Dimension
Wolfmother - Woman
Red Hot Chili Peppers - Dani California

Fleira er ekki í fréttum.

laugardagur, 15. júlí 2006

Sjónvarpsmarkaðurinn lifir

Ég verslaði alltaf í stórmörkuðunum af því að ég hélt að það væri svo ódýrt...

En nóg um það. Um daginn kveikti ég á sjónvarpinu og ætlaði að gá hvað væri í boði. Það hef ég ekki gert í sumar nema þegar HM var. Ég sá RÚV. Þar var e-ð glatað. Ég sá SkjáEinn. Þar var e-ð glatað. Ég sá Sirkus. Óþarfi að taka fram, en þar var auðvitað e-ð glatað, veit ekki einu sinni til hvers ég var að gá. Svo stillti ég á Omega. Þar var Sjónvarpsmarkaðurinn. Ég hélt að hann hefði horfið úr íslensku sjónvarpi fyrir fullt og allt, en nei, Omega heldur túnni við hann.

Í mótmælaskyni við lélega dagskrá sjónvarpsstöðva horfði ég á heila auglýsingu, sem fjallaði um magaæfingatæki. Nú er hægt að gera magaæfingar með lítilli fyrirhöfn, ekkert álag á háls og bak og fólk tekur bara 100 æfingar eins og að drekka vatn. Kviðurinn verður eins og þvottabretti. Tækið er mjög plássfrekt, en það kemur ekki að sök því ekkert mál er að brjóta það saman og stinga því undir rúm. Ég veit ekki hversu mörg plássfrek tæki frá Sjónvarpsmarkaðnum virka þannig að þau má brjóta saman og stinga undir rúm.

Svo slökkti ég á sjónvarpinu, mjög sáttur, eftir vel heppnuð mótmæli.

mánudagur, 10. júlí 2006

Zidane-atvik, nýjustu upplýsingar

Samkvæmt nokkrum heimildum mun atburðarásin í grófum dráttum hafa verið þessi í úrslitum í gær:
  1. Materazzi tekur um Zidane og heldur honum traustataki. Materazzi klípur í geirvörtu Zidane.
  2. Zidane blótar Materazzi fyrir uppátækið. Materazzi svarar með fúkyrðum, lítilsvirðir móður Zidane og kallar hann síðan "dirty terrorist" (foreldrar Zidane eru frá Alsír).
  3. Zidane bálreiðist, gengur til baka að Materazzi og stangar hann niður.
  4. Dómari gefur Zidane rauða spjaldið eftir nokkra reikistefnu.

Niðurstaða: Zidane lét heimskingja æsa sig upp og missti stjórn á skapinu. Marco Materazzi á skilið a.m.k. nokkurra leikja bann. Zidane er hættur svo hans bann skiptir ekki máli.

UPPFÆRT:

Materazzi neitar að tjá sig um hvað hann hafi sagt. Neitar að hafa sagt "dirty terrorist" og segist vera fávís og ekki einu sinni vita hvað terrorist þýðir. Nú fást tvö tilvik:

TILVIK 1:

Materazzi veit ekki hvað "terrorist" þýðir. Niðurstaða: Materazzi er illa gefinn hálfviti.

TILVIK 2:

Materazzi veit hvað "terrorist" þýðir en lýgur því að hann viti það ekki í skjóli eigin fáfræði. Niðurstaða: Materazzi er illa gefinn hálfviti.

Nú gefa bæði tilvikin sömu niðurstöðu svo við höfum sannað að Materazzi er hálfviti. Q.e.d.

