laugardagur, 16. maí 2009

Rökstuddur grunur

Þegar ég sá fyrstu þættina af Sigtinu í umsjón Frímanns Gunnarssonar grunaði mig að persónan væri að miklu leyti byggð á Jóni Ársæli af Stöð 2. Sá grunur var ágætlega rökstuddur í Fréttablaðinu í morgun, þar sem Jón segir um Hallbjörn Hjartarson:


"Ég minnist þessa íslenska kúreka baksa til hrossa sinna í norðlenskri stórhríð svo sá ekki út úr augum. Ég sá hann líka velta sér upp úr stofugólfinu heima með köttinn í fanginu þar sem hann táraðist yfir slæmsku heimsins. Þar var ljóðið íslenskt, hreint og tært. Þar var kominn hinn eini sann kúreki norðursins."

Og Jón er ekki hættur:
"Þegar ég horfi til baka man ég að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð garrinn þegar Halbjörn mætti eins og fullskapaður til borgarinnar á sínum tíma, alklæddur kúrekadressinu, sveiflandi svipu, hljóðnema og hatti og söng um mann og gresju, snöru og háls og blámann sem býr með okkur öllum."
Alveg rólegur, Jón...:
"Og svo býr Hallbjörn Hjartarson yfir hugsjónum. Hann sér langt, langt út fyrir drullupollinn sem okkur hinum þykir svo vænt um að svamla í. Hann á sér vængi sem lyfta honum hátt yfir jökulklædda tinda upp í forsal vindanna. Harpa hans býr yfir tóni sem aldrei má þagna."

Ég held að Jón eigi við að Hallbjörn sé fínn karl, honum finnst bara betra að orða það svona. Annað eins orðagjálfur hef ég varla séð fyrr eða síðar, kannski ætti ég frekar að orða það svona:

Harpa Jóns býr yfir tóni sem má þagna, í forsal vindanna.