sunnudagur, 28. desember 2008

Leikhús

Fór í leikhús í gærkvöldi á Sumarljós, sem fjallar um líf í þorpi úti á landi. Þetta er óttalegt rugl en þó er einhver söguþráður. Of mikið er af uppfyllingaratriðum sem gera ekkert fyrir söguna, einnig er mikið af misheppnuðu gríni.

En það var líka slatti af góðu gríni, einkum frá Eggerti Þorleifssyni, sem stal senunni og var óumdeilanlega bestur í sýningunni, sérstaklega sem elliær fyrrum stjórnmálamaður sem virtist vera blanda af Halldóri Ásgrímssyni, Ólafi F, Guðna Ágústssyni og Steingrími Hermannsyni.

Tvær og hálf stjarna af fimm fyrir þetta. Nett klént.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Jólabækurnar

Jólabækurnar eru auglýstar grimmt í sjónvarpinu. Auglýsingar eru yfirleitt ætlaðar til þess að segja fólki hvers vegna það eigi að kaupa vöruna. Fólk spyr: "Hvers vegna ætti ég að kaupa þessa vöru?" og auglýsingin svarar því. Í bókaauglýsingum í sjónvarpi er rökstuðningurinn fyrir kaupum gjörsamlega skotheldur.

Svo spyr maður sig...
Hvers vegna ætti ég að kaupa þessa vöru?
Svar: "Ég skal vera grýla. Margrét Þrastardóttir hefur ósjaldan migið í saltan sjó og hún hefur aldrei verið hrædd við að vera grýla" [kjánalegt stef er leikið undir]

...Já, þú skalt vera grýla en ég kaupi ekki bókina.

mánudagur, 8. desember 2008

Losun

Fór í fyrsta próf í morgun. Gekk svona sæmilega held ég, en ég var reyndar mjög þreyttur og mátti berjast við að halda mér vakandi á köflum. Of lítill svefn gæti verið ein ástæða. Önnur ástæða gæti verið að ég fékk úthlutað sæti fremst, borðið var beint á móti borði annarrar yfirsetukonunnar, sem er ekki það sem maður hefði valið ef maður hefði fengið að ráða. Nema hvað, ég hef þessa yfirsetukonu grunaða um að hafa nýtt vannýttar losunarheimilidir á meðan á prófi stóð. Að minnsta kosti gossaði tvisvar upp hrikaleg fýla svo lá við eitrun og yfirliði, að ekki sé minnst á truflun á einbeitingu. Losunin var hljóðlaus eins og gefur að skilja, svo þetta var eins glæpsamlegt og hægt var.