sunnudagur, 30. janúar 2005

Mjólk í nýjum umbúðum

Gott framtak hjá Mjólkursamsölunni að breyta umbúðum mjólkurinnar. Nýjar Muu fernur. Það besta við umbúðirnar er að nú má sjá alkóhólinnihald mjólkurinnar. Á léttmjólkurfernum stendur t.d. Léttmjólk 1,5% þannig að hún er með lægri alkóhólprósentu en venjulegur pilsner. Nýmjólkin er öllu áfengari, Nýmjólk 3,9%. Þessi lága áfengisprósenta er til þess að börnin geti drukkið hana. Nýmjólkin er af sama styrkleika og léttur bjór.

Tvö glös á dag alla ævi er enn í fullu gildi. Ekki þykir ráðlegt að hvetja börnin til meiri drykkju því kennarar og foreldrar vilja ekki að börnin séu mikið hífuð eftir nestistíma í skólanum.

Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja framleiðslu á Þungmjólk 18,2% og "Svona fullorðins" mjólk 40% fyrir eldri og lengra komna en hún yrði þá seld í Vínbúðum. Gallinn við slíka framleiðslu er að viðkvæmar sálir færu þá sjálfsagt að kvarta undan öllum mjólkurauglýsingum vegna þess að þær væru duldar áfengisauglýsingar.

fimmtudagur, 27. janúar 2005

Önnur ræða úr 3.bekk


"Málefni innflytjenda á Íslandi

Ég ætla byrja á því að segja ykkur stutta sögu:

Einhvern tímann þegar ég var á ferðalagi um Ísland lagði ég leið mína inn í ónefnda sjoppu á norðurlandi. Þar afgreiddi tælensk kona. Ég bað um Appolo-lakkrís, en hann var staðsettur fyrir miðju í langri nammihillu. Þá gekk sú tælenska rakleitt út í enda á nammihillunni, benti á Prince Polo og sagði: ?Þessi?? Og ég sagði: ?Nei, ég ætlaði að fá Appolo-lakkrís?. Þá benti hún á næstu sælgætistegund: ?Þessi?? Og ég sagði: ?Nei, lakkrísinn er þarna? og benti. Þá sagði hún ?Aa, þessi?. Og ég sagði: ?Já, mikið rétt?. Það var greinilegt að hún kunni ekki mikla íslensku, og þá fór hún bara í svona gátuleik við viðskiptavinina.

Þetta er sennilega óvenju slæmt tilfelli, en sýnir þó að íslendingar mættu gera meira af því að kenna nýbúum íslensku.

Íslendingar hafa tekið við flóttamönnum og það er ekkert nema gott um það að segja. Fyrir nokkrum árum var stríð í Kosovo og íslendingar tóku við flóttamönnum þaðan. Þessum flóttamönnum var úthlutað húsnæði og vinnu á Sauðarkróki og fleiri stöðum úti á landi. Þegar íslendingar vilja ekki lengur búa úti á landi og flytja í stórum stíl á höfuðborgarsvæðið er þetta auðvitað lausnin: að taka við flóttamönnum og senda þá út á land, vegna þess að þeir taka hverju sem er í staðinn fyrir stríð í heimalandi sínu.

Hugsum okkur hjón í Palestínu, sem ég ætla að kalla herra X og frú Y. Þau sitja heima hjá sér og horfa út um gluggann. Þau sjá Ísraelsmenn sprengja hús nágrannans. Þá segir herra X við frú Y: ?Okkur var bara að berast tilboð frá Íslandi? ?Já, lát heyra? ? Já, það er ódýrt húsnæði og vinna í fiskvinnslu á Kópaskeri? ?Já, við erum opin fyrir öllu?. Og svo drífa þau sig með næstu flugvél til Íslands og hugsa á leiðinni, að þeirra bíði bjartari tímar á Kópaskeri.

