laugardagur, 17. apríl 2010

Líf sem lóa

Ég:

Ég þarf að skila skýrslu fyrir hádegi á þriðjudag. Á eftir að lesa 300 blaðsíður og vinna úr þeim. Mæti á fund núna klukkan tíu. Á pantaðan tannlæknatíma klukkan hálfþrjú. Viðtalið frestaðist til hálffjögur svo það ætti að nást líka. Ef mér tekst að rumpa því af á góðum tíma, gæti ég líka náð á æfingu fyrir mat. Ég kíki á fésbókina og gái að tölvupósti. Það virðist allt vera orðið vitlaust heima, hvert eldgosið rekur annað og fréttir af því drekkja fréttunum af þessari skýrslu sem beðið var eftir. Það rignir eldi og brennisteini segja þeir... Var að fá tölvupóst, neyðist til að breyta áætluninni eitthvað... Ég var líka búinn að lofa að hringja í Jens í dag. Nei, nú hringi ég í Jens!

Ég fer með nokkrum félögum í veiðiferð út á land, losna burt frá öllu áreitinu í örfáa daga. Veðrið er milt, það er léttskýjað, hægur andvari og sólin skín. Ég sest í grasþykknið á árbakkanum með stöngina, kasta út og hlusta á vatnsniðinn og kyrrðina. Lóa kemur fljúgandi og lendir í námunda við mig. ”B'dúaaa!B'dúaaa!B'dúaaa!” segir hún, gengur nokkur skref, stöðvar og segir aftur ”B'dúaaa!...” Hún endurtekur þessa rútínu í sífellu. ”Furðuleg hegðun” hugsa ég. Hvað skyldi þetta þýða? Hlýtur að vera eitthvað mikilvægt fyrst hún imprar svona á þessu, dag eftir dag, alla ævi. Kannski er hún bara að tjá gleði sína yfir einföldu lífi sínu, sem snýst einkum um að fljúga um heiðloftin blá með útsýni til allra átta, leita ætis og viðhalda stofninum. Líf hennar virðist ótrúlega einfalt í samanburði við mitt. Hegðunin er kannski ekki svo furðuleg þegar ég hugsa betur um það.  

Ég rís á fætur upp úr grasþykkninu, fleygi frá mér veiðistönginni og flýg af stað. Ég flýg hátt í loft upp og sé yfir allt. Eldgosið sést mjög vel úr þessari hæð. Ég flýg nær gosinu til þess að virða það fyrir mér, en passa mig að sveigja fram hjá öskunni og flúorögnunum, ég læt slík smáatriði ekki stoppa mig eins og flugvélarnar. Svo held ég fluginu áfram, skoða fjöllin, vötnin og jöklana. Ég ákveð að lenda við á norður í Laxárdal, skammt frá nokkrum veiðimönnum sem freista þess að fanga lax. ”B'dúaaa!” segi ég og labba smá spöl áður en ég endurtek ”B'dúaaa!” Þeir hafa tekið eftir mér og einn spyr hina: ”Hvað er að honum?” - annar svarar: ”Æ, hann missti vitið, heldur að hann sé lóa!” ”Hahaha! En hvernig gat hann flogið?” - ”Veit það ekki alveg, hann virðist hafa fundið út úr því um svipað leyti og vitið fór.”

Aftur hef ég mig á loft, nú til þess að fara út í heim. Það er þægilegt að vera laus við alla skriffinskuna; vegabréfavesen, bólusetningar og stopular flugsamgöngur. Ýmsar fuglategundir hafa tekið eftir þessum undarlega aðskotahlut í háloftunum, sumir hafa þó áttað sig á hagnýtu gildi hans og fylgja mér eftir í oddaflugi austur á bóginn. Ég klýf loftið betur en nokkur fugl og er því heppilegur til að leiða oddaflug. Við fljúgum yfir Everestfjall, Kínamúrinn og pýramídana. Ég lendi á mörgum áhugaverðum stöðum til þess að kynna mér aðstæður og skoða mig um.

Margs vísari eftir viðburðaríka ferð lendi ég aftur á árbakkanum, hættur að leika lóu.

Lóan:

Ég skil ekki þessa menn, þeir flækja líf sitt svo mikið. Þeir aka um á bílum, borga skatta, fara í detox-meðferðir, hlaupa á hlaupabretti og hvað veit ég! Svo koma þeir hingað í sveitakyrrðina í leit að ró, þegar áreitið er of mikið. Ég er ánægð með að lifa einföldu lífi, það er fínt að fljúga bara um og njóta frelsisins.

Nú þykknar upp, fárviðri mun skella á fyrr en varir. Lóan leitar skjóls í helli.

Hún stendur í hellismunnanum og starir út í storminn, bíður eftir að hann gangi yfir. Þetta ætlar að taka tímann sinn. ”Kannski lifi ég of einföldu lífi...” hugsar hún. ”...Nú væri fínt að hafa það kósý og kíkja á góða bíómynd, spila póker með félögum eða ráfa á netinu. Meira að segja að fara til tannlæknis! Bara eitthvað annað en þetta!”

----

Í netráfi mínu (og sem afsökun fyrir að fresta lærdómnum aðeins) var ég skyndilega farinn að hlusta á fuglahljóð, komst að því að sjósvala gæti slegið rækilega í gegn sem plötusnúður og "rímixari."