laugardagur, 20. október 2007

Vínmenning?

Ein helsta röksemd talsmanna afnáms einkaleyfis ríkisins á verslun með áfengi er sú að vínmenning sé svo slæm hér á landi og vísa þá sérstaklega í "ástandið í miðbænum um helgar". Þeir nefna þjóðir sunnar í álfunni þar sem verslun með áfengi er frjáls (s.s. Spán og Frakkland) og fara fögrum orðum um vínmenninguna þar. Sigurði Kára Kristjánssyni o.fl. talsmönnum nýs frumvarps virðist sérstaklega hugleikið að "geta kippt rauðvínsflösku til að hafa með steikinni heim úr búðinni".

Flutningsmenn nýs frumvarps segja að misnotkun sumra á áfengi eigi ekki að fá að hindra aðra í að kaupa það úti í búð. Þeir telja að áfengisverði verði ekki náð niður nema með þessum aðgerðum. Pétur Blöndal sagði að nauðsynlegt væri að "svipta áfengi þessum heilagleika sem það virtist hafa umfram aðrar vörur" á Alþingi um daginn.

Mér finnst mjög merkilegt að sú aðgerð að færa áfengi úr ÁTVR í matvöruverslanir eigi að bæta vínmenninguna á Íslandi eða "ástandið í miðbænum um helgar". Ég hef sjaldan heyrt hæpnari rök. Ég reyni að hugsa mér lögin ganga í gildi og vínmenninguna batna hratt í kjölfarið - hér verður fólk alemnnt brosandi út að eyrum með Bónusvín sem fékkst á frábæru verði í hönd, sitjandi úti í kvöldroðanum eftir ljúffenga steikina, hlustandi á gítarleik. Stór skærbleikur Bónusgrísinn á flöskunni brosir kumpánlega til fólksins og það dreypir aftur á vínglasinu. Í miðbænum sést ekki lengur óhófleg drykkja, heldur mun siðmenntað fólk, léttmarinerað í rauðvíni og bjór, marsera á milli skemmtistaða.

Áfengi er sveipað "þessum heilagleika" sem Pétur Blöndal nefndi vegna þess að það er ólíkt öðrum vörum. Fólk verður ekki drukkið af kornflexi og gulrótum. Af hverju vísa flutningsmenn sérstaklega til vínmenningar S-Evrópu? Af hverju taka þeir ekki frekar dæmi frá nágrannaþjóðum, sem eru líkari Íslendingum? Ég sá ástandið í miðbæ Kaupmannahafnar í ágúst, örstutt frá Strikinu voru hópar af 14 -16 ára unglingum sem sátu í hópum á götunni með bjór, væntanlega úr matvörubúðum. Þeir eldri voru margir gjörsamlega á eyrunum (svipað og í miðbæ Rvk. eða verra) og sóðaskapurinn var miklu verri en ég hef séð í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Í Danmörku er áfengi selt í matvörubúðum. Þetta bendir mjög sterklega til þess að "ástandið í miðbænum" í Reykjavík tengist á engan hátt því hvort áfengi fáist í matvöruverslunum eða ekki. Auðvelt er líka að draga þá ályktun að einmitt vegna þess að það fæst í venjulegum búðum (þar sem erfitt er að halda úti ströngu eftirliti) í Danmörku, hafi verið svona mikið af krökkum að drekka fyrir allra augum.