föstudagur, 27. janúar 2006

Froðufellandi íþróttafréttamaður

Er ekki frá því að leikur Íslendinga og Dana í kvöld hafi verið mest spennandi handboltaleikur sem ég hef séð. Íslendingar virtust ætla að valta yfir þá í byrjun og voru sex mörkum yfir á tímabili í fyrri hálfleik. Svo dró saman með liðunum og spennukaflinn var þó nokkuð lengri en venjulega og fram að lokum.

Horfði á sjónvarpið bilaða þar sem hljóðið vantar en bætti það upp með því að hlusta á útvarpslýsingu Geirs Magnússonar, sem var kostuleg. Geir var orðinn gjörsamlega trylltur undir lokin, raddlaus og ég heyrði ekki betur en að hann væri farinn að froðufella líka og erfitt var að skilja hvað hann sagði. En þegar 30 sek. voru eftir var leiktíminn stoppaður og þá kastaði hann mæðinni og sagði að leikmenn gætu róað sig og nefndi líka að hann þyrfti kannski aðeins að róa sig. Lokastaða 28-28 en Íslendingarnir hefðu nú átt að hafa þetta með smá heppni, þeir voru betri.

Góður leikur og góð lýsing.