miðvikudagur, 31. janúar 2007

Þjóðarsorg

Varð hissa þegar ég mætti í skólann í morgun, fjórfaldi hagfræðitíminn sem ég átti að mæta í féll niður. Enginn skóli þá hjá mér í dag. Það fyrsta sem mér datt í hug var að búið væri að lýsa yfir þjóðarsorg í landinu út af tapinu í gær, öll fyrirtæki og stofnanir lokuð og flaggað í hálfa. En sú var ekki raunin.

Annars var það óþolandi kjaftshögg þegar Danir skoruðu sigurmarkið í framlengingunni í gær, 2-3 sekúndum eftir að Alexander skaut í stöng danska marksins. Það munaði minna en hársbreidd að Íslenska landsliðið færi í undanúrslit, sem hefði opnað fleiri möguleika (deginum ljósara að liðið hefði verið fullfært um að vinna Pólverja í undanúrslitum, enda einungis ein klaufamistök sem kostuðu sigurinn/jafnteflið gegn þeim í milliriðlinum). Í lok venjulegs leiktíma þegar Snorri Steinn jafnaði með glæsilegu víti undir yfirgnæfandi pressu fannst manni einhvern veginn að Íslendingar ættu skilið að vinna.

Hugsanlegur leikur um fimmta sæti á mótinu skiptir engu máli. Mér finnst ekki taka því að spila um það. Eftir stendur að liðið hefur sennilega aldrei spilað betur á stórmóti (náðu víst 5.sæti 1997 en ég man voða lítið eftir því) og komust í átta liða úrslit þar sem þeir duttu út, en það verður seint kallað verðskuldað. Áttu fínasta séns til að fara alla leið í úrslit á mótinu en því miður snerist lukkan gegn þeim. Og hver veit hvenær svona tækifæri kemur aftur? Það síðasta sem ég mundi vilja heyra frá fólki, væri ég í þeirra sporum væri: "Það gengur bara betur næst" en þeir munu örugglega heyra það úr ýmsum áttum, eflaust við lítinn fögnuð.

þriðjudagur, 30. janúar 2007

Vanmat á báða bóga?

Nú heyrist í íslenskum fjölmiðlum og jafnvel einnig sums staðar á götum úti að Íslendingar hafi verið heppnir með andstæðinga í átta liða úrslitum, Dani. Danskir fjölmiðlar lýsa því hins vegar yfir að það séu Danir sem hafi verið heppnir með andstæðinga. Báðar fullyrðingarnar gætu svosum verið réttar, hallast samt frekar að því að báðar séu rangar.

Gallinn er sá að Íslendingar vita ekkert um spilamennsku Dana á mótinu annað en úrslit úr leikjum þeirra (gætu reyndar einnig hafa lesið umfjöllun um leiki Dana e-s staðar, það er bara alls ekki það sama og að horfa) því engir leikir þeirra hafa verið sýndir hér í Sjónvarpinu. Það sama má segja um Dani, þeir hafa ekki séð leiki Íslendinga í keppninni og hafa því ekki efni á slíkum yfirlýsingum.

Spá: Algjörlega ómögulegt að spá á hlutlausan hátt. Líklegt þó að leikurinn verði spennandi.

mánudagur, 29. janúar 2007

Óútreiknanlegt

Það fer að verða gjörsamlega ómögulegt fyrir fólk að reikna út hvað Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingarinnar, segir næst eða gerir. Á þessum vetri fyrir kosningar hefur hún látið hafa eftir sér a.m.k. tvennt nánast súrrealískt, sérstaklega miðað við sína stöðu:

  • Þjóðin treystir ekki Samfylkingunni, og það er ástæðan fyrir því að henni vegnar svona illa í könnunum.
Í sömu ræðu gaf hún engar sérstakar ástæður fyrir því að þjóðin ætti að treysta Samfylkingunni. Þessi ummæli geta varla aukið traust þjóðarinnar á flokknum. Næstu ummæli voru höfð eftir henni í vikunni og eiga einnig að skýra slæmt gengi flokksins:
  • Samfylkingin er of pólitísk. Í kjölfarið nefndi hún að Sjálfstæðisflokkurinn væri í hugum margra ópólitískur og "Við þorum þegar aðrir þegja".
Ha? Hvaðan kemur þetta? Hvað kemur næst? Mætir hún í trúðsbúningi í Sjónvarpssal? Gengur hún í Sjálfstæðisflokkinn?..."Uhm, ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn er æðislegur. Gagnrýni mín á flokkinn til þessa hefur verið byggð á misskilningi."

