þriðjudagur, 31. október 2006

Fauna og ritgerð

Fauna kom glóðvolg í fyrradag heim að dyrum. Það er leitt því þá get ég ekki lengur verið brjálaður.

Annars er ég að leggja lokahönd á ritgerð mína í alþjóðastjórnmálum: inngangi sem gildir 25% af lokaeinkunn í faginu. Ritgerðin fjallar um eitt af þremur efnum sem mátti velja um, að bera saman árásar- og varnarrealista og bera saman grunnhugmyndir beggja og þá kennimenn sem styðja hvora um sig. Þá skal fjalla um hvað skortir í kenningarnar og hvernig nýlíberísk stofnanahyggja getur bætt þær upp.

Hljómar gáfulega...eða hvað?

fimmtudagur, 26. október 2006

GOL! GOL! GOL! GOL!

Eiður Smári skoraði tvö mörk í bikarkeppni fyrir Barcelona á Spáni á móti einhverju kúkaliði. Ekkert sérlega merkilegt en það sem er frábært er spænskur kappi sem lýsti leiknum einhvers staðar og er þúsund sinnum líflegri en gerist og gengur með íþróttafréttamenn:

Lýsingin á fyrra marki Eiðs.

Lýsing á öðru markinu, ekki síðri.

miðvikudagur, 25. október 2006

Nýtt upphaf

Ég var að velta fyrir mér - þótt slíkar vangaveltur hefðu fremur átt heima í upphafi skólársins í ágúst - af hverju þetta?:

Staður: Unglingadeild grunnskóla:
"Hæ, krakkar ,jæja nú eru þið komin upp í unglingadeildina, nú munið þið sko kynnast félagslífi. Hér er endalaust partý blablabla..."

Staður: Menntaskóli:
"Hér er eitt öflugasta félagslíf á landinu, hér geta sko allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Menntaskólaárin eru sko bestu ár lífsins"

Staður: Háskóli:
"Já, oft er sagt að menntaskólaárin séu bestu ár lífsins. Ég hef eiginlega komist að því að háskólaárin eru bestu ár lífsins, a.m.k. ekki síðri en menntaskólaárin. Í Háskólanum er frábært félagslíf."
-og ATH: Sami maður sagði e-ð á þessa leið og hafði sagt sem inspector í MR að menntaskólaárin væru bestu árin.

Af hverju þetta? Hverju á maður að trúa? Hvar eru rannsólknirnar? Hver eru raunverulega bestu árin? Þetta þarf að komast á hreint. Setjum nefnd í málið.

Má jafnvel búast við þessu hér?:

Staður: Elliheimili:
"Jæja, "krakkar" ég veit að ykkur hefur verið sagt að menntaskólaárin séu bestu árin og að háskólaárin séu bestu árin, jafnvel að gaggó sé best af öllu. Þetta er allt LYGI! Elliheimilið er staðurinn fyrir alla, konur og karla, bestu ár lífsins. Hér er stórkostlegt félagslíf, hér er sungið og drukkið og djúsað alla daga, hér er félagsvist, hér eru prjónaklúbbar, hér er bingó, og síðast en ekki síst hópferðir til Kanarí! Gleymið öllu sem hefur verið logið að ykkur í fortíðinni. Þetta er málið! Svo þarf ekkert að sitja yfir námsbókum."
-og mun jafnvel sami maðurinn segja þetta og hafði haldið öðru fram áratugum áður? Ja, maður spyr sig.

mánudagur, 23. október 2006

Hvalveiðar - með eða á móti?

