Klikkuð gömul kerling
Gamla konan á hæðinni fyrir neðan er stundum nokkuð kostuleg. Hér hafa verið iðnaðarmenn undanfarna daga að endurnýja baðherbergið og þeir hafa þurft að taka vatnið af húsinu nokkrum sinnum af því tilefni. Í fyrrakvöld þegar þeir voru farnir fyrir nokkrum klukkutímum hringdi dyrabjallan og þá var það sú gamla, sem sagði að það sturtaðist ekki niður í klósettinu hjá sér. Ég hringdi þá samstundis í frænda minn (sem er einn iðnaðarmannanna) og lét hann vita, hann sagðist mæta um hæl til að kíkja á þetta. Hann mætti síðan ásamt píparanum og þeir fiffuðu klósettið á hæðinni fyrir neðan. Gamla konan hafði haft uppi ýmis nokkuð kostuleg orð, en best fannst mér samt það sem hún sagði við mig þegar strákarnir voru nýfarnir. Þá benti hún á hausinn á sér, skælbrosti og sagði við mig:
"Þeir halda örugglega að ég sé KLIKKUÐ gömul kerling!"
...með mjög sterkri áherslu á "klikkuð".
Þetta var án efa betra í hennar meðförum en í þessum texta, en ég náði þessu því miður ekki á myndband.
|