Guðmundur Friðrik Magnússon 3.E"


þriðjudagur, 25. janúar 2005

Peppó og Ull

Mikið hefur verið brugðið á leik í Hallanum upp á síðkastið. Magga hefur mikið verið í gríninu og höfum við bekkjarbræður m.a. afgreitt þar. Um daginn var til að mynda ómetanlegt grín þegar Magga ætlaði í hanskann sem er hreinlætisvottaður af heilbrigðiseftirlitinu til að afgreiða bland í poka handa Hermanni máladeildardreng. Vildi þá ekki betur til en svo að hún setti nammið óvart í hanskann og afhenti Hemma. Hlógu síðan allir að þessu hrossahlátri.

Fyrir jól keypti ég geisladisk á 1000 kr. sem er frekar lítið, þá sérstaklega miðað við gæðin. Þetta var Ull með Súkkat og fékk ég hann í Hallanum. Skotheld skífa. Gef henni hiklaust 9,3 í einkunn. Úrvalstextar. Diskurinn er góður við öll tækifæri. Fullkominn staður og stund til að hlusta á þennan disk væri samt akandi í eldgömlum Land Rover yfir vonda sveitavegi á leið í veiði í einhverri á.

Hverjum er ekki DJ?

Quiz Me
Guðmundur spins tunes as
DJ Dangerous Gun

Get your dj name @ Quiz Me


mánudagur, 24. janúar 2005

Lífsleikni - Draumastarfið

Um daginn var hreinsað til á gömlu tölvunni og flutt yfir á þá nýju. Fannst þá ræða sem ég flutti í lífsleikni í 3.bekk í MR. óttalega vafasamt. Var hún svona:

"Draumastarfið

Mig hefur alltaf dreymt um að verða kokkur. Það sem heillar mig við kokksstarfið er einkum það að ég held að maður þurfi ekki mikið að hugsa í því starfi. Það þarf engar djúpar pælingar. Maður er bara í góðu glensi að malla eitthvað á pönnu eða í potti, og getur farið eftir uppskriftum eins og maður vill, og mestu áhyggjurnar eru þær að maður brenni eitthvað við. Helsta fyrirmynd mín sem kokkur er að sjálfsögðu sjónvarpskokkurinn mikli, Siggi Hall, sem virkar alltaf eins og hann sé fullur. Enda er hann það örugglega. Maður sér hann fyrir sér, vera að elda eftir einhverri uppskrift. Svo stendur í uppskriftinni: ?bætið við koníaki eftir smekk?. Þá tekur hann fram stóra koníaksflösku og hellir nokkrum dropum á pönnuna, og svolgrar svo afganginum í sjálfan sig.

Starfið hentar mér vel af því að ég er góður í að sneiða sveppi. Starfið gefur góða tekjumöguleika ef maður stendur sig vel og vinnur á góðum veitingastað.

Starfið hefur gríðarlegt gildi fyrir þjóðina, þegar hún vill losna við að elda og borða góðan mat. Hinsvegar fylgja nokkrir ókostir starfinu, og þá aðallega vondur vinnutími, þar sem mest er að gera á kvöldin og um helgar. Svo geta verið gestir á veitingastaðnum, sem eru sínöldrandi af því að þeir hafi beðið 2 klukkutíma eftir matnum sínum (sem gerist stundum þegar kokkurinn er búinn með nokkrar koníaksflöskur), eða af því það sé fluga í súpunni þeirra, og þeir heimti að fá endurgreitt. Þá er best að láta þjóninn henda þeim út.

Nú vona ég að ég sé búinn að sannfæra ykkur um ágæti þess að vera kokkur, og nú ætlið þið öll að verða kokkar."


Gaman að gera svona copy-paste færslu. Kannski að ég fari að henda inn gömlum söguverkefnum og líffræði og slíku. Þá þarf ekkert að hafa fyrir þessu.

sunnudagur, 23. janúar 2005

Gagnrýni: Sideways

Sá í gær margverðlaunamyndina Sideways sem fjallar um tvo kóna á fertugsaldri sem krúsa um vegina í BNA en koma víða við til að smakka vín. Hlutskipti þeirra er ólíkt, annar er að fara að gifta sig og er ferðin einhvers konar steggjaferð í tilefni að því. Hinn er nýskilinn við konu sína og allt í volæði. Hann er auk þess rithöfundur í tilvistarkreppu (ekki laust við að það minnti á Adaptation). Sá fyrrnefndi er David Hasselhoff týpa og markmið hans á ferðalagi þeirra félaga eru skýr, að leggja slatta af kvenfólki svona rétt áður en hann giftir sig. Hinn er ekki í slíkum erindagerðum. Samkipti þeirra félaga eru nokkuð kostuleg.

