fimmtudagur, 24. febrúar 2005

Lyfjapakkið

Var á kynningu um lögfræðideild Háskólans. Það er ágætt að fara að velta fyrir sér framhaldinu nú þegar líður að síðasta árinu í MR. Mér leist ekkert frábærlega á þetta. Kannski er þetta allt í lagi. Reyndar er ég frekar óákveðinn varðandi framhaldsnám. Mér líst ágætlega á verkfræði, iðanaðarverkfræði og byggingaverkfræði. Svo gæti verið að ég skellti mér bara til Danmerkur í framhaldsnám.

Í MR er gífurlegur fjöldi sem þykist ætla að verða læknar. Ekki hef ég minnsta áhuga á því að krukka í einhverju veiku liði með grímu fyrir andlitinu og sprautu í annarri. Hvernig er hægt að hafa áhuga á slíku rugli? Námið tekur langan tíma og er erfitt og svo er þetta mjög stressandi starf. Það er samt gott að áhuginn skuli vera til staðar því annars væru engir læknar og þá færi allt í vaskinn í þjóðfélaginu.

Læknar eru samt ekki eina stéttin í heilbrigðiskerfinu. Það er t.d. líka hægt að gerast lyfjafræðingur eins og móðir mín. Móðir mín hefur stundum haldið fundi og boð fyrir lyfjafræðinga (eða lyfjapakkið eins og ég kýs að kalla þá) og þá drjúpa leiðindin af hverju strái. Áhugi minn á lyfjafræði er enginn. Þar fyrir utan eru starfsmöguleikar fyrir lyfjafræðinga miklu takamarkaðari eftir að apóteksrekstur var gefinn frjáls.

Hverju mæla menn með?

þriðjudagur, 22. febrúar 2005

Simon & Garfunkel

Er að hlusta núna á snældu með Simon & Garfunkel á meðan ég læri. Mjög gott. Munnharpan gerir gæfumuninn.

Ekkert helvítis Ipod kjaftæði heldur fornaldarleg snælda sem var örugglega það heitasta á markaðnum þegar þessir slógu í gegn. Tækni í samræmi við tónlistina.

sunnudagur, 20. febrúar 2005

Fimm fræknu

Þegar ég renndi í Hafnarfjörð að sækja Vestur-Íslenska frænku mína og Kanadískan mann hennar sá ég magnaða sjón. Frænkan og maðurinn voru í húsi vinkonu frænkunnar. Það hús var staðsett rétt við tjörnina í Hafnarfirði og ekki hægt að komast að því nema keyra á göngustígum. Og það gerði ég og skrúfaði niður rúðuna. Þegar við vorum að keyra til baka á friðsælum göngustígnum blasti við þessi magnaða sjón, fimm þroskaheftir kappar í göngutúr ásamt gæslumanni. Fremstur í flokki kjagaði maður með sundhettu á hausnum. Þegar hann sá bílinn koma varð hann hræddur og hljóp til baka til hinna. Þá hafði ég stöðvað bifreiðina og beið eftir að þeir færu framhjá. Þeir gengu síðan framhjá í rólegheitum en einn þeirra stóðst ekki mátið að stökkva að opinni rúðunni hjá mér og sagði: "BRÚMM! BRÚMM!" inn í bílinn og klappaði síðan saman lófunum mjög kátur. Þetta fannst mér frábær húmor og hneggjaði af hlátri.

Ég er samt viss um að forystusauðurinn neitar að fara út nema með sundhettuna á hausnum. Þá er sjálfsagt að leyfa það. Kannski vill hann aldrei taka hana af höfðinu.

