laugardagur, 27. október 2007

Kofi 1, 2, 3


Kofi Annan
Kofi Nelson Freeman?


Morgan Freeman
Kofi Fyrsta?

Nelson Mandela
Kofi Þriðja?

laugardagur, 20. október 2007

Vínmenning?

Ein helsta röksemd talsmanna afnáms einkaleyfis ríkisins á verslun með áfengi er sú að vínmenning sé svo slæm hér á landi og vísa þá sérstaklega í "ástandið í miðbænum um helgar". Þeir nefna þjóðir sunnar í álfunni þar sem verslun með áfengi er frjáls (s.s. Spán og Frakkland) og fara fögrum orðum um vínmenninguna þar. Sigurði Kára Kristjánssyni o.fl. talsmönnum nýs frumvarps virðist sérstaklega hugleikið að "geta kippt rauðvínsflösku til að hafa með steikinni heim úr búðinni".

Flutningsmenn nýs frumvarps segja að misnotkun sumra á áfengi eigi ekki að fá að hindra aðra í að kaupa það úti í búð. Þeir telja að áfengisverði verði ekki náð niður nema með þessum aðgerðum. Pétur Blöndal sagði að nauðsynlegt væri að "svipta áfengi þessum heilagleika sem það virtist hafa umfram aðrar vörur" á Alþingi um daginn.

Mér finnst mjög merkilegt að sú aðgerð að færa áfengi úr ÁTVR í matvöruverslanir eigi að bæta vínmenninguna á Íslandi eða "ástandið í miðbænum um helgar". Ég hef sjaldan heyrt hæpnari rök. Ég reyni að hugsa mér lögin ganga í gildi og vínmenninguna batna hratt í kjölfarið - hér verður fólk alemnnt brosandi út að eyrum með Bónusvín sem fékkst á frábæru verði í hönd, sitjandi úti í kvöldroðanum eftir ljúffenga steikina, hlustandi á gítarleik. Stór skærbleikur Bónusgrísinn á flöskunni brosir kumpánlega til fólksins og það dreypir aftur á vínglasinu. Í miðbænum sést ekki lengur óhófleg drykkja, heldur mun siðmenntað fólk, léttmarinerað í rauðvíni og bjór, marsera á milli skemmtistaða.

Áfengi er sveipað "þessum heilagleika" sem Pétur Blöndal nefndi vegna þess að það er ólíkt öðrum vörum. Fólk verður ekki drukkið af kornflexi og gulrótum. Af hverju vísa flutningsmenn sérstaklega til vínmenningar S-Evrópu? Af hverju taka þeir ekki frekar dæmi frá nágrannaþjóðum, sem eru líkari Íslendingum? Ég sá ástandið í miðbæ Kaupmannahafnar í ágúst, örstutt frá Strikinu voru hópar af 14 -16 ára unglingum sem sátu í hópum á götunni með bjór, væntanlega úr matvörubúðum. Þeir eldri voru margir gjörsamlega á eyrunum (svipað og í miðbæ Rvk. eða verra) og sóðaskapurinn var miklu verri en ég hef séð í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Í Danmörku er áfengi selt í matvörubúðum. Þetta bendir mjög sterklega til þess að "ástandið í miðbænum" í Reykjavík tengist á engan hátt því hvort áfengi fáist í matvöruverslunum eða ekki. Auðvelt er líka að draga þá ályktun að einmitt vegna þess að það fæst í venjulegum búðum (þar sem erfitt er að halda úti ströngu eftirliti) í Danmörku, hafi verið svona mikið af krökkum að drekka fyrir allra augum.

miðvikudagur, 17. október 2007

Fíflagangur

Fáir hafa sjálfsagt tekið eftir að búið er að tilkynna úrslit í nafnasamkeppninni um Háskólatorg I og II auk tengibyggingar, á lóð Háskóla Íslands. Í frétt um málið á heimasíðu skólans segir að Háskólatorg I hlýtur nafnið Háskólatorg, en 15 manns stungu upp á því nafni. Einn heppinn var dreginn úr hópnum og fær 100.000 kr. í verðlaun.

Nú hlýtur sú spurning að vakna, til hvers var samkeppni um nafn á Háskólatorg I, ef nafnið Háskólatorg er síðan valið?

Hvar liggur snilldin? Var dómnefndin gjörsamlega bergnumin yfir snilli þessara 15 manns sem fengu þá flugu í höfuðið að senda inn vinnuheitið, en sleppa númerinu aftan við?

laugardagur, 13. október 2007

Gillette

Í helstu lágvöruverðsverslunum landsins, Krónunni og Bónus, eru seld rakvélablöð og aðrar rakstursvörur frá Gillette. Engar vörur í þessum flokki eru frá öðrum en Gillette. Fyrirtækið virðist hafa mjög sterka markaðsráðandi stöðu og í krafti hennar okra svínslega á vörum sínum, kannski er álagning íslensku búðanna á þeim líka allt of há. Í þessari frétt segir frá mönnum sem stálu þessari "munaðarvöru" úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu að andvirði 900.000 kr. Ég get ekki verið hissa á að menn velji einmitt þessa vöru til að stela, ef tekið er tillit til verðsins. Hvort þeir ætluðu síðan að selja á lægra verði eða hvað hef ég ekki hugmynd um.

