föstudagur, 18. júní 2010

VINSAMLEGA BÍÐIÐ HÉR EFTIR KALLI GJALDKERA

Þetta stóð á skiltum í bankanum. Stundum fór ég þangað í fylgd með foreldrunum. Ég spurði þau hvers vegna gjaldkerakarlinn léti aldrei sjá sig þótt maður biði og biði, enda voru stafsetningarreglur algjörlega á reiki í mínum huga. Þau reyndu að útskýra fyrir mér að þetta þýddi að gjaldkerinn kallaði á næsta viðskiptavin þegar röðin væri komin að honum. Ég trúði því rétt mátulega, hélt að þau væru bara að bulla, enda lifðu þau í öðrum veruleika en ég. Þau lifðu í einhverjum bullheimi þar sem maður þarf að sinna erindum í bönkum og á pósthúsum, fara í búðir og meira að segja að mæta í vinnu. Sjálfur þurfti ég aldrei að hafa áhyggjur af slíku. Ég pældi í töluvert eðlilegri hlutum á þeim tíma.

Þegar ég var einu sinni sem oftar orðinn hundleiður á að standa við biðskiltið færði ég mig að kubbaborðinu. Kannski gæti ég kubbað eitthvað fallegt á meðan foreldrarnir biðu í röðinni eða töluðu við gjaldkerann. Það reyndist vera tímasóun, því einhver annar krakki sat við borðið og hafði tekið alla bestu legókubbana til þess að byggja (að mínu mati) aumkunarverðan skúlptúr. Vonbrigðin uppmáluð stillti ég mér þá aftur upp við biðskiltið og beið.

Ég hafði líka tekið eftir að fullorðna fólkið ræddi oft flókna hluti og notaði hugtök sem höfðu enga merkingu fyrir mér. Það ræddi til dæmis stjórnmál, fjármál og eitthvað úr fréttunum – kannski um forræðisdeilu Sophiu Hansen og Halim Al. Stundum apaði ég eftir hugtakanotkun fullorðna fólksins án þess að hafa hugmynd um hvað ég væri að segja, svona til þess að hljóma virðulegri. Býflugnaveiðar, brunnklukkuveiðar og torfærur á reiðhjóli voru annars mínar ær og kýr.

Að hugsa sér að nú, ”örfáum” árum síðar sé ég orðinn fullorðinn - orðinn einn af bullurokkunum og farinn að taka þátt í vitleysunni. Þvaðra jafnvel um stjórnmál endrum og eins, á meira að segja að heita stjórnmálafræðingur skv. pappírnum. Hvað skyldi ég hafa sagt við því 6-7 ára gamall, hefði ég séð það fyrir?