miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Bíladella

Stundum verð ég vitni að umræðum um bíla. Menn skoða jafnvel myndir af hinum og þessum bílum með flunkunýjum spoilerkit, leðursætum og þráðlausu stýri.

"Varstu búinn að sjá nýja Audíinn, 7000 hestöfl, djöfull er hann flottur!"
"Já, þarna AFX 2007?"
"Já mar!" (bendir á mynd af nýjum Audi, máli sínu til sönnunar)
"Maður hefði nú ekkert á móti því að eiga 15 milljónir núna"
...

Bílar eru frekar algengt áhugamál hjá strákum og körlum. Einhvern veginn hef ég aldrei fengið bíladellu. Mér finnst þessar umræður oftast snúast um það hversu rosalegan bíl menn myndu kaupa sér ef þeir ættu ógeðslega mikinn pening...eða ef þeir fengju ógeðslega stórt bílalán hjá Lýsingu.

Ég held að skortur á bíladellu hjá mér skýrist að verulegu leyti á uppeldinu. Margir pabbar virðast nefnilega rækta delluna upp í sonum sínum nánast frá fæðingu:
"Stráksi, sjáðu! Reykspúandi Cadillac!" og stráksinn hugsar "Vó, ég ætla að fá mér reykspúandi Cadillac þegar ég verð stór!". Pabbi minn átti hins vegar Lödu Lux 1500 sem var eldri en ég alveg frá því ég man eftir mér og vel fram yfir aldamótin 2000. Aldrei benti hann mér á nýja Cadillacinn eða nýja Bimmann.

En skyldi ég vera að missa af einhverju? Er bíladella eftisrsóknarverð?
----
Allt öðru máli gegnir um vinnuvélar, mér fannst gröfur t.d. alltaf frábærar og finnst eiginlega enn. Ég væri alveg til í að eiga risastóra skurðgröfu og vörubíl og grafa síðan holur og hóla eða flytja hlass af jarðvegi á vörubílnum og sturta einhversstaðar.

Hver fúlsar við góðri gröfu?