fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Heimska

Það var einn daginn í Partýgal að ég vaknaði mjög undarlegur í höfðinu. Þetta var daginn eftir Tóga-kvöldið alræmda þar sem vel hafði verið veitt af mat og ekki síður drykk. Ég stóð á fætur og gekk að ísskápnum. Nei, þetta passaði ekki. Því næst gekk ég að eldhúsborðinu og settist í stól. Nei, þetta passaði ekki heldur. Næst gekk ég inn á bað (eitthvað í undirmeðvitundinni fékk mig til að gera þessa hluti) og leit í spegilinn. Af speglinum leit ég á vaskinn og síðan á tannbursta og tannkrem sem lágu við hliðina á honum. Þetta passaði engan veginn inn í púsluspilið. Ég sneri mér í hálfhring og rak augun í sturtuhaus. Eftir að hafa starað á sturtuhausinn í nokkrar sekúndur varð mér litið á kranann. Þetta voru bara einhverjir hlutir. Voru þeir til einhvers nýtir?

"Hvað gerir maður áður en maður fer út á morgnana?" spurði ég sjálfan mig. Ég hreinlega vissi það ekki. "Jú, svona kommon, ég hlýt að vita hvað maður gerir, bara þetta sama og ég hef gert á hverjum einasta degi öll þau ár síðan ég varð sjálfbjarga" Ég gekk nokkra hringi á eldhúsgólfinu og reyndi að draga fram úr hugarfylgsnum hver væru morgunverk nútímamannsins. Smátt og smátt kom þetta: "Jú, maður náttúrulega tannburstar...maður klæðir sig...jú, bíddu svo fær maður sér kannski að borða...uuu meira...fer jafnvel í sturtu" þetta var allt að koma: "skór? maður verður líka að fara í skó". Nú hafði mér tekist að kalla fram flest morgunverkin úr heilabúinu. En þá kom babb í bátinn. Ég hafði enga hugmynd um í hvaða röð þessi verk væru framkvæmd. Tilhugsunin um að rifja það upp líka var mér ofviða svo ég fór aftur að sofa.

Þegar ég vaknaði aftur hefði ég endurheimt nógu mikið af vitglórunni til að gera morgunverkin og hunskast út. Ég ætla aldrei að vera svona heimskur aftur.