Rödd alþýðunnar?
Eins og flestir vita náði yfirgangur og heimska manna sem kalla sig fulltrúa vörubílstjóra, jafnvel fulltrúa almennings, nýjum hæðum í gær, þegar þeir lokuðu Suðurlandsvegi. Þeir hundsuðu ítrekað tilmæli lögreglu og sýndu af sér dólgslæti. Sá maður sem oftast hefur talað við fjölmiðla sem fulltrúi hópsins sagði lögregluna hafa átt upptökin að óeirðunum sem fylgdu í kjölfarið, hún hefði hindrað mann sem ætlaði að komast að kyrrstæðum vörubíl sínum þegar hann loksins ætlaði að færa hann. Orsök og afleiðing vefjast greinilega ekki fyrir þeim manni. Forsætisráðherra sagði í viðtali við kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins eitthvað á þá leið að margir teldu sig þurfa að koma málum inn á borð ríkisstjórnarinnar, en þeir hefðu ekki allir stóra trukka til þess. Ég veit ekki hvernig ástandið væri ef þeir allir hefðu trukka og væru allir nógu vitlausir til þess að nota þá á sama hátt og umræddir menn.
Langt er síðan ég hef hlustað á Útvarp sögu. Hins vegar ákvað ég að stilla inn á hana í morgun, bjóst við að heyra í hvumsa hlustendum um atburði gærdagsins og kostulegar túlkanir og tilþrifamiklar lýsingar. Þegar ég kveikti hringdi kona inn, sem var greinilega "fastakúnni", því umsjónarkonan Arnþrúður heilsaði henni með nafni. Hún talaði ekki um óeirðir í gær heldur sagði kampakát frá "húsráði sínu til ungra kvenna" eins og hún orðaði það, "sem færu nú að raka á sér lappirnar af kappi í tilefni sumars", "til þess að losna við broddana", en það var að "kveikja bara í þeim!" sagði hún og hló dátt og upplýsti að hún hefði beitt þessu eitraða bragði allt frá 1986.
Ég hélt að óeirðir gærdagsins væru efnið sem brynni á hlustendum, en þetta var næsti bær við.