Snillingurinn verður hálfviti fyrir augum milljóna manna

Zidane hefur þótt einn sá alleiknasti með knöttinn í mörg ár, og rólyndismaður mikill. Hann endaði ferilinn með stæl í kvöld með því að gera sig að fífli að viðstöddu fjölmenni. Það sló þögn á múginn þegar Zidane mundaði höfuðið og stangaði síðan Marco Materazzi af öllu afli í brjóstkassann. Síðasta verkið á knattspyrnuvellinum. Þetta gerðist í lok framlegningar, og þá gerðist líka það að ég ákvað að hætta að halda með Frökkum í leiknum og fór að halda með Ítölum. Það er í fyrsta skipti og sennilega síðasta sem ég geri það í leik. Zidane á væntanlega ekki von á góðu frá fjölmiðlum. Var þetta uppsöfnuð reiði sem hann ákvað að hleypa út við þetta gullna tækifæri?

Nú liggur beint við að Zidane snúi sér að annarri íþrótt, nautaati, þar sem hann verður í hlutverki nautsins og Materazzi verður tálbeitan í stað rauða klútsins. Gæti slegið í gegn.

laugardagur, 8. júlí 2006

The Flaming Lips - At War With the Mystics

Ég hef oft heyrt fólk fara fögrum orðum um hljómsveitina The Flaming Lips en aldrei vitað hvað það væri fyrr en um daginn. Þess vegna gerði ég væntingar til nýjustu plötunnar, At War With the Mystics.

Platan fer af stað með leiðinlegasta "sumarsmelli" sumarsins, The Yeah Yeah Yeah Song, ég hef oft verið nálægt því að keyra út af þegar lagið hefur skyndilega glumið í útvarpinu í bílnum. Hræðilegt lag, falskur söngur og heimskulegur texti og alltaf í útvarpinu. Hvers vegna? Það veit enginn. Lögin sem á eftir koma eru ekki í sama stíl. Þau einkennast flest af því að hljómsveitin rembist við að vera listræn, sem kemur illa út. Greinilegur svipur er með lagasmíðum Pink Floyd og svo má heyra keim frá Sigurrós líka í sumu. Fyrri helmingur disksins nær ekki einu sinni að vera í meðallagi. Lag nr. 7, It Overtakes Me, er besta lag plötunnar og er lag upp á svona 8,0. Með því fara lögin skánandi á seinni helmingnum. Nr.9, Mr.Ambulance Driver, er gott meðallag eins og lögin fjögur þar á eftir.

Niðurstaða: Mikið meðalmoð, sem þir rífa sig uppúr í nokkrum lögum. Einkunn: 5,0.

fimmtudagur, 6. júlí 2006

Tjáningarfrelsi

Kolbrún Bergþórsdóttir virðist hafa lausan tauminn í skrifum á Blaðinu. Þar birtast smápistlar eftir hana daglega, held ég. Hún hefur skrifað mikið um HM að undanförnu. Grípum niður í pistil dagsins:

"Þýska liðið er einmitt lið sem Landsbankinn hefði styrkt hefði hann haft tækifæri til. Þar á bæ hefðu menn verið alveg vissir um að þeir væru að fjárfesta skynsamlega með því að ausa peningum í vinnusamt og samviskusamt knattspyrnulið sem teldu skyldu sína að skila sínu. Og sennilega væri það miklu skynsamlegri fjárfesting en að styrkja ítalska og brasilíska liðið þar sem menn eru ástríðufullir og tilfinningaríkir, en jafnframt dyntóttir og óútreiknanlegir eins og sannir listamenn eru svo oft"

Það er sama hvernig ég sný þessum pistli fyrir mér á alla kanta og reyni að sjá hann frá öðru sjónarhorni, ég sé ekki milligramm af viti, skemmtun, né innihaldi í honum.

Alltaf þegar ég rýni yfir þessa pistla velti ég þessu fyrir mér:

Er ekki kominn tími til að afnema tjáningarfrelsið eftir föngum?

miðvikudagur, 5. júlí 2006

Er BKI besta kaffi á Íslandi?

Það veit ég ekki, en þetta eru bestu myndasögurnar á netinu. Tengillinn er kominn aftur inn til hliðar eftir fjarveru.

