sunnudagur, 31. desember 2006

Áramótakveðja

Ég færi Dominos hjartanlegar og innilegar áramótakveðjur og þakka hlýjar kveðjur í smáskilaboði sem barst á aðfangadagskvöld í síma minn. Mér hlýnaði um hjartarætur og vöknaði um augu við lestur yndislegrar kveðjunnar.

Ég læt mér nægja að óska óbreyttum lesendum gleðilegs árs.

fimmtudagur, 21. desember 2006

Örkin hans Nóa

Vatnavextir um allt land. Menn og dýr í hættu. Hvar er Nói á Örkinni þegar á þarf að halda? Sé hann alveg fyrir mér siglandi upp Ölfusána, segja við hesta sem standa blautir og hraktir á einbreiðri brú sem stendur upp úr vatnselgnum: "Pollrólegir, Nói frændi kemur til bjargar".

þriðjudagur, 19. desember 2006

Ég boða yður mikinn fögnuð

Prófum er lokið.

mánudagur, 18. desember 2006

Framboð siðblindra?

Það er spurning hvort siðblindir ættu ekki að fara í sérframboð til Alþingiskosninga. Þá þyrfti ekki til nema smávegis klofning út úr nokkrum flokkum og þessi líka dýrindis listi væri sprottinn fram fullskapaður.

Það má jafnvel hugsa sér að slíkur listi næði mönnum á þing. Væri það ekki bara gott fyrir lýðræðið? Þurfa ekki siðblindir sína rödd á þingi eins og aðrir?

Enn betra: Flokkarnir gætu sett reglur um siðblindrakvóta á listum sínum. Siðblindir verða að hafa t.d. 1/5 sæta á listanum og ef þeir ná ekki settum árangri í prófkjörum skulu þeir færðir ofar.

föstudagur, 15. desember 2006

Allt í rugli

Rokkstöðvarnar spila oft lagið Skítapakk með Dr. Spock um þessar mundir. Fyrst þegar ég heyrði þetta lag þegar ég var úti að aka: "Þegar að ég kom heim í morgun þá var allt í rugli..." voru fyrstu viðbrögð að hugsa "Hvaða helvítis rugl er nú þetta?" og skipta um stöð. En smátt og smátt er ég farinn að kunna að meta þetta.

Áðan var ég t.d. að keyra og stillt var á Rás 2, einhver kona hringdi inn og sagði "Má ég biðja um óskalag, þarna Snjókorn falla með Ladda, það er svo skemmtilegt". Það er lag sem fer væntanlega á topp 10 yfir ofspiluðustu jólalögin, toppar að vísu ekki Jólahjól. En engu að síður hlýtur eitthvað að ganga að fólki sem hringir inn og biður um þetta lag. Það þarf engum blöðum um það að fletta að ég skipti strax um stöð og að sjálfsögðu var groddalagið í gangi, saltvitlaus maðurinn gargandi "Andskotans pakk! Skítapakk!" o.s.frv. Get ekki sagt annað en að það hafi átt sérdeilis vel við einmitt á þessari stundu. Ég var fullvissaður um það að vísað væri til fólks sem hringir inn í útvarpið og biður um útbrunnin jólalög í textanum.

þriðjudagur, 12. desember 2006

Forgangsröðun frétta

Fyrsta frétt aðalfréttatíma Sjónvarpsins í kvöld var að síðasti geirfuglinn væri stórskemmdur eftir vatnstjón á Náttúrugripastofnun. Það kalla ég aumkunarlega ómerkilega frétt miðað við næstsíðustu frétt fréttatímans - Haus frægustu kindar Íslandssögunnar fundinn -

Ég sé fyrir mér hraðspólaðar svarhvítar myndir af bandvitlausum gömlum sveitadurgum hlaupandi um suðurland, dettandi hver um annan þveran og skjótandi af byssum eitthvað út í loftið, blótandi rollunni. Stórkostlega íslenskt.

föstudagur, 8. desember 2006

Viðeigandi?

Þegar prófalestur stúdenta er í hámarki auglýsir Stúdentakjallarinn viðburði af áður óþekktum krafti. Sendir út tilkynningar á alla Háskólanema, "[blablabla og blablalba] spila í kvöld, hvernig væri nú að lyfta sér upp?" eða álíka.

Já, hvernig væri nú að stúdentar slægju þessu öllu upp í kærleysi? Fyllerí í Stúdentakjallaranum?

Sjálfur ætla ég að láta mér nægja að sitja heima og hlusta á Kim Larsen syngja "Jeg bor til leje på Haveje..." og fleiri ódauðlega texta á milli þess sem ég les um comparative approach og selection on the dependent variable eða slíkt - svo maður sletti nú (hohoho).

sunnudagur, 26. nóvember 2006

Sænskir aular

Nokkrir sænskir aular eiga það lag sem er það alferskasta í dag:

Peter, Björn and John - Young Folks

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Stórkostlegur árangur. Fyllumst nú þjóðarstolti saman. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þetta væri frétt af Baggalúti.

miðvikudagur, 15. nóvember 2006

Sjónvarpsauglýsing Vodafone

Hver kannast ekki við auglýsingu Vodafone í sjónvarpinu sem ber fyrir augu bæði á kristilegum og ókristilegum tíma? Auglýsingin fjallar um dægurfluguna, sem er skv. auglýsingunni græn fluga sem kann að lifa lífinu. Hún lifir bara í einn dag og nýtur lífsins í botn, "gerir bara það sem hún vill" eins og maðurinn segir. Þetta felst í því að hún flýgur um allt og spilar síðan tennis við aðra dægurflugu.

Gott og vel. En hvað kemur þetta Vodafone við? Ef maður er viðskiptavinur Vodafone, getur maður þá flogið og spilað tennis við dægurflugu? Breytist maður kannski í dægurflugu? Er það að lifa lífinu, að fljúga og spila tennis?

Er þessi auglýsing kannski bara argasta bull frá upphafi til enda?
-----------
En eitthvað þungt slæst nú ítrekað í glugga hérna í húsinu. Kannski vissara að athuga hvað er á seyði. Svo verður það önnur andvökunótt því enginn heilbrigður maður getur sofnað í svona roki.

Gnauðandi vindur

Það eru ár og dagar síðan ég hef verið mikið andvaka og jafnglaðvakandi að nóttu til. Alltaf frekar erfitt að festa svefn þegar vindurinn gnauðar utan við gluggann með tilheyrandi látum, böndum að slást í fánastengur o.fl. Þetta er samt alls ekkert slæmt. Ég hef nýtt tímann frekar vel núna og lesið í alþjóðastjórnmálabókinni. Var að lesa kafla um internetbyltinguna, sem er mun merkilegra fyrirbæri en ég hef nokkurn tímann pælt í. Þetta er þrusuvel skrifað og maður opnar augun fyrir ótrúlegustu hlutum sem maður hafði aldrei áður tengt við netið, bæði kostum og ókostum. Svo eru skemmtilegar vangaveltur um hvað frekari þróun muni hafa í för með sér.

Í kaflanum segir m.a. að nú til dags sé það venjan að 'gúggla' þá sem maður hittir. Mikið til í þessu.

Iceland Express ekki hættir að skíta upp á bak

Ágætisfrétt til að minna mann á að beina viðskiptum sínum aldrei aftur til Iceland Express.

Eins og fram hefur komið áður (líka hér) fordæmi ég það fyrirtæki og framkomu þess við viðskiptavini.

mánudagur, 13. nóvember 2006

Úrslit dagsins

Lengi á eftir var ekki minnst á Liverpool.

laugardagur, 11. nóvember 2006

Strútastefnan

Veit að ýmsir sem að öllu jöfnu lesa þessa síðu nenna ekkert að fylgjast með þessum málum, en enginn er heldur skyldugur til að lesa það sem á eftir fer.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifar í niðurlagi greinarinnar Við erum öll innflytjendur á síðu sinni:
"Íslenskt samfélag er orðið alþjóðlegra og opnara á síðustu árum. Hingað hefur komið fólk annars staðar að út heiminum sem hefur auðgað menningu okkar og sett skemmtilegan blæ á samfélagið. Áhrifin á matargerð, menningu. listir og margt annað hefur gert samfélagið ríkara en ella. Og hvaða leyfi hefur Jóni Magnússon til að nota orðið ?við? um alla Íslendinga? Ég vil ekki búa í samfélagi fordóma og kreddna - ég vil búa í alþjóðlegu samfélagi þar sem allir fá að njóta sín, hvaða trúar eða litarháttar sem er. Að því eigum við að vinna í sameiningu, búa til regluverk sem tekur á málefnum útlendinga þegar þeir koma til landsins, auka möguleika til íslenskunáms, ýta undir gagnkvæman skilning og virðingu á ólíkum lífsháttum og nýta okkur möguleikana sem felast í fjölmenningunni. Við eigum ekki að auka á fordóma, illvilja og öfund eins og þessir tveir talsmenn Frjálslyndra gerðu í dag."

Þarna gefur hún mjög sterklega til kynna að Frjálslyndi flokkurinn vilji ekki auðga menningu landsins, ekki gera samfélagið ríkara en ella o.s.frv. Og í sambandi við það sem ég feitletraði, er það eitthvað annað en þingmenn F hafa talað um, er það ekki einmitt hluti þess sem þeir hafa sagt? Var Steinunn kannski bara ekkert að hlusta?

Af því sem ég hef séð í umræðunum tala Frjálslyndir um að nýta hefði átt fyrirvara um að galopna landið til 2009 eða 2011. Röðin hafi verið röng, fyrst hefði átt að gera ráðstafanir til að taka á móti nýju fólki, og síðan að opna upp á gátt. Sú leið var ekki farin, fyrst var allt opnað og svo á í mjög litlum skrefum að taka vel á móti. 2000 manns af þeim fjölda sem hefur komið til landsins frá áramótum er hvergi á skrá og enginn veit hvað það fólk er að gera. Bendir það til þess að allt hafi verið vel undirbúið? Fréttir bárust af því fyrir skömmu að börn innflytjenda voru send heim úr skólum vegna þess að þau höfðu ekki kennitölu. Bendir það til þess að allt hafi verið tilbúið til að opna upp á gátt?

Ríkisstjórnin ákvað fyrir tveimur dögum að leggja 100 milljónir til íslenskukennslu. Að auki ákvað hún á dögunum að nýta fyrirvara gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu. Hvað er þetta tvennt annað en viðurkenning á málstað Frjálslynda flokksins? Ég veit að þeir munu samt aldrei viðurkenna að svo sé.

Hrafn Jökulsson sagði m.a. á Rás 2 í gær (Síðdegisútvarpinu) að hann óttaðist heift í garð útlendinga í svörum á síðu Magnúsar Þórs .Ég las þessi svör og kannski voru tvö eða þrjú sem bentu til rasisma. Þarna skrifa margir í skjóli nafnleysis og þar að auki er fráleitt að ætla að ummæli allra þar endurspegli viðhorf Magnúsar eða Frjálslynda flokksins yfirhöfuð. Vill Hrafn kannski skamma Framsóknarflokkinn líka fyrir það að Lalli Johns er yfirlýstur stuðningsmaður flokksins? Eða vill hann agnúast út í þann flokk sem nýtur mests stuðnings fanga á Litla hrauni?

Í sama þætti minntist Þorfinnur Ómarsson á að Jón Magnússon og Magnús Þór hefðu notað orðin "þetta fólk" og spurði hvaða fólk væri "þetta fólk". Margir virðast einmitt agnúast út í einstaka orð eða orðasambönd sem eru notuð en hafa minni rök gegn málstaðnum sjálfum. Að sjálfsögðu skiptir máli að virðing sé borin fyrir fólki í umræðunni. Hins vegar veit ég ekki alveg hvernig má tala um svo ýmsum háheilögum líki. "Erlent vinnuafl" er einnig orðasamband sem margir hafa agnúast út í F-lista fyrir. Frumvarpið sem um var rætt (þar sem ákveðið var að nýta ekki fyrirvara til 2009 eða 2011) fjallar um erlent vinnuafl, og það var ekki lagt fram af Frjálslyndum. Ég veit ekki hver hefur sagt að erlent vinnuafl geti ekki líka verið fólk. Mikill hluti umræðunnar fjallar einmitt um vinnu erlendra ríkisborgara hér og íslenska atvinnurekendur, og þá er enginn að segja að ekki sé um að ræða fólk. Tilheyrum við ekki öll hinum og þessum hópum sem eru kallaðir hitt og þetta til aðgreiningar? Sjálfum væri mér alveg sama hvort ég félli inn í hóp sem um væri rætt og í því samhengi væri t.d. talað um erlent/innlent vinnuafl vegna þess að málið snerist að miklu leyti um vinnu.

Ég hef týnt til nokkra stórkostlega frasa sem hafa notið mikilla vinsælda í umræðunum upp á síðkastið:
"Þeir ala á útlendingahatri!"
"Við vitum af fenginni reynslu að svona tal er bara byrjunin á öfgasinnuðum þjóðernisflokkum"
-Já! Ákveðum bara strax að Frjálslyndi flokkurinn verði öfgasinnaður þjóðernisflokkur af því að hann mun fylgja formúlunni sem "við þekkjum af fenginni reynslu".
"Þeir vilja loka landinu!"
-Hver hefur talað um að "loka landinu" hjá F?
"Þetta er stórhættulegur málflutningur!"

Margir eru farnir að minna mjög á strúta í þessari umræðu. Þeir stinga hausnum í sandinn og skjóta sér undan eðlilegum umræðum en kippa honum síðan upp úr með ákveðnu millibili til að hrópa einhvern hinna æðisgengnu frasa.
"Rasisti!"