Það væru örugglega aldrei stríð í heiminum ef allir væru svona hressir og kátir. Una glaðir við sitt og þurfa ekki neitt stórkostlegt til að skemmta sér.

laugardagur, 19. febrúar 2005

Slóvenskur Gísli Marteinn

Örbylgjuloftnetið hefur verið bilað í kvöld svo ekki hefur verið hægt að horfa á íslenskt sjónvarp. Því stillti ég á TV Slovenija á gervihnettinum og horfði á slóvenskan spjall/grínþátt. Ekki var ég að missa af miklu í þessu íslenska en Slóvenarnir kunna sitt fag. Þættinum stjórnuðu einhver gaur og gullfalleg stúlka. Svo voru sagðir brandarar á slóvensku sem ég skildi auðvitað ekki en hló af því að þeir voru örugglega mjög fyndnir.

Held ég horfi á þetta næstu laugardagskvöld á meðan Gísli geiflar sig í Ríkissjónvarpinu.

Rækjumangari

Ýmsum leiðum er beitt til að afla fjár fyrir útskriftarferðinni. Um daginn voru seldar rækjur. Mér er meinilla við að pranga einhverju svona drasli inn á ættingjana. Ég er enginn sölumaður. Hef ekki í mér að lofa öllu fögru um vöru bara til að selja hana. Þegar ein frænkan spurði hvort þetta væru góðar rækjur sagði ég: "Ég veit það ekki" en hefði átt að segja: "Blússandi, færð ekki betri kvikindi". En ég seldi níu poka. Um leið og ég hringi í þessa ættingja vita þeir að óhreint mjöl er í pokahorninu, ég færi ekki að hringja í þá til að spjalla (frekar til að ná af þeim peningum eins og í þessu tilfelli). Einmitt þess vegna er óþolandi að pranga þessu drasli inn á þá. Annars eru þetta góðar rækjur, ég er búinn að smakka þær.

Nú er hafin ný fjáröflun, seldar eru Hive háhraðanettengingar og mun það vera arðbærasta fjáröflunin hingað til. En þá sagði ég "hingað og ekki lengra". Ekki meira prang.

Listasafn Reykjavíkur

Í gær var ókeypis aðgangur að öllum söfnum borgarinnar vegna Vetrarhátíðar. Þá skelltu menn sér m.a. í Listasafn Reykjavíkur. Sjaldan hef ég séð annað eins bruðl á húsnæði og þar. Þrjú stór auð rými prýddu húsið, þar af einn risastór salur (á við fínasta íþróttahús). Þetta á besta stað niðri í bæ. Svo pukrast MR-ingar í íþróttasal sínum sem er ekkert annað en kompa. Hvernig væri að þetta auða húsnæði fengjum við fyrir íþróttaiðkun?

miðvikudagur, 16. febrúar 2005

Svínasveifla

Sá svínafóstur í krukku með vatni í dag í líffræðistofunni. Klassi. Í verklegri líffræði vorum við að kryfja smokkfisk. Besta verklega líffræði hingað til.

En uss, ég á að vera að skrifa skýrslu fyrir Skarpó og reikna dæmi fyrir Haffa og undirbúa Salesman próf fyrir Pálínu og lita fyrir Partýbelginn.

Þurs.

Hér má finna góðar glósur úr enskum bókum, t.d. Death of a Salesman.

mánudagur, 14. febrúar 2005

Þar fór mannorðið

Þarna erum við bekkjar/Bakka-bræður á árshátíðinni. Árshátíðin var ágæt en partýið hjá Ingunni var lúxus. Myndin var tekin rétt áður en menn í hvítum sloppum tóku okkur úr umferð.

sunnudagur, 13. febrúar 2005

Celtic Cross

Gleymdi að minnast á að við fórum á Celtic Cross og Ara í Ögri líka í gær. Celtic Cross er aðallega fyrir gamalt lið. Þar kom stelpa til mín og sagði: "Ert þú ekki í björgunarsveit?". Ég leit á hana. Síðan færði ég augun hægt til vinstri. Síðan hægt til hægri. Síðan aftur á hana og sagði: "Nei". Búið.