Hvalur 9 veiddi sína aðra langreyði í dag. Margir eru orðnir langreiðir á ástandinu og senda mótmælabréf til íslenskra stjórnvalda snarsjóðandibandóðir. Ég set fyrirvara við mótmæli frá Greenpeace vegna þess að það eru öfgasamtök sem hafa getið sér allt annað en gott orð á undanförnum árum. Greenpeace gefa í skyn á síðu sinni að almenningur á Íslandi sé andsnúinn hvalveiðum. Nýleg íslensk Gallup-könnun sýndi að 3/4 aðspurðra sögðust hlynntir atvinnuveiðum á hval (sjá hér). Einnig set ég fyrirvara við andúð Sea Shephard samtakanna sem sökktu tveimur hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn fyrir tuttugu árum. Slíkt er ekki til að vekja samúð almennings með samtökunum.

Ýmsir forkólfar í ferðaþjónustu á Íslandi hafa lýst undrun og mikilli andstöðu við veiðarnar. Segja þeir að hvalaskoðunarbisniss muni hrynja í kjölfarið. Síðan hvalveiðar í rannsóknarskyni hófust fyrir nokkrum árum hefur gestum í hvalaskoðun hins vegar fjölgað. Skv. Magnúsi Skarphéðinssyni(í viðtali Kastljóss, miðvikudagskvöldið 18. okt.) hefur dregið úr vexti ferðamanna. Þá spyr ég, hvernig í ósköpunum getur Magnús fullyrt að það megi rekja beint til veiðanna, hvaða sannanir hefur hann fyrir því? Getur hvalaskoðunarbransinn stækkað endalaust og alltaf með jafnörum vexti?

Veiðiheimildin sem gefin hefur verið nú er ekki upp á marga hvali og ætti seint að ganga að einhverjum stofni dauðum. Hvers vegna má ekki láta á veiðarnar reyna áður en fólk stekkur upp til handa og fóta? Ef hvalaskoðunarbransinn verður fyrir verulegum skakkaföllum má alltaf hætta veiðunum og verður án vafa gert. Áður en og EF til þess kemur ættu menn að anda rólega.

Það að Hvalur 9 hafi veitt tvær langreyðar á örfáum dögum, gefur það til kynna að langreyðar séu í útrýmingarhættu? Nei, ég bara spyr, endilega segið ef þið hafið meiri vitneskju en ég. Það sem er verra og kom fram í fréttum útvarps í kvöld er að sendiherra Japans sagði að ekki væri pláss fyrir íslenskt hvalkjöt á Japansmarkaði, þeir hefðu nóg með eigið tilraunaveiðakjöt. Kristján Loftsson sagði aftur á móti að það væri tóm vitleysa, Japanir vildu kjötið. Miðað við fyrri innslög Kristjáns í fjölmiðlum veit ég ekki hvort ég á að trúa því. Ég hugsa að hvalveiðasinnar gætu fundið betri málsvara en hann.

Hvað ef ekki tekst að losna við skepnurnar? Þá er að sjálfsögðu til stórkostleg lausn, tökum innvolsið út úr þeim, fyllum skrokkana af helíum og bindum þá við Hallgrímskirkjuturn, þar gætu þeir svifið yfir eins og í þyngdarleysi, það væri stórkostlegt. Hingað mundu streyma ferðamenn til að berja hvalina svífandi augum. Líklega yrðu ófáir hasshausar í þeirra röðum og gætu látið orðin "Whoa, awsome!" falla. Hvalaskoðun fengi nýja merkingu.

Aðrir punktar sem menn hafa bent á, með og á móti:
MEÐ: Hvalir éta fullt af fiski sem sjómenn gætu annars veitt.
Á MÓTI: Þungmálmar sem safnast fyrir í dýrunum eru sérlega óhollir fyrir fólk.

Niðurstaða: Þetta er spurning.

laugardagur, 21. október 2006


Manchester United - Liverpool

Á morgun eigast stórveldin við í ensku deildinni. Manchester United hafa byrjað deildina fáránlega vel eftir að Alx Ferguson gerðist svo djarfur í sumar að selja aðalmarkahrók liðsins, Ruud Van Nistelrooy, og ekki nóg með það, heldur fékk hann engan í staðinn fyrir hann. Það sem hefur hins vegar hjálpað M.U.-mönnum mikið nú í byrjun deildarinnar er að Ole Gunnar Solskjaer birtist allt í einu í byrjun leiktíðar eins og þruma úr heiðskíru lofti, eftir að hafa legið einhvers staðar meiddur í þúsund ár, og hefur farið á kostum, gamli melurinn. Louis Saha hefur einnig verið drjúgur í framlínunni. Liðið hefur staðið sig fáránlega vel miðað við mannskap.