Verði vart við rasisma í málflutningi Frjálslynda flokksins í innfl.málum, skal ég fyrstur manna gagnrýna hann. En ég ætla ekki að taka þátt í órökstuddum upphrópunum.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Ómaklega vegið að Magnúsi Þór Hafsteinssyni

Hreint ótrúlegt hefur verið að fylgjast með umræðum um innflytjendamál undanfarna daga. Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, vakti máls á innflytjendamálum á þingi. Þar talaði hann m.a. um að ekkert hefði gerst í þessum málum síðan nefnd var skipuð um málið, nefnd sem átti að vera búin að skila áliti fyrir nokkru. Á fjárlögum næsta árs er hvergi minnst á krónu til tiltölulega nýtilkomins Innflytjendaráðs. M.ö.o. stjórnvöld virðast enga stefnu hafa í málefnum innflytjenda. Engar ályktanir hafa komið fram um hvernig skuli bæta íslenskukennslu fyrir innflytjendur, engar áætlanir um hvernig hjálpa skuli fólki að aðlagast. EKKI NEITT.

Magnús spyr hvað eigi að gera þegar hægir á þenslunni og vinnuframboð minnkar á ný. Hann bendir á að margir innflytjendur hafa ekki forsendur til að kynna sér réttindi sín, m.a. vegna skorts á íslenskukunnáttu. Hann bendir á að fjöldi fyrirtækja nýtir sér það og ræður erlenda borgara á taxta sem eru jafnvel undir lögbundnum lágmarkslaunum. Réttindi um vinnutíma eru þverbrotin og svo framvegis.

Ég spyr, hvar er rasisminn? Hvernig væri nú að það fólk sem hefur haft uppi upphrópanir um rasisma í fjölmiðlum, á kaffistofum, á víðavangi o.s.frv. færi rök fyrir máli sínu?

Getur ef til vill verið að margir séu að flýja umræðuna? Þeim finnst hún einfaldlega óþægileg og beita þá þeirri leið að hrópa "rasisti! rasisti! úlfur! úlfur!". Ég fagna því að Magnús Þór hafi vakið máls á innflytjendamálum og ágætt væri að ýmsir færu að þrífa bjálkana úr augunum á sér og færa rök fyrir upphrópunum sínum, það er það minnsta sem þeir geta gert.
--------------
UPPFÆRT kl. 01:06 föstudag, 10.nóv.
Bendi sérstaklega á í þessu samhengi mjög góða grein Margrétar Sverrisdóttur um málið auk að sjálfsögðu upphafsræðu Magnúsar Þórs í utandagskrárumræðum í þinginu. Eftir mjög gaumgæfilega leit í þessum skrifum fann ég ekki meintan rasismann.

Borat og The Departed

Ég sé ástæðu til að fjalla um kvikmyndina Borat vegna þess oflofs sem hún hefur hlotið, einkum meðal gagnrýnenda. Gagnrýnendur hinna ýmsu fjölmiðla hafa ekki haldið hlandi yfir myndini. Yfirleitt rakka gagnrýnendur allar gamanmyndir niður en sú er ekki raunin með þessa. Einmitt þess vegna setti ég ákveðna varnagla við myndina áður en ég fór á hana - gamanmynd sem gagnrýnendur lofa, eitthvað hlaut að vera loðið við það.

Og viti menn, sú var raunin. Myndin er ekki "besta gamanmynd allra tíma" eins og einhver fjölmiðlagagnrýnandinn komst að orði (í fljótu bragði man ég t.d. eftir Jalla! Jalla! sem er óumdeilanlega betri. Hún er þó hin fínasta skemmtun og mínúturnar 84 voru elsdsnöggar að líða. Nokkrir ólgandi brandarar líta dagsins ljós en sumt er líka skot yfir markið. Gert er grín að sumum sem taka sig of alvarlega og þurfa mjög á því að halda að gert sé grín að þeim, t.d. hinir grafalvarlegu femínistar sem kappinn ræddi við.

Atriði með tveimur nöktum karlmönnum að slást í hótelrúmi og víðar var ansi mikið skot yfir markið. Að hverjum beindist það grín? Hver var tilgangurinn? Ég sá ekki annað en að hann væri eingöngu að hneyksla, ádeilan var engin og það þykir mér mjög grunnur tilgangur.

Niðurstaða og einkunn: Margir góðir punktar en líka skot yfir markið. 7,5.

The Departed sá ég fyrir tveimur vikum eða svo. Hún var mjög lengi að byrja og angraði það mig nokkuð. Þegar hún loksins byrjaði almennilega voru ýmis tvist og rjúkandi flétta. Endaði samt í fullmikilli fléttu fyrir minn smekk, eiginlega flækju. Leikur var góður.

Niðurstaða og einkunn: Fín spennumynd en hefur leiðan galla sem virðist vera kominn í tísku, að vera of löng. 8,0.

þriðjudagur, 7. nóvember 2006

Bílaauglýsingar

Hvers vegna er 90% bílaauglýsinga eins? Glansandi bíll á ferð einhvers staðar á hálendi eða á jansléttu og svo slagorð sem eru furðukeimlík. Ég get a.m.k. ekki nefnt eitt slagorð fyrir bíl sem er auglýstur þessa dagana. Gera þessar auglýsingar gagn? Auka þær í einhverjum tilfellum sölu á bílnum sem auglýstur er?

Ég man eftir tveimur bílaauglýsingum sem féllu ekki í þennan flokk. Lyklakyppa ársins, rennihurð ársins og hitt og þetta ársins og síðan bíll ársins - Yaris. Sú auglýsing hlýtur að hafa gert eitthvað gagn fyrst hún er eftirminnileg. Svo man ég eftir Eddu Björgvins í skrýtinni auglýsingu fyrir Daihatsu Charade. Fleiri bílaauglýsingum man ég ekki eftir, sem er furðulegt miðað við hversu stór hluti auglýsinga almennt þær eru, en ekki furðulegt miðað við hve stór hluti þeirra rennur saman í eitt.

fimmtudagur, 2. nóvember 2006

Talsett Vanish-auglýsing

Kona hellir fullu glasi af ávaxtasafa á buxur sem hún hefur á borði fyrir framan sig: "Það er ótrúlegt hvað buxur þurfa að þola á einum degi, ávaxtasafi...", hellir glasi af kókómjólk á buxurnar: "...kókómjólk...", hellir fullri skál af einhverju rauðu gumsi á buxurnar: "...og svo kvöldmaturinn. Með nýja Vanish [blablablablalba]"

Langt er síðan ég hef séð auglýsingu sem gerir jafnlítið úr viti áhorfenda. Þarna virðist vera gert ráð fyrir að áhorfandinn sé gjörsamlega gersneyddur skynsamlegri hugsun. Hver hellir fullu glasi af ávaxtasafa, fullu glasi af kókómjólk og kúffullum disk af rauðu gumsi á buxurnar sínar sama daginn? Hver skiptir ekki um buxur ef hann hellir t.d. fullu glasi af ávaxtasafa í þær? Gerir viðkomandi ráð fyrir að hann eigi eftir að sulla niður á sig kókómjólk og rauðu gumsi seinna yfir daginn? Gerir viðkomandi ef til vill í því að hella niður á sig sem mestu sulli af því að hann veit að hann á Vanish-þvottaefni sem mun hreinsa þetta allt saman fullkomlega burt?

Ég spyr, þú svarar.

Ugla

Þegar ég skráði mig inn á Uglu í morgun ómaði píanóglamur, afmælissöngurinn. Mundi þá að ég á afmæli.

þriðjudagur, 31. október 2006

Fauna og ritgerð

Fauna kom glóðvolg í fyrradag heim að dyrum. Það er leitt því þá get ég ekki lengur verið brjálaður.

Annars er ég að leggja lokahönd á ritgerð mína í alþjóðastjórnmálum: inngangi sem gildir 25% af lokaeinkunn í faginu. Ritgerðin fjallar um eitt af þremur efnum sem mátti velja um, að bera saman árásar- og varnarrealista og bera saman grunnhugmyndir beggja og þá kennimenn sem styðja hvora um sig. Þá skal fjalla um hvað skortir í kenningarnar og hvernig nýlíberísk stofnanahyggja getur bætt þær upp.

Hljómar gáfulega...eða hvað?

fimmtudagur, 26. október 2006

GOL! GOL! GOL! GOL!

Eiður Smári skoraði tvö mörk í bikarkeppni fyrir Barcelona á Spáni á móti einhverju kúkaliði. Ekkert sérlega merkilegt en það sem er frábært er spænskur kappi sem lýsti leiknum einhvers staðar og er þúsund sinnum líflegri en gerist og gengur með íþróttafréttamenn:

Lýsingin á fyrra marki Eiðs.

Lýsing á öðru markinu, ekki síðri.

miðvikudagur, 25. október 2006

Nýtt upphaf

Ég var að velta fyrir mér - þótt slíkar vangaveltur hefðu fremur átt heima í upphafi skólársins í ágúst - af hverju þetta?:

Staður: Unglingadeild grunnskóla:
"Hæ, krakkar ,jæja nú eru þið komin upp í unglingadeildina, nú munið þið sko kynnast félagslífi. Hér er endalaust partý blablabla..."

Staður: Menntaskóli:
"Hér er eitt öflugasta félagslíf á landinu, hér geta sko allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Menntaskólaárin eru sko bestu ár lífsins"

Staður: Háskóli:
"Já, oft er sagt að menntaskólaárin séu bestu ár lífsins. Ég hef eiginlega komist að því að háskólaárin eru bestu ár lífsins, a.m.k. ekki síðri en menntaskólaárin. Í Háskólanum er frábært félagslíf."
-og ATH: Sami maður sagði e-ð á þessa leið og hafði sagt sem inspector í MR að menntaskólaárin væru bestu árin.

Af hverju þetta? Hverju á maður að trúa? Hvar eru rannsólknirnar? Hver eru raunverulega bestu árin? Þetta þarf að komast á hreint. Setjum nefnd í málið.

Má jafnvel búast við þessu hér?:

Staður: Elliheimili:
"Jæja, "krakkar" ég veit að ykkur hefur verið sagt að menntaskólaárin séu bestu árin og að háskólaárin séu bestu árin, jafnvel að gaggó sé best af öllu. Þetta er allt LYGI! Elliheimilið er staðurinn fyrir alla, konur og karla, bestu ár lífsins. Hér er stórkostlegt félagslíf, hér er sungið og drukkið og djúsað alla daga, hér er félagsvist, hér eru prjónaklúbbar, hér er bingó, og síðast en ekki síst hópferðir til Kanarí! Gleymið öllu sem hefur verið logið að ykkur í fortíðinni. Þetta er málið! Svo þarf ekkert að sitja yfir námsbókum."
-og mun jafnvel sami maðurinn segja þetta og hafði haldið öðru fram áratugum áður? Ja, maður spyr sig.

mánudagur, 23. október 2006

Hvalveiðar - með eða á móti?

Hvalur 9 veiddi sína aðra langreyði í dag. Margir eru orðnir langreiðir á ástandinu og senda mótmælabréf til íslenskra stjórnvalda snarsjóðandibandóðir. Ég set fyrirvara við mótmæli frá Greenpeace vegna þess að það eru öfgasamtök sem hafa getið sér allt annað en gott orð á undanförnum árum. Greenpeace gefa í skyn á síðu sinni að almenningur á Íslandi sé andsnúinn hvalveiðum. Nýleg íslensk Gallup-könnun sýndi að 3/4 aðspurðra sögðust hlynntir atvinnuveiðum á hval (sjá hér). Einnig set ég fyrirvara við andúð Sea Shephard samtakanna sem sökktu tveimur hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn fyrir tuttugu árum. Slíkt er ekki til að vekja samúð almennings með samtökunum.

Ýmsir forkólfar í ferðaþjónustu á Íslandi hafa lýst undrun og mikilli andstöðu við veiðarnar. Segja þeir að hvalaskoðunarbisniss muni hrynja í kjölfarið. Síðan hvalveiðar í rannsóknarskyni hófust fyrir nokkrum árum hefur gestum í hvalaskoðun hins vegar fjölgað. Skv. Magnúsi Skarphéðinssyni(í viðtali Kastljóss, miðvikudagskvöldið 18. okt.) hefur dregið úr vexti ferðamanna. Þá spyr ég, hvernig í ósköpunum getur Magnús fullyrt að það megi rekja beint til veiðanna, hvaða sannanir hefur hann fyrir því? Getur hvalaskoðunarbransinn stækkað endalaust og alltaf með jafnörum vexti?

Veiðiheimildin sem gefin hefur verið nú er ekki upp á marga hvali og ætti seint að ganga að einhverjum stofni dauðum. Hvers vegna má ekki láta á veiðarnar reyna áður en fólk stekkur upp til handa og fóta? Ef hvalaskoðunarbransinn verður fyrir verulegum skakkaföllum má alltaf hætta veiðunum og verður án vafa gert. Áður en og EF til þess kemur ættu menn að anda rólega.

Það að Hvalur 9 hafi veitt tvær langreyðar á örfáum dögum, gefur það til kynna að langreyðar séu í útrýmingarhættu? Nei, ég bara spyr, endilega segið ef þið hafið meiri vitneskju en ég. Það sem er verra og kom fram í fréttum útvarps í kvöld er að sendiherra Japans sagði að ekki væri pláss fyrir íslenskt hvalkjöt á Japansmarkaði, þeir hefðu nóg með eigið tilraunaveiðakjöt. Kristján Loftsson sagði aftur á móti að það væri tóm vitleysa, Japanir vildu kjötið. Miðað við fyrri innslög Kristjáns í fjölmiðlum veit ég ekki hvort ég á að trúa því. Ég hugsa að hvalveiðasinnar gætu fundið betri málsvara en hann.

Hvað ef ekki tekst að losna við skepnurnar? Þá er að sjálfsögðu til stórkostleg lausn, tökum innvolsið út úr þeim, fyllum skrokkana af helíum og bindum þá við Hallgrímskirkjuturn, þar gætu þeir svifið yfir eins og í þyngdarleysi, það væri stórkostlegt. Hingað mundu streyma ferðamenn til að berja hvalina svífandi augum. Líklega yrðu ófáir hasshausar í þeirra röðum og gætu látið orðin "Whoa, awsome!" falla. Hvalaskoðun fengi nýja merkingu.