þriðjudagur, 4. júlí 2006

Bakaríið

"Góðan daginn, ég ætla að fá eitt ciabatta" (skýrt og skilmerkilega sagt)
"Hva...ha?" (Af svipnum að dæma var hugurinn ekki við afgreiðslu, heldur ískalda kokteila í Karíbahafinu og sólböð og sjóböð og afslöppun undir kókospálma. Kannski ekki furða, þar sem 90% íslensks sumars hingað til hefur verið afar grátt og rakt.)
"Eitt Ciabatta takk"
"Ha...hva...já" (tekur Ciabatta og setur í poka)
"Fleira?"
"Já, eina litla léttmjólk takk"
"Það er ekki til"
"Jæja, einn epla-Trópi þá takk"
"Nei, þeir eru ekki til"
"Eigiði epla-Svala?
"Já" (tekur epla-Svala)

Held að hún hafi heyrt fæst orðanna sem ég sagði heldur hafi þau verið yfirgnæfð af ímynduðum gítartónum spanjóla á fjarlægum sólríkum stað.

Þegar ég var búinn að fá minn epla-Svala og mitt ciabatta sá ég gommu af epla-Trópi í skápnum aftan við afgreiðsluborðið. En ég nennti ekki að gera frekari tilraunir til samskipta við slíka afgreiðsludömu.

mánudagur, 3. júlí 2006

Nýjasta útspilið

"Góða kvöldið, Guðmundur heiti ég og hringi frá Gallup...". Aukavinna við að angra fólk. Maður fer varla fram á mikið meira. Að vísu angrast ekki allir við slíkar upphringingar, en þeir eru nokkrir.

laugardagur, 1. júlí 2006

Laugardagur

Í dag var haldin risaafmælisveisla Landsbankans. Sem hluthafi mætti ég að sjálfsögðu niður í bæ, fékk mína sneið af kökunni, fékk pylsur og drykkjarföng í tonnatali. Björgólfur splæsti.

Svo lá leiðin á Glaumbar þar sem Portúgal og England mættust í frekar bragðdaufum leik í 8-liða úrslitum. Englendingar komu þó á óvart með sínum besta leik á mótinu til þessa. Besti maður Englendinga var Peter Crouch, sem kom inn á sem varamaður. Ég verð að lýsa mikilli furðu með gríðarlegan stuðning íslendinga við enska landsliðið. Ástæður þess eru nokkrar:
#1: Enska landsliðið hefur verið ákaflega leiðinlegt á að horfa í þessu heimsmeistaramóti og unnið leiki þrátt fyrir að vera lélegra liðið.
#2: Enska landsliðið hefur á að skipa of mörgum fíflum í byrjunarliði til þess að réttlætanlegt sé að halda með því. Nefni sérstaklega í því samhengi Wayne Rooney (vonarstjörnuna sjálfa), Rio Ferdinand og David Beckham.
#3: Væntingar Englendinga til liðsins á þessu móti voru út í hött. Heimsmeistaratitill var talinn næsta vís, að vísu að því gefnu að "stjarnan" Rooney spilaði. Hvað gerist svo? Hinn mikli Rooney eyðileggur leikinn fyrir sínum mönnum með þeirri yfirgengilegu heimsku að traðka viljandi á pungnum á Carvalho. Það þýddi bara eitt: beint út af með manninn og vonarstjarnan sjálf endaði á að verða blóraböggullinn, vegna þess að hann getur ekki hamið skap sitt.

Í vítakeppni höfðu Portúgalir Ricardo, Englendingar Robinson, ansi ójafnt það og England tapaði enn eina ferðina í vítakeppni á stórmóti. Portúgalir eru til alls vísir, spái þeim í úrslit gegn Þjóðverjum.

Mánaðamótin eru komin og nú hafa jafnvel fátækustu námsmenn skyndilega sprúðlandi fé milli handa. Auðvelt er að verða eyðsludraugnum að bráð við slíkar aðstæður og skildu menn því varast hann sérstaklega.