Magnað samtalsbrot

Mörg frábær samtöl fóru fram í tvítugsafmælinu. Einhver snillingurinn setti lagið "Einn dans við mig" með Hemma Gunn á í græjunum. Í kjölfar þess hófust umræður um Hemma og kom þá m.a. þetta kostulega samtalsbrot:

Trausti: Hann var allan tímann alveg blindfullur og liggjandi í kellingunum þarna úti í Tælandi. Svo náttúrulega fékk hann hjartaáfall og fór aftur heim til Íslands og hætti að drekka. Nei, bíddu, hann fékk hjartaáfallið eftir að hann kom heim.
Henrik: Nei, hann fékk hjartaáfallið úti í Tælandi en var bara svo blindfullur að hann tók ekki eftir því fyrr en hann kom heim.

Snilld.

Tvítugsafmæli og bull í bæ

Emil hélt tvítugsafmæli sitt í gær á heimili sínu. Þar var alveg blússandi sveifla. Dreypti ég á Royal Ceres og bollu hússins. Ýmislegt vafasamt úr Útskriftarferð I í Króatíu var rifjað upp og hlegið að. Stefnan er sett á að gera Útskriftarferð II í Portúgal að meiri sveiflu. Sing star er nú meira bullið, keppti í því nokkrum sinnum og tapaði naumlega í öll skiptin. Mjög gott afmæli.

Síðan var förinni heitið niður í bæ. Eins og venjulega var skítkalt og frekar leiðinlegt. Hírðumst í röð fyrir utan Prikið í dágóðan tíma. Einhver hálfviti kom eins og venjulega og reyndi að troðast fram fyrir. Honum var að sjálfsögðu skutlað út fyrir og varð hann þá vitlaus. Við vorum þarna dágóður hópur saman í röðinni og sögðum fíflinu (sem steytti hnefa og reif kjaft áfram) að hunskast í burtu og þegja. Augnabliki síðar var hann fjarlægður af dyraverði. Leið og beið og enn biðum við í röðinni. Stelpufífl kom og tróðst. Einhver hrinti henni í götuna og hún varð auðvitað brjáluð. Ætlaði að lemja stelpu í hópnum. Henni var haldið frá og hún gafst upp að lokum og fór. Það er ótrúlegt hve mikið er af hálfvitum sem ekki kunna snefil af kurteisi og troðast alltaf í röðum. Óþolandi hálfvitaskapur.

Loks kom röðin að okkur og öllum var hleypt inn nema mér: "Of ungur" Bull. Af hverju eru aldursmörkin ekki miðuð við fæðingarár í stað afmælisdags? Jæja, komst samt inn löngu seinna bakdyramegin. Svo var farið á Grand Rokk og Bar 11 og Ar. Þar var auðvelt að komast inn eins og oftast er. Síðan var farið á skítastaðina, De Palace, Der Boomkikker, Nelly's og lögðust menn meira að segja svo lágt að fara inn á Opus. Það var inn og síðan bara beint út aftur. Stemning engin á þeim bæjum.

Endaði ferðin á Pizza Pronto klukkan rúmlega fimm í morgun.

Niðurstaða: Gott tvítugsafmæli, glötuð bæjarferð.

laugardagur, 12. febrúar 2005

Vélmenni

Þeir sem hringja frá Gallup hljóma eins og vélmenni. Svona er tæknin orðin mögnuð nú á tímum.

föstudagur, 11. febrúar 2005

Ég drakk alltaf þekktustu bjórana af því ég hélt að það væri svo ódýrt, en svo fór ég að reikna.

Nú drekk ég bara Ceres Royal og er snöggur að því.

Ceres Royal fæst nú hér á Íslandi við mikinn fögnuð. Ég hélt alltaf að hann héti Royal Faxe síðan ég smakkaði hann fyrst í Danmörku. En Ceres og Faxe bryggeri hafa örugglega verið sameinuð einhverntímann ef marka má google. Ferskur og framandi. Já.

