fimmtudagur, 24. apríl 2008

Rödd alþýðunnar?

Eins og flestir vita náði yfirgangur og heimska manna sem kalla sig fulltrúa vörubílstjóra, jafnvel fulltrúa almennings, nýjum hæðum í gær, þegar þeir lokuðu Suðurlandsvegi. Þeir hundsuðu ítrekað tilmæli lögreglu og sýndu af sér dólgslæti. Sá maður sem oftast hefur talað við fjölmiðla sem fulltrúi hópsins sagði lögregluna hafa átt upptökin að óeirðunum sem fylgdu í kjölfarið, hún hefði hindrað mann sem ætlaði að komast að kyrrstæðum vörubíl sínum þegar hann loksins ætlaði að færa hann. Orsök og afleiðing vefjast greinilega ekki fyrir þeim manni. Forsætisráðherra sagði í viðtali við kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins eitthvað á þá leið að margir teldu sig þurfa að koma málum inn á borð ríkisstjórnarinnar, en þeir hefðu ekki allir stóra trukka til þess. Ég veit ekki hvernig ástandið væri ef þeir allir hefðu trukka og væru allir nógu vitlausir til þess að nota þá á sama hátt og umræddir menn.

Langt er síðan ég hef hlustað á Útvarp sögu. Hins vegar ákvað ég að stilla inn á hana í morgun, bjóst við að heyra í hvumsa hlustendum um atburði gærdagsins og kostulegar túlkanir og tilþrifamiklar lýsingar. Þegar ég kveikti hringdi kona inn, sem var greinilega "fastakúnni", því umsjónarkonan Arnþrúður heilsaði henni með nafni. Hún talaði ekki um óeirðir í gær heldur sagði kampakát frá "húsráði sínu til ungra kvenna" eins og hún orðaði það, "sem færu nú að raka á sér lappirnar af kappi í tilefni sumars", "til þess að losna við broddana", en það var að "kveikja bara í þeim!" sagði hún og hló dátt og upplýsti að hún hefði beitt þessu eitraða bragði allt frá 1986.

Ég hélt að óeirðir gærdagsins væru efnið sem brynni á hlustendum, en þetta var næsti bær við.

laugardagur, 19. apríl 2008

Blaðamannafundur

Ég mæli með blaðamannafundi með Avram Grant, knattspyrnustjóra Chelsea eftir leik þeirra gegn Everton á fimmtudagskvöld. Forsaga málsins er sú að þegar örfáir leikir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni stendur baráttan um meistaratitilinn á milli Manchester United og Chelsea. Fjöldi fjölmiðla hefur afskrifað Chelsea í baráttunni fyrir löngu og gefið sér að Manchester verði meistarar. Menn víla jafnvel ekki fyrir sér að slá upp stríðsfyrirsögnum um hversu öruggt það sé.
Ágætt er að hafa í huga að fyrir rúmum tveimur mánuðum eða svo sló fjöldi fjölmiðla því föstu að Arsenal yrðu Englandsmeistarar, ekkert gat komið í veg fyrir það. Þeir spiluðu stórbrotinn sóknarbolta sem enginn gat stoppað og allt það. Í dag er staðan önnur, Arsenal er fallið úr Meistaradeildinni og tap þeirra gegn Man. Utd. um daginn rak síðasta naglann í líkkistuna í deildinni, svo að allar titilvonirnar eru fyrir bý á þeim bæ.

Ofan á það að ýmsir ónefndir fjölmiðlar hafi hampað Man. Utd. og um leið gert lítið úr möguleikum Chelsea bætist að erfiður leikur þeirra gegn Everton, sem átti að fara fram í dag (laugardag), var færður og leikinn sl. fimmtudag nánast fyrirvaralaust, til þess að Sky sjónvarpsstöðin gæti sýnt leikinn beint. Það þýddi að Chelsea spilaði bæði á mánudag og fimmtudag í vikunni sem leið. Tilfærsla leiksins þýddi að sumir miðaeigendur misstu af leiknum o.fl. Samsæriskenningar hafa verið búnar til af minna tilefni.

Af þessu ætti að vera ljóst að Avram Grant var ekki pirraður að ástæðulausu á fréttamannafundinum eftir leikinn. Hér eru nokkrar spurningar og svör af fundinum:

Áttuð þið skilið að vinna, Avram?
A: "já"

Hvað varstu ánægðastur með í frammistöðu liðsins í kvöld?
A: "Ég er ánægður"

Hvað varstu sérstaklega ánægður með?
A: "Ég veit það ekki"

Hefurðu einhver skilaboð til stuðningsmanna Chelsea?
A: "Eruð þið fulltrúar stuðningsmanna Chelsea?"

Þeir hljóta að trúa að þið eigið enn möguleika á titlinum, hefurðu einhver skilaboð til þeirra?
A: "Engin skilaboð"

Þú virðist ekki eins málglaður og venjulega, Avram. Er það vegna þess að Sky sjónvarpsstöðin lét færa leikinn yfir á fimmtudag?
A: "Kannski er það vegna ykkar. Ég veit það ekki. Það er í lagi með mig."

Tveimur spurningum síðar...
Er þetta vegna Sky?
A: "Nei. Sky er ágæt stöð. Mér finnst gaman að horfa á hana."

Viðtalið í heild má nálgast hér.

Spennan er töluverð í fótboltanum þessa dagana, bæði í Meistaradeild og ensku deildinni. Man. Utd. á möguleika á sigri í þeim báðum. Hins vegar er líka möguleiki að þeir vinni hvorugt, sem mér þætti alls ekki leiðinlegt.

sunnudagur, 13. apríl 2008

Sveina Múladóttir

  • Svalbarði, þáttur Þorsteins Guðmundssonar og Ágústu Evu Erlendsdóttur fer afar vel af stað. Nú eru fyrstu tveir þættirnir búnir og báðir voru afbragðsgóðir. Sketsarnir hafa verið eins og best verður á kosið. Hvað á þetta að þýða? - horn Sveinu Múladóttur í þættinum er frekar óborganlegt, ég hló a.m.k. mjög mikið að því. Það má varla á milli sjá, hvort er betra gervið og grettan á henni eða óstöðvandi stólpanöldurkjafturinn.
  • Grínþættirnir Klovn hafa verið á dagskrá RÚV á fimmtudagskvöldum síðan fyrir jól ef ég man rétt. Þeir þættir eru einir bestu grínþættir sem sést hafa á skjánum. Samtöl félaganna eru mjög góð og þeirra sjónarhorn á málin. Ég veit ekki hvaðan þeir fá hugmyndirnar, en í byrjun er þess alltaf getið að þættirnir séu byggðir á raunverulegum atburðum. Alltaf þegar maður heldur að aðstæður í þáttunum geti ekki orðið vandræðalegri, þá verða þær það. Samt vill aðalpersónan voða vel.
  • Spaugstofuna í kvöld. Hló ekki svo mikið sem einu sinni.