sunnudagur, 21. ágúst 2005

Karókí-barinn

Vinsælasti partýstaðurinn úti var karókí-bar. Hertóku íslendingarnir gjarnan þann stað og sungu síðan eins illa og unnt var. Ég tók a.m.k. tíu lög þarna, aldrei þó einsöng. Skemmtilegast var þó þegar ég, Gummi P og Árni stigum á stokk sem tríóið Blússandi (en rithátturinn á ensku er Bluessandi). Ekki var leiðinlegt að heyra kynninn segja: "Can I get Bluessandi on stage!". Já, það þarf ekki mikið til að skemmta sumum. Tóku menn Paradise City og svona hitt og þetta. Á karókíbarnum vann Glensi barþjónn sem var alltaf með glens og grín og er tvímælalaust ferskasti barþjónn sem ég hef séð. Glensi gaf mér ógeðslegasta staup sem ég hef smakkað en það er Absinth 70% sem er grænt á litinn. Drykkurinn brenndi sér leið niður í maga og var ekki góður fyrir raddböndin. Hann hindraði menn þó ekki í að taka lagið.

Karókí-barinn varð æ þreyttara fyrirbæri eftir því sem leið á ferðina. Ekki var mikið annað í boði nema ógrynni írskra pöbba þar sem Bretar vöndu komur sínar um nætur með börn sín í barnavögnum með sér og reyktu og drukku í návist þeirra. Um að gera að láta krakkana læra rétta lífshætti sem fyrst. Sannarlega heilbrigð fjölskylduskemmtun þar á ferð. Þar fyrir utan voru hnakkastaðir og sumir þeirra verstir fyrir þær sakir að nauðgunarlyfjum var stundum byrlað í drykki stúlkna. Einnig var einn hommastaður í aðalgötunni. Það var því ekki að ástæðulausu sem karókí-barinn náði slíkum vinsældum.