Síðast þegar ég gáði kostar pakki með fjórum venjulegum rakvélablöðum frá Gilette, um þúsund kall, bæði í Bónus og Krónunni. Einhver er að græða of feitt á þessu, sennilega Gillette. Fyrir nokkrum mánuðum var neyslustýringin farin algjörlega úr böndunum, því hvorki Krónubúðin né Bónusbúðin sem ég fór í átti venjuleg rakvélablöð né sköfur (tók eftir því þótt ég ætlaði bara að kaupa blöðin), eina sem þær áttu voru blöð fyrir rafdrifnar sköfur og slíkar sköfur. Ég keypti svona rafdrifna sköfu og blöð með, en það hefði ég betur látið ógert. Nú eru tveir möguleikar í stöðunni, skorturinn á venjulegum blöðum gæti hafa verið tilviljun eða þá að fyrirtækið var einfaldlega að stýra neyslu, þ.e. að fólk skyldi kaupa rafdrifnar sköfur eða ekki neitt.

Svo er annað, rafdrifnu sköfurnar eru miklu verri en hinar. Að nota rafdrifna sköfu er eins og að vera með vott af Parkinson sjúkdómnum og miklu líklegra að skera sig en ella. Þetta er jafnheimskulegt og að framleiða rafdrifin glös - þú telst heppinn ef sopinn fer rétta leið og ef brennandi kaffið skvettist ekki bara á þig og borðið og gólfið líka.

Kannski er góð hugmynd að hafa alla hluti rafdrifna. Gæti gert daglegt líf fullt af litlum en spennandi og ögrandi verkefnum - tekst raksturinn í dag án þess að skera sig?
Kem ég kaffinu úr spriklandi bollanum og ofan í maga?
Tekst mér að lesa víbrandi bókina?

þriðjudagur, 9. október 2007

Heima

Heimildarmynd um Íslandstúr hljómsveitarinnar Sigur Rósar sumarið 2006 nefnist Heima og er sýnd í Háskólabíói. Myndin sýnir alls kyns staði innanlands og frá tónleikum Sigur Rósar og Amiinu vítt og breitt. Tónlist leikur að sjálfsögðu stóran þátt eins og sjónarspilið og inn á milli sjást viðtalsbútar við liðsmenn sveitanna. Af þeim bútum fannst mér augljóst að þetta væri stórskrýtið fólk og komst ekki hjá því að velta fyrir mér hvar í ósköpunum það hefði hitt hvert annað í upphafi - svolítið eins og álfar út úr hól. Sá einmitt fyrir mér að eitt þeirra hefði labbað út úr hól, annað hefði rekið á land á Hornströndum, það þriðja hefði poppað út úr eyðibýli í afskekktri sveit, það fjórða lent með loftsteini uppi á fjalli, það fimmta rúllað út úr MH o.s.frv... Eftir þetta hefðu þau síðan öll hist fyrir furðulega tilviljun uppi á hálendi og ákveðið að stofna hljómsveitirnar tvær.

Í þessari mynd smellpassar tónlistin við myndina og það er eiginlega eins og landslagsmyndirnar séu einmitt það sem vantar upp á tónlistina og öfugt, þ.e. að þetta bakki hvort annað upp. Til þess að sannreyna þetta ímyndaði ég mér Korn, Limp Bizkit og Pink þenja raddböndin og hamra slagverkið í takt við íslensku náttúrumyndyrnar. Það gekk engan veginn upp og mér varð eiginlega flökurt þegar þessar blöndur komu upp í hugann.

Loks ber að geta þess að myndin hafði fáránlega róandi og afslappandi áhrif, sem veitti reyndar ekki af núna því síðustu tvær helgar hafa svo til eingöngu farið í heimanám auk virku daganna fyrir utan að það var próf sl. laugardagsmorgun. Þetta er líklega hin fullkomna mynd til þess að sjá eftir slíka törn. Myndin fær því bestu meðmæli.

Einkunn: 10/10.

þriðjudagur, 2. október 2007

Metnaður

Eigandi Steua Búkarest hefur ólgandi metnað fyrir félag sitt. Tapi liðið fyrir Arsenal í kvöld, verður þjálfarinn einfaldlega rekinn (heimild). Annað hvort er eigandinn flippaður grínari, eða snarsjóðandi sturlaður.

Ef allir eigendur liða í ensku úrvalsdeildinni beittu sömu hótun á knattspyrnustjóra liða sinna, væru sex þeirra búnir að missa starfið á þeim átta umferðum sem búnar eru. Ef hótunin virkar til þess að Steua vinnur, er augljóst að fleiri eigendur ættu að leika sama leik, því þá er akkilesarhæll Arsenal fundinn.