Aðrir punktar sem menn hafa bent á, með og á móti:
MEÐ: Hvalir éta fullt af fiski sem sjómenn gætu annars veitt.
Á MÓTI: Þungmálmar sem safnast fyrir í dýrunum eru sérlega óhollir fyrir fólk.

Niðurstaða: Þetta er spurning.

laugardagur, 21. október 2006


Manchester United - Liverpool

Á morgun eigast stórveldin við í ensku deildinni. Manchester United hafa byrjað deildina fáránlega vel eftir að Alx Ferguson gerðist svo djarfur í sumar að selja aðalmarkahrók liðsins, Ruud Van Nistelrooy, og ekki nóg með það, heldur fékk hann engan í staðinn fyrir hann. Það sem hefur hins vegar hjálpað M.U.-mönnum mikið nú í byrjun deildarinnar er að Ole Gunnar Solskjaer birtist allt í einu í byrjun leiktíðar eins og þruma úr heiðskíru lofti, eftir að hafa legið einhvers staðar meiddur í þúsund ár, og hefur farið á kostum, gamli melurinn. Louis Saha hefur einnig verið drjúgur í framlínunni. Liðið hefur staðið sig fáránlega vel miðað við mannskap.

Liverpool hefur hins vegar skitið upp á bak í byrjun leiktíðar í deildinni og er um miðja deild. Þó virðast menn þar smám saman vera að koma til og unnu þeir ágætan sigur á Bordeaux í Meistaradeild í vikunni. Liðið einfaldlega verður að sigra á morgun, en United mega við tapi.

Ég ætla að spá því að United fái sinn fyrsta skell á tímabilinu og tapi þessum leik 3-0. Sá spádómur er að sjálfsögðu mjög blandaður óskhyggju. Ég tippa á að annar hvor mestu hálfvita þess liðs (Wayne Rooney eða Rio Ferdinand) verði rekinn út af og það geri útslagið í skellinum mikla. Peter Crouch mun skora tvö mörk fyrir Liverpool en alls óvíst er hver smellir því þriðja.

Leikurinn verður í opinni dagskrá á SkjáEinum klukkan 12:00 á hádegi.

föstudagur, 20. október 2006

Mótmælendur hafa enga skoðun

Stórkostlegur maður birtist í Kastljósi á miðvikudaginn. Hann heitir Kristján Loftsson og er hvalveiðasinni og stórútgerðarmaður. Hann fór gjörsamlega á kostum. Það besta sem hann sagði var um mótmælendur. Þegar Sigmar spurði hann hvort mótmælendur hefðu ekki rétt á að tjá sína skoðun eins og aðrir svaraði Kristján:

"Þeir hafa enga skoðun á þessu...Ég get sagt þér sögu hérna, ég var einu sinni á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Glasgow og þar voru þeir með svona mótmælaspjöld fyrir utan, í tvo daga og svo labbaði ég þarna út með öðrum manni og við fórum svona aðeins inn í hópinn þarna og ég talaði við eina stúlku og spurði hana hvað hún segði um hvalinn og hún segir: "Já, nei, ég kom hérna bara af því að frænka mín á heima hérna í Glasgow og ég fékk frían miða með lestinni hérna norður..."

Kristján sagðist einnig vorkenna talsmönnum ferðaþjónustunnar sem væru á móti hvalveiðum og notaði m.a. orðin: "Ferðaþjónustan, alveg merkilegt lið sem þar virðist starfa."

BAMM! BÚMM! FLUGELDASÝNING! Mótmælendur afgreiddir í einni svipan! Þetta jafngildir troðslu í körfuboltaleik, home-run í hafnarbolta, holu í höggi í golfi, þrennu í fótboltaleik og rothöggi í boxi! Inn á þing með kappann!

Annars mæli ég eindregið með viðtalinu í heild, þetta er gullmoli.

Vakning í málefnum

Ein helsta tuggan í dag virðist vera að tala um vakningu í ýmsum málefnum. Það er næstum jafnútbreitt og orðið aðili sem fjölmiðlum er tíðrætt um. Eða hver kannast ekki við setningar sem þessar?:

 • Það hefur orðið mikil vakning í málefnum geðfatlaðaðra á undanförnum fimm árum.
 • Mikil vakning hefur orðið í málefnum hreyfihamlaðra síðustu misseri.
 • Gríðarleg vakning hefur átt sér stað meðal þjóðarinnar í málefnum fanga undanfarin áratug.
Alltaf einhver vakning út um allt. Spekingur mætir í viðtal í fréttunum og frussar út úr sér spakmælatuggum nútímans: "Aðilar...vakning í málefnum...gefandi starf...blablabla...". Hvers vegna þarf svona mikið af liði að þusa það sama?

Þessi tugga hefur snaraukist með hverju árinu síðustu ár. Talaði Hitler e-n tímann um vakningu? Vakning í málefnum gyðinga? Naa.

Hvernig virkar svo þessi andskotans vakning sem er allsstaðar grasserandi? Kannski svona: Brjánn vaknar og fær sér morgunmatinn, les blaðið og fer út í bíl og brunar í vinnuna. Hann er enn hálfsofandi, enda nývaknaður, stoppar á rauðu ljósi, augnlokin síga nokkuð og þá gerist það - BAMM! Vakning verður í höfðinu á Brjáni, hann kveikir á perunni: "Hau.. málefni geðfatlaðra". Vakning hefur átt sér stað. Nokkrum mánuðum síðar lýstur niður í höfuðið á Brjáni vakningu í málefnum aldraðra: "Vó, ég hafði aldrei pælt í þessu fyrr en núna, AUÐVITAÐ, málefni aldraðra!"

Á allt öðrum stað í bænum í næstu viku er Skúli í svipuðum sporum. Vaknar, fær sér að éta o.s.frv., stoppar á rauðu ljósi BAMM - vakning: "Aaaaa, málefni geðfatlaðra". Önnur vakning. Þannig gengur þetta áfram viku eftir viku, bíl frá bíl.

Niðurstaða: Burt með svona fúlar tuggur. Hættið að tala um fokking "vakningu".

mánudagur, 16. október 2006

Wolfmother

Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég mér frumburð áströlsku rokkhljómsveitarinnar Wolfmother sem ber heiti sveitarinnar. Þarna er á ferð lúxusrokkplata. Þó þarf hún tímann sinn til þess að síast almennilega inn. Þegar ég heyrði tvö lög plötunnar í útvarpinu fyrir nokkrum mánuðum, Woman og Dimension hélt ég að það væru klassísk rokklög með e-m gömlum hundum, þótt ég kæmi flytjanda engan veginn fyrir mig. Þau voru bara svo voða mikið þessleg. Bæði eru þau alveg dúndrandi góð.

Þessir menn ryðjast inn um dyrnar eins og stormsveipur, slíta hurðina af hjörunum, stökkva upp á borð, rífa upp hljóðfærin og svo bara rokk.*

Önnur lög sem vert er að gefa sérstakan gaum eru Love Train, White Unicorn, Whitchcraft o.fl.

Fyrir þá sem taka ekkert mark á mér og lýsa frati á minn tónlistarsmekk, mætti kannski nefna að hinn frægi Thom Yorke (söngvari Radiohead) hefur lýst mikilli velþóknun á hljómsveitinni. Þeir sem taka hvorki mark á mér né Thom Yorke í slíkum efnum geta etið það sem úti frýs.

*Ég varð að koma með einhverja svona fáránlega gagnrýnendaspeki.

Einkunn: 8,5.

[Annars er margt í gangi í músíkinni að venju. Hér væri kjörið að birta þurra upptalningu á vænlegum nýlegum lögum og flytjendum en ég nenni ekki að tína það til.]

laugardagur, 14. október 2006

Októberfest

Októberfest var betra en í fyrra, reyndar leiðinlegra þegar nær dró miðnætti. Þá var einkum troðningur, villuráfandi sauðir í leit að skemmtun (sem var engin í troðningnum). En áður en troðningurinn myndaðist var sveifla. Vísindaferðin í Landsbankann var líka ólgandi. Vel var veitt.

föstudagur, 13. október 2006

Ódýrt bensín

Fyrr í kvöld tók ég eftir að bensíntankurinn var tómur. Ég fór með kvíðahnút í maganum á næstu bensínstöð, því ég vissi að nú þyrfti ég að taka upp sjóði mína og pyngjur og sturta klingjandi gullinu á afgreiðsluborð samráðsmafíunnar.

Svo renndi ég að tankinum, tók fram dæluna og leit á verðið fyrir lítrann af 95 oktan, rúmar 116 kr. "Vá, ódýrt" hugsaði ég og mundi eftir að hafa séð töluna 132 á slíkum tanki fyrr á þessu ári. Glaður dældi ég bensíninu og fyllti tankinn, það gerðu samtals 4.632 kr. "Vá, ódýrt" hugsaði ég aftur "Ætli þeir séu með tilboð í dag?"

Fullkomlega sáttur rétti ég afgreiðslumanninum kreditkortið mitt. "Vá, sparnaður".

Þegar ég ætlaði að setjast inn í bíl aftur var eins og ósýnileg hönd slægi mig fast í hnakkann. Þá loksins áttaði ég mig, 116 kr. lítrinn er ekki ódýrt, það er svínslegt okur! Svona verður maður ruglaður þegar þessir andskotar hafa haldið verðinu uppi yfir öllum velsæmismörkum í mörg ár og gera enn.

Hér væri viðeigandi að klykkja út með spakmæli. En mér dettur ekkert viðeigandi spakmæli í hug.

Sjaldan launar kálfurinn ofeldið?
Árinni kennir illur ræðari?
Fíll í postulínsbúð?
Fleira er matur en feitt kjöt?
"Vér eplin með" sögðu hrossataðskögglarnir?

Nei, ekkert af þessu, ég er að leita að spakmæli sem á við til að enda þessa færslu en það finnst greinilega ekki.

miðvikudagur, 11. október 2006

Trylltur einstaklingur talar um öryggi

Í síðustu viku sá ég í fréttatíma að N-Kóreumenn hyggðust hefja tilraunir með kjarnorkuvopn.

Þegar Bogi hafði kynnt fréttina var fréttaþulur N-Kóreska ríkissjónvarpsins sýndur að tilkynna þjóð sinni tíðindin. Hann minntist eitthvað á að þetta væri til að auka öryggi landsins. Hann var rennsveittur og gjörsamlega trylltur að flytja fréttina. Ég er frekar skeptískur á tryllta einstaklinga sem tala um öryggi. Hvers vegna í ósköpunum var maðurinn svona trylltur? Ákvað hann sjálfur að hefja þessar tilraunir? Var hann logandi hræddur? Finnst honum sprengingar frábærar og eftirvænting hans kom fram sem tryllingur og sviti?

Í kjölfarið á þessu reyndi ég að ímynda mér fréttaþul íslenska Ríkissjónvarpsins tilkynna íslensku þjóðinni svipuð tíðindi. Bogi Ágústsson með andlitið logandi og gersamlega vitstola að tala um öryggi Íslands og kjarnorkutilraunir í sömu andrá. Þrátt fyrir íterekaðar tilraunir til að sjá þetta fyrir mér, tókst það ekki. Kannski er þetta nokkuð sem gerist bara í Norður-Kóreu.

Eins og þjóðhöfðingjar Kína, Japan, Rússlands, Bandaríkjanna, Frakklands og fleiri ríkja hafa gert, fordæmi ég kjarnorkutilraunir N-Kóreumanna.

mánudagur, 9. október 2006

Miðvikudagsseðilinn

Svona tippa ég á miðvikudagsseðil ÍG:
 1. Ísland - Svíþjóð 1/2*
 2. Liectenstein - Danmörk 2
 3. N.Írland - Lettland 1/x
 4. Belgía - Azerbaíjan 1
 5. Pólland-Portúgal 1/2
 6. Georgía - Ítalía 2
 7. Úkraína - Skotland 1/X
 8. Bosnía Herz. - Grikkland x/2
 9. Tyrkland - Moldavía 1
 10. Írland - Tékkland 2
 11. Slóvakía - Þýskalaland 1/2
 12. Króatía - England 1
 13. Lúxemborg - Búlgaría 2
*Þrátt fyrir að sigur Svía í þessum leik sé 99% öruggur er einfaldlega of fúlt að klikka ef hið ótrúlega gerist, að Ísland vinni.

sunnudagur, 8. október 2006

Vikuleg Spaugstofan

Eins og ég hef gert síðustu tvær vikur, ætla ég að blogga um Spaugstofuþátt vikunnar.

Spaugstofuþátturinn í gær var arfaslakur. 1-2 ágæt atriði, búið. Aumkunarverðar tilraunir til að gera grín að kakkalökkum á varnarsvæðinu hittu yfir markið.

Nú verður ekki bloggað meira um Spaugstofuna í vetur. (Lengi á eftir var ekki minnst á Spaugstofuna)

laugardagur, 7. október 2006

Landslið Íslands

Íslenska landsliðið í fótbolta er nú í Lettlandi að keppa við Letta. Þegar 20 mín. eru eftir af leiknum er staðan 4-0 fyrir Lettum. Enginn leikmaður Letta leikur utan Lettlands með félagsliði. Lettland lék að vísu á síðasta Evrópumóti, en það virðist hafa verið hálfgert slys því þar gátu þeir ekki rassgat.

Hjá íslenska liðinu leika flestir leikmenn sem atvinnumenn erlendis.

Niðurstaða:
Landslið Íslands mun aldrei komast á stórmót, ekki eftir 10 ár, ekki eftir 100 ár og ekki eftir 1000 ár. Það eru magnaðir hæfileikar. Íslendingar ættu að hætta að senda landslið sitt í keppnir. Æfa sig frekar bara hér heima í gamnibolta, glensi og gríni, vitleysu. Svo gætu þeir leikið sér í knattleik, eins og í fornsögum, með knött á svelli þar sem blóðið mundi renna. Þeir gætu sent Alþjóðaknattspyrnusambandinu bréf: "Við erum hættir. Bæ." og þar með væri landsliðið laust við að vera í þúsund milljónasta sæti á styrkleikalista FIFA og í staðinn bara einfaldlega ekkert verið á honum. Já, lausnin er fundin.

föstudagur, 6. október 2006

Staksteinar

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins (væntanlega Styrmir Gunnarsson) skrifaði um daginn um Keflavíkurgöngu herstöðvaandstæðinga fyrir mörgum árum:

 • Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska varnarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.

