laugardagur, 3. maí 2008

Munaður

Í dag átti sérkennilegt atvik sér stað í enska boltanum. Í stöðunni 3-1 fyrir Man.Utd. gegn West Ham tók Luis Nani (Man. Utd.) sig til og skallaði Lucas Neill (West Ham) og fékk rautt spjald að launum. Þetta þótti nokkuð sérstakt, einkum í ljósi góðrar stöðu Man. Utd. í leiknum og þar með í baráttunni um meistaratitilinn.

En svo má líta á þetta öðruvísi, hvenær átti Nani að leyfa sér þann munað að skalla Neill, ef ekki í þessarri stöðu? Þetta var a.m.k. betra tækifæri til sérkennilegrar framkomu heldur en þegar Riise skoraði fáránlegt sjálfsmark um daginn og jafnaði fyrir Chelsea eftir að uppbótartíma var lokið í mikilvægasta leik tímabilsins til þessa hjá Liverpool. Þetta var líka betra tækifæri en þegar Zidane tók sig til og skallaði Materazzi niður í úrslitum HM. Þar var staðan ekki jafn góð, fórnarkostnaðurinn var meiri, alveg eins og hjá Riise. Þannig að kannski var þetta ekkert svo slæm hugmynd hjá Nani.