Heima
Heimildarmynd um Íslandstúr hljómsveitarinnar Sigur Rósar sumarið 2006 nefnist Heima og er sýnd í Háskólabíói. Myndin sýnir alls kyns staði innanlands og frá tónleikum Sigur Rósar og Amiinu vítt og breitt. Tónlist leikur að sjálfsögðu stóran þátt eins og sjónarspilið og inn á milli sjást viðtalsbútar við liðsmenn sveitanna. Af þeim bútum fannst mér augljóst að þetta væri stórskrýtið fólk og komst ekki hjá því að velta fyrir mér hvar í ósköpunum það hefði hitt hvert annað í upphafi - svolítið eins og álfar út úr hól. Sá einmitt fyrir mér að eitt þeirra hefði labbað út úr hól, annað hefði rekið á land á Hornströndum, það þriðja hefði poppað út úr eyðibýli í afskekktri sveit, það fjórða lent með loftsteini uppi á fjalli, það fimmta rúllað út úr MH o.s.frv... Eftir þetta hefðu þau síðan öll hist fyrir furðulega tilviljun uppi á hálendi og ákveðið að stofna hljómsveitirnar tvær.Í þessari mynd smellpassar tónlistin við myndina og það er eiginlega eins og landslagsmyndirnar séu einmitt það sem vantar upp á tónlistina og öfugt, þ.e. að þetta bakki hvort annað upp. Til þess að sannreyna þetta ímyndaði ég mér Korn, Limp Bizkit og Pink þenja raddböndin og hamra slagverkið í takt við íslensku náttúrumyndyrnar. Það gekk engan veginn upp og mér varð eiginlega flökurt þegar þessar blöndur komu upp í hugann.
Loks ber að geta þess að myndin hafði fáránlega róandi og afslappandi áhrif, sem veitti reyndar ekki af núna því síðustu tvær helgar hafa svo til eingöngu farið í heimanám auk virku daganna fyrir utan að það var próf sl. laugardagsmorgun. Þetta er líklega hin fullkomna mynd til þess að sjá eftir slíka törn. Myndin fær því bestu meðmæli.
Einkunn: 10/10.
|