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

Ef þú verður EKKI drukkinn, þá:

-Geturðu komist hjá því að æla alla nóttina.

-Eyðirðu ekki öllum peningunum þínum í kvöld sem þú mans hvort eð er lítið eða ekkert eftir.

Þetta er brot af því sem stendur í bæklingi með heitinu Hvað veist þú um áfengi? Lýðheilsustöð dreifði þessum bæklingi í skólanum af því að árshátíðin er í kvöld. Einnig eru sýnd áhrif af níu bjórum á 80 kg karlmann "AUGLJÓS EITRUNAREINKENNI, SJÁLFSSTJÓRN Á BAK OG BURT". En þetta er ekki það eina. Eftir 13 bjóra: "HÆTTIR AÐ HAFA STJÓRN, t.d. Á ÞVAGBLÖÐRU". Hver kannast ekki við það? Aðeins of margir bjórar og þvagblaðran er farin að stökkva og berja og reynir að sleppa út úr líkamanum, æðir um stjórnlaust. Einnig stendur að áfengi sé skaðlegt ÖLLUM líffærum. "Ef þú vilt hugsa vel um heilsuna og líf þitt ættirðu að sleppa því að drekka, fresta því eða drekka a.m.k. ekki mikið í hvert skipti".

Já, allir sem verða drukknir æla alla nóttina.

Annar eins áróður hefur varla heyrst. Sumt af þessu er hreinlega lygi og að ljúga í forvarnarskyni gefst ekki sérstaklega vel. Það hefur frekar áhrif í öfuga átt.

Það hefði mátt taka saman efni bæklingsins í eina setningu:
EF ÞÚ DREKKUR ÁFENGI ÞÁ DEYRÐU OG FERÐ TIL HELVÍTIS!

miðvikudagur, 9. febrúar 2005

Hlaupandi með nærbuxur á hausnum

Einu sinni þegar ég var ungur drengur, 7 eða 8 ára hélt ég afmælisveislu á heimili mínu í sveitinni. Bauð krökkunum úr bekknum og vinum. Á afmælisdaginn þegar veislan var alveg að byrja var ég frekar spenntur. Ég tók brók úr fataskúffunni minni og setti á höfuðið og ætlaði út. Mamma kallaði á eftir mér: "Hvert ertu að fara, ætlarðu ekki að taka á móti gestunum?". "Nei, ég ætla út". Svo hljóp ég út í garð með brókina á hausnum og hljóp í hringi í kringum húsið. Hring eftir hring eftir hring. Nú tóku gestirnir að streyma að einn af öðrum. Mamma fór til dyra og sagði; "Hann er ekki inni, ég held að hann sé úti í garði, gáðu bara". Svo gengu gestirnir inn í garðinn, ekki leið á löngu þar til þeir mættu afmælisbarninu á hlaupum með nýju höfuðskreytinguna. Afmælisbarnið hafði vit á því að gera hlé á hlaupunum til að heilsa gestunum en ekki hafði það vit á því að taka brókina af hausnum, ekki strax.

Þegar afmælisbarnið var orðið ögn rólegra tók það þó höfuðdjásnið niður og blandaði geði við gestina eins og er til siðs.

Þetta var óvenjulegasti afmælisdagur sem ég man eftir.

mánudagur, 7. febrúar 2005

Samkennd

Mesta samkennd sýna Íslendingar þegar úti er snjór og hálka. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég spólað og setið fastur á bíl móður minnar sem er á heilsársdekkjum. Hefur þá alltaf einhver komið eins og kallaður og rétt fram hjálparhönd og ýtt bílnum af stað. Einu sinni var ég búinn að sitja pikkfastur í tíu mínútur og rótspóla fram og aftur í 20 cm þykku snjólagi. Ég var búinn að reyna að ýta bílnum sjálfur og reyna ýmsar hundakúnstir, til að koma honum af stað en allt kom fyrir ekki og orðinn snælduvitlaus. Þá kom allt í einu kappi í kuldaúlpunni sinni og bombaði kvikindinu af stað og ég gat ekið mína leið.

