föstudagur, 23. janúar 2009

Mótmælin

Ég var viðstaddur mótmælafund á Arnarhóli 1.des. síðastliðinn. Þá voru haldnar nokkrar ræður og klöppuðu viðstaddir fyrir. Það sem var asnalegt þar var að fólkið talaði út og suður, menn lýstu ólíkum skoðunum á því hvað þyrfti að gera og hverja ætti að draga til ábyrgðar. Einhver steig í pontu og lýsti frati á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sagði landið hafa verið "ofurselt" þeirri stofnun og þess háttar. Viðstaddir fögnuðu þessum orðum með lófataki.

Síðan steig Þorvaldur Gylfason i pontu og lýsti m.a. velþóknun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sagði að það hefði átt að hefja miklu fyrr. Aftur fögnuðu viðstaddir með lófataki. Þetta er eitt dæmi af nokkrum þar sem sama fólkið fagnaði andstæðum viðhorfum með lófataki. Afar sérstakt, svo ekki sé meira sagt.

Síðan fór ég í kvöld á Austurvöll, þar var allt annað uppi á teningnum. Trommað var í takt og "vanhæf ríkisstjórn!" kyrjað á milli. Þau mótmæli verða að teljast mun markvissari heldur en mótmælin 1.des. þar sem fólk samsinnti hlutum sem pössuðu ekki saman. Sennilega er rökréttara að mótmæli takmarkist við það sem einhugur er um.