-
Já, þetta er rétt ef ég veit rétt. Svo:
 • Þeir gengu í þágu kommúnismans sem hrundi með Berlínarmúrnum
Jahá, ef menn gengu í mótmælaskyni við hersetu hér á landi, gengu þeir í þágu kommúnismans. Stórkostleg röksemdafærsla. Eða nei, ekki röksemdafærsla, fullyrðing - Stórkostleg fullyrðing. Nýjar upplýsingar!
 • Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
Daginn sem Keflavíkurgangan fór fram, hefur greinilega verið tveir fyrir einn tilboð fyrir mótmælendur: "Gangið gegn herstöðinni í Keflavík og þá er ganga til stuðnings við fjöldamorðingjann Stalín innifalin, tveir fyrir einn!".
 • Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrældóm.
Tilboðið gerist æ betra.
 • Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17.júní 1953.
Vá, ég vissi ekki að mótmælagöngur gætu haft svona svakalega yfirgripsmikinn tilgang. Reyndar virðast mótmælin gegn herstöðinni bara hafa verið brot af tilgangi göngunnar - aðallega hefur þetta verið stuðningsganga til stuðnings: Stalín, fjöldamorðum, þrælahaldi og kommúnisma.

Er þetta leið Morgunblaðsins til að ná til baka öllum þeim lesendum sem hafa snúið sér annað?

Neytendahorn

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur saxað verulega á Vífilfell á gosdrykkjamarkaði. Síðast þegar ég heyrði fréttir af stöðu fyrirtækjanna á markaði (sem var fyrir nokkrum mánuðum) man ég ekki betur en Ölgerðin væri komin með um 50% markaðshlutdeild á íslenskum markaði. Það hefði engum dottið í hug fyrir nokkrum árum.

Það verður að segjas alveg eins og er að Ölgerðin hefur haft mun betra auga fyrir góðum nýjungum en Vífilfell á síðustu árum. Kristall plús er dæmi um þetta. Sá drykkur hefur gjörsamlega slegið í gegn, maður sér fólk með þetta á hverju götuhorni. Kókdrykkja hefur að sama skapi minnkað hlutfallslega, sem er augljóslega af hinu góða. Ég mæli með bæði rauðum Kristal plús og fjólubláum, frábærir drykkir. Sá græni (með perubragði) er ekki vondur en skilur eftir of mikið eftirbragð. Held að hann seljist minna en hinir, rauði að sjálfsögðu mest. Ég tek fram að ég hef engar heimildir fyrir þessu, annað en það sem ég hef tekið eftir sjálfur og heyrt fólk ræða um.

Vífilfell hefur því um skeið verið eftirbátur Ölgerðarinnar í sódavatni. Toppur hefur einkum höfðað til sérvitringa. Drykkur með vondu sítrónubragði og langt frá því að vera ferskur. Á dögunum kynnti Vífilfell nýja gerð bragðbætts sódavatns, T2. Ég gaf T2 með sítrónubragði séns og þarna er loksins komið ágætt mótsvar við Kristal plús. Alls ekki sem verstur og sítrónubragðið mun ferskara en af hefðbundnum Toppi.

Niðurstaða: Sódavatn sem áður var drykkur sérvitringa og heilsfríka hefur haslað sér völl á almennum markaði með tilkomu vel heppnaðara bragðefna. Ég segi beint á erlenda markaði með Kristal plús og T2 gæti átt séns þar líka.

sunnudagur, 1. október 2006

Þvottafastar

Ég er ótrúlegur þvottameistari, skófla þvottinum í vélina, skelli hurðinni aftur og hviss bamm búmm stilli og ýti á takka og skrúfa frá vatni.

Þegar maður þvær þvott þurfa ákveðnir fastar að vera til staðar. Fastarnir eru sem hér segir:
 • x: setja óhreinan þvott í vél ásamt þvottaefni.
 • y: loka vél.
 • z: skrúfa frá vatni.
 • þ: stilla þvottakerfi vélarinnar eftir aðstæðum hverju sinni.
Helst þarf að framkvæma fastana í þessari röð og aðeins þessari. Klúður verður óumflýjanlegt ef röðinni er ruglað.

Ég þvoði þvott áðan og jafnvel þvottameisturum verður stundum á. Eftir tvo klukkutíma fór ég niður í þvottahús og ætlaði að hengja upp rjúkandi ferskan þvottinn en þá sá ég að ég hafði gleymt fasta z. Þetta kom sérstaklega flatt upp á mig. Hvaða áhrif skyldi þetta hafa á þvottaferlið í heild? Ég velti fyrir mér ýmsum mögulegum möguleikum:
 • A. Þvotturinn kynni að hafa legið óhreyfður í vélinni og jafn skítugur og áður
 • B. Þvotturinn kynni að hafa þvegist, en þó eingöngu með þvottaefni, engu vatni og að vera þannig mestmegnis þurr en þó löðrandi í þvottaefni.
 • C. Þvotturinn gæti verið þurr, samanbrotinn og hreinn í vélinni. Þessi möguleiki er mjög langsóttur.
 • D - Z. Aðrir möguleikar sem komu ekki upp í hugann.
Eftir að hafa velt fyrir mér möguleikunum slökkti ég á vélinni og reyndi að opna. Það var ekki hægt og túlkaði ég það sem viðbrögð vélarinnar við skorti á fasta z. Viðbrögð mín við því voru að skrúfa frá vatninu og stilla vélina upp á nýtt og viti menn, hún fór að þvo.

Ég mun fá niðurstöður þvottarins síðar í kvöld.

laugardagur, 30. september 2006

Minjasafn OR

Í gær fór ég í mína fyrstu vísindaferð í Háskólanum. Farið var í Minjasafn Orkuveitu Reykjavíkur. Þar voru léttar veitingar borðum, drykkjarkyns og matarkyns. Allt afar vel útilátið. Það lá við að maður finndi gamla manninn í sér og færi um þarna fjasandi "Eitthvað hlýtur þetta að kosta! Ekki hefur þetta verið ókeypis! Hver borgar þetta? Almenningur?". Nei, segi svona. Innpakkaðar rækjur gerðu gæfumininn.

Kynningin fór þannig fram að Stefán Pálsson sagði okkur að hann hefði ekki hug á að halda fyrirlestur með Power point og slíku eins og er víst viðtekin venja í svona ferðum. Þessi í stað bað hann fólk bara að spyrja sig ef það væri forvitið um eitthvað tengt safninu. Margir nýttu sér það.

Niðurstaða: Góð ferð.

Einkunn: 9,0.

Fýluferð

Ég er búinn að logga mig inn á Blogger og þá man ég ekki hvað ég ætlaði að skrifa. Þess vegna skrifa ég þetta. Maður verður að nýta ferðina hmm ha?

þriðjudagur, 26. september 2006

Síðustu mánuðir Hallans

Hin fræga sjoppa, Hallinn, lokar í desember. Þessi sjoppa hefur í gegnum árin verið stór hluti af því að vera í MR. Fyrir nemendur (og suma starfsmenn) Menntaskólans mun brotthvarf Hallans skilja stórt skarð eftir sig. Þarna hafa þeir komið og fengið sitt peppó og kók ótal sinnum, sumir jafnvel daglega og mætt hlýlegu viðmóti Möggu (og að sjálfsögðu Kidda áður en hann lést fyrir nokkrum árum).

Þótt flestir kúnnar Hallans hafi verið MR-ingar á sjoppan einnig aðra fastakúnna. Sumir koma þangað sérstaklega til að spjalla við Möggu, enda skemmtileg og góð kona með mikinn húmor. Sumir fyrrverandi nemendur MR hafa líka oft sést í Hallanum.

Síðan ég byrjaði í Háskólanum í haust hef ég tvisvar litið inn í Hallann og heilsað upp á Möggu og fengið mér peppó. Ekki hafa þær heimsóknir svikið frekar en fyrri heimsóknir þangað og án vafa mun ég líta oftar inn áður en sjoppan lokar. Hvet ég aðra fyrrum MR-inga til að drífa sig þangað líka því nú fer hver að verða síðastur.

mánudagur, 25. september 2006

Útsendarinn

Þegar maður hringir út kannanir fyrir Gallup virðist óumflýjanlegt að einn og einn viðmælandi telur mann vera spillingarbarn, útsendara Satans, strengjabrúðu markaðsráðandi afla og boðbera öxulvelda hins illa. Enn fremur telja þeir mann fjandsamlegan lífríki jarðar. Enginn þeirra hefur reyndar orðað þetta nákvæmlega svona, en það má lesa milli línanna.

Sumir sjá spyrla Gallup sem gullið tækifæri til að losa út margra ára innbyrgða reiði og einstaka sinnum er ég feginn að ekki hefur enn verið þróuð tækni til að bíta fólk í gegnum símtól. Svona tryllt fólk er reyndar afar fátítt en eðli málsins samkvæmt eftirminnilegra en aðrir. Á síðustu vakt lenti ég t.d. í tveimur öskrandi ljónum, en það er óvenjumikið.

Þeir sem eru merktir með rauðu x-i í símaskránni verða gjarnan óðastir: "HVAR FÉKKSTU ÞETTA NÚMER!?" "Hmm, það poppaði upp á skjáinn hjá mér" "JÁ, ÉG ER MERKTUR MEÐ RAUÐU Í SKRÁNNI!". Svo "skemmtilega" vill til að rauða merkingin gildir aðeins gegn símasölu, ekki könnunum. Þegar við segjum fólki þetta sefast það oftast nokkuð og getur ekkert sagt, ágætt að hafa þó reglurnar með sér í slíkum tilfellum. Einn maður fór í mál gegn Gallup vegna þess að hann var merktur með rauðu en fékk hringingu frá fyrirtækinu. Gallup vann málið, enda með réttinn sín megin.

Tenglar

Þessu bloggi hef ég fylgst með um skeið við umtalsverðan fögnuð, enda gríðarlega hnitmiðað. Nú hef ég bætt því við tengla hér til hliðar.

laugardagur, 23. september 2006

Spaugstofan fær uppreisn æru

Um daginn minntist ég á að síðasti þáttur af Spaugstofunni hefði verið óvenjugóður. Þátturinn í kvöld var afbragð, sá besti í mörg ár. Næstum öll atriðin voru fyndin og eins og alþjóð veit er það ekki daglegt brauð á þeim bænum. Engir fúlir Halldórs Ásgrímssonar-brandarar og samsærisgaurinn (leikinn af Erni) fékk bara örstutt klipp í lokin sem var ekki sérstaklega truflandi fyrir þáttinn í heild.

Þeir voru ótrúlega beittir, blönduðu saman málefnum líðandi stundar og öðru í glæsilegri fléttu. Nú er bara að bíða og sjá hvort þeir halda dampi eða hvort þetta þynnist út og verður sama gamla.

Veðurklúbburinn á Dalvík

Þegar ég vaknaði í morgun var það fyrsta sem mér datt í hug Veðurklúbburinn á Dalvík. Á ég að túlka þetta sem fyrirboða? Um hvað þá? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mér dettur eitthvað undarlegt í hug þegar ég vakna.

Þegar ég fór að velta Veðurklúbbnum meira fyrir mér mundi ég ekki eftir að hafa séð spá frá þeim á þessu ári. En Klúbburinn er ekki hættur því þegar ég sló honum inn á Google fann ég sumarspá frá þeim. Ég veit ekkert hversu sannspáir þeir hafa verið til þessa.

Veðurklúbburinn á Dalvík hefur markaðsráðandi stöðu á sínu sviði. Enginn annar veðurklúbbur er starfræktur á landinu svo ég viti. Nú er spurning hvort pláss er fyrir annan slíkan klúbb á markaðnum. Tækju neytendur honum fagnandi? Spárnar þyrftu að vera hnitmiðaðar og markmið fyrirtækisins að vera skýr: að spá alltaf rétt. Fara þyrfti eftir ströngustu gæðastöðlum og hafa gæðaeftirlit. Markviss mannauðsstjórnun og fagmannleg vinnubrögð yrðu að vera aðalsmerki slíks klúbbs.

Ég hef hugsað mér að stofna nýjan veðurklúbb. Það ætla ég að gera eftir 40 ár. Þangað til ætla ég að kynna mér markaðinn betur svo fyrirtækið verði eins vel í stakk búið til að mæta samkeppni og auðið er. Með aðstoð dyggra manna verður unnin slík hernaðaráætlun að annað eins mun aldrei hafa sést.

föstudagur, 22. september 2006

Lag dagsins

Muse - Supermassive Blackhole.

Annað var það ekki.

miðvikudagur, 20. september 2006

Tá og göngur

Ég nenni ekki að lesa níundu blaðsíðu af fjörtíu sem settar voru fyrir morgundaginn í bókinni The Globalization of World Politics um realisma og liberalisma, þótt nokkuð skemmtilegar séu. Því hef ég kosið að blogga.

Helginni eyddi ég fyrir norðan. Þar smalaði ég fé fyrir Einar bónda. Óvenjuvel gekk að smala þetta árið og aldrei þurfti ég að þvælast upp á fjöll, hóla eða hæðir utan minnar smalaleiðar. Þetta mátti einkum þakka norðangolu sem blés í fangið á smölum jafnt sem kindum. Kindurnar skynjuðu að veturinn var á leiðinni og voru því fúsar að fara heim á bæi. Við smölunina var allur nýjasti fjarskiptabúnaður notaður, margir höfðu farsíma og allir höfðu talstöðvar, allt þráðlaust.

