sunnudagur, 12. október 2008

"Fuckin' Icelanders"

Ég hef vissar áhyggjur af því að ímynd Íslands hafi beðið skipbrot eins og frjálshyggjan upp á síðkastið. Fyrst var æsingur í Bretlandi, síðan Hollandi og vísast er að óhróður Íslands eigi eftir að berast um gjörvalla heimsbyggðina. Börn í Malí gætu verið farin að tala um "Fuckin' Icelanders" áður en langt um líður. En titill færslunnar er reyndar vísun í hollenskan dópmangara í nýju bíómyndinni Reykjavík - Rotterdam, mæli hiklaust með þeirri mynd.

Að þessu sögðu virðist rökrétt að skipta um nafn á landinu. Helst þarf nafnið að vera sem ólíkast núverandi nafni, svo erfitt sé að tengja við það. Tillaga að nýju nafni fyrir Ísland er...

...Zanubia

Það eru tveir augljósir kostir við það nafn, í fyrsta lagi hljómar það eins og nafn á Afríkuríki og mjög erfitt er að tengja það við Ísland. Í öðru lagi er viðeigandi að taka upp nafn sem gæti verið á þróunarlandi vegna þess að hér stefnir allt í að verða rjúkandi rústir og þá þarf að hefja uppbyggingu frá grunni.

Síðan mætti auglýsa verslunarferðir og ódýran bjór, til þess að fiska túrista til landsins.