Liverpool hefur hins vegar skitið upp á bak í byrjun leiktíðar í deildinni og er um miðja deild. Þó virðast menn þar smám saman vera að koma til og unnu þeir ágætan sigur á Bordeaux í Meistaradeild í vikunni. Liðið einfaldlega verður að sigra á morgun, en United mega við tapi.

Ég ætla að spá því að United fái sinn fyrsta skell á tímabilinu og tapi þessum leik 3-0. Sá spádómur er að sjálfsögðu mjög blandaður óskhyggju. Ég tippa á að annar hvor mestu hálfvita þess liðs (Wayne Rooney eða Rio Ferdinand) verði rekinn út af og það geri útslagið í skellinum mikla. Peter Crouch mun skora tvö mörk fyrir Liverpool en alls óvíst er hver smellir því þriðja.

Leikurinn verður í opinni dagskrá á SkjáEinum klukkan 12:00 á hádegi.

föstudagur, 20. október 2006

Mótmælendur hafa enga skoðun

Stórkostlegur maður birtist í Kastljósi á miðvikudaginn. Hann heitir Kristján Loftsson og er hvalveiðasinni og stórútgerðarmaður. Hann fór gjörsamlega á kostum. Það besta sem hann sagði var um mótmælendur. Þegar Sigmar spurði hann hvort mótmælendur hefðu ekki rétt á að tjá sína skoðun eins og aðrir svaraði Kristján:

"Þeir hafa enga skoðun á þessu...Ég get sagt þér sögu hérna, ég var einu sinni á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Glasgow og þar voru þeir með svona mótmælaspjöld fyrir utan, í tvo daga og svo labbaði ég þarna út með öðrum manni og við fórum svona aðeins inn í hópinn þarna og ég talaði við eina stúlku og spurði hana hvað hún segði um hvalinn og hún segir: "Já, nei, ég kom hérna bara af því að frænka mín á heima hérna í Glasgow og ég fékk frían miða með lestinni hérna norður..."

Kristján sagðist einnig vorkenna talsmönnum ferðaþjónustunnar sem væru á móti hvalveiðum og notaði m.a. orðin: "Ferðaþjónustan, alveg merkilegt lið sem þar virðist starfa."

BAMM! BÚMM! FLUGELDASÝNING! Mótmælendur afgreiddir í einni svipan! Þetta jafngildir troðslu í körfuboltaleik, home-run í hafnarbolta, holu í höggi í golfi, þrennu í fótboltaleik og rothöggi í boxi! Inn á þing með kappann!

Annars mæli ég eindregið með viðtalinu í heild, þetta er gullmoli.

Vakning í málefnum

Ein helsta tuggan í dag virðist vera að tala um vakningu í ýmsum málefnum. Það er næstum jafnútbreitt og orðið aðili sem fjölmiðlum er tíðrætt um. Eða hver kannast ekki við setningar sem þessar?:

 • Það hefur orðið mikil vakning í málefnum geðfatlaðaðra á undanförnum fimm árum.
 • Mikil vakning hefur orðið í málefnum hreyfihamlaðra síðustu misseri.
 • Gríðarleg vakning hefur átt sér stað meðal þjóðarinnar í málefnum fanga undanfarin áratug.
Alltaf einhver vakning út um allt. Spekingur mætir í viðtal í fréttunum og frussar út úr sér spakmælatuggum nútímans: "Aðilar...vakning í málefnum...gefandi starf...blablabla...". Hvers vegna þarf svona mikið af liði að þusa það sama?

