Aukahlutirnir sem skapa sterkan karakter
Í vikunni sem leið skoðaði ég gleraugnaumgjarðir í tveimur gleraugnabúðum, með umgjarðarkaup í huga. Í þeirri fyrri var ég spurður hvort ég hefði eitthvað ákveðið í huga. Ég neitaði og fékk þá að sjá fullt af umgjörðum, með ólíkum eiginleikum og útliti. Sumar umgjarðanna sagði sölumaðurinn að hefðu mjög sterkan karakter. Misjafnt var hve sveigjanlegar umgjarðirnar voru, hann sýndi mér t.d. tvennar umgjarðir frá sama framleiðanda sem voru úr sama efni og líkar í útliti, en á öðrum þeirra mátti sveigja armana upp og niður og borga rúmar 10 þúsund aukalega fyrir það. Ekki tókst að sannfæra mig um nauðsyn þessa möguleika.
Í seinni gleraugnabúðinni voru mér líka sýndar umgjarðir með ólíkum sveigjanleika, en þar virtist karakter umgjarðanna vera það sem helst greindi þær hverja frá annarri. Meira áberandi umgjarðir voru umgjarðir með sterkari karakter. Mér leist yfirleitt betur á lítt áberandi umgjarðir. En auðvitað fór ég síðan að velta fyrir mér hversu sterkur karakter ég væri og hvort gleraugnaumgjarðir gætu styrkt karakter minn. Gæti ég ef til vill styrkt karakter minn um fjórðung, bara með því að punga út 30 þúsundum aukalega í umgjarðir með nautsterkum karakter? Þetta krafðist verulegrar umhugsunar og heilabrota, en á endanum var ég nógu sterkur karakter til að fúlsa við gylliboðum um umgjarðir með dúndrandi sterkum karakter og yfirleitt hærra verði eftir því. Menn hafa misjafnan smekk, en ég trúi varla að þeir sem hafa smekk fyrir áberandi umgjörðum líti á þær sem merki um sterkan karakter, en hvað veit maður.
Umtalað er hve sterkur karakter Sævar er. Það skýrist af þremur þáttum:
Gleraugnaumgjarðirnar sem hann notar skýra 50% af karakter hans, jeppinn 30%
og bílalánið 20% (hann fékk sér bílalán með virkilega sterkum karakter sko, svo sagði sölumaðurinn að minnsta kosti).
|