sunnudagur, 27. júlí 2008

$$$ -How to be rich? -$$$

Regla 1: Skrifaðu bók um efnið "Hvernig á að verða ríkur?" og seldu vitleysingum í bílförmum. Settu mynd af sjálfum þér á forsíðu með besta spekingssvip sem þú getur dregið fram og vertu helst með gleraugu og helst gráhærður. Þú getur líka bara sett mynd af einhverjum gráhærðum miðaldra karli með gleraugu og órætt lúmskt (jafnvel djöfullegt) glott og sagt að það sért þú.

Regla 2: Ekki eyða ógeðslega miklu í vitleysu. Eyddu sem minnstu í vitleysu og hugsaðu um hverja krónu.

Regla 3: Hugsaðu þig um áður en þú ákveður að taka 90 % húsnæðislán, sem voru rosa fyndin og skemmtileg í kosningaloforðaauglýsingum exbé um árið.

Regla 4: Ef þú átt ekki pening, ekki kaupa stóran jeppa á bullandi óhagstæðu bílaláni. Oft þarf að borga lán til baka, þótt ótrúlegt megi virðast.

Þetta var útdráttur úr bókinni $$$How to be rich?$$$, sem ég ætla að gefa út einn daginn, til þess að verða ÓGEÐSLEGA ríkur. Bókin verður seld á afar hagstæðum kjörum og í mjög haganlegum neytendaumbúðum. Ef ráðunum verður fylgt ætti árangurinn að fara að sjást á undraskömmum tíma og viðkomandi lesendur vita ekki fyrr en þeir eru farnir að raka inn seðlunum.

Svartur riddari

"Svarthvíta hetjan mín" eins og Dúkkulísurnar sungu í sífellu?

Nei, hér verður fjallað um Svarta riddarann, nýju Batman-myndina. Eins og fram kemur í myndinni er Batman ekki hetja, heldur svartur riddari. Helsti galli myndarinnar er kannski að nútímatækni er aðeins of mikið nýtt af sögupersónum. Maður sér fyrir sér að ef sú þróun heldur áfram verði Batman í framtíðinni spikfeitur og fari í tölvuna til þess að góma Jókerinn - "SYSTEM LOADING...JOKER CAUGHT" - síðan komi mynd af Jókernum í búri þessu til staðfestingar. Batman fengi sér síðan bjór og snakk til að fagna hetjudáð sinni.

Kostir myndarinnar eru fleiri. Sá sem stelur senunni er Jókerinn, gamansamur með afbrigðum eins og nafnið gefur til kynna. Það sem hann hefur fram yfir flesta aðra vonda karla í sögum er að það er ekkert hægt að semja við hann eða leika á hann, hann er bara snúllandi geðveikur og enginn veit hverju hann sækist eftir eða hvað hann gerir næst. Eina sem fólk veit er að hann sýnir sig ekki opinberlega nema farðaður og hefur gaman að Batman, en þær upplýsingar hrökkva skammt þegar þarf að ná honum. Mig grunar samt að aðsókn á myndina sé þó nokkuð meiri en ella vegna þess að hún skartar látnum manni í aðalhlutverki. Heath Ledger skýtur hinum leikurunum ref fyrir rass í þessarri mynd.

Ég held að það sé ómögulegt að sofna yfir myndinni, því spennan er mikil nánast frá fyrstu mínútu og út í gegn. Christian Bale, sem leikur Batman, er ekkert spes í sínu hlutverki, skilar bara sínu en ekkert meira. Morgan Freeman virðist alltaf leika nokkurn veginn sömu týpuna í myndum, gerir það vel í þessarri eins og oftast áður. Almennt er ekkert hægt að kvarta undan leikurum í myndinni. Flest annað sem máli skiptir er til fyrirmyndar í þessarri mynd.

Einkunn: 9,0.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

DJ Bjarni Fel

EM í fótbolta er lokið. Allt tal um "fima listamenn" Ítala missti marks. Allt tal um "þýska stálið" missti marks. Spánverjar unnu eins og ég spáði fyrir mót. Spáin gekk reyndar betur eftir en meirihluti spáa fyrir mótið.

Páll Óskar er frekar umdeildur maður. Sumir nánast hata manninn á meðan aðrir virðast dýrka hann. Ég tel mig vera nokkuð hlutlausan. Hins vegar fannst mér hann allt of oft vera fenginn sem DJ á böll í MR í þau fimm ár sem ég eyddi sem nemandi þar. Hann var nánast í áskrift virtist vera. Ég hef aldrei skilið almennilega hvers vegna. Er hann eitthvað betri plötusnúður en hver annar Þorlákur úti í bæ? Spilar hann skemmtilegri lög? Heldur hann uppi betri stemmingu? Stundum sagði hann eitthvað á milli laga, oftast eitthvað eins og "KOMA SVO EMM ERR!". Páll Óskar virðist vera frekar eftirsóttur sem DJ, hvort sem er í MR eða á öðrum vígstöðvum.

Margir söknuðu Bjarna Fel úr lýsingum á EM. Bjarni hefur gott lag á að lýsa, ekki síst vegna góðra frasa sem hann halar út úr erminni í lýsingum. Dæmi:

  • "...og hann bara með skot!" (oft sagt óháð því hvort leikmaður skýtur úr dauðafæri eða á ævintýralegt skot lengst utan af velli)
  • "BYLMINGSSKOT!"
  • "BANG OG MARK!"
  • "Já, hann er enginn aukvisi [t.d. "í markinu"] hann..."
  • "Hann fór illa að ráði sínu þarna, hann..."
Ég held að Bjarni væri ekki síðri sem DJ. Þar gæti hann notað sömu frasana og í fótboltalýsingum, slengt þeim fram milli laga og haldið uppi dýrvitlausri stemmingu allan tímann. Stundum gæti hann breytt frösunum smávegis, t.d. sagt "BANG OG LAG!" og skellt næsta lagi á fóninn. Eftir að hafa spilað lag með Jamiroquai við góðar undirtektir gæti hann sagt: "Já, hann er enginn aukvisi í taktinum, hann Jamiroquai". Svo gæti orðið mjög vinsælt partýtrix hjá honum að stoppa lag skyndilega og segja "og hann bara með skot!" (sem viðstaddir vissu vel hvað þýddi - að þeir ættu að panta sér skot á barnum). Síðan gæti hann sett lagið aftur á, á meðan viðstaddir biðu spenntir eftir næsta frasa Bjarna - "BYLMINGSSKOT!" sem að sjálfsögðu þýddi að fólk ætti að skella skotunum í sig. Í gríni gæti Bjarni líka stundum sett á grútléleg lög og tekið þau af eftir skamma stund, t.d. með orðunum: "Hann fór illa að ráði sínu þarna, hann Justin Timberlake" og síðan sett á betra lag með betri tónlistarmanni.

Bjarni í diskóbúrinu?