Önnur stóra táin á mér hefur ekki verið til stórátaka undanfarið. Í göngunum versnaði hún töluvert og var orðin svo bólgin að ég gat ekki farið í skó á samsvarandi fæti. Þegar læknirinn í fjölskyldunni sá tána sagði hann að þetta væri hrikalegt að sjá (mjög inngróin tánögl og stokkbólgin tá) , hringdi tvö símtöl og græjaði þannig tíma fyrir mig í aðgerð á mánudeginum eftir helgi. Þetta græjaði hann þrátt fyrir að skurðlæknirinn, félagi hans, væri fullbókaður þann dag og hann sjálfur sennilega líka. Skurðlæknirinn var tilbúinn að hliðra einhvern veginn til í planinu svo ég kæmist að.

Á mánudaginn fór ég í táaðgerðina. Fjölskyldulæknirinn (sem er svæfingalæknir) deyfði tána og skurðlæknirinn skar. Allt gekk ljómandi vel og í miðri aðgerð tilkynntu þeir mér að aðgerðin yrði "on the house". Það var alveg ótrúlega höfðinglegt og rausnarlegt boð, sem ég þáði. Þeir voru báðir að vinna aðeins lengur en þeir áttu að gera, út af mér, og splæstu síðan aðgerðinni. Þetta kallast fyrsta flokks þjónusta. Sæmi ég þá félaga hiklaust höfðingjanafnbót.

Táin er á góðum batavegi.

þriðjudagur, 19. september 2006

Scoop

Scoop er nýjasta mynd gamla sauðsins Woody Allen. Hugh Jackman, Scarlett Johansson og Woody sjálfur fara með aðalhlutverk. Fínasta gaman/drama-mynd. Woody sér um brandarana, aðrir sjá um dramað.

Woody

Einkunn: 8,5.

mánudagur, 18. september 2006

Þjóðremba og hópsturlun


Magni:
Söngvarahæfileikar: 5.
Fyrir að vera íslenskur: 5.
-------------------------------
Samtals: 10.

Eiður Smári:
Knattspyrnuhæfileikar á alþjóðamælikvarða: 7
Fyrir að vera íslenskur: 3
-------------------------------
Samtals: 10.

o.s.frv.

Niðurstaða: Þegar Íslendingar hafa sig í frammi erlendis má alltaf beita þeirri einföldu reiknireglu að það sem vantar upp á hæfileika næst fram með því að þeir eru íslenskir.

Frétt

Spaugstofan er byrjuð aftur. Það er ekki fréttin, heldur er fréttin sú að ég hló upphátt að einu atriðinu í þættinum á laugardagskvöld. Atriðið snerist um Kínverjann Shaol-Shin-Ho sem hélt sjálfstortímingarnámskeið fyrir áhugasama. Þar fór hann yfir ýmis bellibrögð sem miðuðu að því að slasa sjálfan sig ásamt því að fara yfir íslenska almannabótakerfið. Óvenju beitt grín á Spaupstofumælikvarða.

Þarna var að sjálfsögðu vísað til kínverska verkamannsins á Kárahnjúkum sem fannst liggjandi í blóði sínu með mikla áverka einn morguninn fyrir skömmu í verkamannabúðunum. Fyrst var talið að einhverjir menn hefðu komið þar inn um nóttina og veitt manninum ærlega ráðningu af óþekktu tilefni. Næstu daga kom fram í fjölmiðlum að allar líkur voru taldar á að maðurinn hefði veitt sér áverkana sjálfur, sennilega til að reyna að fá bætur út úr tryggingum.

Það er þekkt staðreynd að aðbúnaður verkamanna uppi á Kárahnjúkum er til skammar, en er þetta ekki orðið ansi slæmt þegar menn eru farnir að lúskra á sjálfum sér til að fá tryggingabætur? Vonleysið í hámarki.

Að vísu hefur þessi tiltekni verkamaður sennilega verið sæmilega klikkaður.

mánudagur, 11. september 2006

Hæli

Ég lenti á einum frábærum viðmælanda í Gallup í kvöld. Spurt var hvernig fólki þætti allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa staðið sig. Þegar ég spurði um ónefndan ráðherra svaraði viðmælandinn:

"Jesús minn! Það ætti nú að vera búið að setja hann á hæli fyrir löngu!"

Ég er ekki frá því að ég hafi verið algjörlega sammála.

sunnudagur, 10. september 2006

Kæra dagbók

Blablabla.

Föstudagskvöld:
 • Nýnemaferð Politicu, félags stjórnmálafræðinema við HÍ. Lager bjór á lager. Opal fyrir þá sem ekki gátu svælt ógeðfelldum Lagernum og líka fyrir hina. Grillaðar pylsur, spurningakeppni o.s.frv.
 • Háskólatjaldið á Háskólatúninu. Sveifla ekki mikil, minnti á Októberfest á svipuðum slóðum í fyrra.
 • Poolbarinn í Skeifunni þar sem viðstaddir voru Einar Hallgríms, Davíð, Þórður, Hörður og Perla. Tapaði öllum mínum leikjum naumlega, nema þeim síðasta, sem ég vann naumlega.
 • Hitti Henrik og Einar Teit á Belly's niðri í bæ. Þar var Finni sem sagði við mig "Þú ert góður maður" í ótakmörkuðu upplagi.
 • Röltum um fleiri staði í bæ.
Laugardagskvöld:
 • Horfði á íslensku kvikmyndina Agnes með Henrik og Einari. Baltasar í hlutverki dólgsins Natans Ketilssonar og Egill Ólafsson sem sýslumaður og dólgur með meiru. María Ellingsen sem vinnukona, býsna brengluð í hausnum.
Sunnudagur:
 • Las eins og hestur í námsbókunum. Tók hlé inn á milli, sötraði kakó, sá og heyrði rigningu bylja á rúðunum og hlustaði á Súkkat.

laugardagur, 9. september 2006

Ísköld vatnsgusa beint í andlitið

Meira en áratugur er síðan Liverpool-menn hafa gert meiri væntingar til liðsins en nú. Leikmannahópurinn hefur verið bætur gríðarlega í sumar og hafa menn talað um hagsýnustu kaup deildarinnar (til samanburðar hefur efsta lið deildarinnar, Man. Utd. aðeins keypt einn mann í sumar og það á rúmar 20 milljónir punda, sem er allt allt of mikið fyrir þann mann).

Í hádeginu í dag lék svo Liverpool við nágrannalið sitt og annálað kúkalið, Everton. Liðið tapaði 3-0. Þetta er kaldasta vatnsgusa sem stuðningsmenn Liverpool hafa fengið í andlitið síðan ég veit ekki hvenær.

Væntingar til liðsins fyrir tímabilið hafa nú verið niðurfærðar úr því að spá þeim titlinum og í það að hrósa happi yfir að halda sæti sínu í deildinni.

Ég vona að leikmenn liðsins skammist sín fyrir afglöp dagsins og girði upp um sig brækur fyrir næsta leik og vinni hann sannfærandi.. Annað væri óboðlegt.

miðvikudagur, 6. september 2006

Kjarnorkukvendi

Sannkallað kjarnorkukvendi hélt til á einum skemmtistað borgarinnar um helgina. Á þessum stað vorum ég, Henrik og Einar staddir. Í einum sófa staðarins hafði kvendið helgað sér yfirráðasvæði.

Skemmtistaðurinn var frekar troðinn eins og gerist og ég stóð í smástund fastur við borð eitt sem var við yfirráðasvæði kvendisins. Stóð kvendið nú upp með látum og ýtti mér fólskulega úr vegi sínum, vatt það sér rakleiðis að pari sem sat í sófa á móti og lét nokkur högg dynja á manninum.

Leið nú nokkur stund, konan var aftur komin á sitt yfirráðasvæði og sat þar og deildi og drottnaði. Við drengirnir fengum okkur sæti í sófanum á móti yfirráðasvæði konunnar því sá sófi var nú laus. Við vissum ekki fyrr en konan var staðin upp, vatt sér að Einari, spurði hann hvað hann væri að gera með hálslút auk þess að spyrja hann til nafns, reif hann af honum klútinn og kýldi hann síðan af afli í bringuna. Fór síðan og settist aftur á yfirráðasvæðið sitt góða.

Niðurstaða:
Þessari konu ætti enginn að mæta:
 • í dimmu húsasundi.
 • í sjómann.
 • í reiptogi.
 • í glímu.
 • á skemmtistað.
 • úti á götu.
Hún gæti verið mikill fengur í landsliðið í knattspyrnu, hvort sem er karla- eða kvenna og jarðað andstæðinga sína. Að vísu væri hún vís til að jarða samherja líka.

sunnudagur, 3. september 2006

Thank You For Smoking

Myndin Thank You For Smoking hefur gengið afar vel í kvikmyndahúsum um allan heim. Þess vegna fór ég á hana með töluverðar væntingar. Hún stóð fyllilega undir væntingum og gott betur. Handritið er skothelt, ádeilan er hvöss og engum tíma er sóað í atriði sem ekki þjóna tilgangi við framvindu myndarinnar. Þar að auki er hún afbragðsvel leikin og myndatakan er vel útfærð. Myndin er í ofanálag þónokkuð frumleg.

Aðalpersónan Nick Naylor (Aaron Eckhart) er bisnissgaur sem hefur það frábæra starf að koma fram fyrir hönd tóbaksrisanna og verja þá með kjafti og klóm. Hann hefur sannfæringarkraftinn í lagi en er samt sem áður einn hataðasti maður Bandaríkjanna (skiljanlega kannski). Katie Holmes er klassagóð í hlutverki ósvífinnar blaðakonu og J.K. Simmons er framúrskarandi sem siðblindur yfirmaður.

J.K Simmons

Niðurstaða: Besta mynd ársins hingað til.

Einkunn: 9,5.

fimmtudagur, 31. ágúst 2006

Aumkunarverður smjörkúkur

Þegar tónlistarmenn endurgera lög og fara betur með þau en upprunalegir flytjendur er alltaf skemmtilegt. U2 náðu vinsældum með lagi sínu, One, á sínum tíma. Síðar endurgerði Johnny Cash lagið með góðum árangri. Hann gerði það algerlega að sínu og útgáfan er margfalt betri en sú upphaflega frá U2. Þetta sannreyndi ég með því að hlusta á útgáfu Cash og síðan U2 beint á eftir. Reyndar varð ég að slökkva á útgáfu U2 því ég fékk nóg.

Söngvarinn Bono hljómaði eins og slepjulegur aumkunarverður smjörkúkur að apa eftir gott lag sem hann hafði stolið úr höndum meistara og skemmt. Samt er hann upprunalegur flytjandi.

Annað sem ég tók eftir var hvernig merking textans breyttist eftir því hvora útgáfuna ég hlustaði á. Það var akkúrat engin merking í textanum þegar Bono gaulaði hann, en frá Johnny hljómaði þetta eins og speki. Gamalreyndur jálkur að þylja speki.

U2 er með ofmetnustu hljómsveitum heims að mínu mati. Sum lögin eru sæmilega grípandi við fyrstu hlustun, en síðan fær maður virkilegt ógeð af þessu ef maður hlustar oftar.

Annars var ég að fá mér einn disk enn í safnið með Johnny Cash, Ring of Fire: The Legend of Johnny Cash. Hann inniheldur m.a. Hurt, Get Rhythm, A Boy Named Sue, Folsom Prison Blues, Personal Jesus og fleiri meistarastykki. Aldeilis óhætt að mæla með honum.

Niðurstaða: Johnny Cash er klassík, U2 eru langt frá því.

miðvikudagur, 30. ágúst 2006

Englandsmeistarar vorið 2007

Liverpool. Ekkert annað lið kemur til greina. Chelsea verða slappari en í fyrra. Manchester United byrja mjög vel, en spilaborgin mun hrynja mjög fljótlega vegna þess að nokkuð vantar upp á breiddina (hvað ætla þeir að gera ef Rooney meiðist?). Arsenal byrja tímabilið frekar illa, en þó á ég von á að þeir endi í öðru sæti.

Spá fyrir fimm efstu:
 1. Liverpool
 2. Arsenal
 3. Manchester United
 4. Chelsea
 5. Tottenham.

þriðjudagur, 29. ágúst 2006

Shawashama kebab

Tók strikið niður Strikið í dag (Hefði höfundur Spurningar dagsins í Fréttablaðinu getað orðað þetta betur?). Eftir langan gang virtist segull í maganum leiða mig á lykt af kebabi. Ég rann á lyktina. Shawashama kebab. Orð sem enginn veit hvað þýðir og "kebab" skeytt aftan við. Hljómar ekki dónalega.

Ég gæddi mér á kebabinu og niðurstaðan er sú að kebab er vanmetnasti skyndibiti heims í dag. Þetta var frábært kebab. Hamborgarar, pítsur og Subway verða þreytandi til lengdar. Hví ekki að fá sér kebab í hádeginu og kebab á kvöldin? Súrmjólk í hádeginu, Cheerios á kvöldin er mjög vafasamur matseðill, en kebab, ja, hví ekki?

Það vantar aukið úrval af kebabi á Íslandi.

Áðan hjólaði ég á Fisketorvet. Hjólaði ég á kvenhjóli. Systir mín hjólaði á öðru hjóli. Það var rigning og myrkur og meinlegir skuggar og trukkur brunaði framhjá og skvetti vatnspolli yfir mig, ég lét hann heyra það, en hann heyrði ekkert, hann var farinn lengra út í rigninguna og myrkrið. Nú veit ég hvernig er að hjóla í Danmörku.

Neytendur

NEI:

 • Iceland Express.
 • Kringlan.
 • Smáralind.
 • Síminn.
 • Og Vodafone.
 • Prikið
 • Kaffibarinn.

JÁ:

 • Flugleiðir
 • Laugarvegur
 • Vinnufatabúðin
 • Strikið, Kaupmannahöfn
 • Sko, 0 kr. Sko í Sko fyrir öll númer.
 • Barinn.

laugardagur, 26. ágúst 2006

Flugferð með Iceland Express

Í fyrrakvöld tók ég flugrútuna frá BSÍ á völlinn. Ég var mættur nokkuð tímanlega fyrir átta klukkutíma seinkað flug mitt með Iceland Express. Rölti um brottfararverslunina í leit að æti. Fann nammipoka og tvo geisladiska. Við innritunina hafði ég verið sniðugur og beðið um sæti framarlega í vélinni. Ég fékk sæti 1F úthlutað, nokkuð gott.