Þetta er ljómandi góð mynd en þó fannst mér aðeins og mikið sýnt af vínsmökkun. Kannski er ég ekki nógu mikill heimsborgari til að skilja það.

Einkunn: 8,7

laugardagur, 22. janúar 2005

Árans rugludallar, þessi Þjóðarhreyfing. Það þarf ekki slíka þumba til að berjast gegn Halldóri og Davíð.

Þeir hefðu getað sagt sér sjálfir að þessi auglýsing gerði ekkert gagn. Bara fíflagangur og kjánalæti.

Lesa rosalega margir Írakar New York Times? Og ef svo væri, þætti Írökum æðisgengið að fá afsökunarbeiðini frá einhverjum apaköttum sem hafa ekki verið kosnir til eins eða neins en auglýsa í nafni þjóðarinnar?

Þeir hefðu alveg eins getað kveikt í þessum peningum.

föstudagur, 21. janúar 2005

fimmtudagur, 20. janúar 2005

Ekki fjarri sannleikanum á Baggalúti.

Chicken payback

Lag laganna þessa dagana er:
The Bees - Chicken Payback

Fimm í viðbót eru í uppáhaldi núna:
Dire Straits - So Far Away
The Stranglers - Always the Sun
Dire Straits - Money For Nothing
Bruce Springsteen - Down To the River
Dire Straits - Walk of Life

þriðjudagur, 18. janúar 2005

Þorskurinn Snati

Líffræðitímar leiðast oft í tómt rugl hjá okkur piltum sem sitjum aftast. Athyglin fer alveg og við förum að ræða alvarlegri hluti. Í dag vorum við m.a. að velta fyrir okkur undarlegum dýranöfnum, t.d. apa sem héti Snati. Eða fílinn Snati. Svo kom þorskurinn Snati sterkur inn.

Maður nokkur blístrar og kallar: "Snati! Komdu karlinn!" og þá stekkur þorskur upp í fangið á honum. Hann klappar og klórar spriklandi þorskinum (klórar þorskskeggið líka) og segir "svona karlinn...". Síðan tekur hann upp prik og kastar því og segir "sækja!". Þá slengir þorskurinn sér úr fanginu á manninum og engist eftir jörðinni í átt að prikinu. Engist síðan til baka með prik í kjafti. "Góður strákur"

Svo datt okkur í hug að það væri töff að opna dýragarð með ýmsum tegundum og kalla öll dýrin Snati. Súrrealískar hugmyndir.

mánudagur, 17. janúar 2005

Tilvitnun dagsins 7

Blindfullur maður gekk niður Laugarveg og rakst á annan og sullaði á hann bjór í leiðinni. Sagði svo: "Hahahaha, ég ætlaði nú ekki að gefa þér bjórinn minn!"

Þetta mun ég segja næst þegar ég er blindfullur og sulla á einhvern.

Fucking alvor

Í trailer fyrir danska mynd stóð stórum stöfum "Fucking alvor". Þá vissi áhorfandinn að myndin var ekkert grín. "Fucking alvor" er heitasta slangrið í dag.

sunnudagur, 16. janúar 2005

Liverpool - Man. Utd.

Umsögn Liverpool.fo undir fyrirsögninni Enn ein "Dudek" segir allt sem segja þarf:

Enn einaferð kostaði ein feilur hjá Dudek okkum dýrt. Í 21. minutti skjeyt Rooney eitt langskot, sum fór undir Dudek. Dudek átti avgjørt at havt henda bóltin, og vit mugu bara staðfesta, at Liverpool hevur ein málmanstrupulleika, og at Dudek hevur eitt Manchester United syndrom.