Kannski er þetta eitrað súrrealískt plott hjá henni. Kannski spilar hún á undirmeðvitund kjósenda með lymskulegum hætti með þessum vægast sagt undarlegu ummælum o.fl. Kannski verða allir kjósendur dáleiddir á kjördag, sannfærðir um að Samfylkingin sé það besta sem komið hefur fyrir þetta land. Kannski fær Samfylkingin hvert einasta atkvæði úr kössunum í þingkosningum í vor og mun ein sitja að kjötkötlunum á Alþingi og efst í hásæti situr formaður Samfylkingarinnar og ræður öllu og segir: "Hahaha, þarna gabbaði ég ykkur!"


Kannski verður þetta nýi búningurinn þegar hún verður búin að rústa kosningunum með ótrúlegri lævísi og grunlausir kjósendur vita ekkert hvernig þetta allt saman gerðist.

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Í fjarveru Duranona

Íslenska handboltalandsliðið stendur sig furðuvel þrátt fyrir að Duranona sé ekki með enn sem komið er. Sennilega verður hann ekki kallaður inn í liðið fyrr en í úrslitaleiknum þegar öll sund virðast lokuð í hálfleik. Þá mun hann skyndilega birtast og jarða andstæðingana með ótrúlegum leik við gríðarlegan fögnuð múgsins, sem mun garga "Dúndranúna!" eins og kappinn er ævinlega kallaður.


Leynivopn Íslands.

sunnudagur, 21. janúar 2007

Pyndingar eða pyntingar?

Í íslensku er leyfilegt að rita og segja hvort heldur sem er pyndingar eða pyntingar. Þessu verð ég að mótmæla, annar rithátturinn (og talmálshátturinn) er gjörsamlega út í hött og lýsir verknaðinum þúsund sinnum verr heldur en hinn.

Pyndingar hljómar eins og væmnir belgískir konfektmolar en pyntingar lýsir hins vegar hugtakinu afar vel vegna þess að þar er hart t til áherslu. Með öðrum orðum er asnalegt að leyfa yfirhöfuð orðómyndina pyndingar.

Í ensku er orðið líka mjög lýsandi, "torture", inniheldur meira að segja tvö t til áhersluauka. Hversu asnalegt væri að segja "dordure"? Hver tæki mark á því?


"Dordure"?

laugardagur, 20. janúar 2007

Ummæli

Í grein eftir Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformann Framsóknarflokksins í Fréttablaðinu í dag (laugardag 20.jan.) stendur orðrétt:

Það er staðreynd sem ekki fer hátt í umræðunni í samtímanum, að Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið í fremstu röð í baráttu fyrir umhverfis- og náttúruvernd í íslenskum stjórnmálum, allt frá dögum Eysteins Jónssonar. Ást og virðing fyrir landinu er og verið meginstoð í stefnu Framsóknarflokksins, undir okkar stjórn er nú unnið að stofnun stærsta þjóðgarðs Evrópu á Vatnajökulssvæðinu og undir okkar stjórn er nú leitað sáttar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum


Ummælin fela í sér:
a)Sannleikann
b)Hræsni
c)Iðandi froðu af sýndareindum
d)Liðir a og c eru réttir
e)Ekkert ofangreint er rétt

miðvikudagur, 17. janúar 2007

Apocalypto

Mel Gibson leikstýrði kvikmyndinni Apocalypto. Hún fjallar um ættbálk og innanbúðarmann sem er mjög duglegur að hlaupa, í stuttu máli. Hún er ágæt afþreying og hlýtur einkunnina 7,0.


Stoppar ekki.

fimmtudagur, 11. janúar 2007

Meðaltalið fólk

Sumir spyrlarnir hjá Gallup segja alltaf "Hversu margir búa á heimilinu að þér meðaltalinni?" hvað sem það nú þýðir. Kannski eiga þeir við e-s konar meðaltal.

"Hmm, já, í kvöld búum við hér sjö, en að meðaltali á ári búum við 14 hér"

eða

"Já, ég er að meðaltali samsett úr 300 beinum, 12 vefjum og blablabla en nú á þessari stundu úr 296 beinum..."

eða eitthvað.