Um 23:10 var farið að hleypa ferðalöngum um borð í vélina. Að vísu var tekið fram að sætin sem fólk átti giltu ekki, menn urðu bara að finna sér einhver sæti þegar komið væri í vélina, fyrstur kemur, fyrstur fær. Ha? Klúður? Ekki þó hjá Iceland Express? Ég fékk sem betur fer sæti sæmilega framarlega, en 1F? Neeeeei.

Áhöfnin reyndi að slá öllu upp í létt grín, sveiflaði framan í þreytt og pirrað fólk (sumir höfðu nefnilega eytt mestöllum deginum í flugstöðinni) þvílíkum hressleika að Hemmi Gunn gæti verið stoltur af. "Hva, átta tíma seinkun? Eru menn ekki bara hressir? Hohoho". Jamm. Ekki leið á löngu þar til allir voru sestir í sæti sín og gátu andað léttar, ja, allir nema einn, nú tilkynnti flugstjórinn í kallkerfið að einn farþega vantaði "Jeremías Sesar, er hann hér?" Ekkert svar. Jeremías Sesar (eða hvað sem hann hét, nafnið var a.m.k. eitt það heimskulegasta sem ég hef heyrt) var ekki mættur. Hann hafði sennilega guggnað á lokasprettinum eða sofnað á klósettinu. Hann var í það minnsta ekki mættur. Nú þurfti að losa allan farangur úr farangursgeymslum vélarinnar til að finna farangur mannsins og skilja eftir. Hálftíma seinkun í viðbót. Sumum eldri farþegum þótti það svolítið spaugilegt: "Hva, bara enn meiri seinkun? Haha". Ég veit ekki hvaðan þetta fólk fær svona frábært skopskyn. Jæja, þegar búið var að finna farangur Jermíasar og fleygja frá borði var hægt að hefja vélina á loft, loksins.

Þegar þarna var komið var ég við það að verða bandsjóðandi vitlaus á öllu þessu bölvaða kjaftæði. Ég íhugaði alvarlega að standa upp úr sæti mínu og hlaupa trylltur um vélina, brjóta allt og bramla innanstokks og garga eins og górilla. En þegar ég hugsaði aðeins lengra og sá sjálfan mig fyrir mig, dauðuppgefin eftir tíu mínútur af tryllingi, standandi í miðri vélinni og öll reiðu og/eða undrandi andlitin starandi á mig, þá hætti ég við. Reyndar snarjókst ergelsið aftur þegar ein flugfreyjan otaði breiðum bakhluta sínum gróflega í mig, næstum því í andlitið á mér. Mig fór að gruna að verið væri að spila með mig. Hvað þolir drengurinn mikið áður en hann tryllist gjörsamlega? Áhöfnin gerði líka tilraun til að friða farþega með því að deila út þurrum langlokum með skinku og osti og litlum drykk að eigin vali handa þeim. Vá! Þessi þurra langloka og vondi epladjús voru bara næstum því átta og hálfstíma tafarinnar virði! Þarna sat ég örmagna, japlandi á þurri skorpunni, búið að friða mig í bili. Reyndar sofnaði ég fljótlega eftir þetta eins og aðrir farþegar. Kannski hefur verið svefnlyf í drykkjunum, þeir kunna þetta, þessir þrjótar. Ég dormaði meira og minna alla leið, þar til við lentum á Kastrup. Það var klukkan rúmlega fimm. Nú tilkynnti flugstjórinn að ekkert hlið væri tilbúið fyrir vélina við flugstöðina, við yrðum að bíða í tíu mínútur eftir að önnur vél færi frá hliðinu. Mmm, meiri töf.

Klukkan var orðin vel yfir fimm að dönskum tíma og lestin mín góða frá Aðaljárnbrautarstöðinni átti að fara af stað til Álaborgar stundvíslega klukkan 6:00. Þetta var farið að minna ískyggilega mikið á bandaríska raunveruleikaþáttinn The Amazing Race. Ég steig út úr flugvélinni og gekk hröðum skrefum um ganga Kastrup, niður að færiböndunum til að bíða eftir töskunni minni. Ekkert var komið á skjáinn um flug mitt, FHE903 frá Keflavík. Þegar loksins komu upplýsingar um farangur þess flugs, þá stóð: "DELAYED". Gaman. Klukkan var orðinn 5:36 þegar ég fékk töskuna mína. Ég rauk út með hana, að lestasvæðinu fyrir utan. Reyndi að kaupa miða yfir á Aðaljárbrautarstöð í sjálfsala því afgreiðslan var lokuð, það gekk seint og illa, en gekk þó að lokum. 5:43. Ég fór niðu rúllustigann og á lestarpallinn. Þar stóð lest, ég leit á skjáinn, átti þessi lest að fara um Aðaljárnbr.? Já! Ég ætlaði að hlaupa í hana, en of seint, hún þaut af stað. Þetta var síðasta hálmstráið, næsta lest var væntanleg 5:56 sem var of seint til að ég næði lestinni minni inni á Aðalj.

Ég tók lestina 5:56 og hitti systur mína á Aðaljárnbrautastöðinni sem var þar mætt með miðana mína í lestina til Álaborgar. Þeir voru útrunnir svo við tókum lest yfir á stöðina í Sjælør (rétt hjá þar sem mamma og Nína búa). Þar keyptum við miða fyrir mig með næstu mögulegri lest til Álaborgar og fengum okkur að borða. Miðinn kostaði 4000 ISK aðra leið. Versta ferðalagi sem ég hef upplifað var loksins lokið.

fimmtudagur, 24. ágúst 2006

Aldrei aftur Iceland Express

Ég flýg því miður með Iceland Express til Kaupmannahafnar. Flugið átti að vera klukkan 15:30 en var seinkað um fjóra klukkutíma, til 19:30. Svo kíkti ég klukkutíma seinna á flugáætlun og þá er flugið áætlað kl. 23:30 í kvöld. Það gerir átta klukktíma seinkun. Ég ætla rétt að vona að ég eigi rétt á bótum frá þeim fyrir þetta. Ég þarf að ná lest klukkan 6:00 að dönskum tíma frá Kaupmannahöfn en það fer að verða tæpt að ég nái henni úr þessu.

Svo var ég að heyra af nokkrum sem hafa lent í sóðalegum seinkunum með félaginu upp á síðkastið.

Niðurstaða: Beinið viðskiptum annað en til Iceland Express. Lægra verð réttlætir ekki margra klukkutíma seinkanir.

miðvikudagur, 23. ágúst 2006

Sumarfrí

Sumarfíið mitt hófst í dag. Skólar eru víða byrjaðir eða að byrja. Margir eru að mæta til vinnu eftir frí. Einmitt þá fer ég í frí. Mér finnst ógeðslega gaman að þá verði margir í skóla og sumir jafnvel í harðri vinnu. Ég ætla að hlæja tryllingslegum hlátri hátt að því í flugvélinni á leiðinni til Danmerkur á morgun og syngja hástöfum eins og flugdólgur af því að það er lífið, er það ekki?

Svo kem ég aftur heim 30.ágúst og skólinn byrjar 1.sept.

mánudagur, 21. ágúst 2006

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta 2006

Mýrarboltamót var haldið á Ísafirði laugardaginn 12.ágúst. Keppendur voru rúmlega 200. Keppt var í kvennaflokki og karlaflokki. Bandýmannafélagið Viktor sendi lið til keppni sem var skipað svo:

Mark: Tómas
Vörn: Ég og Haraldur.
Miðja: Arnór.
Sókn: Þórður og Róbert.
Engir skiptimenn voru til staðar hjá okkar liði og það þótti sumum heimamönnum sniðugt. Í einum þriggja opnunarleikja mótsins tókum við á móti Kormági/Fúsíjama sem innhélt aðallega karla í súmóglímubúningum nokkurs konar. Sá leikur var haldinn á velli 1 sem var áberandi versti völlurinn á svæðinu og innihélt svokallaðan pitt. Pitturinn var kviksyndi í einu horni vallarins þar sem leðjan náði mönnum upp að hnjám og erfitt var um vik. Keppendur forðuðust að lenda á því svæði af skiljanlegum ástæðum. Leikurinn var nokkuð fjörugur, menn ýttu hraustlega hver við öðrum og lítið var gefið eftir. Úrslit leiksins voru 2-1 fyrir okkur með marki frá Þórði og öðru frá Arnóri. Þetta lofaði góðu fyrir framhaldið.
Róbert í baráttunni í opnunarleiknum. Mynd: Myrarbolti.com
Í næsta leik kepptum við við Langa Manga glommara og var sá leikur ágætur eins og sá fyrsti. Lokatölur: 0-0.
Í þriðja leik kepptum við gegn Gemlingunum. Þeir mættu allir með sólgleraugu og blindfullir (tekið skal fram að flestir keppendur drukku bjór á milli leikja og voru nokkuð léttir) og það sem meira var ofbeldisfullir. Bolabrögð þeirra voru slík að ég hef aldrei séð annað eins í íþróttum. Þeir hrintu okkur og toguðu niður sama þótt boltinn væri hvergi nærri og voru mjög dólgslegir almennt. Dómarinn sá ekkert athugavert nema þegar þeir skoruðu mark með höndinni. Þeim var einnig nokkuð í mun að láta koma fram að þeir væru hommaliðið á mótinu. Okkur gáfust lítil sem engin færi á að spila boltanum. Lokatölur: 0-1 fyrir Gemlingunum. Þessi leikur átti ekkert
skilt við knattspyrnu eða íþróttir yfirhöfuð.
Eftir þennan þriðja leik var okkur gjörsamlega misboðið og hættum keppni þrátt fyrir að eiga einn leik eftir í riðlinum og möguleika á að komast áfram. Þrátt fyrir að meira sé leyft í mýrarbolta en venjulegum fótbolta var of mikið leyft í þessum leik. Misræmi í dómgæslu var nokkurt á mótinu. T.d. sá ég annan leik þar sem dæmdar voru aukaspyrnur á fólskuleg brot enda ekkert vit í að láta menn komast upp með hvað sem er, því ef reglur eru engar verða alltaf einhverjir keppendur sem nýta sér það til hins ýtrasta.
Arnór í sveiflu. Mynd: Myrarbolti.com
Sem betur fer var lið Gemlinganna stöðvað eftir riðlakeppnina. Svo fór að lokum að áberandi besta lið mótsins vann, Englarnir. Þar léku menn nánast eins og þeir væru á góðum gervigrasvelli og létu þrususkot frá miðju dynja í netinu.
Lokahóf Mýrarboltans var haldið í skíðaskálanum fyrir utan bæinn. Þar voru sýndar myndir frá mótinu og næstum allur salurinn púaði á Gemlingana sem voru vel að því komnir. Kræsilegt hlaðborð var á boðstólnum fyrir alla þátttakendur.


Niðurstaða: Sjaldan hafa menn verið sáttari við að vera hreinir eins og eftir þetta mót. Maður var eitthvað svo frábærlega hreinn og kunni mun betur að meta það en venjulega. Engar líkur eru taldar á að Bandýmannafélagið sendi lið til keppni að ári. Samt sem áður var þetta ekki alslæmt, þarna komu menn saman og skilja siðmenntun eftir heima í einn dag. Líklega er öllum mönnum hollt að prófa slíkt.

fimmtudagur, 17. ágúst 2006

Auðfengnir peningar

Titillinn hljómar eins og auglýsingatölvupóstur með gylliboðum. En slíkt er langt frá hinu sanna.

Allir þeir sem eiga bækur sem þeir þurfa að losna við úr menntaskóla ættu að fara rakleiðis í Skólavörubúðina. Ef hægt er að tala um eitthvað byltingarkennt á skiptibókamarkaðnum ætti að nefna þá búð. Þar getur fólk selt gömlu bækurnar og fengið peninga fyrir, þ.e. seðla beint í lúkuna en ekki einhverja djöfulsins inneignarnótu. Ég nýtti mér þessa þjónustu í dag. Losnaði við slatta af glötuðum bókum og kom út með fulla vasa fjár. Ekki á hverjum degi sem maður fer í búðir og kemur út ríkari en þegar maður fór inn. Þeir tóku meira að segja tvær bækur sem ég hafði ekki getað selt í fyrra og árið þar áður. Höfnuðu reyndar tveimur bókum sökum aldurs.

Niðurstaða: Gróði.

Næst: Umfjöllun um Mýrarboltamótið síðustu helgi.

mánudagur, 14. ágúst 2006

Mótmælendur við Kárahnjúka

Mótmælendur við Kárahnjúka hafa verið í fréttum upp á síðkastið. Hafa þeir ítrekað farið inn á svæði þar sem mannaferðir eru takmarkaðar vegna hættu. Þeir hafa síðan kvartað sáran þegar lögregla hefur komið og fjarlægt þá.

Hvurs konar fíflalæti eru þetta? Þessir mótmælendur virðast vera að mótmæla eingöngu upp á sportið. Það er svo ægilega töff að koma til Íslands frá útlöndum og reisa tjaldbúðir rétt hjá framkvæmdasvæðinu. Lítum á staðreyndir málsins:

 1. Framkvæmdir við Kárahnjúka eru hafnar fyrir löngu. Úr þessu verður ekki aftur snúið, sama þótt nokkur fífl komi frá útlöndum, hlekki sig við vinnuvélar, fari inn á bannsvæði og annað þvíumlíkt.
 2. Mótmælendurnir fá ekki leyfi fyrir mótmælum frá lögreglu heldur mæta bara á staðinn. Er það töff? Er það líklegra til árangurs?
 3. Hvers vegna koma allir þessir útlendingar gagngert til landsins til þess að mótmæla framkvæmdum á hálendi Íslands? Þeir hafa nákvæmlega ekkert um ráðstöfun þessa lands að segja. Fólk búsett á Íslandi hefur um þessi mál að segja, aðrir ekki.