Hver er besti útvarpsmaður landsins?

Nú er Tvíhöfði dauður og mörgum þykir það mikill missir. En hver er besti útvarpsmaður á landinu í dag?
Gestur Einar?
Ásgeir Páll á Létt? vafasamt
Gerður G. Bjarklind?
Arnþrúður Karls?
Óli Palli?
Ívar Guðmundsson?
Andrea gráhærða á Rás 2?
Sigurður G. Tómasson?
Heiðar Austmann?
Gestur Einar?
Freysi?
Stjáni stuð?

Nei, enginn af þessum. Það er að sjálfsögðu Gunni gír. Frábær fígúra.
Númer tvö er Óli Palli á Rás 2.
Freysi númer þrjú.
Þeir sem keppa um titilinn versti útvarpsmaðurinn eru fleiri. Þar koma sterkastir inn:
Sigurður G. Tómasson
FM pakk með Heiðar Austmann í fararbroddi.
Stjáni stuð er líklega hættur með dauða X-ins en hann er annars útbrenndur fyrir löngu.
Ásgeir Páll á Létt.

fimmtudagur, 13. janúar 2005

Misskilningur

Svona er brot úr texta við lagið Special K með Placebo:

No hesitation
No delay
You come on just like special K
Just like I swallowed half my stash
I never ever want to crash
No hesitation
No delay
You come on just like special K
Now you're back with dope demand
I'm on sinking sand
En abbababb. Ég hef alltaf heyrt þennan texta svona:
No hesitation
No delay
You come on just like special K
Just like I swallowed half moustache
I never ever want to crash
No hesitation
No delay
You come on just like special K
Now you're back with dope demand
I'm on sinking sand
Tilhugsunin um mann sem gleypir hálft yfirvaraskegg er frekar skemmtileg. Textinn hefur gjörsamlega misst gildi sitt við þessa leiðréttingu.

Alltaf pirrandi þegar næstum allir á rss skrifa um það sama. Þannig er það núna. Ég féll hins vegar í sömu gryfju því síðasti pistill var um það sama og hjá hinum (ég var ekki búinn að líta á rss þegar ég skrifaði hann). Ég las nokkra svona pósta hjá mismunandi fólki og allt var þetta eins, eitthvað væl:

"Oo, nú er ekkert hægt að hlusta á í útvarpinu. Af hverju var ekki FM lokað? Nú verð ég að hlusta á Rás 2 blablablablal"

Frumlegt?

Hélt nú ekki að útvarpsmarkaðurinn væri svo erfiður að þrjár stöðvar sem allar stíla að mestu leyti á sama markhóp gætu dáið í einu.

X-ið
Skonrokk
Radíó Reykjavík

Þetta með Stjörnuna kemur ekkert á óvart. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri til.

En það má telja næsta víst að þetta varir ekki lengi. Einhverjir þeirra sem missa vinnuna við þetta hljóta að stofna sína eigin stöð sem spilar rokk. Eða þá að bensínmafían eða Björgólfsfeðgar eða einhverjir bisnisskarlar stofna nýja stöð og ráða slatta af gamla liðinu.

miðvikudagur, 12. janúar 2005

Nýtt! - Vacumpakkaður ís

Oft finnst fólki sem það sé að kaupa köttinn í sekknum þegar það kemur úr stórmarkaðnum með vanilluís undir handarkrikanum. Það þarf svo stóra dalla til að rýma ísinn og hann er að stórum hluta bara loft. En nú er fundin lausn á þessu; vacumpakkaður ís (ís í lofttæmdum umbúðum).

Þú kaupir ísinn í handhægum litlum niðursuðudósum og hendir þeim í frystinn. Þegar íslöngunin kemur yfir er dósin tekin út og opnuð. Við opnun tútnar innihaldið hressilega út og þú getur hlaðið í þig bragðgóðum ísnum.

