fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Þessir Danir

Fór á Bakken í gær. Pantaði bjór (á dönsku), í einni af ótal íssjoppum, fékk bjór minn og greiddi uppsett verð. Nema hvað, ég tek við bjórnum og afhendi féð og rymur þá ekki afgreiðslustúlkan upp úr sér einhverjum orðaflaumi á 100 km hraða og brosti síðan voða sætt. Ég stóð þarna framan við í smástund og velti fyrir mér hvað hún mögulega gæti hafa sagt, skildi ekki orð, brosti bara á móti, kinkaði kolli og fór.

Í lestinni til Álaborgar í dag kom líka kona og þvaðraði upp úr sér einhverri vitleysu. Ég skildi ekkert, góndi bara á hana álkulegur og eins og hver annar glópur. Þarna hafði hún augljóslega gert ráð fyrir að ég væri danskur og skildi mælt mál eins og aðrir. En það var nú öðru nær.

Dönum er því bent á að tala hér eftir hægt og skýrt, a.m.k. til að byrja með og gera ekki bara ráð fyrir að maður skilji allt þótt maður tali dönsku við þá.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Til Akranesar, Selfossar og Akureyris

Davíð Þór Jónsson skrifaði góða bakþanka á sunnudagsblað Fréttablaðsins. Þar fjallar hann um nokkra eldheita aðdáendur Simpsons sem sjá rautt yfir íslenskri talsetningu myndarinnar sem þeir kalla m.a. "peningasóun". Eins og sumum er kunnugt þýddi hann og staðfærði myndina á íslensku. Besta efnisgreinin hjá honum er þessi:

"Að vísu virðist andúð fólks á talsetningunni vera meiri eftir því sem það er verr skrifandi á íslensku. Þannig agnúast einn netverji út í talsetninguna í næstu færslu á eftir frásögn af keppnisferð "til Akranesar". Guð forði honum frá að heyra íslensku talaða."
Þetta minnir mig á hvað mér finnst frábært þegar fólk er með stólpakjaft og talar bandvitlaust mál. Ósjálfrátt fer maður að bera virðingu fyrir slíku fólki og leggur við hlustir. "Þessi er efnilegur" hugsar maður og sér viðkomandi fyrir sér sem næsta forseta eða biskup. "Láttu hann heyra það!" langar mann að segja við mannvitsbrekkuna þar sem hún eys úr skálum reiði sinnar og visku, t.d. með því að beygja bæjarnöfn svona:
  • til Akranesar
  • til Selfossar
  • til Akureyris
Ég ákvað að fletta "Akureyris", "Selfossar" og "Akranesar" upp á Google. Niðurstöður voru þessar:
  • Akranesar (614 niðurstöður)
  • Akureyris (12.000!)
  • Selfossar (557).
Frábært.

Liverpool - Chelsea

Rob Styles dómari ætti líklega að fá rauða spjaldið fyrir frammistöðu sína í leik Chelsea og Liverpool í gær. Vítaspyrnudómur hans í stöðunni 1-0 fyrir Liverpool breytti augljóslega niðurstöðu leiksins, þar sem um var að ræða brot Chelsea-manns á Liverpool manni í teig Liverpool en ekki öfugt. En hann lét sér það ekki nægja, því nokkru síðar neitaði hann að hafa gefið Essien hans annað gula spjald í leiknum sem venjulega þýðir brottvísun, sem hann hafði þó gert og myndavélar geta staðfest. Hann var bara að teygja sig fyrir framan Essien og hélt óvart á spjaldinu um leið, er það ekki? Spjaldið sagði hann hafa verið ætlað John Terry. En Terry þykir ekki mjög líkur Essien svo þetta hljómar ansi hjákátlega.

Dómarar eru vissulega hluti af leiknum en stundum fer þetta út fyrir velsæmismörk. Skyldi Enska knattspyrnusambandið gera eitthvað í þessu?

Hitt er annað mál að Liverpool áttu að vera búnir að gera út um leikinn þegar gloríur dómarans gerðust æ verri, enda mun betri í þessum fjöruga leik.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

The Simpsons Movie

Dálítið eins og langur Simpsons þáttur. Sumir brandarar þunnir, aðrir elgferskir.

Einkunn:
7,0.

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Bíladella

Stundum verð ég vitni að umræðum um bíla. Menn skoða jafnvel myndir af hinum og þessum bílum með flunkunýjum spoilerkit, leðursætum og þráðlausu stýri.

"Varstu búinn að sjá nýja Audíinn, 7000 hestöfl, djöfull er hann flottur!"
"Já, þarna AFX 2007?"
"Já mar!" (bendir á mynd af nýjum Audi, máli sínu til sönnunar)
"Maður hefði nú ekkert á móti því að eiga 15 milljónir núna"
...

Bílar eru frekar algengt áhugamál hjá strákum og körlum. Einhvern veginn hef ég aldrei fengið bíladellu. Mér finnst þessar umræður oftast snúast um það hversu rosalegan bíl menn myndu kaupa sér ef þeir ættu ógeðslega mikinn pening...eða ef þeir fengju ógeðslega stórt bílalán hjá Lýsingu.

Ég held að skortur á bíladellu hjá mér skýrist að verulegu leyti á uppeldinu. Margir pabbar virðast nefnilega rækta delluna upp í sonum sínum nánast frá fæðingu:
"Stráksi, sjáðu! Reykspúandi Cadillac!" og stráksinn hugsar "Vó, ég ætla að fá mér reykspúandi Cadillac þegar ég verð stór!". Pabbi minn átti hins vegar Lödu Lux 1500 sem var eldri en ég alveg frá því ég man eftir mér og vel fram yfir aldamótin 2000. Aldrei benti hann mér á nýja Cadillacinn eða nýja Bimmann.

En skyldi ég vera að missa af einhverju? Er bíladella eftisrsóknarverð?
----
Allt öðru máli gegnir um vinnuvélar, mér fannst gröfur t.d. alltaf frábærar og finnst eiginlega enn. Ég væri alveg til í að eiga risastóra skurðgröfu og vörubíl og grafa síðan holur og hóla eða flytja hlass af jarðvegi á vörubílnum og sturta einhversstaðar.

Hver fúlsar við góðri gröfu?