laugardagur, 31. maí 2008

Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?

Móðir mín sendi mér tölvupóst á dögunum með yfirskriftinni Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum? Inni í tölvupóstinum stóð síðan ekkert nema "Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?".

Þetta hefði verið frekar skemmtilegt ef samhengið hefði verið ekkert, en hún hafði áður beðið mig að senda sér grein úr greinasafni Moggans með þessum titli, sem hún greinilega ásælist, en hefur ekki aðgang sjálf. Ég mundi reyndar ekki strax eftir þessu þegar ég sá póstinn, þannig að þetta virtist frekar skrýtið.

Eitt og sér hefði þetta samt verið best, knýjandi spurning sem ég ætti síðan að svara að vel athuguðu máli. Auðvitað ætti maður að fara að stunda þetta, að senda fólki sem maður þekkir undarlegar spurningar í tölvupósti, eða bara á póstkorti, það er eiginlega betra.