miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Lítið hugsað

Ég hef ekki mikið getað hugsað síðan ég kom heim aftur hér á heimilinu. Ég get ekki lært og ég get ekki einbeitt mér að neinu. Ástæðan fyrir þessu er í gangi nú í þessum töluðum orðum: BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! o.s.frv. Byggingaframkvæmdir standa yfir hinum megin við götuna. Klukkan átta á hverjum einasta morgni hefjast herlegheitin og standa til átta á kvöldin. Bubbi byggir mætir á gröfu sinni með sveran járnstaut á endanum og BAMM! BAMM! BAMM!... bombar sig í gegnum klöppina til að grafa grunn fyrir nýju blokkinni, hávaðinn er meiri en í loftbor.

Ég hef flúið heimilið nokkrum sinnum enda varla vært fyrir hávaða. Það sem ég geri aðallega hér er að fá mér að éta. Ég smyr brauð og set á disk og helli appelsínusafa í glas þegar Bubbi byggir tekur einnar mínútu hlé á gröfunni. Svo sest ég við borðið og þá byrjar hann aftur. Ég missi einbeitinguna og horfi bara á borðið víbra og glasið með safanum skríða fram á borðbrúnina, detta niður og brotna. Þar með er kaffitíminn ónýtur og ég flý að heiman og fæ mér mat annarsstaðar. Til að læra hleyp ég stundum á Þjóðarbókhlöðuna.

Hávaðinn vindur að sjálfsögðu upp á sig og ungbörn hér í nágreninu verða óvær og fara að öskra og grenja. En nú þarf ég að koma mér héðan út svo ég ærist ekki.

þriðjudagur, 30. ágúst 2005

BANZAI!

Horfði á DVD diskinn Best of Banzai í gærkvöldi. Misjöfn voru veðmálin að gæðum. Það besta var að sjálfsögðu Mr. Handshake Man sem þótti svo gaman að heilsa frægu fólki með handabandi og láta handabandið vara sem lengst. Svo kom að því að allir voru farnir að þekkja Mr. Handshake Man og forðuðust hann en þá voru Banzai menn með ómótstæðilegt tromp uppi í erminni, Mr Handshake Man 2! Nýr kappi settur í hlutverkið sem beitti annarri tækni. Verulega ólgandi atriði þar á ferð. Lady One Question var einnig eitursnjöll. Þið getið keypt ykkur Best of Banzai í Kaupmannahöfn fyrir 20 kr. danskar. Það er ekki neitt. Það er næstum því gefið. Munar að vísu 20 kr. en engu að síður, 20 kr. er ekki neitt.

Áðan keypti ég mér pilsner í sjoppu og drakk. Djöfull er steikt að selja pilsner í sjoppu. Hver fer í sjoppu og kaupir pilsner? Með þessa spurningu í huga gæddi ég mér á gullnum drykknum.

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Heimska

Það var einn daginn í Partýgal að ég vaknaði mjög undarlegur í höfðinu. Þetta var daginn eftir Tóga-kvöldið alræmda þar sem vel hafði verið veitt af mat og ekki síður drykk. Ég stóð á fætur og gekk að ísskápnum. Nei, þetta passaði ekki. Því næst gekk ég að eldhúsborðinu og settist í stól. Nei, þetta passaði ekki heldur. Næst gekk ég inn á bað (eitthvað í undirmeðvitundinni fékk mig til að gera þessa hluti) og leit í spegilinn. Af speglinum leit ég á vaskinn og síðan á tannbursta og tannkrem sem lágu við hliðina á honum. Þetta passaði engan veginn inn í púsluspilið. Ég sneri mér í hálfhring og rak augun í sturtuhaus. Eftir að hafa starað á sturtuhausinn í nokkrar sekúndur varð mér litið á kranann. Þetta voru bara einhverjir hlutir. Voru þeir til einhvers nýtir?