Þessi tugga hefur snaraukist með hverju árinu síðustu ár. Talaði Hitler e-n tímann um vakningu? Vakning í málefnum gyðinga? Naa.

Hvernig virkar svo þessi andskotans vakning sem er allsstaðar grasserandi? Kannski svona: Brjánn vaknar og fær sér morgunmatinn, les blaðið og fer út í bíl og brunar í vinnuna. Hann er enn hálfsofandi, enda nývaknaður, stoppar á rauðu ljósi, augnlokin síga nokkuð og þá gerist það - BAMM! Vakning verður í höfðinu á Brjáni, hann kveikir á perunni: "Hau.. málefni geðfatlaðra". Vakning hefur átt sér stað. Nokkrum mánuðum síðar lýstur niður í höfuðið á Brjáni vakningu í málefnum aldraðra: "Vó, ég hafði aldrei pælt í þessu fyrr en núna, AUÐVITAÐ, málefni aldraðra!"

Á allt öðrum stað í bænum í næstu viku er Skúli í svipuðum sporum. Vaknar, fær sér að éta o.s.frv., stoppar á rauðu ljósi BAMM - vakning: "Aaaaa, málefni geðfatlaðra". Önnur vakning. Þannig gengur þetta áfram viku eftir viku, bíl frá bíl.

Niðurstaða: Burt með svona fúlar tuggur. Hættið að tala um fokking "vakningu".

mánudagur, 16. október 2006

Wolfmother

Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég mér frumburð áströlsku rokkhljómsveitarinnar Wolfmother sem ber heiti sveitarinnar. Þarna er á ferð lúxusrokkplata. Þó þarf hún tímann sinn til þess að síast almennilega inn. Þegar ég heyrði tvö lög plötunnar í útvarpinu fyrir nokkrum mánuðum, Woman og Dimension hélt ég að það væru klassísk rokklög með e-m gömlum hundum, þótt ég kæmi flytjanda engan veginn fyrir mig. Þau voru bara svo voða mikið þessleg. Bæði eru þau alveg dúndrandi góð.

Þessir menn ryðjast inn um dyrnar eins og stormsveipur, slíta hurðina af hjörunum, stökkva upp á borð, rífa upp hljóðfærin og svo bara rokk.*

Önnur lög sem vert er að gefa sérstakan gaum eru Love Train, White Unicorn, Whitchcraft o.fl.

Fyrir þá sem taka ekkert mark á mér og lýsa frati á minn tónlistarsmekk, mætti kannski nefna að hinn frægi Thom Yorke (söngvari Radiohead) hefur lýst mikilli velþóknun á hljómsveitinni. Þeir sem taka hvorki mark á mér né Thom Yorke í slíkum efnum geta etið það sem úti frýs.

*Ég varð að koma með einhverja svona fáránlega gagnrýnendaspeki.

Einkunn: 8,5.

[Annars er margt í gangi í músíkinni að venju. Hér væri kjörið að birta þurra upptalningu á vænlegum nýlegum lögum og flytjendum en ég nenni ekki að tína það til.]

laugardagur, 14. október 2006

Októberfest

Októberfest var betra en í fyrra, reyndar leiðinlegra þegar nær dró miðnætti. Þá var einkum troðningur, villuráfandi sauðir í leit að skemmtun (sem var engin í troðningnum). En áður en troðningurinn myndaðist var sveifla. Vísindaferðin í Landsbankann var líka ólgandi. Vel var veitt.

föstudagur, 13. október 2006

Ódýrt bensín

Fyrr í kvöld tók ég eftir að bensíntankurinn var tómur. Ég fór með kvíðahnút í maganum á næstu bensínstöð, því ég vissi að nú þyrfti ég að taka upp sjóði mína og pyngjur og sturta klingjandi gullinu á afgreiðsluborð samráðsmafíunnar.

