sunnudagur, 3. júní 2007

Óskir viðskiptavina

Fréttablaðið í dag greinir frá:

Nýtt leiðakerfi Strætó bs. tekur gildi í dag. Tíðni ferða minnkar og aka nú allir vagnar á 30 mínútna fresti, nema leiðir 23 og 27. Þegar vetraráætlun tekur gildi munu ákveðnar leiðir aka á 15 mínútna fresti.
[...]
Breytingarnar eru, samkvæmt upplýsingum Strætó bs, til þess fallnar að spara rekstrarkostnað og koma til móts við óskir viðskiptavina.
Gaman er að sjá hvernig þeir flétta þessi tvö markmið listilega saman; spara rekstrarkostnað og koma til móts við óskir viðskiptavina! Ég get ímyndað mér hvernig óskir viðskiptavina hafa hljómað. Eitthvað á þessa leið:

Bjarni: "Mér finnst ótrúlega gaman að bíða. Helst vildi ég bíða allan daginn. Mér finndist að Strætó bs. ætti að koma til móts við okkur fólkið sem hefur gaman að óralangri bið. Þið gætuð t.d. haft strætóferðir á hálftímafresti í stað 20 mín."

Kolbrún: "Ég ræð ekkert við þessa biðáráttu mína. Strætó á hálftíma fresti!"

Svavar: "Svavar hér. Ég er áhugamaður um sparnað, sérstaklega sparnað hjá ríkinu. Ég tek strætó og vil að hann gangi sjaldnar en hann gerir nú til þess að spara fé skattborgara"

Snjólaug: "Ég talaði við miðilinn minn í gær. Hann sagði að lífið mundi ganga betur ef strætó færi að ganga á hálftíma fresti."