Þjóðarsorg
Varð hissa þegar ég mætti í skólann í morgun, fjórfaldi hagfræðitíminn sem ég átti að mæta í féll niður. Enginn skóli þá hjá mér í dag. Það fyrsta sem mér datt í hug var að búið væri að lýsa yfir þjóðarsorg í landinu út af tapinu í gær, öll fyrirtæki og stofnanir lokuð og flaggað í hálfa. En sú var ekki raunin.Annars var það óþolandi kjaftshögg þegar Danir skoruðu sigurmarkið í framlengingunni í gær, 2-3 sekúndum eftir að Alexander skaut í stöng danska marksins. Það munaði minna en hársbreidd að Íslenska landsliðið færi í undanúrslit, sem hefði opnað fleiri möguleika (deginum ljósara að liðið hefði verið fullfært um að vinna Pólverja í undanúrslitum, enda einungis ein klaufamistök sem kostuðu sigurinn/jafnteflið gegn þeim í milliriðlinum). Í lok venjulegs leiktíma þegar Snorri Steinn jafnaði með glæsilegu víti undir yfirgnæfandi pressu fannst manni einhvern veginn að Íslendingar ættu skilið að vinna.
Hugsanlegur leikur um fimmta sæti á mótinu skiptir engu máli. Mér finnst ekki taka því að spila um það. Eftir stendur að liðið hefur sennilega aldrei spilað betur á stórmóti (náðu víst 5.sæti 1997 en ég man voða lítið eftir því) og komust í átta liða úrslit þar sem þeir duttu út, en það verður seint kallað verðskuldað. Áttu fínasta séns til að fara alla leið í úrslit á mótinu en því miður snerist lukkan gegn þeim. Og hver veit hvenær svona tækifæri kemur aftur? Það síðasta sem ég mundi vilja heyra frá fólki, væri ég í þeirra sporum væri: "Það gengur bara betur næst" en þeir munu örugglega heyra það úr ýmsum áttum, eflaust við lítinn fögnuð.