Svo renndi ég að tankinum, tók fram dæluna og leit á verðið fyrir lítrann af 95 oktan, rúmar 116 kr. "Vá, ódýrt" hugsaði ég og mundi eftir að hafa séð töluna 132 á slíkum tanki fyrr á þessu ári. Glaður dældi ég bensíninu og fyllti tankinn, það gerðu samtals 4.632 kr. "Vá, ódýrt" hugsaði ég aftur "Ætli þeir séu með tilboð í dag?"

Fullkomlega sáttur rétti ég afgreiðslumanninum kreditkortið mitt. "Vá, sparnaður".

Þegar ég ætlaði að setjast inn í bíl aftur var eins og ósýnileg hönd slægi mig fast í hnakkann. Þá loksins áttaði ég mig, 116 kr. lítrinn er ekki ódýrt, það er svínslegt okur! Svona verður maður ruglaður þegar þessir andskotar hafa haldið verðinu uppi yfir öllum velsæmismörkum í mörg ár og gera enn.

Hér væri viðeigandi að klykkja út með spakmæli. En mér dettur ekkert viðeigandi spakmæli í hug.

Sjaldan launar kálfurinn ofeldið?
Árinni kennir illur ræðari?
Fíll í postulínsbúð?
Fleira er matur en feitt kjöt?
"Vér eplin með" sögðu hrossataðskögglarnir?

Nei, ekkert af þessu, ég er að leita að spakmæli sem á við til að enda þessa færslu en það finnst greinilega ekki.

miðvikudagur, 11. október 2006

Trylltur einstaklingur talar um öryggi

Í síðustu viku sá ég í fréttatíma að N-Kóreumenn hyggðust hefja tilraunir með kjarnorkuvopn.

Þegar Bogi hafði kynnt fréttina var fréttaþulur N-Kóreska ríkissjónvarpsins sýndur að tilkynna þjóð sinni tíðindin. Hann minntist eitthvað á að þetta væri til að auka öryggi landsins. Hann var rennsveittur og gjörsamlega trylltur að flytja fréttina. Ég er frekar skeptískur á tryllta einstaklinga sem tala um öryggi. Hvers vegna í ósköpunum var maðurinn svona trylltur? Ákvað hann sjálfur að hefja þessar tilraunir? Var hann logandi hræddur? Finnst honum sprengingar frábærar og eftirvænting hans kom fram sem tryllingur og sviti?

Í kjölfarið á þessu reyndi ég að ímynda mér fréttaþul íslenska Ríkissjónvarpsins tilkynna íslensku þjóðinni svipuð tíðindi. Bogi Ágústsson með andlitið logandi og gersamlega vitstola að tala um öryggi Íslands og kjarnorkutilraunir í sömu andrá. Þrátt fyrir íterekaðar tilraunir til að sjá þetta fyrir mér, tókst það ekki. Kannski er þetta nokkuð sem gerist bara í Norður-Kóreu.

Eins og þjóðhöfðingjar Kína, Japan, Rússlands, Bandaríkjanna, Frakklands og fleiri ríkja hafa gert, fordæmi ég kjarnorkutilraunir N-Kóreumanna.

mánudagur, 9. október 2006

Miðvikudagsseðilinn

Svona tippa ég á miðvikudagsseðil ÍG:
 1. Ísland - Svíþjóð 1/2*
 2. Liectenstein - Danmörk 2
 3. N.Írland - Lettland 1/x
 4. Belgía - Azerbaíjan 1
 5. Pólland-Portúgal 1/2
 6. Georgía - Ítalía 2
 7. Úkraína - Skotland 1/X
 8. Bosnía Herz. - Grikkland x/2
 9. Tyrkland - Moldavía 1
 10. Írland - Tékkland 2
 11. Slóvakía - Þýskalaland 1/2
 12. Króatía - England 1
 13. Lúxemborg - Búlgaría 2
*Þrátt fyrir að sigur Svía í þessum leik sé 99% öruggur er einfaldlega of fúlt að klikka ef hið ótrúlega gerist, að Ísland vinni.

sunnudagur, 8. október 2006

Vikuleg Spaugstofan

Eins og ég hef gert síðustu tvær vikur, ætla ég að blogga um Spaugstofuþátt vikunnar.