Í hálkunni hér á Íslandi gildir máltakið: Þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst.

Svo hressir það að geta rétt fram hjálparhönd.

Dronninglund

Dronninglund heitir bær á Jótlandi í Danmörku. Þangað flutti pabbi skömmu fyrir jól og starfar nú sem túlkur þar í bæ. Hef ég nú sett tengil á heimasíðu bæjarins. Þangað munum við systkinin fara um páskana og líka í sumar. Það kemur til greina að flytja út til pabba eftir MR og fara í háskóla í Álaborg.

sunnudagur, 6. febrúar 2005

Bob Marley & The Wailers

Hef hlustað mikið á disk með Bob Marley & The Wailers undanfarið sem er geysilega skemmtilegur. Trenchtown Rock, Stir It Up, Soul Rebel, Duppy Conqueror, Lively Up Yourself og Small Axe eru nokkur góð úr safni kappans. Svo var grein um hann í Mogganum í dag því hann yrði sextugur væri hann á lífi. Ég upplifi Kúbustemninguna aftur þegar ég hlusta á þetta en þar var reggae í hávegum haft. Held ég verði að fara að flytja þangað. Lítið varið í íslensku reggaesveitina Hjálma

Ekki næstu Bob Marley & The Wailers.

laugardagur, 5. febrúar 2005

Kveikt í tunglinu

Á þriðjudagskvöld sat ég við eldhúsborðið með fjórar ristaðar brauðsneiðar með smjöri og osti og gæddi mér á. Dyrabjallan hringdi. Tveir geðveikir menn (Henrik og Tómas) stóðu í dyrunum og sögðu mér að koma út, þeir væru að verða of seinir á stjörnufræðifyrirlestur. Ég skildi ekki æsinginn yfir slíku en samþykkti þó að fara.

Náðum á fyrirlesturinn í tæka tíð. Veitingar voru í boði; kaffi og hraunbitar. Svo hófst fyrirlesturinn og Sverrir Guðmundsson talaði um stjörnufræði af áhuga og kunnáttu. Frábært var að sjá hve mikinn áhuga fundarmenn höfðu á þessu. Ég setti upp gleraugun og spekingssvipinn og þóttist hafa gríðarlegan áhuga líka. Margir fundarmanna réttu upp hönd og komu með fróðleiksmola sem þeir höfðu sankað að sér. Svo var einn sem punktaði meira að segja niður hjá sér það markverðasta og hlógum við að honum. Á eftir Sverri kom Sævar og hélt áfram stjörnufræðitali. Hann var mjög fyndinn af því að hann var svo geðveikur. Hann skaut því m.a. að hve heimskulegt stríð Bandaríkjamanna í Írak væri og að milljarðar á milljarða ofan hefðu farið í stríðsreksturinn. Þessum milljörðum væri miklu betur varið í geimrannsóknir, það væri svo mikið sem ætti eftir að kanna þarna uppi. "Þegar ég verð orðinn yfirmaður NASA..." sagði hann og var greinilega með háleit markmið. Önnur frábær setning frá honum: "Ef það væri meira súrefni á tunglinu væri rosalega gaman að prófa að kveikja í því". Ýmsir draumórar og hlógum við að því öllu saman. Þeir félagar höfðu líka miklar áhyggjur af ljósmengun í borginni og þótti hún nú alveg vera búin að skíta á sig í þeim efnum og að stjörnuskoðunarmenn hefðu ekkert almennilegt athvarf í borginni. Sævar hvatti síðan fundarmenn til að mæta á fund um ljósmengun sem yrði á næstunni.

