þriðjudagur, 27. júní 2006

Wolfmother

Klárlega hljómsveit sem þarf að kynna sér betur.

sunnudagur, 25. júní 2006

Tap

Svíar töpuðu verðskuldað fyrir Þjóðverjum og því var spá mín röng. Þeir verða ekki meistarar. Dómarinn átti hins vegar ekki að reka Lucic að velli glottandi, fyrir litlar sakir. Svo hefði Allback átt að byrja inn á í stað Zlatans. Enn fremur hefði Larsson átt að nýta vítaspyrnu sína. En þessum mistökum verður ekki breytt úr þessu. Ég reikna svo með að verða þjálfari Svía á HM að fjórum árum liðnum.

föstudagur, 23. júní 2006

Hættið á Skype

Sambandið á Skype er orðið hörmung þessa dagana, enda virðist hafa orðið sprenging í notendafjölda á örskömmum tíma. Ég man þegar það voru alltaf um milljón online á Skype í einu á árdögum þess, en nú eru oftast um og yfir sex milljónir og kerfið virðist ekki höndla fjöldann. Þess vegna eiga allir þessir nýju að hætta að nota Skype. Já, sniðugt.

fimmtudagur, 22. júní 2006

Tilefni

Ef einhver hefur lengi leitað að tilefni til að hætta með rafmagn og hita heima hjá sér, jafnvel fytja í moldarkofa, þá er það komið:

Nýja Orkuveituauglýsingin.

þriðjudagur, 20. júní 2006

Svíþjóð - Þýskaland

Næsta verkefni verðandi meistara verða sjálfir heimamenn í öllu sínu veldi. Erfiðasta verkefnið til þessa.

Jafntefli 2-2 við England í kvöld voru ekki ásættanleg úrslit. Eitt lið var á vellinum í síðari hálfleik og það lið heitir ekki England.

Ég hef ekki áhyggjur af sóknarleik Svía þrátt fyrir Zlatansleysið. Markus Allback stóð sig mjög vel í hans fjarveru í kvöld.

mánudagur, 19. júní 2006

Auðmjúkur starfsmaður

Ég lærði lexíu í vinnunni í dag. Að þykjast ekki vita eitthvað þegar gamalt fólk kemur í garðinn. Gamall maður kom inn í garð og sagði:
"Jæja, nóg að gera"
Ég: "Jájá"
G.m.: "Hann er nú býsna merkilegur, þessi garður"
Til að virðast ekki alveg áhugalaus ákvað ég að segja ekki bara "jájá" við þessari tilkynningu mannsins og svaraði:
"Já, hmm, elsti kirkjugarður í Reykjavík"
G.m.: "Neineineineinei! Þetta er ekki elsti kirkjugarður í Reykjavík"
Sjitt, nú hafði ég greinilega talað af mér.
Ég: "Nú?"
G.m.: "Nei, það er Fógetagarðurinn, sem var niðri í bæ, við Austurvöll, þar sem Landssímahúsið stendur núna, og hann náði alla leiðina út að Kirkjustræti, alveg frá grindverkinu við Landssímahúsið. Þar var Skúli fógeti jarðsettur. Hann stóð þarna þegar ég var smápatti. "
Ég: "Já"
G.m.: "Þessi garður er að vísu sá elsti sem stendur enn, en Fógetagarðurinn gamli kom samt á undan. Þú skalt fara þarna niður eftir að gamni og skoða þetta"
Ég: "Ég geri það"

Með það fór sá gamli. Nú hafði hann leitt eina unga sál frá vegum glötunar og fávisku. Ég fer svo þarna niður eftir á næstunni að gamni og skoða þetta.

Svo mun sjást til mín grandskoða Landssímahúsið og allt hið meinta svæði sem Fógetagarðurinn stóð á, og gott ef ég stika ekki bara svæðið og merki að gamni svo fólk viti nú hvar þessi merki garður stóð.
"Guðmundur, hvað í ósköpunum ertu að gera?"´
"Ég er að skoða hérna svæðið þar sem gamli Fógetagarðurinn stóð í gamla daga"
"Af hverju í ósköpunum?"
"Af því að einhver gamall gaur sem kom í kirkjugarðinn sagði mér að gera það að gamni"

sunnudagur, 18. júní 2006

S-Kórea

Ég fíla Suður -Kóreska landsliðið í botn. Þeir höfðu jafntefli gegn Frökkum í kvöld. Gaman var að sjá hinn samhenta her Kóreumanna spila, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þannig virkar það. Best af öllu hefði verið ef þeir hefðu skorað úr auaspyrnunni í lokin og sent Frakka heim.

