sunnudagur, 30. maí 2004

Þá sleppi ég þessu bara

Nú er megavika svokölluð á Dominos. Fólk gleypir alveg rosalega við slíkum gylliboðum. Þá er örtröð á útibúum keðjunnar um alla borg. Ég fékk mér svona pizzu áðan. Það var röð út úr dyrum. Allt í einu kemur karl inn, fer fram fyrir röðina og segir: "Góða kvöldið". Afgreiðslustúlkan svaraði kurteislega: "Þú verður að fara aftast í röðina". Þá sagði karlinn "En ég er að sækja". Afgreiðslustúlkan svaraði "Já, þeir sem eru að sækja þurfa líka að fara í röðina". Karlinn sagði þá stuttaralega: "Nú, þá sleppi ég þessu bara" og fór síðan út í fússi. Þetta var spurning um fimm mínútna bið. En sumir eru yfir það hafnir að bíða í röðum. Miðað við hvernig þessi karl lét mætti halda að afgreiðslustúlkan hefði gert honum eitthvað, kannski kúkað í garðinn hans eða sprengt dekk á bílnum hans. Svona fýlupokar eru ótrúlega algengir.

laugardagur, 29. maí 2004

Pixies ollu vonbrigðum, Butterfly Effect ekki

Pixies á miðvikudagskvöld í Kaplakrika ollu vonbrigðum. Hljóðkerfi var alls ekki gott og Pixies sjálfir virkuðu bara þreyttir. Fyrsta lagið lofaði góðu en svo var þetta bara lélegt framan af, skánaði þó eftir því sem á leið. Of mikið af lélegum lögum og of mikið af krassi í hljóðkerfinu. Ekkert Dolby Digital THX þar á ferð. Þeir tóku svona u.þ.b. 10 af sínum frægustu lögum og unnu sér nokkra punkta á þeim. "Monkey Gone to Heaven" o.fl. Stemningin í salnum var samt ágæt, sérstaklega hjá dópistaliðinu sem dansaði eins og brjálæðingar. Mikil vonbrigði. Ég ætla reyndar ekki að gefa þessu eina stjörnu af fimm eins og gagnrýnandi Moggans. Það er of lítið. Aðrir stórtónleikarnir sem ég fer á. Fyrri voru Muse og þeir voru miklu betri.

Gef þeim sjö í einkunn.

Ætlunin var að sjá Touching the Void á fimmtudagskvöld. Hún var ekki sýnd á auglýstum tíma svo frá var horfið. Farið var á bensínstöð í Vesturbænum. Þar voru bíóauglýsingar skoðaðar í Mogganum. Afgreiðslukonan benti á eina myndina og sagði: "Þessi kom mér rosalega á óvart". Við tókum afgreiðslukonuna á orðinu og skelltum okkur á Butterfly Effect með Ashton Kutcher í aðalhlutverki. Ashton Kutcher hefur hingað til aðallega verið þekktur fyrir að vera hálfvitalegur í glataða gamanþættinum That 70's show. Í þessari mynd er hann ekki eins og hálfviti og kom það verulega á óvart. Þetta er fínasta mynd.

Gef henni 8,5 í einkunn.

þriðjudagur, 25. maí 2004

Skrýtnir vinnufélagar

Þótt ég sé ekki gamall maður hef ég víða komið við. Mér finnst stórmerkilegt hvað ég hef unnið með mörgum furðufuglum á stuttum vinnuferli. Ég hef nánast eingöngu unnið útistörf: Gatnamálastjóri, Vinnuskólinn, Skógrækt Ríkisins o.fl. Eitt sumarið var drengur að vinna með mér sem var alltaf að skera sjálfan sig til blóðs með rifnum gosdósum, glerbrotum og öðru tiltæku. Skýringin sem hann gaf á þessari hegðun var: "Ja, þetta er í rauninni bara mín leið til að sjá að ég sé lifandi". Áttum við að svara: "Já, allt í lagi, þá er þetta alveg eðlilegt"? Menn þurfa að vera ansi lítilfjörlegir ef þeir þurfa að skera sig til blóðs til að sjá að það sé lífsmark með þeim. Gaurinn hikaði heldur ekkert við að skera á púlsinn, skar bara hvar sem er í handlegginn. Hvað ef honum hefði nú blætt út þegar hann skar of mikið í vinnunni? Áttum við þá að segja verkstjóranum næst þegar hann kæmi: "Já, hérna...Jóa blæddi út þegar hann var að gá hvort hann væri á lífi. Hann var á lífi en hann er víst dauður núna". Frekar dýr staðfesting á lífsmarki.

Þessi gaur fer langt með að vera skrýtnasti maður sem ég hef unnið með.

