laugardagur, 3. júlí 2004

Fýlupokar og rugludallar

Það er töluvert mikið um fólk sem röflar og býsnast yfir EM sem nú er að ljúka. "Þessi bolti seinkar fréttunum mínum" "Af hverju þarf að seinka fréttum út af fótbolta?". Sumu fólki þarf að segja að þegja. Það er rifist og skammast og röflað og vælt. Getur þetta lið ekki bara horft á fréttir á Stöð 2? Lifir það ekki af án sjónvarpsfrétta RÚV? Hvað með að kíkja á textavarpið? Það er andskotann ekki neitt í fréttum núna. "ANDRÉS ÖND VARÐ SJÖTUGUR Í DAG" "Þórsmörk: Skagfjörðsskáli 50 ára" "SA-könnun: Miðaldra fólk góðir starfsmenn". Eru þetta fréttirnar sem fólk má ekki missa af? Þessar keppnir eru á tveggja ára fresti og standa yfir í u.þ.b. mánuð hverju sinni, á þeim tíma þegar gúrkutíð er mikil í fréttum.

Ég er farinn að velta fyrir mér hverjir það eru eiginlega sem horfa ekki á EM. Amma mín horfir á EM. Ég er búinn að vera hjá ömmu núna í rúmar tvær vikur af því ég var að flytja og nýja húsið hefur ekki verið afhent. Ég hef horft á nokkra leiki með ömmu og það er sérstök stemmning. Amma horfir svona meira með öðru auga. Hún situr í stólnum og prjónar en lítur reglulega upp til að sjá hvað er að gerast í leiknum. Oftast hefur hún athugasemdir um leikinn. Ef tækling sést segir hún: "Ógeðslegir fautar eru þetta". Um daginn sá hún Edgar Davids spila og sagði: "Þessi getur nú ekkert hlaupið, það er svo þungt á honum hárið. Svo slæst það utan í hann". Það er ýmislegt í þessu sem þarf að athuga. Ég fellst að sjálfsögðu á allar athugasemdir ömmu.

Merkilegt hvað ömmur hafa miklar áhyggjur af matarvenjum. Alltaf á morgnana er ég spurður: "Ertu búinn að fá þér eitthvað?"