laugardagur, 1. maí 2004

Græddi á betlara

Kúbuferð 2004, fyrri hluti
Um páskana fór ég til Kúbu með mömmu og Nínu systur í átta daga. Kúba er flottasta land sem ég hef séð. Fyrst vorum við í Havana í fjóra daga á Mélia Hotel Habana Libre Tryp. Það var fínt hótel en þar fékk ég reyndar blóðugan kjúkling á morgunverðarhlaðborði hótelsins við litla hrifningu. Fyrsta daginn röltum við um borgina, niður að sjó og fleira. Ég hef aldrei séð jafnglæsilega borg og Havana. Glæstar byggingar með súlnagöngum, reyndar flestar að hruni komnar. Það var lítið um að húsum væri haldið við. Þau grotnuðu bara niður í friði og ró. Við eitt húsið var búið að stilla stærðar timburstalli til að styðja við það svo það hryndi ekki. Spurning hvort það hrynur ekki bara innan frá í staðinn. Við röltum með sjávarsíðunni og mættum nokkrum betlurum. Betlararnir byrjuðu einhverra hluta vegna alltaf á að spjalla við mig. Við keyptum einhverja Che Guevara mynt af einum betlaranum og þá varð ekki aftur snúið, sá næsti réðst að mér og ætlaði að leika sama leik og sá fyrri. Hann var gríðarlega kumpánlegur en talaði hræðilega ensku og skyldi ég lítið af því sem hann sagði. Hann talaði m.a. um hvað íslenska landsliðið í fótbolta hefði staðið sig frábærlega á einhverju móti. HA? Ég vissi ekki af því. En þessi kúbanski betlari vissi greinilega meira um það en ég. Svo hélt hann áfram að masa e-ð á illskiljanlegri ensku sinni og afhenti mér síðan kúbanska mynt og vonaðist pottþétt eftir að fá dollara í staðinn. Ég lét hann ekki hafa neitt og hélt bara áfram göngu minni og afrekaði ég þannig það að græða á betlara. Hann gat bara sjálfum sér um kennt, hann var of uppáþrengjandi. En síðan sneri hann sér bara að næstu túristum. Kúbupeningar eru bara notaðir af innfæddum og duga bara fyrir brýnustu nauðsynjum. Dollari er miklu meira notaður þarna og allt er verðmerkt í dollurum. Það var mjög sjaldgæft að hitta á fólk sem talaði sæmilega ensku, enskukunnátta innfæddra var í flestum tilfellum í lágmarki. Það var því slæmt að kunna ekki spænsku.

Það sem skemmtilegast var að sjá í Havana var lífið inni í íbúðahverfunum. Allt iðaði af lífi og mátti sjá drengi í boltaleik, fólk sitjandi á tröppum í e-u spili. Sumir voru bara að spjalla, þeir gömlu sem sáu sér ekki fært að taka þátt stóðu þá í staðinn uppi á svölum og fylgdust með. "Alejandro!" kallaði móðir sem vildi fá son sinn inn í matinn. Lífsgleðin í fyrirrúmi; sungið, dansað og spilað á hljóðfæri. Þrátt fyrir fátæktina sem er mikil þarna kann fólk að lifa lífinu á einfaldan og skemmtilegan hátt. Mér fannst líka frábært að ganga um götur Havana út af rólegheitunum, enginn var að flýta sér. Bílarnir á götunum voru eldgamlir amerískir kaggar, Moskvitz og Lödur. Hvílík snilld. Það var líka mikið um svokallaðar kókoshnetur, pínulitla opna leigubíla sem eru í laginu eins og kókoshnetur. Í Havana taka menn lífinu með ró og búðareigendum þótti ekkert tiltökumál að skreppa frá og loka búðum í svona hálftíma þótt þær ættu að vera opnar skv. auglýstum opnunartíma. Dýrkun fólks á byltingarhetjunni Che Guevara er gríðarleg og út um allt er krotað "Hasta la victoria siempre" (lifi byltingin) , "Viva Che" og fleira í þeim dúr. Ég keypti mér að sjálfsögðu tvo boli með myndum af kappanum. Ferðamannaiðnaðurinn er lifibrauð margra og sölumenn víða ansi uppáþrengjandi.