Franska landsliðið er hins vegar aumkunarvert. Vanmatið, kæruleysið og sauðshátturinn í stöðunni 1-0 var með ólíkindum. Svo fékk Patrick Viera boltann inn í teig, var einn á auðum sjó en skaut lengst yfir. Zidane varð pirraður á mótlæti og hrinti Kóreumanni.

Niðurstaða: Burt með skíta-Frakka úr keppninni sem fyrst. Ekki meira af metnaðarleysi og vanmati. Ekki fleiri tilraunir til að lifa á fornri frægð. Áfram Suður-Kórea.

laugardagur, 17. júní 2006

Óvænt

Óvænt úrslit hafa verið afar fátíð í HM til þessa. Í dag bættist úr því þegar Gana vann Tékka. Þess má geta að Tékkar virtust ógnarsterkir og jafnvel líklegir hemsmeistarar í fyrsta leik. Ég sá ekki leikinn því ég var staddur í Laugardalshöll. Þar töpuðu Íslendingar fyrir Svíum en þó voru það heimamenn sem fögnuðu í leikslok en Svíar létu sig hverfa.

föstudagur, 16. júní 2006

Grámi

Sumarið virðist vera að renna saman í einn langan gráan og votan dag. Samt er ágætt að vinna úti.

þriðjudagur, 13. júní 2006

Siður

Ég hef þann undarlega sið að þegar ég þarf að gera eitthvað ákveðið á netinu, gleymi ég því og fer að vafra eitthvað allt annað. Dæmi: Ég kveiki á tölvu og hyggst fara í einkabankann. Atburðarásin verður þessi:
  1. Kveiki á tölvu.
  2. Fer á net.
  3. Fer inn á fotbolti.net og skoða blogg, vafra síðan áfram einhverja vitleysu og veit ekkert hvað ég er að gera.
  4. Slekk á tölvu.
  5. Man nokkrum mínútum síðar að erindið var að fara í einkabankann.

Ef ég ætti að gefa sjálfum mér ráð til að bæta úr þessu, segði ég: "Einkabanki gengur fyrir, svo hitt". Þetta voru netheilræði dagsins.

mánudagur, 12. júní 2006

Partý

Á laugardagskvöldið var Mási með fínasta vinnupartý. Betra en fyrsta vinnupartý sumarsins, sem var um síðustu helgi. Líklega munu þau fara stigbatnandi eftir því sem á líður sumarið. Eftir partýið var rambað niður í bæ á Barinn. Þar var þó nokkuð góð stemming eins og í fyrri skipti. Iðandi líf var á götunum og flestir í sveiflu. Elvis er greinilega ekki dauður og lét sig ekki vanta. Þvaðraði hann einhverja vitleysu.

Á Austurvelli hitti ég síðan gamla félaga ofan úr sveit sem ég hafði ekki séð í a.m.k. fimm ár held ég. Gríðarleg stemming, rætt um gamla tíma og slíkt og fólkið í sveitinni og heima og geima.

Skemmtilegasta bæjarferð lengi, að vísu var bæjarferðin á útskriftarkvöldið líka frábær.

Tékkar mæta sterkir til leiks á HM. Sigurkandídatar? Nei. Svíar sigra. Sú spá stendur óhögguð þar til annað kemur í ljós.