Ég ætla ekkert að þykjast vera hrifinn af framkvæmdum við Kárahnjúka, ég var á móti þeim í upphafi og er enn. Það var vitað hvernig þetta yrði, erlent skítaverktakafyrirtæki sér um framkvæmdina, flytur fullt af erlendu vinnuafli til landsins og býður þeim skítakjör og skítaaðbúnað uppi á hálendi. Íslenska ríkið kaupir framkvæmdina af þeim. Hins vegar eiga menn ekki að berja hausnum við steininn núna, það er einfaldlega allt of seint. Mótmælendurnir gætu kannski notað aðrar aðferðir næst og beint kröftum sínum að því að mótmæla álverum sem fyrirhuguð eru víðsvegar um landið.
LEIÐRÉTTING kl. 23:15.: Ég hafði skrifað "hlekkji" í stað hlekki. Það var æðislega heimskulegt.

fimmtudagur, 10. ágúst 2006

Veðurhorfur fyrir landið næstu daga (næstu vikur?)

Stöku súld á morgnana. Rigning um miðjan dag. Ausið úr fötu um kvöld og nætur. Alskýjað.
-------
Veðurspá fyrir landið næsta sólarhring:
Fagurhólsmýri, SSV 2, skyggni ágætt. Gengur á með éljum síðdegis en snýst síðan í hæhga breytilega átt.
Garðskagaviti, NNA 4, alskýjað með morgninum en hvessir síðan snögglega klukkan 17. Næturfrost.
Stórhöfði Mikið rok. Rigning.
Staðir þar sem einhverjar lifandi hræður finnast verða ekki tilgreindir í spánni.

laugardagur, 5. ágúst 2006

Afi sofa

Nú er ég kominn norður í land ættaróðalið Lón II í Kelduhverfi. Hér er hálf ættin stödd þessa Verslunarmannahelgi. Áðan fór ég upp í stofuna á efri hæðinni, þar sem ég hef svefnaðstöðu. Þegar ég opnaði dyrnar fékk ég létt aðsvif af skítafýlu. Þá var litli frændi búinn að skíta á sig og velta blómapotti. Afi hans og eftirlitsmaður við þetta tækifæri var sofnaður í sófanum. Stráksi tilkynnti mér: "Afi sofa!". Við það vaknaði afinn, fann skítafýluna, sýndi skjót viðbrögð og fór og skipti um bleyju á stráksa.

Ég missti af Sigur Rós í Ásbyrgi. Þeir spiluðu nefnilega í gærkvöldi og við komum ekki hingað fyrr en rúmlega ellefu svo það datt upp fyrir.

föstudagur, 4. ágúst 2006

Sigur Rós á Miklatúni 30.júlí

Lagði leið mína á útitónleika Sigur Rósar á Miklatúni á sunnudagskvöld ásamt félögum. Aðstæður voru eins og best verður á kosið, veður stillt og milt, ekki of heitt, ekki of kalt. Sviðið var til fyrirmyndar og hljóðkerfi að mestu í lagi. Upphitunarbandið Amina var allt í lagi, ekki mikið meira.

Eftir að Amina lauk sínu framlagi var djúpur tónn látinn glymja í hljóðkerfinu í tuttugu mínútur, þar til Sigur Rós steig á stokk. Þessi tónn hljómaði svolítið eins og dómsdagur væri kominn, en það reyndist ekki raunin. Hljómsveitin byrjaði og stóð sig framar mínum væntingum enda er ég ekki annálaður aðdáandi. Lagið Hoppípolla sem kom snemma í dagskránni var tvímælalaust hápunktur tónleikanna. Þá var myndbandið sem varpað var á skjáinn fyrir aftan mjög gott líka. Annars var ekkert sérstaklega merkilegt eða eftirtektarvert að gerast á sviðinu í öðrum lögum.

Systir mín horfði á smávegis af tónleikunum í sjónvarpi en slökkti vegna þess að hún þoldi ekki andlitsgeiflur Jónsa. Ég stóð nógu aftarlega til að greina ekki andlitin á sviðinu svo ég missti af því - sem var kannski ágætt.

Þar sem ég hef ekki mikið hlustað á hljómsveitina þekki ég ekki öll lögin. Ég þekkti þó lag sem ég veit ekkert hvað heitir en það fer þannig fram að Jónsi gaular í sífellu "Isæjjóóóóó" út allt lagið. Þótt það lag væri frekar einhæft skemmdi það ekki fyrir tónleikunum í heild sem voru framúrskarandi. Ekki spillti veðurblíðan og almenn ánægja tónleikagesta auk ferska útiloftsins og fínn félagsskapur. Ég segi með góðri samvisku að þetta voru bestu tónleikar sem ég hef farið á. Ég vil lýsa mikilli ánægju með framtak hljómsveitarinnar að fara túr um landið og halda ókeypis tónleika fyrir alla þá sem vilja. Ég hlakka til að sjá þá í Ásbyrgi um Verslunarmannahelgina.

Einkunn: 9,85.

þriðjudagur, 1. ágúst 2006

Ibiza!

Granni minn virðist vera partýljón. Í gær sá ég garðinn hjá honum og þá var búið að fjarlægja allt gras og fagurgulur skeljasandur kominn í staðinn í garðinn. Svo var sólstólunum raðað pent upp og strandboltarnir létu sig ekki vanta. Ég hugsa að ég kíki þangað í strandpartý fljótlega.

mánudagur, 31. júlí 2006

Umkringdur

Á tónleikum Sigur Rósar í gærkvöldi á Miklatúni lenti ég í nokkurskonar kviksyndi í mannhafinu. Þarna stóð ég fastur í þvögunni, umkringdur. Kjartan Bjargmundsson leikari stóð fyrir framan mig. Til hliðar stóð Japani nokkur og svo leit ég aftur fyrir mig og þar var Einar Kárason rithöfundur. Framan af tónleikum skiptust Japaninn og Kjartan á að byrgja mér sýn á sviðið. Aðstæðurnar sjást betur á eftirfarandi skýringamynd:

Ég varð eðlilega dálítið smeykur. Kjartan virtist ekki á eitt sáttur og leit illu auga aftur fyrir sig á mig og samferðarfólk mitt þegar við vorum að spjalla á meðan Amina var á sviði. Kjartan lét einnig mann sem kom og tróð sér fólskulega framhjá honum heyra það. Kjartan lét sig síðan hverfa um ellefuleytið ásamt samferðarfólki sínu. Og læt ég hér með lokið fregnum af Kjartani.

sunnudagur, 30. júlí 2006

Dýrgripur

Þegar ég tók svokallaða djúptiltekt (hreinsaði upp úröllum skúffum og skápum, sorteraði og henti fullt af rusli) í herberginu mínu um helgina fann ég frábæran dýrgrip sem ég hafði saknað, plötuna Frískur og fjörugur með Hemma Gunn. Nú verður ekkert gefið eftir í sveiflunni.

Nú þekkja orðið flestir lagið Einn dans við mig sem farið hefur eins og hvirfilbylur um partý landsins og tryllt lýð. Færri þekkja önnur dúndrandi partýlög disksins, Út á gólfið og Oftast úti á sjó. Hvet alla til að kynna sér þau lög og tileinka sér.

Auðlesið efni

Í gær var vinnugrill hjá Siggu.

Í gær var vinnupartý hjá Mása.

För endaði á Devitos og pitsa var étin.

Í gær var gaman.

Lestri tilkynninga er lokið.

fimmtudagur, 27. júlí 2006

Harmur

Harmur minn er á háu stigi núna. Belle & Sebastian eru sennilega í fullu fjöri á Nasa meðan þetta er ritað.

Ég reyni að hugga mig við að hlusta á disk þeirra á meðan, Dear Catastrophe Waitress. Einnig hef ég fundið huggun í fimm kílógrömmum af sætindum og gosi. Nú sit ég ég hérna skælandi með súkkalaði atað yfir munnvikin og tónlistina í botni.

Nei, gott og vel, síðasti hlutinn var ekki sannleikanum samkvæmt. Ég er ekki veikgeðja offitusjúklingur svo ég finn ekki huggun í sætindaáti á slíkum stundum. Ég ætti kannski að þakka þeim feðgum Guði og Jesúsi fyrir það. Nei, maður veit ekki.

sunnudagur, 23. júlí 2006

Punktar

Síðasta vika:
 • Fótboltamót Kirkjugarðanna. Töpuðum öllum leikjunum þremur, skoruðum eitt mark. Vorum þrátt fyrir þetta betra liðið í öllum leikjunum, vantaði markaskorara og betra skipulag.
 • Grilldagur í Hólavallagarði á föstudaginn. Kjöt og pylsur grillaðar. Fólk át á sig gat. Engin vinna eftir hádegi. Sólbruni.

Framundan í ágúst:

 1. Verslunarmannahelgi: Ferð norður í Lón að hitta afa og ættingja. Tónleikar með Sigurrós í Ásbyrgi. Ég er ekki aðdáandi eins og fram hefur komið áður, en þetta þarf ég að sjá. Hljómburður frábær í Ásbyrgi og stemming verður líklega í hámarki.
 2. 11. - 13. ágúst: Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta. Bandýmannafélagið Viktor sendir lið til keppni. Drulla verður vaðin upp að hnjám og við það blandast knattspyrna. Verður fróðlegt.
 3. 24. - 30. ágúst: Danmerkurferð. Nánari dagskrá auglýst síðar.

laugardagur, 22. júlí 2006

Fákeppni

Fákeppni ríkir á íslenskum markaði. Kaupmenn okra bæði á munaðarvörum og öðrum vörum. Þess vegna ber að fagna þegar ný fyrirtæki koma inn á markaðinn smáa og stuðla að samkeppni, með því að bjóða lægra verð en áður hefur tíðkast.

Mikil fákeppni (jafnvel verðsamráð) hefur ríkt á innlendum fjarskiptamarkaði þar til fyrir skömmu. Farsímafyrirtækið Sko haslaði sér völl á vetrarmánuðum. Fram að því höfðu fyrirtækin Síminn og Og Vodafone ráðið markaðnum. Verðmunur á símaþjónustu fyrirtækjanna tveggja var ekki sýnilegur. Þau hafa okrað svínslega á símtölum út fyrir eigin símkerfi, auk þess að rukka meira fyrir símtöl úr farsíma í heimasíma. Engin rök útskýra verðlagið á þeim þáttum.

Sé fyrirframgreidd símþjónusta fyrirtækjanna þriggja borin saman má sjá að Sko býður sms-sendingar á helmingi þess verðs sem hin fyrirtækin bjóða, eða 4,90 kr. Símtöl úr farsímum í þjónustu Sko kosta 14,90 sama hvert er hringt er í almenna símkerfinu innanlands. Til samanburðar má sjá verðlagningu hinna fyrirtækjanna á sömu þjónustu:

Síminn (farsímaþjónusta) - Frelsi
Símtöl í farsíma innan kerfis: 11 kr.
Símtöl í farsíma milli kerfa: 23 kr.
Símtöl í heimasíma: 23 kr.
SMS-textaskilaboð: 10 kr.

Og Vodafone (farsímaþjónusta) - Frelsi
Símtöl í farsíma innan kerfis: 10,90 kr.
Símtöl í farsíma milli kerfa: 23,10 kr
Símtöl í heimasíma: 22,60 kr.
SMS-textaskilaboð: 10,70 kr.

Fyrirtækin bjóða öll upp á þjónustuna Vinir, sem felur í sér að viðskiptavinir geta valið þann sem þeir hringja mest í hjá sama símfyrirtæki og hringt ókeypis í hann. Sko er frábrugðið keppinautum sínum tveimur að því leyti að öll þjónusta fer fram á netinu, til hagræðingar. Viðskiptavinir geta þó hringt í þjónustuver eða mætt á aðalskrifstofu félagsins, ef vandamál koma upp.

Niðurstaða: Sko fer með ótvíræðan sigur af hólmi í þessum einfalda verðsamanburði. Langlægsta verðið á farsímaþjónustu. Ég hef verið í viðskiptum við þá síðan í byrjun sumars og get fullyrt að inneignin er töluvert lengur að fara en þegar ég var hjá Símanum, þrátt fyrir að símnotkun mín á þessum tíma hafi verið meiri en mánuðina á undan.

Heimildir:

miðvikudagur, 19. júlí 2006

Matarkyns og drykkjarkyns

Samkvæmt svokölluðum EPG4-staðli má flokka mat og drykki í eftirfarandi flokka:
 • Viðbjóðsflokkur A
 • Viðbjóðsflokkur B
 • Viðbjóðsflokkur C (mildur viðbjóður),

þar sem viðbjóðsflokkur A geymir mestan viðbjóðinn, viðbjóðsflokkur B næstmestan og svo koll af kolli. Lítum nú á nokkrar vörur úr flokkunum þremur; í viðbjóðsflokki A eru t.d. ólívur, lundabaggar, sterkt áfengi, kæstur hákarl og gráðostur. Í viðbjóðsflokki B má finna vörur eins og hvítmygluost, kaffi, bjór, súrsaða hrútspunga og sterkkryddaðan mat. Flokkur C hefur að geyma áfengt gos o.fl. Öllum ætti að vera ljós hættan af flokki C þótt hann innihaldi minnstan viðbjóð flokkanna þriggja. Þar er gat í kerfinu, áfengi sem á að vera bragðvont smakkast eins og gos og jafnvel lítil börn þola bragðið vel. Þar hefur náttúruleg vörn áfengis gagnvart börnum vikið fyrir mildu og sætu bragði. Varúð!

