mánudagur, 12. október 2009

Stóra klósettmálinu loksins lokið

Stutt upprifjun úr síðasta þætti: Guðmundur flutti inn í námsmannaíbúðina og sá að klósettið var slíkur viðbjóður að annað eins hafði hann ekki séð. (Við sjáum ekki myndir). Hann fór og kvartaði til þar til gerðra yfirvalda og yfirvaldið kom og skipti um klósettsetu, eins og það væri nóg!

Næsti þáttur:
Öðru sinni fór Guðmundur og kvartaði, fyrst við húsvörðinn og síðan við Húsnæðisskrifstofu alþjóðanema. Húsvörðurinn stóð fast á þeirri skoðun sinni að botninn á klósettinu væri bara skítugur, ekki slitinn, eins og G. hélt fram. Hann benti G. jafnframt á að kvarta við Húsnæðisskrifstofuna undan ófullnægjandi þrifum klósetts. Húsvörðurinn var þó reiðubúinn að gera við sturtun klósettsins, sem hafði virkað illa til að byrja með og var hætt að virka á þessum tímapunkti. Vatnsfötu þurfti til að sturta nú orðið.

Næsta stopp, Húsnæðisskrifstofan: G. var ekki of bjartsýnn fyrir ferð sína á Húsnæðisskrifstofuna, enda hafði hann í fyrri heimsókn sinni þangað fengið nokkur svör í stíl við "Computer says no!" Í þetta skiptið talaði hann við annan þjónustufulltrúa og byrjaði á að nefna að ekkert svar hefði fengist við tölvupósti til hins þjónustufulltrúans, sendum fyrir fimm virkum dögum. Svo sagði hann alla sólarsöguna af klósettinu og fleiri vanköntum á íbúðinni sem ekki verða tíundaðir frekar. Í stuttu máli sagt voru svör þessa þjónustufulltrúa mun ásættanlegri en þess fyrri og lofaði hann m.a. að senda Þrifameistara Húsnæðisskrifstofunnar á svæðið, sem hann nefndi einhverra hluta vegna að væri indverskur. G. áttaði sig ekki alveg á hvernig það kom málinu við, en hvað um það...

Í morgun mætti Þrifameistarinn á svæðið, vopnaður allra handa hreinsibúnaði og hófst handa. Hann sagði að klósettið væri verra en hann hefði búist við og sótti "extreme case" - græjur út í bíl. Síðan heyrði G. alls kyns skraphljóð innan af klósetti og púst og fáein blótsyrði. Þetta stóð yfir í um 40 mín., en þá kom maðurinn brosandi út og sagði verkinu lokið. G. leit á og gat staðfest það, hann hafði ekki látið nægja að þrífa klósettið heldur tók allt baðherbergið í gegn. Ekki var laust við ofbirtu í augun þegar litið var á dýrðina, ekki ósvipað Mr. Proper auglýsingu. Eru þá ekki allir sáttir? Stóra klósettmálinu er hér með lokið á farsælan hátt.

Látum hressan þjónustufulltrúa um að enda þetta: