mánudagur, 26. janúar 2009

Stjórnleysi

Nú er landið stjórnlaust, svo sagði Geir. Ég veit varla hvort ég þori út úr húsi.

föstudagur, 23. janúar 2009

Mótmælin

Ég var viðstaddur mótmælafund á Arnarhóli 1.des. síðastliðinn. Þá voru haldnar nokkrar ræður og klöppuðu viðstaddir fyrir. Það sem var asnalegt þar var að fólkið talaði út og suður, menn lýstu ólíkum skoðunum á því hvað þyrfti að gera og hverja ætti að draga til ábyrgðar. Einhver steig í pontu og lýsti frati á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sagði landið hafa verið "ofurselt" þeirri stofnun og þess háttar. Viðstaddir fögnuðu þessum orðum með lófataki.

Síðan steig Þorvaldur Gylfason i pontu og lýsti m.a. velþóknun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sagði að það hefði átt að hefja miklu fyrr. Aftur fögnuðu viðstaddir með lófataki. Þetta er eitt dæmi af nokkrum þar sem sama fólkið fagnaði andstæðum viðhorfum með lófataki. Afar sérstakt, svo ekki sé meira sagt.

Síðan fór ég í kvöld á Austurvöll, þar var allt annað uppi á teningnum. Trommað var í takt og "vanhæf ríkisstjórn!" kyrjað á milli. Þau mótmæli verða að teljast mun markvissari heldur en mótmælin 1.des. þar sem fólk samsinnti hlutum sem pössuðu ekki saman. Sennilega er rökréttara að mótmæli takmarkist við það sem einhugur er um.

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Snilldarlausn!

Að láta gamlingja á Grund greiða fyrir Icesave sukkið og annað sukk í sama dúr.

Það var að minnsta kosti það sem manni datt í hug að ætti að gera þegar fram kom í tíufréttum Sjónvarpsins í kvöld að gjald manns fyrir kjallaraherbergi á Grund sem hann þarf að deila með öðrum manni hefði um áramót hækkað um 110% eða úr 99.000 í tæp 210 þús. Svörin sem fengust frá Tryggingastofnun voru að reglur hefðu breyst um áramót þannig að tekið væri að öllu leyti tillit til tekna viðkomandi á liðnu ári, en ekki að hluta til eins og áður. Sjá hér.

Þetta er samt týpísk ákvörðun þar sem engin svör fást nema einhver þvæla og enginn veit hver stendur fyrir, hver vísar á annan.

Látum liggja milli hluta að hækkunin sé hlutfallslega mikil, en 210 þúsund fyrir kjallaraherbergi á Grund sem deilt er með öðrum er algjört kjaftæði, jafnvel þótt einhver þjónusta sé innifalin.

laugardagur, 3. janúar 2009

Flugdrekahlauparinn

Nú er ég búinn að lesa Flugdrekahlauparann eða The Kite Runner, sem ég byrjaði á seint í sumar og var langt kominn með þegar brjálaða tímabilið hófst í skólanum og hlé var gert á lestri annarra bóka en námsbóka.

Það besta við þessa bók er hversu vel höfundur lýsir öllum aðstæðum og persónum, nánast eins og maður sé á staðnum. Aðalpersónan skilst ótrúlega vel og hvernig sektarkennd úr æsku mótar allt líf hans og gjörðir. Uppgjörið við þessa sektakennd er ótrúlegt og ég man ekki eftir neinu fyrirsjáanlegu í bókinni. Þrisvar sinnum eða svo fékk ég hroll við lestur bókarinnar og ég man tæpast eftir að það hafi gerst áður við lestur bókar, svona þar sem ég trúði varla textanum og þurfti að lesa aftur til að fullvissa mig. "Nei, nú lýgurðu!". En það var engin lygi.

Þessi bók fær sennilega bara fullt hús. 10.