laugardagur, 19. apríl 2008

Blaðamannafundur

Ég mæli með blaðamannafundi með Avram Grant, knattspyrnustjóra Chelsea eftir leik þeirra gegn Everton á fimmtudagskvöld. Forsaga málsins er sú að þegar örfáir leikir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni stendur baráttan um meistaratitilinn á milli Manchester United og Chelsea. Fjöldi fjölmiðla hefur afskrifað Chelsea í baráttunni fyrir löngu og gefið sér að Manchester verði meistarar. Menn víla jafnvel ekki fyrir sér að slá upp stríðsfyrirsögnum um hversu öruggt það sé.
Ágætt er að hafa í huga að fyrir rúmum tveimur mánuðum eða svo sló fjöldi fjölmiðla því föstu að Arsenal yrðu Englandsmeistarar, ekkert gat komið í veg fyrir það. Þeir spiluðu stórbrotinn sóknarbolta sem enginn gat stoppað og allt það. Í dag er staðan önnur, Arsenal er fallið úr Meistaradeildinni og tap þeirra gegn Man. Utd. um daginn rak síðasta naglann í líkkistuna í deildinni, svo að allar titilvonirnar eru fyrir bý á þeim bæ.

Ofan á það að ýmsir ónefndir fjölmiðlar hafi hampað Man. Utd. og um leið gert lítið úr möguleikum Chelsea bætist að erfiður leikur þeirra gegn Everton, sem átti að fara fram í dag (laugardag), var færður og leikinn sl. fimmtudag nánast fyrirvaralaust, til þess að Sky sjónvarpsstöðin gæti sýnt leikinn beint. Það þýddi að Chelsea spilaði bæði á mánudag og fimmtudag í vikunni sem leið. Tilfærsla leiksins þýddi að sumir miðaeigendur misstu af leiknum o.fl. Samsæriskenningar hafa verið búnar til af minna tilefni.

Af þessu ætti að vera ljóst að Avram Grant var ekki pirraður að ástæðulausu á fréttamannafundinum eftir leikinn. Hér eru nokkrar spurningar og svör af fundinum:

Áttuð þið skilið að vinna, Avram?
A: "já"

Hvað varstu ánægðastur með í frammistöðu liðsins í kvöld?
A: "Ég er ánægður"

Hvað varstu sérstaklega ánægður með?
A: "Ég veit það ekki"

Hefurðu einhver skilaboð til stuðningsmanna Chelsea?
A: "Eruð þið fulltrúar stuðningsmanna Chelsea?"

Þeir hljóta að trúa að þið eigið enn möguleika á titlinum, hefurðu einhver skilaboð til þeirra?
A: "Engin skilaboð"

Þú virðist ekki eins málglaður og venjulega, Avram. Er það vegna þess að Sky sjónvarpsstöðin lét færa leikinn yfir á fimmtudag?
A: "Kannski er það vegna ykkar. Ég veit það ekki. Það er í lagi með mig."

Tveimur spurningum síðar...
Er þetta vegna Sky?
A: "Nei. Sky er ágæt stöð. Mér finnst gaman að horfa á hana."

Viðtalið í heild má nálgast hér.

Spennan er töluverð í fótboltanum þessa dagana, bæði í Meistaradeild og ensku deildinni. Man. Utd. á möguleika á sigri í þeim báðum. Hins vegar er líka möguleiki að þeir vinni hvorugt, sem mér þætti alls ekki leiðinlegt.