Svartur riddari
"Svarthvíta hetjan mín" eins og Dúkkulísurnar sungu í sífellu?
Nei, hér verður fjallað um Svarta riddarann, nýju Batman-myndina. Eins og fram kemur í myndinni er Batman ekki hetja, heldur svartur riddari. Helsti galli myndarinnar er kannski að nútímatækni er aðeins of mikið nýtt af sögupersónum. Maður sér fyrir sér að ef sú þróun heldur áfram verði Batman í framtíðinni spikfeitur og fari í tölvuna til þess að góma Jókerinn - "SYSTEM LOADING...JOKER CAUGHT" - síðan komi mynd af Jókernum í búri þessu til staðfestingar. Batman fengi sér síðan bjór og snakk til að fagna hetjudáð sinni.
Kostir myndarinnar eru fleiri. Sá sem stelur senunni er Jókerinn, gamansamur með afbrigðum eins og nafnið gefur til kynna. Það sem hann hefur fram yfir flesta aðra vonda karla í sögum er að það er ekkert hægt að semja við hann eða leika á hann, hann er bara snúllandi geðveikur og enginn veit hverju hann sækist eftir eða hvað hann gerir næst. Eina sem fólk veit er að hann sýnir sig ekki opinberlega nema farðaður og hefur gaman að Batman, en þær upplýsingar hrökkva skammt þegar þarf að ná honum. Mig grunar samt að aðsókn á myndina sé þó nokkuð meiri en ella vegna þess að hún skartar látnum manni í aðalhlutverki. Heath Ledger skýtur hinum leikurunum ref fyrir rass í þessarri mynd.
Ég held að það sé ómögulegt að sofna yfir myndinni, því spennan er mikil nánast frá fyrstu mínútu og út í gegn. Christian Bale, sem leikur Batman, er ekkert spes í sínu hlutverki, skilar bara sínu en ekkert meira. Morgan Freeman virðist alltaf leika nokkurn veginn sömu týpuna í myndum, gerir það vel í þessarri eins og oftast áður. Almennt er ekkert hægt að kvarta undan leikurum í myndinni. Flest annað sem máli skiptir er til fyrirmyndar í þessarri mynd.
Einkunn: 9,0.
|