Þetta var frábær fundur og sérstaklega var gaman að sjá fólkið sem sótti hann.´Ég setti inn tengla á kappana tvo.Posted by Hello

Svona var umhorfs á fyrirlestrinum.

Gagnrýni: The Aviator

Kostir og gallar, fleiri kostir. Aðeins of mikil geðveiki á köflum. Löng mynd. Stutt gagnrýni.

Einkunn: 8,0.

föstudagur, 4. febrúar 2005

Ofsóknir Útvarpsréttarnefndar

Það nýjasta er að Skjár Einn megi ekki sýna enska boltann með enskum þulum. Útvarpsréttarnefnd komst að þeirri niðurstöðu. Þorsteinn Gunnarsson sendi þeim erindi þar sem hann spurðist fyrir um lögmæti lýsinganna.

Hvers vegna komust þeir ekki að þessu fyrr? Þessar ensku lýsingar hafa verið á leikjum síðan snemma síðastliðið haust.

Rökin fyrir þessari ákvörðun eru mjög þunn. Útvarpslög kveða víst á um að þetta sé ólöglegt. Hafa útvarpslög breyst síðan í haust? Hvernig getur þetta allt í einu verið ólöglegt núna? Ef það er rétt þá þarf einfaldlega að breyta þessum lið útvarpslaga og þó fyrr hefði verið. Svo er það málverndunarstefnan. Þau rök eru mjög ankanaleg. Nóg er nú víst fyrir af erlendu efni sem fólk horfir á óíslenskað. Þetta þarf að vera á íslensku svo allir skilji. Óþolandi bull. Þeir sem ekki skilja ensku og hafa áhuga á enska boltanum eru lítill minnihlutahópur. Á kannski næst að banna sjónvarp af því að blindir geta ekki horft á það?

Þar að auki eru ensku þulirnir oftast meiri fagmenn en þeir íslensku og skemmtilegra að hlusta á þá.

þriðjudagur, 1. febrúar 2005

Afi ökumaður

Afi minn hefur frá ómunatíð verið frábær ökumaður. Í seinni tíð hefur að vísu aðeins fjarað undan aksturshæfileikum hans. Í fyrra ók hann um vegina í sveitinni eins og hann var vanur. Allt í einu DUNK! skellur á bílinn. "Hvaða...er ég einhver trúður hér?" býst ég við að afi hafi þá hugsað. Svo steig hann út úr bílnum sem hafði drepið á sér og athugaði hvað hefði gerst. Bíddu...þarna var stór keðja sem hafði verið strengd þvert yfir veginn og skærgult skilti hengt á hana sem á stóð VEGAVINNA. Hver leggur þránd í götu afa míns? Á jeppanum eiga honum að vera allir vegir færir.

Afi ók síðan lúpulegur heim á skökkum og skældum jeppanum og blótaði sjálfsagt Vegagerðinni í hljóði. Hann sagði frá fjandans keðjunni sem var fyrir. Hún var samlit veginum og það var skærgula skiltið líka. Helvítis skærgulkeðjulituðu vegir! Sjónin í afa er fullkomin, bara eins og þegar hann var tvítugur. Sjónin bregst aldrei.

Aldrei!

Eftir þetta atvik ákvað afi eftir ráðleggingar hinna og þessara að bregða sér til augnlæknis, þó ekki væri nema til að fá staðfestingu á því að sjónin væri 100%. En annað kom á daginn. Sjónin var frekar vafasöm, afi hafði um nokkurt skeið séð ljós á bílum sem hann mætti tvöfalt (eða kannski frekar fjórfalt (fjögur framljós) þar sem ljósin eru alltaf tvö). Það á nú að vera í lagi ef hann veit alltaf hvor ljósaparanna eru raunveruleg. Nema hvorug séu raunveruleg og þau réttu séu mitt á milli hinna fjögurra.

Nú notar afi gleraugu við aksturinn og er orðinn ögn traustari ökumaður en fyrir augnlæknisheimsóknina.