miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Lítið hugsað

Ég hef ekki mikið getað hugsað síðan ég kom heim aftur hér á heimilinu. Ég get ekki lært og ég get ekki einbeitt mér að neinu. Ástæðan fyrir þessu er í gangi nú í þessum töluðum orðum: BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! BAMM! o.s.frv. Byggingaframkvæmdir standa yfir hinum megin við götuna. Klukkan átta á hverjum einasta morgni hefjast herlegheitin og standa til átta á kvöldin. Bubbi byggir mætir á gröfu sinni með sveran járnstaut á endanum og BAMM! BAMM! BAMM!... bombar sig í gegnum klöppina til að grafa grunn fyrir nýju blokkinni, hávaðinn er meiri en í loftbor.

Ég hef flúið heimilið nokkrum sinnum enda varla vært fyrir hávaða. Það sem ég geri aðallega hér er að fá mér að éta. Ég smyr brauð og set á disk og helli appelsínusafa í glas þegar Bubbi byggir tekur einnar mínútu hlé á gröfunni. Svo sest ég við borðið og þá byrjar hann aftur. Ég missi einbeitinguna og horfi bara á borðið víbra og glasið með safanum skríða fram á borðbrúnina, detta niður og brotna. Þar með er kaffitíminn ónýtur og ég flý að heiman og fæ mér mat annarsstaðar. Til að læra hleyp ég stundum á Þjóðarbókhlöðuna.

Hávaðinn vindur að sjálfsögðu upp á sig og ungbörn hér í nágreninu verða óvær og fara að öskra og grenja. En nú þarf ég að koma mér héðan út svo ég ærist ekki.