Spaugstofuþátturinn í gær var arfaslakur. 1-2 ágæt atriði, búið. Aumkunarverðar tilraunir til að gera grín að kakkalökkum á varnarsvæðinu hittu yfir markið.

Nú verður ekki bloggað meira um Spaugstofuna í vetur. (Lengi á eftir var ekki minnst á Spaugstofuna)

laugardagur, 7. október 2006

Landslið Íslands

Íslenska landsliðið í fótbolta er nú í Lettlandi að keppa við Letta. Þegar 20 mín. eru eftir af leiknum er staðan 4-0 fyrir Lettum. Enginn leikmaður Letta leikur utan Lettlands með félagsliði. Lettland lék að vísu á síðasta Evrópumóti, en það virðist hafa verið hálfgert slys því þar gátu þeir ekki rassgat.

Hjá íslenska liðinu leika flestir leikmenn sem atvinnumenn erlendis.

Niðurstaða:
Landslið Íslands mun aldrei komast á stórmót, ekki eftir 10 ár, ekki eftir 100 ár og ekki eftir 1000 ár. Það eru magnaðir hæfileikar. Íslendingar ættu að hætta að senda landslið sitt í keppnir. Æfa sig frekar bara hér heima í gamnibolta, glensi og gríni, vitleysu. Svo gætu þeir leikið sér í knattleik, eins og í fornsögum, með knött á svelli þar sem blóðið mundi renna. Þeir gætu sent Alþjóðaknattspyrnusambandinu bréf: "Við erum hættir. Bæ." og þar með væri landsliðið laust við að vera í þúsund milljónasta sæti á styrkleikalista FIFA og í staðinn bara einfaldlega ekkert verið á honum. Já, lausnin er fundin.

föstudagur, 6. október 2006

Staksteinar

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins (væntanlega Styrmir Gunnarsson) skrifaði um daginn um Keflavíkurgöngu herstöðvaandstæðinga fyrir mörgum árum:

 • Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska varnarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.

-
Já, þetta er rétt ef ég veit rétt. Svo:
 • Þeir gengu í þágu kommúnismans sem hrundi með Berlínarmúrnum
Jahá, ef menn gengu í mótmælaskyni við hersetu hér á landi, gengu þeir í þágu kommúnismans. Stórkostleg röksemdafærsla. Eða nei, ekki röksemdafærsla, fullyrðing - Stórkostleg fullyrðing. Nýjar upplýsingar!
 • Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
Daginn sem Keflavíkurgangan fór fram, hefur greinilega verið tveir fyrir einn tilboð fyrir mótmælendur: "Gangið gegn herstöðinni í Keflavík og þá er ganga til stuðnings við fjöldamorðingjann Stalín innifalin, tveir fyrir einn!".
 • Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrældóm.
Tilboðið gerist æ betra.
 • Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17.júní 1953.
Vá, ég vissi ekki að mótmælagöngur gætu haft svona svakalega yfirgripsmikinn tilgang. Reyndar virðast mótmælin gegn herstöðinni bara hafa verið brot af tilgangi göngunnar - aðallega hefur þetta verið stuðningsganga til stuðnings: Stalín, fjöldamorðum, þrælahaldi og kommúnisma.

Er þetta leið Morgunblaðsins til að ná til baka öllum þeim lesendum sem hafa snúið sér annað?

Neytendahorn

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur saxað verulega á Vífilfell á gosdrykkjamarkaði. Síðast þegar ég heyrði fréttir af stöðu fyrirtækjanna á markaði (sem var fyrir nokkrum mánuðum) man ég ekki betur en Ölgerðin væri komin með um 50% markaðshlutdeild á íslenskum markaði. Það hefði engum dottið í hug fyrir nokkrum árum.

