mánudagur, 29. janúar 2007

Óútreiknanlegt

Það fer að verða gjörsamlega ómögulegt fyrir fólk að reikna út hvað Ingibjörg Sólrún, formaður Samfylkingarinnar, segir næst eða gerir. Á þessum vetri fyrir kosningar hefur hún látið hafa eftir sér a.m.k. tvennt nánast súrrealískt, sérstaklega miðað við sína stöðu:

  • Þjóðin treystir ekki Samfylkingunni, og það er ástæðan fyrir því að henni vegnar svona illa í könnunum.
Í sömu ræðu gaf hún engar sérstakar ástæður fyrir því að þjóðin ætti að treysta Samfylkingunni. Þessi ummæli geta varla aukið traust þjóðarinnar á flokknum. Næstu ummæli voru höfð eftir henni í vikunni og eiga einnig að skýra slæmt gengi flokksins:
  • Samfylkingin er of pólitísk. Í kjölfarið nefndi hún að Sjálfstæðisflokkurinn væri í hugum margra ópólitískur og "Við þorum þegar aðrir þegja".
Ha? Hvaðan kemur þetta? Hvað kemur næst? Mætir hún í trúðsbúningi í Sjónvarpssal? Gengur hún í Sjálfstæðisflokkinn?..."Uhm, ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Sjálfstæðisflokkurinn er æðislegur. Gagnrýni mín á flokkinn til þessa hefur verið byggð á misskilningi."

Kannski er þetta eitrað súrrealískt plott hjá henni. Kannski spilar hún á undirmeðvitund kjósenda með lymskulegum hætti með þessum vægast sagt undarlegu ummælum o.fl. Kannski verða allir kjósendur dáleiddir á kjördag, sannfærðir um að Samfylkingin sé það besta sem komið hefur fyrir þetta land. Kannski fær Samfylkingin hvert einasta atkvæði úr kössunum í þingkosningum í vor og mun ein sitja að kjötkötlunum á Alþingi og efst í hásæti situr formaður Samfylkingarinnar og ræður öllu og segir: "Hahaha, þarna gabbaði ég ykkur!"


Kannski verður þetta nýi búningurinn þegar hún verður búin að rústa kosningunum með ótrúlegri lævísi og grunlausir kjósendur vita ekkert hvernig þetta allt saman gerðist.