"Hvað gerir maður áður en maður fer út á morgnana?" spurði ég sjálfan mig. Ég hreinlega vissi það ekki. "Jú, svona kommon, ég hlýt að vita hvað maður gerir, bara þetta sama og ég hef gert á hverjum einasta degi öll þau ár síðan ég varð sjálfbjarga" Ég gekk nokkra hringi á eldhúsgólfinu og reyndi að draga fram úr hugarfylgsnum hver væru morgunverk nútímamannsins. Smátt og smátt kom þetta: "Jú, maður náttúrulega tannburstar...maður klæðir sig...jú, bíddu svo fær maður sér kannski að borða...uuu meira...fer jafnvel í sturtu" þetta var allt að koma: "skór? maður verður líka að fara í skó". Nú hafði mér tekist að kalla fram flest morgunverkin úr heilabúinu. En þá kom babb í bátinn. Ég hafði enga hugmynd um í hvaða röð þessi verk væru framkvæmd. Tilhugsunin um að rifja það upp líka var mér ofviða svo ég fór aftur að sofa.

Þegar ég vaknaði aftur hefði ég endurheimt nógu mikið af vitglórunni til að gera morgunverkin og hunskast út. Ég ætla aldrei að vera svona heimskur aftur.

mánudagur, 22. ágúst 2005

Leti

Tvær af höfuðsyndum mannsins eru letin og heimskan. Báðar þessar syndir náðu hámarki hjá mér í nýafstaðinni útskriftarferð á Portúgal, báðar að morgni. Þó ekki sama morgun. Fyrst ætla ég að skrifa um letina. Heimskan fær sinn dálk síðar.

Dag einn vaknaði ég kl.12 á hádegi í svitakófi. Smávægilegir timburmenn gerðu vart við sig. Engin var loftkælingin og loftið sem kom inn um gluggann var hvorki kalt né ferskt. Ég stóð upp og fór út á svalir og settist þar í stól. Ég kom auga á nokkra vegfarendur niðri á götunni. Ekkert botnaði ég í því hvernig þeir nenntu að ganga á degi sem þessum. Ég sagði þeim að setjast og slaka aðeins á. "Látið ekki dugnaðinn drepa ykkur!" kallaði ég. Þau skildu ekkert af því sem ég sagði og örkuðu bara áfram þrátt fyrir óbærilegan hitann. Fyrst svo var reyndi ég ekki frekar að tjónka við þau. Þetta var greinilega það sem fólkið vildi og þá bara aumingja það. Það vissi ekki hverju það var að missa af.

Eftir rúman hálftíma rak ég augun í vindsængina mína, sem lá upp við svalahandriðið um einum og hálfum metra frá mér. Ljúft hefði nú verið að leggjast á góða vindsæng á svölunum og rotast í tvo klukkutíma eða svo. Ég blístraði á vindsængina eins og hún væri hundur og bað hana að koma. Engin viðbrögð. Þá sagði ég í ögn alvarlegri tón: "Komdu". Engin viðbrögð. Nú tóku brúnirnar að síga. Hafði ég ekki borgaði 10 evrur nokkrum dögum áður til að fá vindsængina í mína þjónustu? Átti hún eitthvert val annað en að hlýða húsbónda sínum? Varla. Ég var farinn að hóta: "Viltu koma hingað strax, annars kem ég og næ í þig!". Vindsængin hélt sínu gamla pókerfeisi og virti mig ekki með svari. Hún sýndi slíkan viljastyrk og festu að mig tók að verkja í hægri fótinn. Það var ekki laust við að það færi að fjúka í gamla sem var búinn að reyna að gefa helvítinu illt auga og hornauga ásamt því að sussa á hana. En allt kom fyrir ekki. Hún virti mig engu meira en tyggjóklessu, klínda innan á klósettskál. Ég var ekki lengur reiður enda nennti ég því ekki. Nú var ég bara sár yfir yfirlætinu og hortugheitunum í þessu heilalausa fyrirbæri.

Að lokum gafst ég upp, sótti vindsængina, og dormaði á henni í væna tvo klukkutíma á svölunum. Ég ætla aldrei að vera svona latur aftur.

sunnudagur, 21. ágúst 2005

Karókí-barinn

Vinsælasti partýstaðurinn úti var karókí-bar. Hertóku íslendingarnir gjarnan þann stað og sungu síðan eins illa og unnt var. Ég tók a.m.k. tíu lög þarna, aldrei þó einsöng. Skemmtilegast var þó þegar ég, Gummi P og Árni stigum á stokk sem tríóið Blússandi (en rithátturinn á ensku er Bluessandi). Ekki var leiðinlegt að heyra kynninn segja: "Can I get Bluessandi on stage!". Já, það þarf ekki mikið til að skemmta sumum. Tóku menn Paradise City og svona hitt og þetta. Á karókíbarnum vann Glensi barþjónn sem var alltaf með glens og grín og er tvímælalaust ferskasti barþjónn sem ég hef séð. Glensi gaf mér ógeðslegasta staup sem ég hef smakkað en það er Absinth 70% sem er grænt á litinn. Drykkurinn brenndi sér leið niður í maga og var ekki góður fyrir raddböndin. Hann hindraði menn þó ekki í að taka lagið.

