mánudagur, 10. ágúst 2009

Þjónusta!

Í vegasjoppu við Þjóðveg eitt:
Ég: Góðann daginn, tvær með öllu.
Afgreiðslustúlka: Viltu líka kokteilsósu á þær?
Ég: Nei, takk.
Fyrsta verk afgreiðslustúlku er að setja steiktan, hráan og kokteilsósu í pylsubrauð. Ég fylgist undrandi með. Og svo:
Afg.: Hvort sagðirðu aftur nei takk eða já takk við kokteilsósunni?
Ég: Ég sagði nei takk!
Afg: Ó.
Byrjar upp á nýtt og man í þetta skiptið að sleppa kokteilsósunni.

Annars er kokteilsósa ágæt, sérstaklega með frönskum, síður á pylsur.

Lærdómur: Verum ekki á sjálfstýringu og "cruise control" í vinnunni.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Af kvöldmat

Var einn heima í gærkvöldi um kvöldmatarleytið. Opnaði kæliskápinn og við blasti ólgandi beinhreinsað laxastykki. Skipti engum togum að ég þrumaði nýjum kartöflum í pott, galdraði fram sósu úr súrmjólk, grískri jógúrt, ferskum basil, tarragoni og smá dilli. Setti síðan sítrónupipar, pipar og Himalaya salt á laxastykkið og steikti á pönnu ásamt sveppum (hljómar kannski frekar steikt, en átti vel við með laxinum). Á sumrin gefst miklu betri tími til tilraunaeldamennsku en á veturna.

Þetta féll eins og flis í munn og steinlá og hvað það nú heitir allt saman. Þetta var skammtur fyrir tvo og vantaði kvenmann til að borða með. Það er líka djöfullegt að vera einn til frásagnar um þetta því þá getur fólk véfengt og dregið í efa.

Yfirleitt finnst mér lélegt þegar menn hrósa sjálfum sér, en ég gat ekki setið á mér núna, slíkur var myndarskapurinn.

Svona gera menn ekki?

Aðalmálið að vera með?

Liverpool fengu skell gegn Espanyol í æfingaleik í gær, töpuðu 3 - 0. Í viðtali eftir leikinn segir kantmaðurinn knái, Riera, leikæfinguna mikilvægari en úrslitin.

Svo er bara spurningin hvað Riera segir í lok komandi tímabils ef það verður enn eitt tímabilið án Englandsmeistaratitils - kannski "Aðalmálið er að vera með," áhangendum til ómældrar gleði.

Svona gera menn ekki.