þriðjudagur, 3. apríl 2007

Vafasöm samsæriskenning

Ég var viss um að samsæriskenningar kæmu fram á hvorn veginn sem kosningin um álverið í Straumsvík færi. Svo kom á daginn að baráttusamtökin Hagur Hafnarfjarðar veltu upp þeim möguleika að brögð hefðu verið í tafli eftir að niðurstaðan varð ljós -"rökstuddur grunur" þeirra um að 700 manns hefðu skráð lögheimili sitt í Hafnarfirði undanfarið, eingöngu til þess að kjósa gegn stækkun. Hvurs konar fíflalæti eru þetta?

  1. Talan er allt of há til þess að þetta væri möguleiki. Íbúum Hafnarfjarðar hefur fjölgað um 676 síðan 10.mars 2006. Gáðu forystumenn samtakanna ekki einu sinni að þessu áður en þeir sendu frá sér þessa fáránlegu samsæriskenningu?
  2. Ef 700 andvígir hefðu skráð lögheimilið í Hfj. undanfarið, hversu margir hlynntir skráðu sig þá til þess að fá kosningarétt?
Hvað í ósköpunum á svo að þýða að eftir að niðurstaða liggur fyrir um að álverið fái ekki að stækka, að segja að samt hafi þeir heimild til að stækka, bara ekki alveg eins mikið og til stóð? Það var víst eitthvert smátt letur í þessu öllu sem "gleymdist" að segja frá fyrir fram ef marka má nýjustu fréttir. Var sem sagt tilgangurinn með kosningunni bara að gera at í fólki? Einn stór Hafnfirðingabrandari?