Gallar: Þegar innihaldið tútnar út flæðir ísinn yfir allt. En það er ekkert sem stór skál ræður ekki við.

mánudagur, 10. janúar 2005

Gagnrýni: Nokkur endurgerð lög

Ýmis vinsæl gömul lög hafa verið endurgerð nýlega. Misjafnt er hvernig tekst til.

Hræðilegar endurgerðir:
1.A Perfect Circle - Imagine
Hef aldrei verið harður aðdáandi Bítlanna en þetta er ótrúlegt skemmdarverk á feykivinsælu lagi þeirra.
2. KoRn - Another Brick in the Wall
Lagið í flutningi Pink Floyd er ekkert uppáhalds hjá mér en þessi endurgerð sökkar.
3. Þórir - Hey Ya
Hlýtur að vera grín. Breytti einu vinsælasta partýlagi síðari ára frá Outkast og gerði að einhverri ládeyðu. Og með sínum skelfilega söng. Þessi gaur hefur fengið fína dóma í blöðunum þar sem sagt er að hann hafi "svo brothætta og fallega rödd". Slíkt kjaftæði er ekki boðlegt. Kannski var hann einu sinni með brothætta rödd en þá er hún brotnuð fyrir löngu. Aumingjalegt kattarmjálmið í þessum manni fær ekki hrós mitt.

Góðar endurgerðir:
1. White Stripes - Jolene
Ómar mikið í útvarpinu þessa dagana enda er þetta snilld. Meistaralegur flutningur. Ég hef ekki heyrt frumútgáfu Dolly Parton en finnst mjög ólíklegt að hún toppi þetta.
2. Marlyn Manson - Personal Jesus
Óbjóðurinn endurgerir frábært lag Depeche Mode. Þessi útgáfa Mansons toppar ekki frumútgáfuna en er engu að síður nokkuð vel gerð.

Munkur á nýju ári

Var að skoða bankareikningsyfirlitið sem alltaf kemur með póstinum um áramót. Sá þar að ég hef eytt 70.000 síðan 1. október og það sem meira er, ég geri mér enga grein fyrir í hvað þetta hefur farið. Jú, ætli það sé ekki skyndibiti, bíó, fyllerí (sem hefur þó verið mjög lítið um í vetur). Já, svo auðvitað heimskulegasta fjárfesting ársins: Batterí fyrir nánast úrelta video-vél sem kostaði 10.000. Sannkallað neyslubrjálæði þar á ferð.

Menn sem ekki vinna með skóla hafa alls ekki efni á svona eyðslusiðum.

Nú á nýju ári mun ég því temja mér meinlætalíferni munksins. Enginn óþarfa munaður. Hugsa um fátæku börnin í Afríku. Ekki fara þau í bíó.

Sparnaðaráætlun:
1.Næst þegar mig langar í bíó tek ég í staðinn bók og les eða horfi á sjónvarpið.

2.Nesti að heiman í skólann gegnir veigamiklu hlutverki í sparnaðaráætlun. Ef ég gleymi nesti verð ég bara að betla eða leita ætis í rusladöllum. Bankarnir eru líka alltaf með kaffi og með því.

3. Næst þegar mig langar á fyllerí betla ég sjúss hjá rónunum niðri í bæ.

4. Næst þegar mig langar í batterí í úrelta video-vél fæ ég mér bara göngutúr eða ég veit ekki hvað. Allavega spara 10.000.

Mottó nýs árs: "allt sem er ókeypis"

föstudagur, 7. janúar 2005

Gagnrýni: Ríó tríó - ...það skánar varla úr þessu

Safndiskur með 50 vinsælustu lögum Ríó tríó.

