mánudagur, 20. ágúst 2007

Til Akranesar, Selfossar og Akureyris

Davíð Þór Jónsson skrifaði góða bakþanka á sunnudagsblað Fréttablaðsins. Þar fjallar hann um nokkra eldheita aðdáendur Simpsons sem sjá rautt yfir íslenskri talsetningu myndarinnar sem þeir kalla m.a. "peningasóun". Eins og sumum er kunnugt þýddi hann og staðfærði myndina á íslensku. Besta efnisgreinin hjá honum er þessi:

"Að vísu virðist andúð fólks á talsetningunni vera meiri eftir því sem það er verr skrifandi á íslensku. Þannig agnúast einn netverji út í talsetninguna í næstu færslu á eftir frásögn af keppnisferð "til Akranesar". Guð forði honum frá að heyra íslensku talaða."
Þetta minnir mig á hvað mér finnst frábært þegar fólk er með stólpakjaft og talar bandvitlaust mál. Ósjálfrátt fer maður að bera virðingu fyrir slíku fólki og leggur við hlustir. "Þessi er efnilegur" hugsar maður og sér viðkomandi fyrir sér sem næsta forseta eða biskup. "Láttu hann heyra það!" langar mann að segja við mannvitsbrekkuna þar sem hún eys úr skálum reiði sinnar og visku, t.d. með því að beygja bæjarnöfn svona:
  • til Akranesar
  • til Selfossar
  • til Akureyris
Ég ákvað að fletta "Akureyris", "Selfossar" og "Akranesar" upp á Google. Niðurstöður voru þessar:
  • Akranesar (614 niðurstöður)
  • Akureyris (12.000!)
  • Selfossar (557).
Frábært.