Stjúpbræður
Kvikmyndin Step Brothers fjallar um tvo menn um fertugt sem búa enn í foreldrahúsum. Annar býr hjá pabba sínum, hinn hjá móður sinni, eða þar til einstæðu foreldrarnir tveir byrja saman og flytja inn saman. Það er ekki næg hvatning til þess að vitleysingarnir tveir finni sér eigin íbúðir, heldur búa þeir hjá turtildúfunum og verða þar með stjúpbræður. Synirnir tveir eru leiknir af John C. Reilly, sem ég man ekki eftir í neinni annarri mynd, og Will Ferrell. Ferrell hef ég hins vegar séð í nokkrum myndum og sá maður er einn sá færasti í sínu fagi, að leika algjöra hálfvita. Það er ekki alveg sama hvernig það er gert og virðist vera ákveðin list. Ferrell er meistari í þessu, ólíkt t.d. Rob Schneider, sem leikur oftast hálfvita, en gerir það á tilgerðarlegan, leiðinlegan hátt. Ferrell er reyndar líka bara fyndinn í framan.
Þetta er ekki mynd með einhverju rosalegu plotti og tvisti, eins og sumir gagnrýnendur virðast gera kröfu um, jafnvel í gamanmyndum. Söguþráðurinn er mjög einfaldur eins og aðalpersónurnar tvær, en myndin heldur samt dampi út í gegn og er í hóflegri lengd en teygir ekki lopann óþarflega eins og er orðið allt of algengt í kvikmyndum. Lærdómurinn sem draga má af myndinni er að fólk ætti að hafa það að markmiði að daga ekki uppi í foreldrahúsum og vera farið þaðan löngu fyrir fertugt, 25 ætti að vera viðmiðunarmörkin. Það vill enginn enda eins og aðalpersónurnar í myndinni.
Einkunn: 8,0.
|