Það verður að segjas alveg eins og er að Ölgerðin hefur haft mun betra auga fyrir góðum nýjungum en Vífilfell á síðustu árum. Kristall plús er dæmi um þetta. Sá drykkur hefur gjörsamlega slegið í gegn, maður sér fólk með þetta á hverju götuhorni. Kókdrykkja hefur að sama skapi minnkað hlutfallslega, sem er augljóslega af hinu góða. Ég mæli með bæði rauðum Kristal plús og fjólubláum, frábærir drykkir. Sá græni (með perubragði) er ekki vondur en skilur eftir of mikið eftirbragð. Held að hann seljist minna en hinir, rauði að sjálfsögðu mest. Ég tek fram að ég hef engar heimildir fyrir þessu, annað en það sem ég hef tekið eftir sjálfur og heyrt fólk ræða um.

Vífilfell hefur því um skeið verið eftirbátur Ölgerðarinnar í sódavatni. Toppur hefur einkum höfðað til sérvitringa. Drykkur með vondu sítrónubragði og langt frá því að vera ferskur. Á dögunum kynnti Vífilfell nýja gerð bragðbætts sódavatns, T2. Ég gaf T2 með sítrónubragði séns og þarna er loksins komið ágætt mótsvar við Kristal plús. Alls ekki sem verstur og sítrónubragðið mun ferskara en af hefðbundnum Toppi.

Niðurstaða: Sódavatn sem áður var drykkur sérvitringa og heilsfríka hefur haslað sér völl á almennum markaði með tilkomu vel heppnaðara bragðefna. Ég segi beint á erlenda markaði með Kristal plús og T2 gæti átt séns þar líka.

sunnudagur, 1. október 2006

Þvottafastar

Ég er ótrúlegur þvottameistari, skófla þvottinum í vélina, skelli hurðinni aftur og hviss bamm búmm stilli og ýti á takka og skrúfa frá vatni.

Þegar maður þvær þvott þurfa ákveðnir fastar að vera til staðar. Fastarnir eru sem hér segir:
 • x: setja óhreinan þvott í vél ásamt þvottaefni.
 • y: loka vél.
 • z: skrúfa frá vatni.
 • þ: stilla þvottakerfi vélarinnar eftir aðstæðum hverju sinni.
Helst þarf að framkvæma fastana í þessari röð og aðeins þessari. Klúður verður óumflýjanlegt ef röðinni er ruglað.

Ég þvoði þvott áðan og jafnvel þvottameisturum verður stundum á. Eftir tvo klukkutíma fór ég niður í þvottahús og ætlaði að hengja upp rjúkandi ferskan þvottinn en þá sá ég að ég hafði gleymt fasta z. Þetta kom sérstaklega flatt upp á mig. Hvaða áhrif skyldi þetta hafa á þvottaferlið í heild? Ég velti fyrir mér ýmsum mögulegum möguleikum:
 • A. Þvotturinn kynni að hafa legið óhreyfður í vélinni og jafn skítugur og áður
 • B. Þvotturinn kynni að hafa þvegist, en þó eingöngu með þvottaefni, engu vatni og að vera þannig mestmegnis þurr en þó löðrandi í þvottaefni.
 • C. Þvotturinn gæti verið þurr, samanbrotinn og hreinn í vélinni. Þessi möguleiki er mjög langsóttur.
 • D - Z. Aðrir möguleikar sem komu ekki upp í hugann.
Eftir að hafa velt fyrir mér möguleikunum slökkti ég á vélinni og reyndi að opna. Það var ekki hægt og túlkaði ég það sem viðbrögð vélarinnar við skorti á fasta z. Viðbrögð mín við því voru að skrúfa frá vatninu og stilla vélina upp á nýtt og viti menn, hún fór að þvo.

Ég mun fá niðurstöður þvottarins síðar í kvöld.