laugardagur, 10. júní 2006

HM-leikur

Déskoti er þessi mynd snúin. Ég er búinn að átta mig á 17 mönnum af 24. Hinir eru eflaust einhverjir sem ég ætti að þekkja en átta mig ekki á. Ekki viss með Messi og Buffon. Kannist þið við kauðana sem upp á vantar?
  1. David Beckham
  2. Zinedine Zidane
  3. Wayne Rooney
  4. Ji-Sung Park
  5. Lionel Messi?
  6. ?
  7. Luis Figo
  8. ?
  9. ?
  10. Ronaldo
  11. Pavel Nedved
  12. ?
  13. Francesco Totti
  14. Thierry Henry
  15. ?
  16. Zlatan Ibrahimovic
  17. Frank Lampard
  18. ?
  19. Michael Owen
  20. Ronaldinho
  21. Steven Gerrard
  22. Arjen Robben
  23. Gianluigi Buffon?
  24. Fabien Barthez

föstudagur, 9. júní 2006

Tónleikar

Uppselt er á Belle & Sebastian tónleikana á Nasa og ég hafði ekki svo mikið sem grænan grun um að miðar væru komnir í sölu. Það er gjörsamlega óþolandi. Þetta voru einu tónleikarnir sem ég vissi að ég ætlaði á í sumar.

Og ég hef ekki hugsað mér að kaupa miða á tónleika þeirra á Borgarfirði eystri. Það væri svipað ferðalag og að fara til útlanda.

Háskóli Íslands hefur samþykkt umsókn mína.

mánudagur, 5. júní 2006

Nauthólsvík, Öskjuhlíð, Fossvogur og Skerjafjörður

Í dag fór ég í minn annan væna hjólreiðatúr. Hugmyndin var að hjóla hring um Skerjafjörðinn en hún var útvíkkuð og ákvað ég að bruna beint yfir í Fossvog líka.

Þegar ég var í Fossvoginum á sprúðlandi ferð upp 40° halla, gleiðbrosandi aftur fyrir hnakka og golan kyssti kinn, varð mér bylt við því allt í einu heyrðist "PihvissTVEING!". Ég vissi ekkert hvað var á seiði, en viti menn, það var hnakkurinn, allur skakkur og skældur og boginn í keng. Ég tók mér nokkrar sekúndur til að velja blótsyrði af alúð og natni. Blótsyrðin ruddust síðan fram hvert af öðru og dundu á hnakkinum. Nú hringlaði hann losaralegur og aumkunarverður þarna efst á hjólinu. Hann átti ekki skilið að vera svo háttsettur fyrir þetta uppátæki.

Ekki hafði ég með mér lítið verkfærakitt, svo ég varð að skrönglast á jálkinum heim aftur í þessu ástandi. Engum blöðum var um það að fletta að hnakkurinn skemmdi á mér bakið á leiðinni heim og brotin kvörnuðust úr mjóhryggnum.

Ég var mjög sáttur að ferðinni væri lokið þegar ég renndi heim í hlað klukkstund síðar.

Halli og Laddi

Hver man ekki eftir grínplötunni Fyrr má nú aldeilis fyrrvera með Halla og Ladda. Þar er augljóslega safngripur á ferð. Atriði sem inniheldur:
Ingibjörg "Haraldur! Haraldur! Haraldur!"
Haraldur: "uh,... INGIBJÖRG!"
eða Ó mig langar heim til Patreksfjarðar að ógleymdu Royi Rogers. Sveiflan í fyrirrúmi.

laugardagur, 3. júní 2006

Tímamót

Skólagöngu minni í MR er nú lokið. Á næsta ári tekur við Háskóli Íslands. Þúsund sinnum hef ég skipt um skoðun hvað varðar framhaldið en lokaniðurstaðan er HÍ næsta haust.

Stúdentsveislan var ágæt og gaf vel í aðra hönd. Einkum ber að nefna reiðhjól og sjónvarp sem munu koma sér vel, hvort á sinn hátt. Annað mun ýta undir kyrrsetu, hitt hreyfingu.

Vinnan í Hólavallagarði er hafin. Nýtt fólk er komið til starfa í bland við gamlar kempur. Fyrstu dagarnir hafa einkennst af dumbungi og laufrakstri. Sól hefur aðeins sést. Í næstu viku hefst sláttur með splunkunýjum sláttuorfum.

Áðan hjólaði ég út að Gróttu og hring meðfram strandlengjunni og inn á Nes. Tíminn var góður, 35 mín. Veit ekkert hvað það voru margir kílómetrar. Kríur gögguðu og mávar görguðu mjög þegar ég átti leið um yfirráðasvæði þeirra.