Ríó tríó er eldgömul íslensk hljómsveit sem fertugir og eldri hafa gaman að. Ég tók plötu þeirra úr safni mömmu og hef kynnt mér gripinn undanfarna daga. Skemmst er frá því að segja að rúmur helmingur laganna er drasl. Hins vegar eru einnig lög sem eru mjög fín og með ágætis texta. Blússandi sveifla jafnvel í sumum. Þau lög sem eru nokkuð áheyrileg eru:
Veislan á Hóli
Fjallar um dýr sem halda partý.
Verst af öllu
Allir eru að gera það
Allir eru að meika það nema höfundurinn.
Landið fýkur burt
Á pöbbinn
Ljóminn
Klassískt. Lagið úr Ljómaauglýsingunni.
Flagarabragur
"helltu í glasið aftur!" sem margir kannast við kemur fyrir í þessu lagi. Blússandi.
Flaskan mín fríð
Lag sem drukknir íslendingar syngja stundum.
Kvennaskólapía
Romm og kókakóla
Fröken Reykjavík
Sem betur fer ekki um sjoppuna Fröken Reykjavík í Austurstræti því það er örugglega versta sjoppa landsins. Selur opin súkkulaðistykki og er einstaklega sóðaleg almennt.
Dýrið gengur laust

Einkunn: 6,0

Pungrakarinn

Maður nokkur sagði mér frá hressilegum draumi. Það var þannig að maðurinn horfði á Mystic River eitt kvöldið, dreymdi síðan nóttina eftir að aðalglæponinn úr myndinni elti hann með geðveikislegt augnaráð og ætlaði að raka á honum punginn.

Rosalegt.

Flugeldar

Dæmi eru um menn sem eyða 500.000 kr. eða eða meira í flugelda. Örn Árnason leikari segist t.d. gera það. Eitthvað held ég að heyrðist í fólki´ef ég hlypi skellihlæjandi út í garð hjá mér á gamlárskvöld með bensínbrúsa og svartan ruslasekk fullan af fimmþúsund köllum og kveikti í öllu saman.

Ég set flugeldkaup undir sama hatt. Alveg eins og að kveikja í peningum. Held að þessir peningar mættu frekar fara í Rauða krossinn.

mánudagur, 3. janúar 2005

Jólafrí

Jólafríið hefur verið eitt það besta í manna minnum. Var í Lóni hjá ömmu og afa yfir jólin og fékk dýrindis mat og kökur í hvert mál. Spilað bridge við afa og ömmu en það er afar vinsælt á þeim bæ. Hef aldrei lesið jafn mikið í jólafríi, m.a. Heilagan sannleik efti Flosa Ólafsson. Bjóst við að sú bók væri djöfulsins leiðindi en hún var skárri en það.

Náði líka öllum prófunum og það er meira en ýmsir. En meðaleinkunnin var ekki fögur.

sunnudagur, 2. janúar 2005

Spurningar sem hafa augljós svör

1. Varstu í klippingu?
Oft kemur á eftir "flott". Af hverju spyr fólk svona? Hvað með að segja frekar "flott klipping" eða "ljót klipping" eftir atvikum.
2. Er ekki gaman að vera kominn í frí?
Hver er tilgangurinn með svona spurningu? Skortur á umræðuefnum eða bara hrein heimska?

Jólagjafir

1. Rembrandt (dönsk mynd)
Einkunn: 8,43
2. Samlokugrill
Fyrsta heimilistækið sem ég eignast sjálfur. Held ég verði þá að hafa það í herberginu og leyfa engum öðrum að nota það.
3.Peysa
4. Maus safndiskurinn
Nokkrar hressandi endurhljóðblandanir; frá Quarashi, Dáðadrengjum, Delphi og fjöllistarhópnum Gus Gus. Þetta með Gus Gus hefði mátt vanta. Svö eru ýmis gömul og góð lög þarna.

laugardagur, 1. janúar 2005

Áramótaskupið

Grín að Kristjáni Jóhanssyni var best. Margt af hinu slappt.

Einkunn: 7,0

Umræðuefni

Í gær var ég í áramótagleðskap í heimahúsi. Um kl.5 í morgun leystist gleðskapurinn upp vegna slagsmála. En nóg um það.

Í þessum áramótagleðskap var einhver stelpa sem ég hef aldrei séð áður. Hún kom skyndilega askvaðandi og sagði við mig "ég er bara búin að pissa tvisvar í dag. Ég verð að fara og pissa núna". Lít ég út fyrir að hafa áhuga á slíku?

Skemmtilegt umræðuefni?