laugardagur, 3. janúar 2009

Flugdrekahlauparinn

Nú er ég búinn að lesa Flugdrekahlauparann eða The Kite Runner, sem ég byrjaði á seint í sumar og var langt kominn með þegar brjálaða tímabilið hófst í skólanum og hlé var gert á lestri annarra bóka en námsbóka.

Það besta við þessa bók er hversu vel höfundur lýsir öllum aðstæðum og persónum, nánast eins og maður sé á staðnum. Aðalpersónan skilst ótrúlega vel og hvernig sektarkennd úr æsku mótar allt líf hans og gjörðir. Uppgjörið við þessa sektakennd er ótrúlegt og ég man ekki eftir neinu fyrirsjáanlegu í bókinni. Þrisvar sinnum eða svo fékk ég hroll við lestur bókarinnar og ég man tæpast eftir að það hafi gerst áður við lestur bókar, svona þar sem ég trúði varla textanum og þurfti að lesa aftur til að fullvissa mig. "Nei, nú lýgurðu!". En það var engin lygi.

Þessi bók fær sennilega bara fullt hús. 10.