Tökum nú dæmi af manni sem við köllum Kjartan. Fyrstu 13 ár lífs síns hefur Kjartan að mestu óskaddaða bragðlauka og þolir því ekki bragð af vörum úr flokki A og B. Næstu ár fer að halla á ógæfuhliðina og ungir og óreyndir bragðlaukar hans fara að skemmast (Sumir kalla slíkar skemmdir þroska en það er alrangt). Kjartan venur sig á að borða sterkkryddaðan mat og aðrar vörur úr viðbjóðsflokki B og þannig slæfir hann laukana dýrmætu. Þegar nær dregur tvítugu má greina veruleg hættumörk því Kjartan fer að gæða sér á vörum úr flokki A. Kjartan fær sér gráðost! Kjartan fær sér ólívur! Kjartan fær sér lundabagga! Nú er hann langt kominn með að eyðileggja bragðlauka sína og ekki verður aftur snúið. Kjartan er sokkinn ofan í kviksyndið og kemst ekki upp aftur.

Niðurstaða: Förum vel með bragðlaukana.

þriðjudagur, 18. júlí 2006

Superman returns

 • Superman kvennamálin.
 • Superman flýgur.
 • Superman bjargar heiminum.
 • Akkilesarhæll Superman: kryptonít.

  Niðurstaða: Superman snýr aftur.

  Einkunn: 7,0.

sunnudagur, 16. júlí 2006

Klassísk tónlist

Í gær vorum ég, nafni, Jósep og Bragi að ræða tónlist og hvaða hljómsveitir samtímans yrðu klassískar og drukkum bjór og með því (þar sem með því stendur fyrir romm og kók). Menn voru á eitt sáttir um að Radiohead yrði klassík, ekki náðist samstaða um aðrar sveitir.

Hljómsveitin Herman's Hermits var ein sú allra vinsælasta á sjöunda áratugnum. Fólk tapaði sér yfir iðandi smellunum. Lög á borð við No Milk Today, I'm Into Something Good, Something Is Happening o.fl. trylltu lýðinn. Blómaskeið þeirra er liðið og nú vita aðallega gamlingjar að þessi sveit hafi nokkurn tímann verið til. M.ö.o. getur hún varla talist klassík. Ég hef hlustað á kasettu með þeim upp á síðkastið og þeir eru bara nokkuð góðir, óttalega sveitó reyndar. Söngvari og forsprakki sveitarinnar, Peter Noone, hefur einstakt lag á að vera hálfvitalegur á myndum (kannski hálfvitalegur yfirhöfuð), eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Jói frændi er kátur í bakgrunninum.
Peter Noone


Að lokum mætti kannski nefna nokkur lög sem eru að gera það gott í dag:
The Strokes - You Only Live Once
The Strokes - Heart In a Cage
Yeah Yeah Yeahs - Gold Lion
Wolfmother - Dimension
Wolfmother - Woman
Red Hot Chili Peppers - Dani California

Fleira er ekki í fréttum.

laugardagur, 15. júlí 2006

Sjónvarpsmarkaðurinn lifir

Ég verslaði alltaf í stórmörkuðunum af því að ég hélt að það væri svo ódýrt...

En nóg um það. Um daginn kveikti ég á sjónvarpinu og ætlaði að gá hvað væri í boði. Það hef ég ekki gert í sumar nema þegar HM var. Ég sá RÚV. Þar var e-ð glatað. Ég sá SkjáEinn. Þar var e-ð glatað. Ég sá Sirkus. Óþarfi að taka fram, en þar var auðvitað e-ð glatað, veit ekki einu sinni til hvers ég var að gá. Svo stillti ég á Omega. Þar var Sjónvarpsmarkaðurinn. Ég hélt að hann hefði horfið úr íslensku sjónvarpi fyrir fullt og allt, en nei, Omega heldur túnni við hann.

Í mótmælaskyni við lélega dagskrá sjónvarpsstöðva horfði ég á heila auglýsingu, sem fjallaði um magaæfingatæki. Nú er hægt að gera magaæfingar með lítilli fyrirhöfn, ekkert álag á háls og bak og fólk tekur bara 100 æfingar eins og að drekka vatn. Kviðurinn verður eins og þvottabretti. Tækið er mjög plássfrekt, en það kemur ekki að sök því ekkert mál er að brjóta það saman og stinga því undir rúm. Ég veit ekki hversu mörg plássfrek tæki frá Sjónvarpsmarkaðnum virka þannig að þau má brjóta saman og stinga undir rúm.

Svo slökkti ég á sjónvarpinu, mjög sáttur, eftir vel heppnuð mótmæli.

mánudagur, 10. júlí 2006

Zidane-atvik, nýjustu upplýsingar

Samkvæmt nokkrum heimildum mun atburðarásin í grófum dráttum hafa verið þessi í úrslitum í gær:
 1. Materazzi tekur um Zidane og heldur honum traustataki. Materazzi klípur í geirvörtu Zidane.
 2. Zidane blótar Materazzi fyrir uppátækið. Materazzi svarar með fúkyrðum, lítilsvirðir móður Zidane og kallar hann síðan "dirty terrorist" (foreldrar Zidane eru frá Alsír).
 3. Zidane bálreiðist, gengur til baka að Materazzi og stangar hann niður.
 4. Dómari gefur Zidane rauða spjaldið eftir nokkra reikistefnu.

Niðurstaða: Zidane lét heimskingja æsa sig upp og missti stjórn á skapinu. Marco Materazzi á skilið a.m.k. nokkurra leikja bann. Zidane er hættur svo hans bann skiptir ekki máli.

UPPFÆRT:

Materazzi neitar að tjá sig um hvað hann hafi sagt. Neitar að hafa sagt "dirty terrorist" og segist vera fávís og ekki einu sinni vita hvað terrorist þýðir. Nú fást tvö tilvik:

TILVIK 1:

Materazzi veit ekki hvað "terrorist" þýðir. Niðurstaða: Materazzi er illa gefinn hálfviti.

TILVIK 2:

Materazzi veit hvað "terrorist" þýðir en lýgur því að hann viti það ekki í skjóli eigin fáfræði. Niðurstaða: Materazzi er illa gefinn hálfviti.

Nú gefa bæði tilvikin sömu niðurstöðu svo við höfum sannað að Materazzi er hálfviti. Q.e.d.

Snillingurinn verður hálfviti fyrir augum milljóna manna

Zidane hefur þótt einn sá alleiknasti með knöttinn í mörg ár, og rólyndismaður mikill. Hann endaði ferilinn með stæl í kvöld með því að gera sig að fífli að viðstöddu fjölmenni. Það sló þögn á múginn þegar Zidane mundaði höfuðið og stangaði síðan Marco Materazzi af öllu afli í brjóstkassann. Síðasta verkið á knattspyrnuvellinum. Þetta gerðist í lok framlegningar, og þá gerðist líka það að ég ákvað að hætta að halda með Frökkum í leiknum og fór að halda með Ítölum. Það er í fyrsta skipti og sennilega síðasta sem ég geri það í leik. Zidane á væntanlega ekki von á góðu frá fjölmiðlum. Var þetta uppsöfnuð reiði sem hann ákvað að hleypa út við þetta gullna tækifæri?

Nú liggur beint við að Zidane snúi sér að annarri íþrótt, nautaati, þar sem hann verður í hlutverki nautsins og Materazzi verður tálbeitan í stað rauða klútsins. Gæti slegið í gegn.

laugardagur, 8. júlí 2006

The Flaming Lips - At War With the Mystics

Ég hef oft heyrt fólk fara fögrum orðum um hljómsveitina The Flaming Lips en aldrei vitað hvað það væri fyrr en um daginn. Þess vegna gerði ég væntingar til nýjustu plötunnar, At War With the Mystics.

Platan fer af stað með leiðinlegasta "sumarsmelli" sumarsins, The Yeah Yeah Yeah Song, ég hef oft verið nálægt því að keyra út af þegar lagið hefur skyndilega glumið í útvarpinu í bílnum. Hræðilegt lag, falskur söngur og heimskulegur texti og alltaf í útvarpinu. Hvers vegna? Það veit enginn. Lögin sem á eftir koma eru ekki í sama stíl. Þau einkennast flest af því að hljómsveitin rembist við að vera listræn, sem kemur illa út. Greinilegur svipur er með lagasmíðum Pink Floyd og svo má heyra keim frá Sigurrós líka í sumu. Fyrri helmingur disksins nær ekki einu sinni að vera í meðallagi. Lag nr. 7, It Overtakes Me, er besta lag plötunnar og er lag upp á svona 8,0. Með því fara lögin skánandi á seinni helmingnum. Nr.9, Mr.Ambulance Driver, er gott meðallag eins og lögin fjögur þar á eftir.

Niðurstaða: Mikið meðalmoð, sem þir rífa sig uppúr í nokkrum lögum. Einkunn: 5,0.

fimmtudagur, 6. júlí 2006

Tjáningarfrelsi

Kolbrún Bergþórsdóttir virðist hafa lausan tauminn í skrifum á Blaðinu. Þar birtast smápistlar eftir hana daglega, held ég. Hún hefur skrifað mikið um HM að undanförnu. Grípum niður í pistil dagsins:

"Þýska liðið er einmitt lið sem Landsbankinn hefði styrkt hefði hann haft tækifæri til. Þar á bæ hefðu menn verið alveg vissir um að þeir væru að fjárfesta skynsamlega með því að ausa peningum í vinnusamt og samviskusamt knattspyrnulið sem teldu skyldu sína að skila sínu. Og sennilega væri það miklu skynsamlegri fjárfesting en að styrkja ítalska og brasilíska liðið þar sem menn eru ástríðufullir og tilfinningaríkir, en jafnframt dyntóttir og óútreiknanlegir eins og sannir listamenn eru svo oft"

Það er sama hvernig ég sný þessum pistli fyrir mér á alla kanta og reyni að sjá hann frá öðru sjónarhorni, ég sé ekki milligramm af viti, skemmtun, né innihaldi í honum.

Alltaf þegar ég rýni yfir þessa pistla velti ég þessu fyrir mér:

Er ekki kominn tími til að afnema tjáningarfrelsið eftir föngum?

miðvikudagur, 5. júlí 2006

Er BKI besta kaffi á Íslandi?

Það veit ég ekki, en þetta eru bestu myndasögurnar á netinu. Tengillinn er kominn aftur inn til hliðar eftir fjarveru.

þriðjudagur, 4. júlí 2006

Bakaríið

"Góðan daginn, ég ætla að fá eitt ciabatta" (skýrt og skilmerkilega sagt)
"Hva...ha?" (Af svipnum að dæma var hugurinn ekki við afgreiðslu, heldur ískalda kokteila í Karíbahafinu og sólböð og sjóböð og afslöppun undir kókospálma. Kannski ekki furða, þar sem 90% íslensks sumars hingað til hefur verið afar grátt og rakt.)
"Eitt Ciabatta takk"
"Ha...hva...já" (tekur Ciabatta og setur í poka)
"Fleira?"
"Já, eina litla léttmjólk takk"
"Það er ekki til"
"Jæja, einn epla-Trópi þá takk"
"Nei, þeir eru ekki til"
"Eigiði epla-Svala?
"Já" (tekur epla-Svala)

Held að hún hafi heyrt fæst orðanna sem ég sagði heldur hafi þau verið yfirgnæfð af ímynduðum gítartónum spanjóla á fjarlægum sólríkum stað.

Þegar ég var búinn að fá minn epla-Svala og mitt ciabatta sá ég gommu af epla-Trópi í skápnum aftan við afgreiðsluborðið. En ég nennti ekki að gera frekari tilraunir til samskipta við slíka afgreiðsludömu.

mánudagur, 3. júlí 2006

Nýjasta útspilið

"Góða kvöldið, Guðmundur heiti ég og hringi frá Gallup...". Aukavinna við að angra fólk. Maður fer varla fram á mikið meira. Að vísu angrast ekki allir við slíkar upphringingar, en þeir eru nokkrir.

laugardagur, 1. júlí 2006

Laugardagur

Í dag var haldin risaafmælisveisla Landsbankans. Sem hluthafi mætti ég að sjálfsögðu niður í bæ, fékk mína sneið af kökunni, fékk pylsur og drykkjarföng í tonnatali. Björgólfur splæsti.

Svo lá leiðin á Glaumbar þar sem Portúgal og England mættust í frekar bragðdaufum leik í 8-liða úrslitum. Englendingar komu þó á óvart með sínum besta leik á mótinu til þessa. Besti maður Englendinga var Peter Crouch, sem kom inn á sem varamaður. Ég verð að lýsa mikilli furðu með gríðarlegan stuðning íslendinga við enska landsliðið. Ástæður þess eru nokkrar:
#1: Enska landsliðið hefur verið ákaflega leiðinlegt á að horfa í þessu heimsmeistaramóti og unnið leiki þrátt fyrir að vera lélegra liðið.
#2: Enska landsliðið hefur á að skipa of mörgum fíflum í byrjunarliði til þess að réttlætanlegt sé að halda með því. Nefni sérstaklega í því samhengi Wayne Rooney (vonarstjörnuna sjálfa), Rio Ferdinand og David Beckham.
#3: Væntingar Englendinga til liðsins á þessu móti voru út í hött. Heimsmeistaratitill var talinn næsta vís, að vísu að því gefnu að "stjarnan" Rooney spilaði. Hvað gerist svo? Hinn mikli Rooney eyðileggur leikinn fyrir sínum mönnum með þeirri yfirgengilegu heimsku að traðka viljandi á pungnum á Carvalho. Það þýddi bara eitt: beint út af með manninn og vonarstjarnan sjálf endaði á að verða blóraböggullinn, vegna þess að hann getur ekki hamið skap sitt.

Í vítakeppni höfðu Portúgalir Ricardo, Englendingar Robinson, ansi ójafnt það og England tapaði enn eina ferðina í vítakeppni á stórmóti. Portúgalir eru til alls vísir, spái þeim í úrslit gegn Þjóðverjum.

Mánaðamótin eru komin og nú hafa jafnvel fátækustu námsmenn skyndilega sprúðlandi fé milli handa. Auðvelt er að verða eyðsludraugnum að bráð við slíkar aðstæður og skildu menn því varast hann sérstaklega.