Gillette
Í helstu lágvöruverðsverslunum landsins, Krónunni og Bónus, eru seld rakvélablöð og aðrar rakstursvörur frá Gillette. Engar vörur í þessum flokki eru frá öðrum en Gillette. Fyrirtækið virðist hafa mjög sterka markaðsráðandi stöðu og í krafti hennar okra svínslega á vörum sínum, kannski er álagning íslensku búðanna á þeim líka allt of há. Í þessari frétt segir frá mönnum sem stálu þessari "munaðarvöru" úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu að andvirði 900.000 kr. Ég get ekki verið hissa á að menn velji einmitt þessa vöru til að stela, ef tekið er tillit til verðsins. Hvort þeir ætluðu síðan að selja á lægra verði eða hvað hef ég ekki hugmynd um.Síðast þegar ég gáði kostar pakki með fjórum venjulegum rakvélablöðum frá Gilette, um þúsund kall, bæði í Bónus og Krónunni. Einhver er að græða of feitt á þessu, sennilega Gillette. Fyrir nokkrum mánuðum var neyslustýringin farin algjörlega úr böndunum, því hvorki Krónubúðin né Bónusbúðin sem ég fór í átti venjuleg rakvélablöð né sköfur (tók eftir því þótt ég ætlaði bara að kaupa blöðin), eina sem þær áttu voru blöð fyrir rafdrifnar sköfur og slíkar sköfur. Ég keypti svona rafdrifna sköfu og blöð með, en það hefði ég betur látið ógert. Nú eru tveir möguleikar í stöðunni, skorturinn á venjulegum blöðum gæti hafa verið tilviljun eða þá að fyrirtækið var einfaldlega að stýra neyslu, þ.e. að fólk skyldi kaupa rafdrifnar sköfur eða ekki neitt.
Svo er annað, rafdrifnu sköfurnar eru miklu verri en hinar. Að nota rafdrifna sköfu er eins og að vera með vott af Parkinson sjúkdómnum og miklu líklegra að skera sig en ella. Þetta er jafnheimskulegt og að framleiða rafdrifin glös - þú telst heppinn ef sopinn fer rétta leið og ef brennandi kaffið skvettist ekki bara á þig og borðið og gólfið líka.
Kannski er góð hugmynd að hafa alla hluti rafdrifna. Gæti gert daglegt líf fullt af litlum en spennandi og ögrandi verkefnum - tekst raksturinn í dag án þess að skera sig?
Kem ég kaffinu úr spriklandi bollanum og ofan í maga?
Tekst mér að lesa víbrandi bókina?
|