Annars verður maður í vinnu á bækistöð 4 í sumar annað árið í röð. Alls konar fuglar þar.

laugardagur, 22. maí 2004

Esjuganga um hánótt og Haraldur vakinn

Á föstudag fyrir viku ætluðum við nokkrir strákar í fótbolta í Mosfellsbæ. Þar var víst iðagrænn og góður völlur rétt utan við bæinn. Bjarni kom og sótti mig og Tómas og vorum við ansi seinir fyrir. Hinir voru löngu mættir og búnir að spila drjúga stund vissum við. Nema hvað, við rúlluðum þarna niður í Mosó og fundum ekki völlinn. Reyndum að hringja í einhvern hinna en enginn svaraði. Við hringsóluðum þarna um á bílnum alveg heillengi. Svo loksins hringdi einn hinna og þá voru þeir bara hættir að spila. Við vorum nú ekki alveg á þeim buksunum að fara bara heim eftir þetta hringsól og rugl og ákváðum að það yrði að reyna að gera gott úr þessu. Klukkan var þá orðin eitthvað um 23:30. Við lögðum á planinu við Esjuna og veltum fyrir okkur hvað gera skyldi. Þá datt Tómasi í hug að labba upp á Esju. Okkur fannst það nú ansi vafasamt enda farið að skyggja. Féllumst þó á það að lokum. Gulli og e-r annar Kjalnesingur sem voru í fótboltanum fóru með okkur. Við röltum síðan af stað upp Esjuna, ekki mjög kunnugir aðstæðum. Gulli hafði reyndar farið þrisvar á toppinn. Þegar við höfðum rölt þarna upp ágætis spotta sögðust Kjalnesingarnir vera þreyttir og ætluðu niður aftur. Þeir ráðlögðu okkur að fara styttri og erfiðari leiðina upp á topp það sem eftir var leiðarinnar. Svo kom í ljós að þeir höfðu sent okkur yfir einhverja andskotans mýri þannig að við rennblotnuðum í fæturna. Það var bara örlítil skíma, enda vorum við einmitt á dimmasta tíma nætur, á leiðinni svo ekki sáum við mikið af glæsilegu umhverfi. Heyrðum bara í hrossagaukum og þess háttar. Komum loksins upp á topp, síðasti hlutinn var erfiður, þurftum að brölta í klettabelti. Við vorum reyndar bara ansi heppnir að drepast ekki þarna uppi því klettarnir voru sleipir. Skrifuðuum í gestabókina á toppnum. Svo fórum við bandvitlausa leið niður, renndum okkur niður stærðar grjótskriðu og svona. Það má telja hundaheppni að við komumst frá þessu lifandi og óslasaðir. Ég efast um að fjallgönguspekingar mæli með að menn brölti upp á Esju í myrkri, hvað þá menn sem auk þess þekkja ekki til. Við komum niður klukkan að verða þrjú.

Þá var stefnan tekin á Kjalarnes því ákveðið hafði verið að renna við í næturkaffi hjá Haraldi. Haraldur hafði e-n tímann sagt Tómasi að hann væri velkominn þangað hvenær sem er (væntanlega þá líka um hánótt). Það boð var að sjálfsögðu nýtt. Við renndum í hlað og læddumst meðfram húsinu. Vitað var að Haraldur svæfi með opinn glugga. Svo hvísluðu menn inn um gluggann "Haraldur" en það bar ekki árangur. Þá tók Bjarni nokkra smásteina og henti inn um gluggann í Harald sem svaf eins og steinn. Eftir dágott grjótkast vaknaði Haraldur loksins og reis upp. Svipurinn á drengnum var sá óborganlegasti sem ég hef séð. Sannkallað Kodak moment. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á því hvað væri að gerast. Hann hefur örugglega fyrst haldið að þetta væri mjög steikt martröð, þrír hálfvitar hlæjandi fyrir utan gluggann hjá honum og smásteinar í rúminu. Skilaboðin sem hann fékk voru mjög skýr: "Blessaður. Við Vorum uppi á Esju. Hleyptu okkur nú inn.". Haraldur lagði sig a.m.k. þrisvar sinnum í gluggakisunni á meðan hann var að melta þetta og átta sig á atburðarásinni. "Er ekki allt í lagi með ykkur?" sagði hann. Svipurinn óborganlegi var lengi að fara af honum. Hann samþykkti eftir nokkurn tíma að hleypa okkur inn. Við fórum að útidyrunum en heyrðum nokkur vel valin blótsyrði frá prestssyninum á meðan hann klæddi sig. Hann opnaði síðan útidyrnar og sagði okkur að vekja hvorki mömmu sína né pabba sinn. Við læddumst hljóðlega inn í stofu og Haraldur kom með Frissa fríska, kex og mjólk. Nú var hann almennilega vaknaður og ferskur og spjallaði við okkur í stofunni. Við þökkuðum Haraldi góðar móttökur og héldum aftur í bæinn.

