Þessir Danir
Fór á Bakken í gær. Pantaði bjór (á dönsku), í einni af ótal íssjoppum, fékk bjór minn og greiddi uppsett verð. Nema hvað, ég tek við bjórnum og afhendi féð og rymur þá ekki afgreiðslustúlkan upp úr sér einhverjum orðaflaumi á 100 km hraða og brosti síðan voða sætt. Ég stóð þarna framan við í smástund og velti fyrir mér hvað hún mögulega gæti hafa sagt, skildi ekki orð, brosti bara á móti, kinkaði kolli og fór.Í lestinni til Álaborgar í dag kom líka kona og þvaðraði upp úr sér einhverri vitleysu. Ég skildi ekkert, góndi bara á hana álkulegur og eins og hver annar glópur. Þarna hafði hún augljóslega gert ráð fyrir að ég væri danskur og skildi mælt mál eins og aðrir. En það var nú öðru nær.
Dönum er því bent á að tala hér eftir hægt og skýrt, a.m.k. til að byrja með og gera ekki bara ráð fyrir að maður skilji allt þótt maður tali dönsku við þá.