Karókí-barinn varð æ þreyttara fyrirbæri eftir því sem leið á ferðina. Ekki var mikið annað í boði nema ógrynni írskra pöbba þar sem Bretar vöndu komur sínar um nætur með börn sín í barnavögnum með sér og reyktu og drukku í návist þeirra. Um að gera að láta krakkana læra rétta lífshætti sem fyrst. Sannarlega heilbrigð fjölskylduskemmtun þar á ferð. Þar fyrir utan voru hnakkastaðir og sumir þeirra verstir fyrir þær sakir að nauðgunarlyfjum var stundum byrlað í drykki stúlkna. Einnig var einn hommastaður í aðalgötunni. Það var því ekki að ástæðulausu sem karókí-barinn náði slíkum vinsældum.

föstudagur, 19. ágúst 2005

Skítugir Bretar

Portúgalsferðin gaf efnivið í a.m.k. tíu færslur. Sé til hve margar ég nenni að skrifa. Byrja smátt. Einn daginn hitti ég ljótan og skítugan Breta með húðflúr í hótellyftunni. Hann sagði við mig: "Ya from Iceland?"
Ég: "Yes"
Skítugi Bretinn: "Yeah, you all look the same, with blonde hair and all that"
Ég sagði honum ekki það sem ég hugsaði en það var að allir Bretarnir þarna í bænum litu eins út, ljótir, skítugir og með tattú. Óumdeilanleg staðreynd.

föstudagur, 12. ágúst 2005

Platafmaelisbarn

I gaer for bekkurinn ut ad borda a agaetan veitingastad her i Portimao. Bord hafdi verid pantad fyrir allan krakkaskarann. Eftir ad hafa spordrennt ljuffengum rettunum satu menn ad sumbli og spjolludu vid bordid. Skyndilega, eins og thruma ur heidskiru lofti kom thjonninn med iskoku a silfurfati med tveimur olgandi kertum a. Hann gekk beint til min og tok i spadann a mer og oskadi mer til hamingju med afmaelid. Eg vard mjog hissa en thakkadi tho fyrir. Allir kloppudu og fognudu afmaelisbarninu sem atti ekki afmaeli. Eg gondi bara ut i loftid og vissi ekkert og allir gestir stadarins horfdu a mig og margir hlogu. Sannkallad kodak moment.

Prakkararnir i bekknum hofdu logid thvi ad starfsfolki veitingastadarins ad eg aetti afmaeli til ad fa fria koku og kampavin a linuna.

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Portúgal

Á morgun fer ég til Portúgal í aðra útskriftarferð mína á jafnmörgum árum. Þar mun ég dveljast til 17. ágúst. Lofa engu um bloggun fyrr en að ferð lokinni. Ýmislegt hefur gengið á varðandi ferðina og ófyrirséð atvik hafa skotið upp kollinum. Nú er bara að vona það besta en búast þó við hinu versta.

mánudagur, 1. ágúst 2005

Topplistinn

Hér koma topplög mánaðarins sem rífa þök af húsum. Rolling Stones þema greinilega:
Rolling Stones - Wild Horses
Rolling Stones - Ruby Tuesday
Rolling Stones - Satisfaction
Rolling Stones - Street Fighting Man
Rolling Stones - Under My Thumb
Papar - Rabbits
Queens Of the Stone Age - "You Got A Killer Schene There Man"
Queens Of the Stone Age - Someone's In the Wolf
Mugison - 2 Birds
Mugison - Afi minn
Jonathan Richman - I Was Dancing In a Lesbian Bar
Jonathan Richman - Hey there Little Insect

The Giant Viking Show - Party At the White House
Pink Floyd - Hey You
Pink Floyd - Time
Pink Floyd - Wish You Were Here
Rammstein - Reise, Reise
The Who - Behind Blue Eyes
Bítlarnir - A Hard Days Night
Trabant - Maria.