föstudagur, 22. nóvember 2002

Í Morgunblaðinu í dag (fös. 22.nóv.) er grein sem heitir Fingurnir koma upp um persónuleikann sem fjallar um rannsókn sem vísindamenn frá Liverpool gerðu. 200 manns, karlar og konur tóku þátt í rannsókninni. Persónuleiki þessa fólks og eiginleikar voru bornir saman við lengd fingranna og niðurstöðurnar voru skýrar:
KARLAR:
1. Karlar með baugfingur lengri enn vísifingur hafa mikla fótboltahæfileika, glíma við samskiptaörðugleika og hafa mikla frjósemi.
2. Karlar með baugfingur og vísifingur svipaða að lengd eru orðheppnir og mælskir en hafa takmarkaða getu til að stunda íþróttir.
KONUR:
1. Ef baugfingur og vísifingur kvenna eru svipaðir að lengd bendir það til taugaveiklunar, hræðslu við að taka áhættu en viðkomandi á auðvelt með að umgangast annað fólk.
2. Séu baugfingur kvenna hins vegar lengri bendir það til samskiptaörðugleika, en ákveðni, einbeitni og hugrekki.

Kenningin var síðan sannreynd af blaðamanni Moggans á Ásgeiri Sigurvinssyni, einum besta knattspyrnumanni sem íslendingar hafa átt. Baugfingur Ásgeirs var talsvert lengri en vísifingurinn, sem renndi frekari stoðum undir kenninguna.

Þetta þótti mér merkileg grein og þar sem ég er nokkuð auðtrúa athugaði ég finguna á sjálfum mér. Í ljós kom að á vinstri hönd hef ég baugfingur lengri en vísifingur en á hægri höndinni voru þessir fingur jafnlangir. Ég hlýt þá að vera sér rannsóknarefni. Kannski er ég bara með miðlungsskammt af þessum hæfileikum/"ó"hæfileikum. Kannski er ég alveg hæfileikalaus.