Ruslpóstur og áreiti
Ruslpóstur hefur snaraukist á undanförnum árum. Fyrir utan allskonar Hagkaupsbæklinga, Bónusbæklinga og Ikeabæklinga dælast Fréttablaðið og Blaðið inn um lúgur flestra landsmanna. Þeir sem kaupa áskrift að Mogganum sitja enn verr í súpunni hvað þetta varðar. Maður er farinn að fá martraðir þar sem maður upplifir hroðalegan dauðdaga, í lokuðu herbergi með engu nema einni lítilli bréfalúgu, þar sem inn flæða hvers konar bæklingar og blöð og maður drukknar að lokum.Blaðastaflarnir hlaðast upp á örfáum dögum og fólk getur ekki farið í frí án þess að fá holskefluna yfir sig af bæklingum þegar það opnar dyrnar heima hjá sér að fríi loknu. Svo er predikað fram og aftur um að þetta þurfi að endurvinna. Fólk skuli fara með þetta allt saman samviskusamlega út í næsta blaðagám. Menn segja upp vinnunni og vinna kauplaust í fullri vinnu við að rogast með allt blaðaruslið í gáma eða tunnur. Blöðin og bæklingarnir virka nefnilega þannig í flestum tilvikum að flett er í gegnum þau einu sinni og búið, þetta eru ekki eigulegir gripir og ekki stofustáss.
---
Skylt efni
Það fer í taugarnar á mér að sjá fólk kasta rusli úti á götu, enn meira fer í taugarnar á mér þegar fólk kastar rusli út úr bílunum sínum á ferð. Eitt handtak og það er laust við alla ábyrgð, þarf ekki að sjá þetta rusl oftar. Gerir fólkið þetta líka heima hjá sér? Þarna er kjörið tækifæri fyrir tækninýjung - rusl með innbyggðum nemum sem virka þannig að ef því er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur ofsækir það viðkomandi. Þetta gæti einnig verið gott skemmtiefni fyrir viðstadda. Dæmi: Maður ekur eftir hringveginum, gæðandi sér á gómsætu Snickers. Eftir síðasta bitann skrúfar hann niður rúðuna og kastar bréfinu út, í góðri trú um að þetta sælgætisbréf þurfi hann aldrei að sjá aftur. En honum að óvörum kemur bréfið inn um miðstöðina í bílnum og flýgur beint í augað á honum, hann reynir að bægja því frá en það er eins og segull og fer hvergi, honum til mikillar mæðu og truflunar við aksturinn.
Dæmi 2: Jónatan hefur oft kastað rusli úti á ferðum sínum. Einn daginn er hann gangandi í skóginum með glóðvolgan Mc'donalds borgara í frauðplastumbúðum. Hann hendir umbúðunum eftir neyslu, en það hefði hann ekki átt að gera því þá kemur strókurinn á eftir honum, allar umbúðir sem hann hefur kastað á víðavangi yfir ævina á eftir honum, eins og reitt býflugnager og ræðst á hann.
Þetta mundi virka. Mótmælir einhver?
|