Bara venjulegur fimmtudagsmorgun
Á fimmtudagsmorguninn lagaði ég morgunkaffið og kíkti aðeins í tölvuna. Ég átti eftir að klæða mig þegar einhver sauðslegur maður óð inn í íbúðina. Hann hafði ekki fyrir því að banka á undan, opnaði bara með lykli og lét eins og heima hjá sér. Hann hélt á kassa. Þegar hann sá að ég var heima sagði hann einhverja óskiljanlega þvælu á dönsku. Ég bað hann vinsamlegast að bera upp erindið á ensku og þá sagðist hann á blöndu af ensku og dönsku vera kominn til þess að skipta um klósettsetu hjá mér og að sér hefði verið sagt að ég væri ekki heima (hver átti svosum að vita það?), þess vegna óð hann bara inn.
Fyrr í vikunni hafði ég kvartað undan klósettinu í íbúðinni og beðið um að því yrði hreinlega skipt út, þar sem það er virkilega sjúskað og ógeðslegt. Veit ekki hversu mikið ég á að fara út í smáatriði, en það er sem sagt mjög slitið neðst og lítur út fyrir að vera óhreint. Ástæðan líklega sú að einhver fyrri íbúi hefur notað tærandi efni til þess að hreinsa klósettið. Klósettsettan var líka öll upplituð (svona skitugul e-n veginn), en nú er vinur okkar búinn að skipta henni út sem sagt, fyrir glæsilega glansandi nýja postulínssetu svo ég geti tekið gleði mína á ný. Þar að auki er vatnskassinn stundum í nokkra klukkutíma að fyllast eftir að sturtað er... Með öðrum orðum, það þarf að skipta þessu klósetti út.
Ég nefndi við manninn að ég hefði viljað fá klósettinu í heild skipt út. Hann sagðist bara hlýða fyrirmælum að ofan og að ég yrði að tala um þetta við húsvörðinn. Ég var búinn að því, en húsvörðurinn hafði komið einn daginn þegar ég var ekki heima að líta á klósettið. Hans niðurstaða hefur greinilega verið sú að eingöngu þyrfti að skipta um setu...Nema að þessu verði öllu skipt út, bara í nokkrum skömmtum, næst kemur maðurinn kannski að skipta út skrúfum eða eitthvað.
|