Ég verð að viðurkenna að þetta er eitt mesta rugl sem ég hef tekið þátt í.

sunnudagur, 2. maí 2004

Tilvitnun dagsins 6

Einhver kúbani sagði þetta við okkur úti á götu í Havana:
"What can I you for do?"
Hvað áttum við að segja? Kannski "Aaa, þjónustufulltrúinn? Við áttum von á þér"
Alveg merkilegt hvað menn þarna reyna mikið að græða á ferðamönnum. Já, og ekki einu sinn talandi almennilega ensku. Orðaröðin ekki alveg á hreinu.

laugardagur, 1. maí 2004

Græddi á betlara

Kúbuferð 2004, fyrri hluti
Um páskana fór ég til Kúbu með mömmu og Nínu systur í átta daga. Kúba er flottasta land sem ég hef séð. Fyrst vorum við í Havana í fjóra daga á Mélia Hotel Habana Libre Tryp. Það var fínt hótel en þar fékk ég reyndar blóðugan kjúkling á morgunverðarhlaðborði hótelsins við litla hrifningu. Fyrsta daginn röltum við um borgina, niður að sjó og fleira. Ég hef aldrei séð jafnglæsilega borg og Havana. Glæstar byggingar með súlnagöngum, reyndar flestar að hruni komnar. Það var lítið um að húsum væri haldið við. Þau grotnuðu bara niður í friði og ró. Við eitt húsið var búið að stilla stærðar timburstalli til að styðja við það svo það hryndi ekki. Spurning hvort það hrynur ekki bara innan frá í staðinn. Við röltum með sjávarsíðunni og mættum nokkrum betlurum. Betlararnir byrjuðu einhverra hluta vegna alltaf á að spjalla við mig. Við keyptum einhverja Che Guevara mynt af einum betlaranum og þá varð ekki aftur snúið, sá næsti réðst að mér og ætlaði að leika sama leik og sá fyrri. Hann var gríðarlega kumpánlegur en talaði hræðilega ensku og skyldi ég lítið af því sem hann sagði. Hann talaði m.a. um hvað íslenska landsliðið í fótbolta hefði staðið sig frábærlega á einhverju móti. HA? Ég vissi ekki af því. En þessi kúbanski betlari vissi greinilega meira um það en ég. Svo hélt hann áfram að masa e-ð á illskiljanlegri ensku sinni og afhenti mér síðan kúbanska mynt og vonaðist pottþétt eftir að fá dollara í staðinn. Ég lét hann ekki hafa neitt og hélt bara áfram göngu minni og afrekaði ég þannig það að græða á betlara. Hann gat bara sjálfum sér um kennt, hann var of uppáþrengjandi. En síðan sneri hann sér bara að næstu túristum. Kúbupeningar eru bara notaðir af innfæddum og duga bara fyrir brýnustu nauðsynjum. Dollari er miklu meira notaður þarna og allt er verðmerkt í dollurum. Það var mjög sjaldgæft að hitta á fólk sem talaði sæmilega ensku, enskukunnátta innfæddra var í flestum tilfellum í lágmarki. Það var því slæmt að kunna ekki spænsku.

Það sem skemmtilegast var að sjá í Havana var lífið inni í íbúðahverfunum. Allt iðaði af lífi og mátti sjá drengi í boltaleik, fólk sitjandi á tröppum í e-u spili. Sumir voru bara að spjalla, þeir gömlu sem sáu sér ekki fært að taka þátt stóðu þá í staðinn uppi á svölum og fylgdust með. "Alejandro!" kallaði móðir sem vildi fá son sinn inn í matinn. Lífsgleðin í fyrirrúmi; sungið, dansað og spilað á hljóðfæri. Þrátt fyrir fátæktina sem er mikil þarna kann fólk að lifa lífinu á einfaldan og skemmtilegan hátt. Mér fannst líka frábært að ganga um götur Havana út af rólegheitunum, enginn var að flýta sér. Bílarnir á götunum voru eldgamlir amerískir kaggar, Moskvitz og Lödur. Hvílík snilld. Það var líka mikið um svokallaðar kókoshnetur, pínulitla opna leigubíla sem eru í laginu eins og kókoshnetur. Í Havana taka menn lífinu með ró og búðareigendum þótti ekkert tiltökumál að skreppa frá og loka búðum í svona hálftíma þótt þær ættu að vera opnar skv. auglýstum opnunartíma. Dýrkun fólks á byltingarhetjunni Che Guevara er gríðarleg og út um allt er krotað "Hasta la victoria siempre" (lifi byltingin) , "Viva Che" og fleira í þeim dúr. Ég keypti mér að sjálfsögðu tvo boli með myndum af kappanum. Ferðamannaiðnaðurinn er lifibrauð margra og sölumenn víða ansi uppáþrengjandi.